Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hötum Lomborg

 lomborg

Ég er einn fárra í Danmörku sem frá byrjun hef haft mikla trú á dr. Birni Lomborg, dönskum stjórnmálafræðingi, sem leyft hefur sér að vera efins gagnvart nýju heimstrúarbrögðunum. Þau trúarbrögð boða allsherjarbráðnun og hraðferð til helvítis. Fylgjendur eru margir og mjög heittrúa. En eins og oft hjá heittrúarfólki, virðist vera sía í heila þess þar sem almenn skynsemi og rökhugsun er skilin frá heilbrigðri skynsemi. 

Í dag er Lomborg með áhugaverða grein í Politiken, Før vi panikker, sem ég mæli með því að fólk lesi. Ég set tenginu við hana þegar hún kemur á netið síðar í dag eða á morgun.

Ég krefst þess ekki að neinn trúi, falli fram á hnén og tilbiðji Lomborg og hans skoðanir. En fæstir þeirra sem ég hef rætt við í Danmörku um Lomborg hafa lesið stafkrók eftir hann, aðeins gagnrýni annarra, og ég hef meira að segja hitt fyrir menn sem höfðu "ógeð á manninum, vegna þess að hann er hommi".

Politiken hefur undanfarna daga birt röð af greinum um heim á heljarþröm og loftlagsbreytingar og hefur leyft Lomborg að svara.

Á sömu síðu og grein Lomborgs í Politiken í dag er bréf til blaðsins frá aldraðri konu, sem ég hef einu sinni hitt. Hún heitir  Ulla Jessing og er gyðingur sem fæddist í Þýskalandi. Hún skrifar reið: "Ég skil ekki maður vilji leyfa loddara eins og Lomborg að ganga lausum í fjölmiðlaheiminum með yfirlýsingar um að "gróðurhúsaáhrifin séu mjög vafasöm". Og það hefur gerst eftir að loftlagssérfræðingar frá öllum heiminum hafa fengið Nóbelsverðlaunin fyrir vísindalegar rannsóknir sínar á sönnu ásigkomulagi jarðarkringlunnar. Yfirlýsingar Lomborgs eru á sama stigi og yfirlýsingar bandarískra öfgatrúarmanna,  sem halda að kenningar Darwins orki tvímælis".

Þessi stutta greining Ullu Jessings lýsir hatri hópæsingarinnar í hnotskurn. Ulla Jessing, sem flýði Þýskalands nasismans og kom ung til Englands, flutti síðar til DDR sem heillaði hana eins og Stalín. Þar giftist hún og settist loks að í Danmörku. Ef hún hefur ekki verið á mála hjá Stazi er ég illa svikinn, og ég sel það ekki dýrara en þegar hún skrifar að Björn Lomborg sé loddari. Konan hefur alla ævi verið handbendi öfgafullrar skoðana og ógagnrýninn borgari í ráðstjórnarríki. Hún vill láta banna Birni Lomborg að tjá skoðanir sínar. Greinilega eru sömu gildin í gangi og þegar hún var Kammerad Ulla i DDR.

Umræðan um loftslagbreytingar er orðið nýja byltingarslagorðið. Í byltingum og öfgastefnubrjálæði virðist heilinn í sumu fólki fara algjörlega úr sambandi og bráðnar.


Sígaunar á "Kopenhagen" í Buchenwald

  Lífsýni í Buchenwald

Fyrrv. fangi og bandarískur hermaður virða fyrir sér safn lífsýna í Buchenwald. Danskir læknar stunduðu rannsóknir í Buchenwald eða í samvinnu við lækna SS í búðunum

Út er komin í Danmörku bók sagnfræðingsins Henriks Tjørnelunds sem ber heitið Medicin uden grænser, eða upp á íslensku: "Lækningar án landamæra". Titillinn er dálítið misvísandi, því bókin fjallar um samskipti dönsku bólefnisstofnunarinnar (Seruminstituttet) við lækna SS í Buchenwald.

