Færsluflokkur: Fornleifafræði
20.5.2009 | 16:45
Af siðferði og siðleysi í íslenskri fornleifafræði
Í dag las ég heilmikla gagnrýni á Fornleifastofnun Íslands, (FSÍ), í Morgunblaðinu (sjá hér). Það sem þar kemur fram er hrikalegt. Ég hef enga ástæðu til að draga það sem ég las í efa, vegna þekkingar minnar á líkum málum. Sérstaklega þykir mér framkoma Thomas H. McGovern við Albínu Huldu Pálsdóttur, sem hann bókstaflega flæmdi úr doktorsnámi, vera glæp. Ég er ekki í vafa um að aðferð sú sem hann beitir gegn henni stangast á við reglur CUNY og venjulegt siðferði og siðfræði við háskóla í Bandaríkjunum. McGovern er samstarfsmaður FÍS, sem úthýsa vildi Albínu af markaði sem þeir hafa geta stjórnað að vild vegna góðra sambanda og ríkisfyrirgreiðslu sem aðrir hafa ekki notið.
Ég þekki og þekkti til nokkurra þeirra sem nefndir eru til sögunnar í Morgunblaðinu í dag, þar á meðal er Thomas H. McGovern. Siðleysi hans kynntist ég á eigin líkama fyrir langa löngu. Ég vann eitt sinn með honum að verkefni í Strandasýslu. Það stóð lengi á því að fjölþjóðlegur hópur sem rannsaka vildi í Strandasýslu fengi tilskilin leyfi frá Fornleifanefnd, sem þá gaf út slík leyfi. Ýmsar upplýsingar vantaði frá umsækjanda. En þrátt fyrir að leyfi væri ekki enn komið eftir langa bið, hófu bandarískir og kanadískur fornleifafræðingar rannsóknir í leyfisleysi, og það án minnar vitundar. Ég vara að skrá fornleifar á öðrum stað og kom einn daginn að kanadískum starfsmanni rannsóknarinnar og fyrrverandi samstarfsmanni McGoverns, Thomas Amorosi, að óvörum, þar sem þeir voru að grafa í leyfisleysi í Trékyllisvík. Þegar ég komst að þessu, ákvað ég að láta af störfum í verkefninu. Ég bar við siðleysi samstarfsmanna minna. Skömmu síðar barst mér bréf frá Thomas H. McGovern, þar sem hann hafði í hótunum við mig. Hann gaf til að mynda í skyn að hann myndi sjá til þess að ég myndi aldrei aftur geta fengið vinnu í fornleifafræði á Íslandi. Hann hótaði því einnig að beina fjármagni því sem hann gæti komið með í rannsóknir á Íslandi til Rússa. Ég óskaði honum góðs gengis og samvinnu við Rússa og spurði hann, hvort hann ætlaði að rannsaka ríkjum þar sem Rússar stunduðu þjóðarmorð. Mér þótti siðferði þessa bandaríska samstarfsmanns míns fyrir neðan allt velsæmi og prísaði mig sælan fyrir að þurfa ekki að hafa meira af honum að segja.
Ekki lét McGovern sér þó þetta nægja. Þegar ég sótti um stöðu á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993, þá ritaði McGovern settum þjóðminjaverði bréf til að sverta mig. Hann mun einnig hafa sent Háskóla Íslands svipað níðbréf um mig. Mér var afhent þetta bréf fljótlega eftir að ég hóf störf og geymi það enn, því það er eitt siðlausasta plagg sem ég hef fengið í hendur á ævi minni.
Grein sú sem hér fer á eftir fjallar um lélegt siðferði Orra Vésteinssonar, sem einnig eru nefndur til sögunnar í Morgunblaðinu í dag, í fræðigrein árið 2008. Meðhöfundar með honum að þeirri grein eru einmitt Thomas H. McGovern og Sophia Perdikaris. Þau eru einnig nefnd í grein Morgunblaðsins, þar sem sagt er frá því hvernig Albínu Huldu Pálsdóttur var fórnað á svívirðilegan hátt í lágkúrulegri business-fornleifafræði á Íslandi, sem FÍS ber einna mesta ábyrgð á.
Skítleg vinnubrögð í fornleifadeild HÍ
eftir Vilhjálm Örn Vilhjálmsson
Nýverið rak ég augun í fræðigrein í virtu riti, Arctic Anthropology, þar sem því var haldið fram að Þjórsárdalur hafi farið í eyði miklu síðar en jarðfræðingar og aðrir hafa haldir fram í áraraðir. Þetta stangast reyndar á við það sem lesa má um Þjórsárdal og Stöng í Þjórsárdal á veraldarvefnum og í ritum flestra jarðfræðinga eftir 1949, þegar Sigurður Þórarinsson tilkynnti í fyrsta sinn breytingu á aldursgreiningu eyðingarinnar í Þjóðviljanum og sagði hana hafa átt sér stað árið 1104. Áður hafði hann haldið því fram að hún hefði átt sér stað árið 1300.
Bæjarrústirnar á Stöng og byggðin í dalnum eru því iðulega sögð hafa farið í eyði í Heklugosinu árið 1104. Það er orðin hefð fyrir því og flestir þekkja ekki, eða vilja ekki þekkjast við tilgátur mína um að byggðin hafi farið í eyði meira en hundrað árum síðar. Það er að segja á 13. öld. Hana setti ég upphaflega fram við Kristján Eldjárni á Sóleyjargötunni árið 1982 og síðan vann ég lengi að því að sýna fram á réttmæti tilgátu minnar.
Dr. Sigurður Þórarinsson lauk margra ára rannsóknum sínum á gjóskufræði Heklu með því að halda því fram að Eldgos í Heklu árið 1104 hefði grandað byggð í Þjórsárdal. Áður hafði hann oft skipt um skoðun á eyðingunni, eins og góðum fræðimanni sæmir. Vafinn á nefnilega ávallt að ráða. Arftakar Sigurðar Þórarinsson og lærisveinar hafa hins vegar verið gjarnir á að líta á niðurstöður hans sem heilagan sannleika, sem er líklega það leiðinlegasta sem gerst getur fyrir minningu og fræði merkra manna. Fræði eru, og verða ávallt, tímanna tákn. Vitnisburður þess tíma sem menn lifðu á, en ekki endanlegur sannleikur.