Rannsóknir hins unga sagnfræðings hafa leitt í ljós að danskir læknar og vísindamenn þróuðu bóluefni gegn útbrotataugaveiki (Rickettsia prowazekii). Bóluefnið. sem var þróað af lækninum Johannes Ipsen, var kallað Kopenhagen og var notað á 26 sígauna í fangabúðunum Buchenwald árið 1944. Danir bundu miklar vonir við að geta selt bóluefnið til þýska hersins og til SS.

Henrik Tjørnelund hefur einnig komist að sömu niðurstöðu og ég í bók minni Medaljens Bagside um stefnu Dana gegn gyðingum. Hann segir að að samvinnan við nasista hafi haldið linnulaust áfram eftir að samvinnustjórnin féll síðsumars 1943 og fleiri Danir fóru að mótmæla. Mótmælin höfðu engin áhrif á gróðasjónarmið Dana. Dansk bóluefni handa þýskum böðlum var þar engin undantekning.

Hér getið þið lesið um útrbrotataugaveiki á heimasíðu Seruminstituttet i Kaupmannahöfn. Ekki er þar einu orði minnst á bóluefnið Kopenhagen, sem virðist hafa skilað árangri, en fór þó aldrei í framleiðslu.

Sagnfræðingurinn Henrik Tjørnelund rakst á ýmsar hindranir við rannsóknir sínar. Gögn um bóluefnið í skjalasafni Seruminstitutsins sem geymt er í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn virðast hafa verið fjarlægð á einhverju stigi eftir heimsstyrjöldina.

Danski læknirinn Johannes Ipsen sem þróaði bólefnið Kopenhagen dó árið 1994. Han hélt til Bandaríkjanna árið 1949 en var líka um tíma viðloðandi Árósarháskóla, þar sem honum var ekki sérlega vel tekið. Gætu einhverjir hafa vitað um fortíð hans? 

Tíminn læknar öll sár. Á heimasíðu gamla háskólans míns standa þessi fallegu orð um Johannes Ipsen (http://www.au.dk/da/nekrolog/1994ji.htm): Ipsen var en af de store i dansk lægevidenskabelig forskning. Han var også en stor humanist og en god ven med en legendarisk - og venlig - sans for humor. Vi er mange, der vil savne vor store læremester med den klassiske hjertets dannelse.

En ekkert stendur í minningarorðunum um ferðir hans í Þýskalandi nasismans. Hann hefur vart heldur sagt yfirboðurum sínum í Yale og Harvard frá þeim reisum og samvinnunni við SS.

Bók Tjørnelunds kemur út þann 26. október.

Sakaskrá Dana úr stríðinu er orðin löng, sjá t.d. þessa grein, sem var skrifuð áður en bóluefnið Kopenhagen var enduruppgötvað. Vandamálið er að í Danmörku ríkir nú tilhneiging meðal margra sagnfræðinga að frægja samvinnu Dana við Þýskaland nasismans. Slíkir fræðimenn sjá greinilega tilgang í því að Danir sendu gyðinga í klær nasista og þykir væntanlega ekki mikil eftirsjá í  nokkrum sígaunum sem notaðir voru í rannsóknir sem gátu eflt Danmörku á erfiðum tímum.


Danir voru hræddir við PFLP

Yessir and Daysir 

 

Brátt kemur út annað bindið í sögu blaðamannsins Peter Øvig Knudsens um Blekingegade bófana sem árið 1988 frömdu vopnað rán við pósthúsið í Købmagergade í miðbæ Kaupmannahafnar og myrtu þar ungan lögreglumann. Bófarnir voru öfgafullir vinstrimenn, sem höfðu tengsl við svokallaða palestínska frelsisbaráttu. Þó mér hafi fundist fyrsta bindi bókar Knudsens, sem kom út fyrr í ár, vanta margar spurningar og svör, slær hann því föstu í viðtali á forsíðu 2. hluta dagblaðsins Politiken í dag, að dönsk yfirvöld hafi verið hrædd við Palestínska hryðjuverkamenn og þess vegna stöðvað rannsókn á meintum glæpum þessa hóps vitleysinga árið 1984.

Knudsen segir frá því, hvernig lögreglan í Lyngby var komin á sporið eftir bófana árið 1983, þegar þeim var bannað að halda áfram rannsókn á bankaráni sem Blekingegade bófarnir frömdu í Den Danske Bank árið 1983. Skjalagrúsk Peter Øvig Knudsens leiddi í ljós að Dómsmálaráðuneytið danska er nú búið að eyða skjölum um málið!, sem er glæpsamlegt athæfi. Dómsmálaráðherra þess tíma, Erik Ninn-Hansen, ber við minnisleysi, enda orðin elliær, og aðrir eru annaðhvort dauðir eða skindauðir.

Knudsen tókst þó að finna svarið við spurningu sinni um Lyngby ránið í skjölum Utanríkisráðuneytisins. Stjórnvöld vissu að slóði úr bankaráninu í Lyngby teygði sig til Frakklands og að það spor sýndi sambönd við PFLP, palestínska hryðjuverkasamtök. Eftir að frönsk yfirvöld höfðu haft samband við þau dönsku, bárust lögreglunni í Lyngby skipun að ofan (Dómsmálaráðuneytinu) um að stöðva rannsókn málsins.

Árið 1988 var lögreglumaður myrtur af sama genginu sem framdi ránið í Lyngby árið 1983. Þegar gengið hafði ekki verið að ræna og drepa í nafni frelsis Palestínu, söfnuðu liðsmennirnir nöfnum á gyðingum og velunnurum Ísraels i Danmörku og bjuggu til spjaldskrá yfir þá. Ég á marga vini sem voru á þeirri skrá. Hvað átti að gera við þessa spjaldskrá hefur Peter Øvig Knudsen enn ekki sagt okkur sem bara fylgjumst með. Ef lögreglumaður hefði ekki verið myrtur árið 1988, hefði líklega ekkert stöðvað þetta lið í því að fremja hryðjuverk gagnvart saklausu fólki í Danmörku vegna ástar bófanna á ofbeldi þjóðar sem varð til vegna færslu landamæra á korti breskra nýlenduskrumara. 

PFLP varð hluti af PLO árið 1968.

Yessir and Nosir

Aðstoðin þökkuð? Poul Nyrup Rasmussen og Arafat

Á efri myndinni stendur fyrrum utanríkisráðherra Dana, Niels Helveg Petersen, fyrir aftan rassinn á Arafat heitnum. Helveg Petersen hafnaði árið 1994 ósk Human Right Watch um að Danmörk tæki þátt í réttarhöldum við Alþjóðadómstólinn í Haag gegn Saddam Hussein og ríkisstjórn Írak fyrir fjöldamorð á Kúrdum og aðra glæpi.  Hann var hræddur, en hann hefði hugsanlega getað komið í veg fyrir stríð ef hann hefði sýnt kjark. Í bréfi til Kenneth Roths dags. 21.12. 1994, sem ég fékk frá danska Utanríkisráðuneytinu árið 2004, er Petersen hræddur um að málið gegn Saddam gæti tapast við Alþjóðadómstólinn. 


Nakinn sannleikur

Calendar---Miriam-Rose 

 

Ég hlustaði í dag á Kastljós á veltalandi unga konu, Miriam Rose, sem kom til Íslands til að bjarga landinu með því að klifra upp í krana. Hún féll sem betur fer ekki úr honum, en í stað þess fyrir einum af sonum landsins þegar hún var að mótmæla virkjunum, og svo lenti hún í fangelsi. Þegar Rose kom úr steininum hélt löggan sem fastast í vegabréf hennar, sem Miriam Rose þurfti á að halda til að ganga frá sínum málum. Lögreglan hélt ekki bara vegabréfi hennar heldur hótaði að senda hana úr landi, þar sem hún var talin hættuleg íslensku þjóðfélagi. Hún ógnaði grunngildum samfélagsins.