Rannsóknir mínar á fornleifum á Stöng og forgripum, sem fóru fram á tímabilinu 1983-1996, og sem er hægt að lesa um í þessum ritum, sýndu hins vegar greinilega, að Þjórsárdalur fór ekki eyði árið 1104, heldur á 13. öld, eða þó nokkkru eftir 1200. Ég get því miður ekki sett búsetulokin upp á neitt eitt ár, því það var ekki eitt stakt eldgos sem olli eyðingu byggðarinnar. Forngripir, kolefnisaldursgreiningar og afstaða jarðlaga sýndu það glögglega. Dalurinn og margir bæir í honum fóru í eyði í kjölfar versnandi jarðagæða, vegna áhrifa eldgosa, vegna kólnandi veðurfars, vegna ofbeitar og einnig vegna uppblásturs. Ástæðurnar voru þannig margþættar. Þetta hef ég skrifað um í að minnsta kosti 7 ritum og m.a. í Lesbók Morgunblaðsins.
Fyrrnefnd grein frá 2008 í Arctic Anthropology, sem lýsir niðurstöðum rannsókna á jarðvegssniðum í Þjórsárdal, er eftir vísindamenn frá mismunandi löndum. Sumir þeirra voru ekki einu sinni viðstaddir rannsóknina sem þeir eru meðhöfundar að grein um. Það er lenska í löndum þar sem menn þurfa að sýna ákveðinn fjölda fræðigreina á ári til að halda stöðu sinni. Til að gera langt mál stutt, komast þeir að sömu meginniðurstöðu og ég, og get ég ekki annað en fagnað því. Því fyrir nokkrum árum var það sem ég skrifaði og sagði talið til villutrúar, og skrifuðu menn um mín fræði með ærumeiðingum, því þeir álitu að ég væri að sverta menningu Sigurðar Þórarinssonar er ég dró niðurstöður hans í efa. Gagnrýni á guðfeður ógagnrýninna lagsmanna, er ávallt talið vera guðlast.
En við nánari lesningu sá ég, að ég á greinilega ekki að njóta sannmælis í greininni eftir Orra og félaga hans í útlöndum, eða heiðursins af því að hafa leyst eitt stærsta vandamál íslenskrar fornleifafræði, aldursgreiningu byggðar í Þjórsárdal, sem velktist fyrir mönnum á síðari hluta 20. aldar vegna aðferðafræðilegra nærsýni íslenskra gjóskufræðinga og ýmissa fornleifafræðinga og sagnfræðinga. Þannig er t.d. enn á sýningu Þjóðminjasafni Íslands greint frá Stöng í Þjórsárdal sem bæ sem fór í eyði árið 1104. Það vekur þó undran, því að í sömu sýningu nokkrum metrum frá upplýsingunni um eyðingu byggðar árið 1104, er upplýst að byggð hafi haldist fram undir 1200.
Höfundur tekur gjóskulagasýni á Stöng í Þjórsárdal 1993
Í greininni í Arctic Anthropology er ýjað að því að ég hafi ekki látið rannsaka gjóskulög á Stöng. Þetta er mjög ljót rangfærsla. Jarðfræðingar og aðrir fornleifafræðingar komu og sáu sniðin á Stöng, sem eru aðeins umfangsmeiri en snið jarðfræðinganna og síðast þegar ég gróf á Stöng bað ég yfirgjóskufræðing HÍ að koma á staðinn. Taldi hún að það væri óðarfi, því hún sagði að ég þekkti öll gjóskulögin. Það geri ég, reyndar eftir margra ára reynslu, og get líka með góðri samvisku sagt og sýnt fram á að mannvistarlög mynduðust ofan á vikrinum sem féll í Heklugosinu mikla árið 1104.
Ég geri ráð fyrir því að Íslendingurinn í hópi greinarhöfunda, Orri Vésteinsson, sem er með doktorspróf í sagnfræði, hafi aðstoðað meðhöfunda sína við að finna þá grein eftir mig sem vitnað er í, þar sem samstarfsmenn hans eru ekki talandi á Íslensku né norrænar tungur, (þótt greinar á ensku um aldursgreiningar séu nú vissulega líka til eftir mig og hefur einn meðhöfunda greinarinnar skrifað í og ritstýrt ritum þar sem þær komu út). Orri dregur einvörðungu upp fyrstu grein mína um efnið frá 1989. Þá var ég mjög tregur til að setja fram neinar heildarniðurstöður. Ég greindi reyndar frá frá því árið 1989 og hef greint frá því á fjölmörgum stöðum síðan, að ég telji að eyðing Þjórsárdals hafi átt sér stað vegna margra þátta. Það má t.d. lesa hér í hinu víðlesna fornleifafræðiriti danska, Skalk (1996), hér og hér.
En Orri Vésteinsson dósent í fornleifafræði við Háskóla Íslands er ekki betur að sér í því sem ritað hefur verið um Þjórsárdalinn á síðustu áratugum, að hann velur elstu ritgerð mína birta um efnið til að vitna í. Hentugt, því hann og meðhöfundar hans halda því fram að ég hafi ekki komist að sömu niðurstöðu og þeir. Mikið rétt. Þegar greinin sem vitnað er í var rituð árið 1989, var ég ekki búinn að rannsaka nóg til að koma með neinar afgerandi niðurstöður. En ég greindi vissulega frá þeim síðar, m.a. í grein í norsku riti sem dr. Orri Vésteinsson hefur meira að segja vitnað í í doktorsritgerð sinni í sagnfræði frá Lundúnaháskóla.
Í stað þess að fara rétt með um rannsóknir mínar, gerir Orri mikið úr því að ég hafi bent á að brot úr leirkeri af enskri gerð, sem sérfræðingar á Englandi vildu aðeins aldursgreina til 13. aldar, hafi ekki passað við eyðingu byggðar í Þjórsárdal árið 1104. Þessi eini gripur var aðeins lítið brot af öllum þeim rökum og niðurstöðum sem bentu í þá átt að Stöng og mikill hluti Þjórsárdals gæti ekki hafa farið í eyði árið 1104. Orra Vésteinssyni ætti að hafa verið í fersku minni, að ýmsir samstarfsmenn hans gegnum árin gerðu því skóna að þeir bresku sérfræðingar, með sérþekkingu á leirkerategund þeirri sem brotið á Stöng var af, vissu ekkert hvað þeir voru að tala um.