Þetta er nú næstum því eins og þegar löggan var að senda gyðinga úr landi fyrir tæpum 70 árum síðan. Hvers konar rugludallar eru starfandi við löggæslu á Íslandi? En nú er Útlendingastofnun líka búin að sjá hver kyns er í löggæslunni og Rose er búin að fá vegabréf og leyfi til að vera í landinu hreina.

En svo skemmtilega vill til að alnafna konunnar í krananum, hennar Miriam Rose, hefur orðið fræg fyrir það að hjóla nakin á hjólhesti um grösugar sveitir Sussex. Alnafnan í Sussex var Mrs. May Pinup á fyrsta nektaralamanaki háskólans þar í sveit árið 2005. Nafna Rose í Sussex telur að vinnan við almanakið sé hið mesta success og sagði: "It's been really, really rewarding. As a society we do a lot of serious campaigning, but this aimed to show how campaigning can be fun.".

Kannski fáum við svona fínt almanak frá nöfnu Rose í Sussex hér á Íslandi. Almanak með tólf nöktum umhverfisverndunarsinnum sem koma til dyranna eins og þeir voru klæddir í Paradís.  Miriam Rose á Íslandi, nú er ég búinn að gefa þér hugmyndina. Mundu orð nöfnu þinnar í Sussex: "Campaigning can be fun".

Kannski var löggan hrædd við að rósin í krananum væri í raun rassbera rósin á hjólinu í Sussex. Hugsið ykkur umferðahnútana. Jú, væntanlega er slík reiðmennska líka ógn við grunngildin!

Kranarósin gæti líka auðveldlega farið að hjóla nakin um miðjan vetur á Íslandi. Ég hef heyrt að það sé orðið svo heitt í heiminum. Er ekki snjallræði að mótmæla því allsber á hjóli?


A very funny woman in Iceland

imbakassinn

Mér sýndist nú frekar hitt, að af væri húmorinn hjá blaðamönnunum sem mættir voru til að hlusta á Mr. Jones. Maðurinn var alveg greininga kominn á vegum Sáms frænda til að fá okkur aftur með í stríðið með USA. Eins og Mogginn klippir þetta, sýndist manni ekki mannskapurinn skilja neitt af því sem Jones var að segja. Hádújúlækæsland? virðist vera eina spurningin sem börnin á fjölmiðlunum geta hrist fram úr erminni. Ætli menn viti ekki svarið? "Cold, Wet and Rocky, and 300.000 souls at the Center of the Universe".

Hr. Jones trúður var greinilega búinn að sjá hve sjálfsuppteknir naflaskoðarar Íslendingar eru. Ég hlakka til að sjá sjóvið hjá honum í beinni um allan heim. Greinilegt er að einhverjir vondir menn úti í heimi eru búnir að sjá í gegnum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Varla finnur Jon Steward það upp hjá sjálfum sér að fara að gera grín að Íslandi.

Fréttir herma að Jason Jones sé af Vestur-Íslenskum ættum.


mbl.is Osama bin Laden „hatar Björk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eintóm della frá Íslandi

Nú liggja Danir aftur í því. Þeir eru farnir að rífast um uppruna og "sannleiksgildi" ásatrúar á heldur ófræðilegan hátt.

Í grein í danska dagblaðinu Berlingske Tidende i dag er gerð að umtalsefni vantrú manna á ásatrú, eða þó aðallega eins sagnfræðings.  Sagnfræðingurinn, Kurt Villads Jensen (sjá mynd) við Syddansk Universitet i Odense (Óðinsvéum), er greinilega búinn að uppgötva að það séu fyrst og fremst Eddukvæði og "Snorre Sturlasson" sem sé heimild okkar, og að við séum þess vegna algjörlega úti að aka eins og Ása-Þór, sem Jensen segir að hafi einungis verið svar víkinga við kristni.

 Villads Jensen

Krossfarinn Kurt Villads Jensen vegur að ásum, hér með tvíeggjuðu tvíhandasverði frá 13. öld. Kenningar hans eru heldur tvíeggjaðar líka og greinilega vantar honum brýni.

Kurt þessi tekur greinilega ekkert mark á íslenskum bókmenntum og álítur þær ekki heimildir frekar en fornleifar. Myndir af Þór og öðrum meintum guðum, Þórshamrar og þvíumlíkt virðist ekki skipta neinu máli í heimi þessa fræðings.

Þessi fræðimaður hefur áður gert sig breiðan um aðra hluti sem hann veit ekkert um. Hér um árið hélt hann því fram að krossferðir kristinna manna á miðöldum væru fyrirmyndir krossferðar Bush forseta í Afganistan og jihads Íslamista. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. Hvernig svona snillingur fær vinnu við danskan háskóla er mér hulin ráðgáta. En það hefur ekki verið neitt launungamál að það þykja góð fræði og fremjandi við háskóla að hata Kana og afneita trú, nema þá helst Islam.

Kurt Villads Jensen virðist ekki hafa lært muninn á goðafræði (mythologiu), guðfræði og sagnfræði.

Þór

Þór að kljúfa kross eða rembast í tæki í Ræktinni hjá Óðni í Valhöll


Vestfjarðaræða

Bolungarvík

Bolungarvíkur beach 

Ég er búinna að vera á Vestfjörðum í síðan í september, reyndar tók ég smá frí og fór með fjölskylduna til Hollands um miðjan september. En nú er ég brátt á förum til flatlendis Danmerkur í mína ævilöngu útlegð, útrás.       

Ég er núna í Bolungarvík sem er hinn besti bær. Mér þykir kyrrðin hér ígulfalleg. Maður getur snemma að morgni heyrt björg hrynja í fjallinu Erni og ölduna falla þungt á sandinn í fjörunni sunnan við bæinn. Hér snjóaði í fyrrinótt og enn er hvítt yfir öllu. Engin merki um heimshitnun hér.

Þetta las ég í Blaðinu í gær: "Um fjögur hundruð gestir sóttu sundlaugagarðinn í Bolungarvík um síðustu helgi. Gestafjöldi í sundlauginni hefur slegið öll fyrri aðsóknarmet síðustu daga."

Ekki vissi ég að Bolvíkingar væru svona glaðir yfir því að sjá mig í sundi, en nú veit ég að gleðin var ekki mín vegna og mannfjöldinn var vegna þess að sundlaugagarðurinn er nývígður. Þarna er forláta rennibraut sem krakkar bæjarins og einstaka fullorðinn nota grimmt. Hreinn lúxus.

Um leið og ég les Blaðið heyrði ég vitleysinga og aumingja fyrir sunnan tala um lok búsetu á Vestfjörðum. Hér er ekkert fararsnið á mönnum. Engin ástæða til þess! Hér lifðu menn af í vosbúð  verbúðanna í áratugi og aldir og þeir sterkustu eru hér enn. Menn vilja fæstir flytja í verbúð í Grafarvoginum.

Og nú kemur holskeflan, því sjaldan skrifa ég nema það stingi.

Níels A. Ársælsson heitir gæðabloggari sem oft hefur líkt "ástandinu" á Vestfjörðum við helför gyðinga. T.d. hér http://nilli.blog.is/blog/nilli/entry/231624/

Því miður get ég ekki séð helförina hér. Ekki óku gyðingar og sígaunar um í Volvo jeppum í gettóum. Reyndar er hér nokkuð af Pólverjum sem gæti gefið assósíasjón, en þeir virðast vera hið besta fólk, sem vinnur sína vinnu eins og aðrir Vestfirðingar. Og kvótinn er ekki Entlösung þótt að bloggarinn Nilli haldi því fram.