En nú vitum við það. Orri og Dugmore og eitthvað fólk frá Ameríku, sem ekki var á staðnum þegar þessar rannsóknir í Þjórsárdal fóru fram, eru nú búin að sýna okkur að Grimston leirker frá 13. öld á Stöng séu ekki óeðlilegur hlutur.
Það var ég þegar búinn að gera í rannsóknarskýrslu árið 1983 og í Kandídatsritgerð árið 1985. Brotið hefur verið kynnt og ferðast með víkingasýningum um Evrópu sem forngripur frá 13. öld. Orri og samstarfsmenn hans hafa greinilega ekki fylgst með. Margt hefur greinilega farið fram hjá þeim sem kenna komandi kynslóðum fornleifafræðinga á Íslandi í HÍ.
Þetta er að mínu mati ljót og lítilsigld heimildameðferð, og vísvitandi þöggun á niðurstöðum annarra og er Orra Vesteinssyni og Háskóla Íslands til háborinnar skammar. Hugsar maður til afleiðinganna fyrir Hannes Hólmstein Gissurarson, sem menn töldu vitna of mikið í aðra, hvernig verður starfsmaður Hí sem sniðgengur niðurstöður annarra meðhöndlaður? Ég býst náttúrulega við því að HÍ aðhafist eitthvað, nema að sniðganga og tilvitnunarleysi sé viðurkenndar aðferðir í HÍ.
En að betur athuguðu máli held ég að HÍ geri mannamun. Menn ærðust í HÍ út af Hannesi, en Orri er stikkfrí. Enda á réttum reit í pólitíkinni á sérhverjum tíma. Reyndar hefur Orri Vésteinsson áður stundað þann ljóta leik, að gera niðurstöður annarra að sínum með því að vitna ekki í, eða einfaldlega rangt í upphafsmenn tilgátna eða að sniðganga niðurstöður annarra, t.d. doktors Bjarna Einarssonar. Þess eru dæmi að niðurstöður ýmissa íslenskra fornleifafræðinga séu ekki með í kennsluefni HÍ í fornleifafræði. Þessu hlýtur Orri að stjórna. Eins og kennsluefnið er úr garði gert, virðist það ekki vera nein tilviljun. Íslensk fornleifafræði er ekki kennd í heild sinni. Aðeins það sem hentar ákveðinni klíku. Annað er þaggað niður.
Ég hafði samband við aðalhöfund greinarinnar í Arctic Anthropology, sömuleiðis ritstjóra þess Susan Kaplan og Orra Vésteinsson vegna óánægju minnar með vinnubrögðin í greininni og lélegar tilvitnanir í vísinda- og fræðistörf mín. Orri er þögull sem gröfin. Hann svarar greinilega ekki gagnrýni. Hvað getur hann líka sagt? Vill hann halda því fram að hann hafi uppgötvað að Þjórsárdalur fór ekki í eyði í byrjun 12. aldar?
Hvað sem öðru líður, og þó svo að Orri og félagar vilji næla í heiðurinn fyrir það sem ég skrifaði m.a. grein um í Árbók Fornleifafélagsins árið 1991 og fékk ekkert annað en ærumeiðandi svargrein fyrir frá jarðfræðingi við HÍ, er augljóst að Þjóðminjasafn Íslands verður að endurskoða fastasýningu sína (meira um það síðar). Þar er einfaldlega farið með rangt og mótsagnakennt mál um endalok miðaldabyggðarinnar í Þjórsárdal. Væntanlega tekur Orri undir það með mér - og fær jafnvel heiðurinn fyrir - og vonandi eins og eina ærumeiðandi grein frá einhverjum gallsúrum jarðfræðingi.
Kannski eru siðferðilega hæpnar aðferðir í tengslum við Fornleifadeild HÍ algengari en grein Morgunblaðsins þann 20.5.2009 gefur til kynna?
Fornleifafræði | Breytt 23.10.2011 kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.5.2009 | 15:43
Pepsi finnst á Ströndum
Ég er mikill áhugamaður um gosdrykki og skrifaði einu sinni pistil hér á blogginu mínu um hinn góða drykk Sinalco. Margir deildu nostalgíunni með mér. Minningarnar gusu upp, hressandi, bætandi og kætandi. Ekki var laust við að Sinalcodrykkjumenn hefðu bæði hraustlegra útlit og væru betur tenntir en þeir sem eru forfallnir kókistar.
Hér sjáið þið mynd af Pepsiflösku frá stríðsárunum, sem framleidd var af Sanitas. Nánar tiltekið er flaskan frá 1943, því 1944 var farið að nota amerískar flöskur. Líklega er flaskan úr Ingólfsfirði á Ströndum ein elsta Pepsiflaska sem til er á Íslandi. Ég tel að flaskan, sem ég fann í Ingólfsfirði á Ströndum, sé þjóðardýrgripur.
Dropinn af Pepsi var dýr árið 1943. Í Nóvember 1943 tilkynnti verðlagsstjórinn að hámarksverð á flösku af Pepsi-Cola bæri að vera í hæsta lagi 1 króna. Þá var krónan á svipuðu róli og danska krónan. Ein dönsk króna árið 1943 er sama og 19,51 kr. í dag , það er að segja 456 íslenskar á núgengi (19.5.2009).
Nútímaauglýsingin kom til landsins með Pepsi-Cola. Menn höfðu aldrei séð neitt slíkt áður: Þjóðviljinn greinir frá þessu 28. júní 1944.
Pepsi-Cola
Bæjarbúar hafa veitt eftirtekt nýstárlegu fyrirbrigði á Lækjartorgi. Í klukkuturninn er komin heljarstór mynd af flösku, svo stór að sæmilega sjónskýr maður sér hana allvel alla leið ofan af Arnarhóli. Þetta er auglýsing fyrir Pepsi-Cola, sem er fyrirmyndar svaladrykkur amerískur, ekki ósvipaður Coca-Cola.... En ekki verður sagt að þessi stóra auglýsing sé nein bæjarprýði og frekar óþjóðleg, þótt hún væri fest upp á hátíð lýðveldisins.
Ó. Þ.
Þess má geta að ekki var einn einasti dropi í Pepsi í flöskunni þegar ég fann hana fyrir réttum 20 árum. Það gerði nú ekki mikið til, því ég hef aldrei verið neinn áhugamaður um Pepsi, þetta ropvatn sem varð til í Norður-Karólínu árið 1898
Samkvæmt tímatalsfræði Pepsi vörumerkisins, varð Pepsi merkið á flöskunni frá Ingólfsfirði til árið 1906. Haldið er fram að merkið hafi breyst árið 1940. En auglýsingar í Bandaríkjunum frá 5. áratugnum bera nákvæmlega sama merkið og var á fyrstu flöskunum á Íslandi.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.4.2009 | 20:14
Vei, Óðinn var gay !
Nú er "hinsegin- og kynjafræði" í tísku í fornleifafræðinni, á Íslandi að minnsta kosti, því þar eru menn stundum dálítið á eftir. Þessar bylgjur í fræðinni komu svo sannarlega aftan að square tradisjónalista eins og mér. Þær tröllriðu sumum fornleifadeildum, fyrir meira en áratug síðan. Ég leyfi mér að skýra uppruna þessara fyrirbæra sem tímanna tákn.
Samtímaumræðan hafði einum of mikil áhrif á fræðimennskuna. Femínismi var í tísku og gat, eins og við vitum, farið út í öfgar. Þegar (kven-) mönnum vantaði ritgerðaefni varð kynjafornleifafræði oft fyrir valinu. "Hinsegin" fólk hefur líka lagt stund á fornleifafræði og leggur vitaskuld sitt gildismat á það sem þeim sýnist. Það getur líka farið út í öfgar.
Nú vill svo skemmtilega til, að í tilefni af 10 ára afmæli Fornleifafræðingafélags Íslands er boðið til hinsegin- og kynjafundar á Þjóðminjasafninu kl. 13:00 á laugardag. Allir eru velkomnir. Á fundinn hefur verið boðið norskum fornleifafræðingi, Brit Solli, sem mun flytja eftirfarandi boðskap:
Queering the Cosmology of the Vikings" - útdráttur:
Ideas concerning eros, honour and death were central to the Norse perception of the world. Odin is the greatest war god, and associated with manliness. However Odin is also the most powerful master of seid, an activity associated with women. Seid may be interpreted as a form of shamanism. If a man performed seid he could be accused of ergi, that is unmanliness. Consequently Odin exercised an activity considered unmanly. How could Odin perform seid without losing his position as the god of war and warriors? This paradox is discussed from a queer theoretical perspective. On this basis a new interpretation of the so-called "holy white" phallic stones in western Norway is suggested. Most of these stones are associated with burials from the later part of the Scandinavian Early Iron Age. The temporal distribution of the white phallic stone correlates well with the increasing importance of the cult of Odin. There may be a cultic association between the cult of Odin and the burial practices involving white holy phallic stones.
Ég hef verið gildur limur í þessum félagsskap (Fornleifafræðingafélaginu), án þess að hafa mætt á einn einasta fund í 10 ár. Þar hefur ýmislegt verið að gerjast. Ja, og næstkomandi laugardag kennir vissulega margra grasa.
Seiður er sagður shamanismi. Ég fellst á það, nema það hvað völur og seiðkerlingar og -karlar fyrri tíma þekktu ekkert svona fínt orð ættað úr Síberíu. Shamanisminn blessaður, hefur nú líka heldur betur verið tískuviðfangsefni í fornleifafræðinni á undan queer og gender fræðum.
En að seiður (seid eins það er kallað í erlendum gandreiðar og hamskiptingakreðsum), sé eitthvað sem kvenkyns menn hafi einir haft einkarétt á, ætla ég nú að leyfa mér að draga í efa, enda er ég sjálfur mikill seiðkarl án þess að vera argur eða ragur.
En ég vona að mönnum sé ljóst, að það er verið að rugla með svona pælingar í fornleifafræði vegna þess að Snorri Sturluson skrifaði um ergi seiðs, þegar hann var að lauma kristnum móralisma og kvenfyrirlitningu inn í rit sín heilum 300 árum eftir að seiðkerlingar voru að hrjá hetjurnar hans í Íslendingasögunum.
Ekki veit ég hvernig Óðinn, æðstur Ása, tekur því að vera vændur um ergi ("unmanliness"). Ég vona bara að Þór verði ekki queeraður á næstunni!
En hvernig er hægt að ræða útbreiðslu hvítra ballarsteina í Noregi út frá queer theoretical perspective? Hvað þýðingu hafa hvít norsk steintippi eiginlega? Eru þau eitthvað sem fá menn til að hugsa um ergi Óðins, eða voru steintippin vegleg mótefni gegn dylgjum um að Óðinn karlinn hafi verið, (eða sé), homse, eins og argir eru kallaðir í Noregi nú til dags? Er Óðinn yfirleitt bara nokkuð kominn út úr skápnum í Valhöll? Af hverju kölluðu menn hann Geirlöðni, Vingni eða Tveggi?
Í Laxdælu (76. kapítula) er sagt frá eins konar fornleifafræði, sem sver sig í ætt við kerlingabækur eins og þær sem liggja á fornleifafræðinni á Íslandi eins og mara: "Síðan vaknaði Herdís og sagði Guðrúnu drauminn. Guðrúnu þótti góður fyrirburðurinn. Um morguninn eftir lét Guðrún taka upp fjalar úr kirkjugólfinu þar sem hún var vön að falla á knébeð. Hún lét grafa þar niður í jörð. Þar fundust undir bein. Þau voru blá og illileg. Þar fannst og kinga og seiðstafur mikill. Þóttust menn þá vita að þar mundi verið hafa völuleiði nokkuð. Voru þau bein færð langt í brott þar sem síst var manna vegur".
Fræðin geta verið hættuleg mannfólkinu. Það er greinilegt, að sumir fá meira "kikk" en aðrir út úr öllu því sem stendur upp á kant og líkist kústskafti eða agúrku. Misjafnt er manns gaman. Ég held að Æðstur Ása sé mér sammála um það.
Ef hægt er að losa sig við svona ruglfræði, þá stendur ekki á mér! Stundum finnst mér ég samt vera orðinn hálfsteinrunnin, eins og gamall hvítur steingöndull, þegar kemur að því sem fólk er að velta fyrir sér í fornleifafræði þessa dagana.
En þegar menn eru á annað borð að velta fyrir sér ergi Óðins, leyfi ég mér að mæla með þessum brúna (Brúni var eitt af mörgum nöfnum Óðins) og glansandi Gay-Odin. Ég get troðið honum endalaust upp í mig: http://www.gay-odin.it/
Fornleifafræði | Breytt 9.3.2024 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.3.2009 | 16:39
Aurahljóð
Fyrsta sinn sem ásjóna mín birtist í fjölmiðli var þriðjudaginn 11. nóvember 1969. Þá var ég rúmlega níu ára. Myndin af mér birtist þá í Vísi heitnum. Á baksíðunni, hvar annars staðar? Undir myndinni af mér og aurapúkunum í Myntsafnarafélaginu mátti lesa þetta:
AURAHLJÓÐ
Myntsöfnun færist nú mjög í aukana og er nú svo komið, að ýmsar gamlar islenzkar myntir eru fáséðar nema í söfnum, svo sem elztu eins- tveggja og fimmeyringar, krónur og tveggjakrónupeningar. Félag myntsafnara, sem stofnað var í fyrra, hélt nú um helgina skiptifund í Hábæ. Á myndinni sjást nokkrir félagsmenn virða fyrir sér gamla mynt. Eins og vænta mátti var á þessum fundi talsvert aurahljóð, hringl í koparhlunkum, sem kosta nú orðið par hundruð þeir sjaldfengnustu. Formaður Félags myntsafnara er Helgi Jónsson, smiður.
Ég man vel eftir fundum í nýstofnuðu Myntsafnarafélaginu fyrst í Hábæ og síðar í Oddfellow húsinu. Ég fór á þessa fundi með pabba, þó ég hefði ekki mikinn áhuga á mynt. Ég man líka, að þar heyrði ég fyrst orðin "helvítis gyðingurinn þinn", sem einhver óheflaður maður hreytti í föður minn vegna þess að pabbi vildi ekki selja honum pening á hlægilegu verði, sem þessi maður lagði til. Leigubílsstjóri nokkur, skemmtilegur karl sem alltaf var með olíuskán undir nöglum og jafnvel með olíugreitt hár, leiddi manninn í burtu og húðskammaði hann. Hann sást víst ekki mikið eftir það.
Ég skrifaði fyrstu ritsmíð mína, sem gefin var út, fyrir sýningarskrá myntsýningar félagsins í Bogasal Þjóðminjasafnsins, sem haldin var árið 1972. Ritsmíðin mín hét "uppáhaldspeningurinn minn" og fjallaði um Jóns Sigurðssonar gullmyntina frá 1961. Réttast er að greina frá því að sá gullpeningur var í meira uppáhaldi hjá föður mínum en mér, en hann hóf snemma myntsöfnun, jafnvel fyrir stríð í Hollandi.
Í myntsafnarafélaginu voru margir fyrirtaksmenn og vonandi er það svo enn. Annar formaðurinn, Helgi Jónsson smiður, var gamall neftóbakskarl með áhuga á öllu gömlu. Það var gaman að tala við gömlu mennina. Einn hét Guðbjartur og gekk með forláta staf, sem ég er nú búinn að gleyma hvernig leit út. Þarna var líka Ungverji, dökkur og þéttur Magyari, sem reykti álíka svera vindla. Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn á heimili foreldra minna. Eitt sinn kom í ljós að fjölskylda þessa manns hafi verið verulega nasísk á stríðsárunum og faðir þessa manns hengdur fyrir samvinnu sína við Þjóðverja. Meðan hann lýsti því fyrir föður mínum og mér, lýsti kona hans fjálglega óbeit sinni á útlendingum og sér í lagi blönduðum hjónaböndum fyrir móður minni. Ekki mun þetta fólk hafa komið aftur á heimili okkar.
En sérstaklega man ég eftir Sigurjóni Sigurðssyni, sem var kaupmaður í lítilli hornverslun á Snorrabraut sem hét Örnólfur, sem frægur var fyrir að hafa opið um helgar í trássi við einokunarreglur sem stærri verslunarkeðjur höfðu komið á. Sigurjón var afar góður og vandaður maður, barngóður og góður vinur föður míns. Hann var einn af þessum mönnum sem maður man alltaf eftir, því það var eitthvað gott yfir andliti hans. Hann kom oft í heimsókn til að skoða myntir föður míns.
29.1.2009 | 08:17
Skríllinn eyðileggur líka fornminjar
Samkvæmt fréttum DV munu einhverjir mótmælendur við Alþingishúsið hafa farið inn á Alþingisreit, þar sem fornleifarannsóknir hafa verið í gangi og rifið þar upp fornleifar til að kasta í Alþingishúsið.
Fornleifafræðingurinn Vala Björg Garðarsdóttir, sem ber ábyrgð á rannsókninni, þorir ekkert að segja í einhverjum heigulshætti. Þetta er of alvarlegt mál til þess að þeir sem bera ábyrgð á rannsókninni geti ekki tjáð sig um það. Hvað ætlar Vala að skrifa í skýrslum sínum? Kannski: Fornleifar voru þarna, nú eru þær farnar.
Sem doktor í fornleifafræði krefst ég þess af Fornleifavernd Ríkisins og nefndum og Menntamálaráðuneyti, að fram fari lögreglurannsókn á þessum eyðileggingum og þjófnaði á fornleifum nú þegar.
Ef sökudólgar finnast ekki, er ljóst að skríllinn", stuðningsmenn nýrrar ríkisstjórnar bera alla ábyrgð. Ríkisstjórnin, sem nú er í burðarliðnum, var þá hvött til valda af þjófum og skemmdarvörgum.
Þetta er ekkert annað en nútíma bókabrenna. Það er verið að eyðileggja sögu þjóðarinnar.
Hér , hér og hér getið þið einnig lesið um hvernig fornleifar eru skemmdar í Jerúsalem. Eyðilegging Jerúsalems er líka enn í gangi.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.12.2008 | 12:30
Nektarmynd af mér og Megasi
Nú getur enginn lengur falið sig á bak við dulnefni og orðskrípi á blog.is og verið þar með innpakkaðan skæting eða ólæti út af einhverju sem þeir hafa oft ekkert hundsvit á.
Ég hef alltaf komið fram sem Vilhjálmur samkvæmt þjóðskrá, og er þakklátur Mogga fyrir að leyfa mér það. Nú þegar búið er að fremja fjöldamorð á nafnleysingjum og furðuverðum hér á blogginu, verður Mogginn líka að útiloka alla bloggara sem eru eldri en 90 ára og eldri, og þá sem tóku og taka þátt í rússnesku byltingunni.
Ég óska ykkur góðs árs (2009) í baráttunni fyrir hryðjuverkasamtök á Íslandi sem og Hamas. Davíð Oddsson, Jón Ásgeir og Ólafur Ragnar eru tvímælalaust hættulegustu menn heims. Réttláta þjóðin og kjölturakkinn hennar, Hamas frá Gaza, eru alsaklaus.
Flugeldurinn á myndinni var sendur á loft á einni af fyrstu lofteldasýningum á Íslandi árið 1874. Kaupið nú helling af flugeldum og skrifið þá hjá Jóni Magnússyni, Frjálslynda flokknum.
Æi, ég fann ekki mynd af mér kviknöktum, með Megasi, þó ég leitaði alveg eins og óður.
Gleðilegt Ár
til allra á Íslandi, líka bankavillinganna
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.10.2008 | 07:30
Mismunað sem Íslendingi
Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, er að leita að haldbærum tilfellum á mismunun . Jæja, lesið þið þá þetta:
nýlega var ég síðla sunnudags staddur í sjoppu Pakistana hér í hverfinu mínu í Danmörku. Þar hef ég oft verslað. Ég er alveg viss um að hann grunaði mig um að vera Íslending og sá efnahagshrunið fyrir. Ég þurfti að kaupa "krem fress" í skyndingu, sem kostaði 14 DKK. dollan. Þá segir hann "Du kobe fur havtruds (50) krunner". Hann meinti að lágmarks kaup í versluninni væru 50 krónur. Ég hváði og varð svo móðgaður og spurði hvort hann væri með plön um að eyðileggja reksturinn hjá sjálfum sér. Ég beindi síðan kaupum mínum til Shell bensínstöðvar sem selur matvörur og fékk meira að segja lífrænt krem fress á hagstæðu verði. En mig grunar auðvitað að Pakistaninn hafi gert þetta vegna þess að ég er Íslendingur. Pakistanar voru lengi í umsjá Breta og hafa auðvitað lært dónaskapinn af þeim.
Langsótt, en ég nú einu sinni Íslendingur.....
Fyrir um það bil tveimur árum sótti ég um stöðu á Þjóðminjasafni Dana. 8 sóttu um og dómnefnd var sett á laggirnar. Ég var einn þeirra þriggja sem "dæmdir" voru, og heldur harkalega að því er mér finnst. Ég fékk afrit af umsögninni eins og hinir þrír, án þess að geta séð hverjir þeir væru. Í umsókninni um mig var allt gott og blessað, ég var meira að segja með hærri prófgráðu en sú sem fékk stöðuna. En það sem mér var lastað fyrir var þetta. "Han har i de senere år mest beskæftiget sig med jøder". Þar var líklega átt við, að ég hef skrifað bækur og greinar um afdrif gyðinga og annarra sem dönsk stjórnvöld sendu úr landi 1940-43, og starfa í ýmsum félögum innan gyðingasafnaðarins í Kaupmannahöfn. Trú mín og önnur störf er auðvitað ekki mikið tengt þeirri fræðigrein sem ég er menntaður í og því starfi sem ég sótti um. Þetta kalla ég mismunun. Fyrrverandi þjóðminjavörður Dana, Olaf Olsen, er reyndar gyðingur, en hann hefur aldrei haft sig mikið í frammi sem slíkur. Hann hefði nú örugglega ekki úthýst mér með fyrrnefndum rökum.
Haldið ykkur enn fastar: Þegar ég missti stöðu mín á Þjóðminjasafni Íslands árið 1996, upplýsti fyrrverandi þjóðminjavörður þetta. "ekki er framvegis óskað eftir störfum þínum á Þjóðminjasafni Íslands" . Ætli "sök" mín hafi verið í samræmi við þann Stóradóm, sem kveðinn var upp af manni sem aðeins kunni að stýra fjármálum safnsins í strand? Ég held ég sé eini Íslendingurinn, sem settur hefur verið í ævilangt ("framvegis") atvinnubann, m.a. vegna skoðana minna á hæfileikalausum stjórnanda, sem síðar var settur af. Það kalla ég líka mismunun.
Vita Íslendingar hvað mismunun er? Þeir ættu nú að gera það, þar sem þeir hafa sumir hverjir stundað hana sjálfir í mörg ár.
Fornleifafræði | Breytt 26.10.2008 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.8.2008 | 15:14
Biblían er fjári góð heimild
Fyrsta fræðigreinin sem ég skrifaði í miðaldafornleifafræði fjallaði um innsigli. Hana skrifaði ég að beiðni Kristjáns Eldjárns í Árbók hins íslenzka Fornleifafélags 1980.
Ég hef ekki misst áhugann á innsiglafræðinni og les yfirleitt allt sem ég sé um forn innsigli, í hvaða landi sem er. Þetta voru undirskriftir manna og eru mjög merkilegir gripir og geta sagt mikla sögu ef maður kann að lesa á þau.
Nýlega hafa fundist við fornleifauppgröft í Jerúsalem innsiglismyndir á leir. Ein þeirra tilheyrði Gedalía ben Pashur, þ.e. Gedalíu syni Pashurs. Maður þessi nefndur í Jeremíasarbók, 38:1. Í sama kafla hjá Jeremíasi spámanni er nefndur til sögunnar Yehuchal ben Shelemayahu. Svo vel vill til, að innsigli hans (sjá mynd hér að ofan) fannst ekki langt frá innsigli Gedalíu árið 2005. Báðir voru þessir menn uppi fyrir 2600 árum og voru ráðherrar í stjórn konungs sem hét Zedekiah.
Zedkías, sem upphaflega hét Mattaníahu (eðe Mattanías), var merkur kóngur fyrir margt. Spámaðurinn Jeremías var einmitt rágjafi hans. Upphaflega var Zedekía smákóngur gyðinga undir Nebúkadnessar Babýloníukonungi. En fljótt urðu þeir miklir fjandmenn og voru ráð Jeremíasar og ef til vill innsigliseigendanna góð. Herir Nebúkadnessars réðust á Jerúsalemborg 589 fyrir byrjun okkar tímatals og eftir 18 mánaða umsátur gjöreyddi hann og herforingi hans borginni. Zedekías flýði með sonum sínum en var tekinn höndum. Hann þurfti að horfa upp á syni sína drepna áður en augun voru stungin úr honum og hann færður í hlekkjum til Babýloníu.
Fyrir utan innsigli Gedalíu og Jehuchals, fannst í fyrra innsiglisstimpill Temechs fjölskyldunnar, sem voru musterisþjónar í fyrsta musterinu í Jerúsalem áður en villimenn frá Babýloníu eyðulögðu það og ætt Temechs var hneppt í þrældóm í Babýloníu.
Nú er við sama uppgröftinn í Jerúsalem búið að finna innsigli tveggja manna og einnar ættar, sem voru við hirð Zedekíasar konungs. Íslenskir fornleifafræðingar eru á meðan að leita að fjársjóðum Musterisriddara fyrir ítalska ævintýramenn.
Mikið hefði ég nú gaman að heyra frá eins og einum af þessum reiðu ungu andtrúarfasistum, sem afneita biblíunni sem húmbukki og hindurvitnum og eru með skítkast á trúað og siðmenntað fólk.
Þess má geta að faðir Dorritar Moussaieff forsetafrúar okkar, hann Shlomo, á eitt stærsta og merkilegast safn innsigla fornra gyðingakonunga og embættismanna. Er ekki kominn tími til að sýna eitthvað af því á Íslandi? Út hafa komið bækur um biblíuinnsigli Shlomos. Ég gæti vel tekið það að mér að sjá um slíka sýningu á Þjóðminjasafninu eða í Þjóðmenningarhúsi. Ég rakst nýverið á þetta blogg, sem er eins konar nútímainnsigli fyrir Moussaieff fjölskylduna.
Fornleifafræði | Breytt 20.8.2008 kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
13.8.2008 | 07:18
We can see what we are going to find, before we find it
Nú er fornleifagúrkan 2008 greinilega komin á fulla ferð og getur íslenskur fornleifafræðingur eins og ég, sem er langt frá góðu gamni, oft rekið upp stór augu þegar hann les um sumarvertíðina hjá kollegum sínum. Sumt gleður mig en annað fær mig til að brosa, jafnvel hlæja - en ekki alltaf af gleði. Oft er það skrítnum fréttaflutningi að kenna, ekki fornleifafræðingunum. Fornleifafræðingar eiga að hafa það fyrir reglu að biðja um að fá að lesa frétt áður en hún er birt. Af biturri reynslu er það ljóst að sumarmenn fréttastofanna, sem oft framreiða fornleifafréttir, eru ekki alltaf starfi sínu vaxnir
Fyrir nokkrum árum var hlaupið með það í fjölmiðla að bein eskimóakvenna hefðu fundist á klaustri austur á landi. Hvað ætli hafi orðið um þær stöllur? Það upphlaup var nú reyndar ekki fjölmiðlum að kenna. Nýlega var íslenskur fornleifafræðingur að hjálpa Ítala að finna gersemar á öræfum Íslands. Ekki tel ég líklegt að Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur hafi verið þarna til annars en að fylgjast með því að allt færi sómasamlega fram. Ítalinn hafði reiknað út að faldir fjársjóðir væru þarna á Íslenska hálendinu. Það er kannski orðið of létt að fá leyfi til að stunda fornleifarannsóknir á Íslandi. Rugludallar sem leita að the Holy Grail í einhverri Dan Brown vímu eiga ekkert erindi til Íslands. Þeir eru að leita að því sama sem SS-fornleifafræðingar leituðu að á 4. áratugi síðustu aldar.
Í gær sá ég bandarískan fornleifafræðing, John Steinberg, lýsa rannsóknum sínum á rústasvæðum í Skagafirði með örbylgjusendum. Steinberg og hópur hans segjast hafaf fundið danska mynt frá því um 1040 í rústum á Stóru-Seylu í Skagafirði. Í fréttinni fáum við að vita þetta: Það sem vekur undrun, og jafnvel örbylgjusendar geta ekki svarað, er af hverju peningurinn sem fannst við Stóru-Seylu er úr kopar þegar danska myntin var slegin úr silfri.
Það er ekki nema von að menn reki í rogastand. Koparmynt (gangmynt) var ekki slegin í Danmörku fyrr en á 16. öld. Ef "mynt" sú sem fannst á Stóru Seylu er frá því um 1040 og dönsk, er það mynt Harðaknúts, sem var þá við völd 1035-1042. Myntir hans frá Danmörku og Bretlandseyjum eru vel þekktar og rannsakaðar, en ekki þekki ég neinar sem eru líkar "myntinni" í Skagafirði. Ég er búinn að skoða allar myntir frá stjórnartíma Sveins Tjúguskeggs allt fram til Haraldar Hænu, það er frá 1013 til 1080. Ég finn ekki neinar myntir sem líkist mynstrinu sem ég sé á bronspeningnum frá Stóru-Seylu.
Dönsk myntslátta á 11. öld var undir áhrifum af enskri (Angló-saxískri) sláttu, og verið getur að eitthvað líkt "peningnum" á Stóru-Seylu sé til á meðal 11. aldar myntar á Bretlandseyjum. En ekki hef ég fundið neitt í mínum bókum um það.
Enda held ég ekki að þetta sé mynt, heldur kinga (skreyti) sem hangið hefur í sörvi (meni) með perlum og öðru skrauti. Kingan hefur væntanlega verið búin til til að líkjast gangmynt tímans. Einhvern tíma hefur karl eða kona slitið sörvi sitt og þessi koparpjatla hefur fallið í gólfið og ekki fundist aftur. Oft var sett lítil festi á myntir og í þessu tilfelli hefur verið búin til eftirlíking af mynt til að nota sem skreyti. Menn höfðu líklega ekki ráð á silfri á Seylu.
Orð John Steinbergs fornleifafræðings "We can see what we are going to find, before we find it" eru háfleyg og gleymast seint (horfið á myndskeiðið með fréttinni). Gott að fá svona veltalandi Superman með röntgensjón í fornleifafræðina. Ég leyfi mér að bæta við ókeypis ráðgjöf handa John Steinberg: but you sure aint goin' to discover what you find, if you don't make an effort to know. Það má vera að Bandaríkjamenn sem eru að rannsaka á Íslandi séu sleipir í örbylgjum, en þeir eru, eins og einn fyrrverandi formaður Fornleifanefndar Ríkisins sagði á síðasta áratug 20. aldar, því miður nær oftast ólæsir á menningarsögu Íslands og Norðurlandanna
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.6.2008 | 13:38
Þjóðviljinn og vilji þjóðarinnar
Mikið rit um mannlega galla og breyskleika hefur verið gert aðgengilegt fyrir almenning. Nú geta allir, sem tíma hafa og sagnfræðilegan áhuga, flett Þjóðviljanum á Timarit.is og orðið margs vísari.
Á Íslandi var til fólk sem með betri vitund vildi gera Ísland að leppríki Sovétríkjanna. Til voru Íslendingar, sem gerðu sér grein fyrir öllum skítleika nasismans, sem ekki sá hvernig "kommúnisminn" hafði verið afbakaður til að fremja verstu glæpi mannkynssögunnar. Menn urðu vitni að, og sumir tóku þátt í, þessum glæpum og flestir þegja svo þunnu hljóði í dag og skammast sín ekki einu sinni.
Ég hef brugðið mér í ferðalag aftur í tímann og flett Þjóðvilja Kaldastríðsáranna. Þetta gefur mér nýjan skilning á þeirri umræðu sem nú tröllríður samfélaginu. Margt af því fólki sem skrifaði í þetta blað og ólst upp með því, er enn á ferðinni og sjálfsálit þess er enn það sama. Það telur sig vera betra en annað fólk. Vinstri menn töldu sig þá sem og nú hafa einkarétt á ákveðnum þáttum mannlífsins. Þeir töldu sig vera réttlátari, með betri málstað, vera menningarlegri og mannúðlegri; töldu sig meiri náttúrverndarsinna en aðra og svona mætti lengi telja. Þessi fullvissa um vera boðberar hins réttláta sósíalisma var blandað saman við endalausar stælingar við "íhaldið", sem frekar einkenndust á öfund og hatri í garð þeirra sem gekk fjárhagslega betur í lífinu, en af eiginlegri stéttarbaráttu.
Ég ætla þó ekki að gera lítið úr mikilvægi Þjóðviljans fyrir stéttarbaráttu, en þeir sem börðust enduðu flestir með því að hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig, sem er ekkert óeðlileg hegðun hjá mannverunni.
Viðhorf, sem sett eru fram í Þjóðviljanum, sverja sig oft í ætt við múgæsingu og fordómadýrkun í bland við barnalega þjóðernisrómantík. Þetta kom t.d. í ljós í umræðu um varnarmál. Úrkynjunin var samkvæmt Þjóðviljanum náttúrulega mikil á Vellinum. Kanar voru villimenn sem eitruðu fyrir Íslendingum. Kanasjónvarpið sýndi að sögn Þjóðviljans myndir sem kvikmyndaeftirlitið myndi banna börnum á Íslandi. Hætturnar voru margar. Kanar voru klámkarlar hættulegir hreinni, íslenskri náttúru.
Meðferð Kínverja á Tíbetbúum voru líka í brennidepli þá eins og nú. Þá var yfirtaka Kínverja á Tíbet fjálglega líkt við dvöl varnarliðs NATO á Íslandi. Jakobína Sigurðardóttir skrifaði grein sem ég flokka undir andlegan fyrirhyggjufasisma íslenskrar sveitakonu. Jakobína sér Ísland í krumlum Kanans eins og Tíbet undir hæl Kína. Þvílíkt ímyndunarafl?
Allt sem rússneskt var eða frá austantjaldslandi, taldi Þjóðviljinn frábært, og á 7. áratugnum leið ekki sá dagur að ágæti Austur-þýskra skut- og versmiðjutogara, Traktora í Novosíbirsk og plasmavéla í Sovételdflaugum væri tygjað. Ef Louis Armstrong lék í Austur-Berlín, var það fyrst í frásögur færandi. Allt kommaísenkram og sósíalistabull var sagt vera vegurinn til sæluríkisins.
Eftir 1970, þegar raunsærri menn fóru að skrifa í blaðið um andhóf og mannréttindabrotin, var spjótunum í staðinn beint að framförum í efnahagslífi á Íslandi. Álverin áttu að sögn að eyðileggja aðalefnahag Íslendinga, fiskveiðarnar. Menn áttu alltaf erfitt með orsakagreiningu á Þjóðviljanum.
Árið 1965 var mikil umræða um álver, eins og í dag. Lesið eftirfarandi greinar um "Álauðvaldið" og áhrif þess á Ísland. Sjá hér, hér, hér og hér. Fer ekki hrollur um ykkur? Vinstri menn nútímans, sem eru mestmegnis mikil náttúrubörn, virðast hafa geymt árganga af Þjóðviljanum undir koddanum síðan 1965. Árið 1965 dýrkuðu vinstrimenn ríki sem menguðu mest allra hér í heimi.
Í dag dýrka fyrrverandi Þjóðviljamenn ríki, þar sem miðaldahugsunarháttur er ríkjandi og mannfrelsi er fótum troðið. Er ekki hægt að finna eitthvað betra að hanga aftan í en einræðisherra og illa upplýstan lýð sem hefur Múhameð sem æðstan guð í stað Leníns? Af hverju er fólk, sem upp til hópa eru trúleysingjar, mestu trúarofstækismennirnir? Þau ríki og stefnur sem vinstrimenn styðja í sameiginlegu hatri á BNA og vestrænum gildum, losuðu Íslendinga við herinn. Það voru ekki endalausar söngæfingar og kröfugöngur herstöðvanastæðinga, sem enginn missti af ef hann las Þjóðviljann, þar með talinn undirritaður.
Ýmsan mikilvægan fróðleik er þó líka að finna í Þjóðviljanum. Þetta er sagnfræðiheimild.
Minnugir menn muna líklega vel eftir erfiðleikum Flugleiða í lok 8. áratugarins og tillögum hanskasósíalistans Ólafs Ragnars til lausnar þeim. Viðtal við hann frá 1980 sýnir að það sem hann hafði til málanna að leggja þá var nærri búið að koma í veg fyrir ferðagleði hans og kammerads Ingibjargar Sólrúnar á 21 öld. Ólafur skrifaði : Hvaða vit væri í því fyrir þjóð sem stendur frammi fyrir því eftir örfá ár að sinna eingöngu Evrópu- og innanlandsflugi að ráðast í byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og það fyrir bandarískt fé, sem stæði kannski tóm að meginhluta? - Svona var nú Ólafur forseti vor lélegur spámaður.
Þjóðviljinn er fyrir löngu allur. Margir syrgja hann sárt. En vilji þjóðarinnar var annar en rausið, ruglið, afturhaldið, öfundsýkin og smámunasemin í aðstandendum Þjóðviljans.
Fornleifafræði | Breytt 10.3.2009 kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 86
- Frá upphafi: 1352301
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007