Vestfirðingar sem væla, verða farnir að lifa Bónuslífi í Reykjavík með Glitnispunkta fyrr en varir, en Vestfirðingar sem þrauka, munu erfa landið. Hér er ekkert nema framtíðin. Það er hins vegar ekki hægt að segja um loftbelgskapítalismann sem allir dýrka fyrir sunnan. Ég hef ekkert á móti kapítalisma, en það form hans sem stundað er í landnámi Ingólfs er ónáttúra og systir hennar græðgin er með í leiknum.


Kumlarask

uppgröfur í Hringsdal

Kuml voru rannsökuð í Hringsdal í sumar og fyrrasumar.  Alltaf þykir merkilegt þegar kuml finnast á Íslandi og vildu allir Lilju kveðið hafa, þ.e.a.s. allir fornleifafræðingar vildu hafa grafið kuml. Það langaði mig líka að gera hér um árið er ég vann sem sérfræðingur á Þjóðminjasafni Íslands. Þá var aftur kominn til starfa Þjóðminjavörður sem hafi verið í löngu fríi. Hann tjáði mér að ég mætti ekki grafa kuml, en vildi þó ólmur vita hvar kumlið var. Ég var með doktorsgráðu í greininni, en mátti ekki grafa kuml. Þjóðminjavörður þóttist verðugari til þeirrar iðju en ég.

Sem betur fer hefur verið slakað á slíkum kröfum, enda þjóðminjavörður þessi fjarri góðu gamni, og kuml hafa nú verið rannsökuð á nýjan leik og meira að segja af fornleifafræðingum sem ekki hafa neitt doktorsskírteini í farteskinu.

Ég veit ekki hvort að við kumlrannsóknir eigi að sýna meiri varúð en við aðrar fornleifarannsóknir, en þjóðminjalög eru þó mjög skýr hvað varðar frágang allra staða þar sem fornleifarannsóknir fara fram. Þar sem fornleifafræðingar stunda árstíðabundnar rannsóknir og rask, sem ekki er björgunaruppgröftur vegna yfirstandandi framkvæmda, og ætla sér að snúa aftur til frekari rannsókna, verða að skilja þokkalega við svæði þau sem þeir hafa rannsakað. Ég hélt að það væri venjan og hafði aldrei grunað kollega mína um annað, eða þangað til að ég kom í Hringsdal hér um daginn og sá frekar ljóta hluti.

Þar hefur Adolf Friðriksson hjá Fornleifastofnun Íslands, sem er einkarekið fyrirtæki, grafið merkileg kuml. Þarna er líklega kumlateigur og fleiri kuml í vændum. En svona skildi hann við fornminjarnar fyrir veturinn. Kumlin eru opin eins og gapandi augntótt í landslaginu og rúst, sem er yngri en kumlin, er óvarin. Ljóst er að hleðslur munu springa og eyðileggjast í vetrarveðrum.

Hringsdalur 2

Hringsdalur

Nordurveggur

Þetta þykir mér illa að verki staðið, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að Fornleifastofnun, sem tekið hefur hefur nafn landsins okkar, svo halda mætti að þetta sé ríkisapparat en ekki sjálfseignarstofnun, hefur öll tök á því að gera betur.

Rannsóknin fór síðast fram í júlí í ár, en ekki er búið að verja rúst og kumlin á fullnægjandi hátt. Ábyrgðarmenn rannsóknarinnar í Hringsdal, sem vissulega er merkileg rannsókn, verða að fara á stað í dag og ganga frá fornleifunum fyrir veturinn. Það geta, eins og kunnugt er, verið mikil frost á Vestfjörðum. Minjarnar eru galopnar fyrir hafi og válegum veðrum. Rannsóknarmenn í Hringsdal eiga vart innistæðu fyrir áframhaldandi rannsóknum á þessum stað ef ekkert verður gert til að verja minjarnar betur en nú er gert - nema að menn vilji láta vind og veður sjá um uppgröftinn á órannsökuðum minjum á þessum stað.


Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband