Færsluflokkur: Kynning
1.5.2008 | 17:45
(Nasjónal)sósíalsimi í réttu ljósi
Það er ekki lengur óalgengt á Íslandi að maður sjái svona ósóma eftir svokallaða vinstrimenn. Vésteinn Valgarðsson, sem ritar þetta, er að eigin sögn mikill friðarsinni. Mér er ómögulegt að sjá það.
Mig langar að benda á góða grein eftir vin minn Manfred Gerstenfeld, sem stýrir riti sem ég hef skrifað tvær greinar í. Grein hans, sem hann kallar Holocaust Trivialization, kom formlega út í dag. Í henni getur maður getur lesið dæmi um hinar mismunandi aðferðir sem óprúttnir menn og óvitar nota til að gera lítið úr Helför gyðinga, hvernig hún er misnotuð og örlög milljóna manna eru vanvirt og tengd flatneskju og öðrum málstað eða baráttum, sem ekki kemur örlögum 6 milljón manna við.
Hvað fær menn t.d. til að líkja banni þýskra yfirvalda á hættulegum bardagahundum við helför gyðinga?
Það gerist líka iðulega að fórnalömb Helfararinnar eru vanvirt af fólki sem líkir örlögum gyðinga í Seinna stríði við hryðjuverkamenn, sjálfsmorðssprengjumenn nútímans og örlögum þeirra við lélegan öfgamálstað nútímans. Svo eru til karakterar sem eru í beinu sambandi við ríki og hafa skilning á þjóðhöfðingjum sem afneita Helförinni. Vésteinn Valgarðsson er t.d. nýbúinn að vera í Egyptalandi, sem er einræðisríki þar sem gyðingahatur er sýnt í sjónvarpinu. Vésteinn fór á ráðstefnu um frið í Egyptaland. He he! Mönnum er líka bannað að blogga á Egyptalandi. Ætli Vésteinn hafi mótmælt þessu þegar hann var í skugga píramídanna?
Saklaust fólk, sem allar bjargir voru bannaðar er ekki hægt að líkja við ríki öfgasamtaka, sem hafa útrýmingu gyðinga á dagsskránni líkt og nasistar fyrir 65 árum síðan. Ísraelsríki er ekki hliðstæða Þriðja Ríkisins. Og fyrir þá sem styðja Amadinejad i Íran, þá upplýsist hér með að Helförin átti sér stað.
Hvenær hætta íslenskir vinstrimenn þessum ósköpum? Eru þeir ekki með öllum mjalla? Er arfur nasismans svo lokkandi að þeir þurfi að eftirapa hann, eða er bara svona lítill munur á nasíónalsósíalisma og sósíalisma?
Einn argasti gyðingahatari Íslands eftir Síðari Heimsstyrjöld var kratinn, Alþingismaðurinn og embættismaðurinn Jónas Guðmundsson. Hann gaf út rit sem voru morandi í gyðingahatri. Á heimasíðu Alþingis er ekki minnst einu orði á þessar einkennilegu kenndir Jónasar. Skrif hans og útgáfa hafa vonandi ekki á sínum talist til góðrar latínu á Íslandi? Margir keyptu tímarit rit Jónasar, Dagrenning, sem út kom í 12 ár, og bókasöfn höfðu fjölda eintaka af ritum hans til láns.
Jónas Guðmundsson, krati sem gaf út andgyðingleg rit eftir Heimstyrjöldina síðari.
Hvað gerist í kollinum á sumum vinstrimönnum og hvað gerist stundum í kollinum á sumum Íslendingum? Bara að ég vissi það.
Kynning | Breytt 3.5.2008 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
24.3.2008 | 15:17
Kaloríumæling á Páskum
Nú eru kreppuhrjáðir Íslendingar búnir að éta í kapp við kirkjuklukkurnar og hafa horft á meistarann á krossinum í sjónvarpinu um leið og þeir borðuðu kartöfluflögur og annað kransæðakítti. Páskalömbum, skinkum, kalkúnum og öðru vöðvakyns hefur verið rennt niður með þúsundum lítra ropvatns sem bætt hefur verið í sykri, rotvarnarefni og lit. Börnin sporðrenna svo súkkulaði í tonnatali.
Leyfi ég mér því að kynna kaloríumatseðil frá páskum 1941, sem tekinn var saman af nasistum þegar þeir voru að skipuleggja hvernig metta átti fólk í Pólandi.
- Þjóðverjar - 2613 kaloríur
- Pólverjar - 669 kaloríur
- Gyðingar - 184 kaloríur
Til samanburðar er hægt að nefna að meðal-Bretum voru árið 1939 ætlaðar 3000 kaloríur daglega. Í dag er hins vegar reiknað með 2000 kaloríum á mann að meðaltali á Bretlandseyjum. Forrit, sem upplýsa leyfilega kaloríuneyslu til að halda þyngd sinni, sýna að 180 sm. hár maður, 40 ára og 85 kg. að þyngd má leyfa sér að neyta 2788.5 kaloría, ef hann hreyfir sig eðlilega.
Þegar ég ósjaldan heyri og les orð fólks sem líkir sult og seyru á Gaza við örlög gyðinga í Evrópu árið 1941, kemur þessi kaloríutafla Hitlers alltaf upp í huga mínum. Pattaralegir Palestínuleiðtogar sýnist mér fái nóg að éta. Ef ykkur finnst það ekki, borðið þá minna um Páskana og sendið afganginn á reikning Hamas.
Hér er viðeigandi lag með meistara Cohen, sem í þessari jútúbu syngur Hallelúja eftir efninu, og hefur sér til halds prúðbúin þýsk ungmenni í súlnagöngum, sem fá greinilega öll sínar 2613 kaloríur. Verði ykkur að góðu og Gleðilega Páska
Kynning | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.3.2008 | 09:10
Öryggisráðið er sirkus
Eftir árás Palestínumanns á Yeshivu (Torah-Talmud skóla) Mercaz Harav í Jerúsalem í gær, þar sem 8 ungmenni voru myrt á hrottalegan hátt fyrir frelsi Palestínu, er hægt að sjá hve mikils virði Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna er.
Þegar greiða átti atkvæði til að fordæma árásina, var það ekki hægt, því einræðis- og íslamistahreiðrið Líbýa andmælti. Líbýa hefur líka, eins og Gaza, eyðingu Ísraelsríkis á dagsskránni.
Þessu ófremdarásstandi í Öryggisráði SÞ breytir Ingibjörg Sólrún auðvitað þegar hún fer í Öryggisráðið með hirð sína. Eða verður hún strengjabrúða Ghadaffis og arabaríkjanna. Það verður hált á bónuðum gólfum friðarins í New York. Imba gæti hæglega orðið trúður í öryggissirkusnum SÞ.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði í Fréttablaðinu í gær að hún sæi ekki ávinninginn af því að slíta sambandinu við Ísrael, þrátt fyrir að Ísraelsmenn væru að "hóprefsa" Palestínumönnum á óafsakanlegan hátt". Fullreyna þyrfti opinberar leiðir, svo sem öryggisráðið. Og að alþjóðasamfélagið léti í sér heyra. Ráðherrann getur hér séð hvers virði öryggisráðið er.
Hvað eru árásir Hamas á Ísrael annað en hóprefsingar? Er enginn heil brú í því sem blessunin hún Ingibjörg er að gera og hugsa. Það skýtur skökku við þegar ráðherrann bíður þangað til byssurnar þagna í Darfúr http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/294226/ .
Svo kom það fram í gær að Vinafélag Palestínumanna á Íslandi telur Hamas lýðræðislega kosna stjórn Gaza. Það er sorglegt að sjá að læknir í lýðræðisríki, Sveinn Rúnar Hauksson, álíti að hryðjuverkasamtök sem stjórnuðu "kosningum" með byssuhlaupi og ógn séu lýðræðisleg.
Palestínumenn fagna morðárásinni á rabbínanemana
Yohai Livshitz, 18 ára
Neria Cohen, 15 ára
Segev Peniel Avihail, 15 ára
Avraham David Moses, 16 ára
Yonatan Yitzhak Eldar, 16 ára
Yonadav Haim Hirschfeld, 19 ára
Roee Roth, 18 ára
Doron Meherete, 26 ára
ז״ל
Kynning | Breytt 8.3.2008 kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
5.3.2008 | 10:51
Mussolini leiðtogi múslíma
Er þetta andlit Múhameðs? Vonandi verð ég ekki drepinn fyrir þessa spurningu af múslímum sem ekki vita að Kóraninn bannar einvörðungu múslímum að sýna ásjónu spámannsins. Ekkert bann er við því að vantrúaðir teikni hann. Ég tek það skýrt fram, að ég birti ekki þessa mynd fyrstur. Hún er gömul. En spurningin er réttmæt og allt skýrist við áframhaldandi lestur.
Eftir að Mussolini, sem myndin á auðvitað að sýna ásamt landakorti hugaheima hans, hafði framið óskunda og fjöldamorð í Eþíópíu, ofmetnaðist hann. Hann setti fram áform um að stofna nýtt Rómarveldi, sem átti að ná frá Palestínu í austri, vestur til Líbýu og suður til Kenía.
Fréttaritari Morgunblaðsins í Kaupmannahöfn lýsti á skemmtilegan hátt ferð Mussolinis til Líbýu árið 1937 (á blaðsíðu 2 þann 16. mars 1937). Greinin var að mestu var soðin upp úr grein í The Times. Hér eru nokkur brot:
"Sigurför" Mussolinis um Libyu. Hann vill vera verndari alls Islams.
Arabar ávarpa hann "hinn mikla Mussolini".
Bíða eftir tækifæri til að votta þakklæti sitt.
Athyglisverðasti árangur fararinnar er þó talinn sá, að Arabar, einkum málsmetandi Múhameðstrúarmenn hafa vottað Mussolini hollustu sína. Þúsundir innfæddra manna hafa tekist á hendur langferðir úr fjarlægum hjeruðum og ferðast mörg hundruð mílur til þess að sjá Mussolini, "verndara Islams".
Kadi (dómarinn) í Dena ávarpaði Mussolini á þessa leið: "Mikli Mussolini, þú getur treyst því, að hinar fjögur hundruð miljónir Múhameðstrúarmanna í heiminum hafa í miklum metum hollustu þina við Islam, og vjer vonum að oss gefist tækifæri til að votta þjer þakklæti vort".
Þessu svaraði Mussolini: "Ítalir vernda Islam hvar sem er í heiminum".
Il Duce átti greinilega upp á pallborðið hjá múslímum
Svo gerðist hræðilegur atburður sem líka er sagt frá í Morgunblaðinu þennan sama dag. Naut nokkuð, sem ekki bar eins mikla virðingu fyrir Mussolini og múslímar, gerði sér lítið fyrir og réðst að Mussolini: "Balbo marskálkur, landstjóri í Líbyu bjargaði Mussolini undan mannýgu nauti þegar einræðisherrann og föruneyti hans var i Bengasi (hafnarborg við Miðjarðarhafið) í gær. Nautið rjeðist að Mussolini sett undir sig að [sic] Mussolini, en Balbo brá skjótt við og lagði nautið á hornunum. Sjálfur stóð Mussolini óhreyfanlegur."
Nautabaninn Balbo var enginn annar en Italo Balbo (1896-1940), flughetjan og svartstakkurinn sem kom við á Íslandi árið 1933 þegar hann flaug yfir Atlantsála. Hann varð landstjóri Líbýu árið 1934. Gárungar á vesturlöndum kölluðu Líbýu á þessum tíma "Balboland". Mussolini hafði sent Balbo til Líbýu því þeir voru ekki miklir vinir. Endalok hans urðu nú álíka ömurleg og hins stjarfa Mussolinis, því hann var skotinn niður í flugvél sinni af ítölskum loftvarnasveitum í Líbýu og telja sumir það hafa verið gert að undirlagi Mussolinis. Balbo var eini meðlimur fasistaveldisins á Ítalíu sem var mótfallin kynþáttalögum sem sett voru á Ítalíu gegn gyðingum árið 1938. Þó hann hafi fyrirskipað gyðingum í Líbýu að hafa búðir sínar opnar á hvíldardeginum, kom hann í veg fyrir að kynþáttalögum Generalissimos Mussolinis yrði framfylgt meðan hann var hundraðshöfðingi í landinu. Eftir dauða hans var evrópskum gyðingum smalað frá Lýbíu í útrýmingarbúðir nasista.
Á sömu blaðsíðunni í Morgunblaðinu árið 1937 má sjá litla frétt um 8 Gyðinga sem myrtir voru í Palestínu, sem er auðvitað ekki í frásögur færandi þá frekar en í dag, þegar sumar Íslendingar hamast í heitu ástarsambandi við hryðjuverkasamtök í Miðausturlöndum og hata gyðinga eins pestina.
Það voru fleiri fréttir á þessari merku blaðsíðu í Morgunblaðinu árið 1937: Franco vildi borga með sherry fyrir Færeyjasaltfisk og upplýst var að rauðliðar hefðu fyrr fengið greitt með appelsínum fyrir fiskinn. Var þetta tilfellið með Íslandsfiskinn. Var hann ekki líka seldur til Mussolinis?
Enn merkilegri er þó fréttin um Kristján X, sem heimsótti Hitler:
"Kristján konungur X, sem nú er staddur í Berlín, hefur heimsótt fyrrverandi ríkiserfingja Þýskalands og ennfremur hefir hann heimsótt Hitler". Mér sýnist á öllu að danska konungsfjölskyldan ætli ekki að gefa mér leyfi til að skoða það mál niður í kjölinn, þótt enginn sagnfræðingur hafi haft rænu á því að fjalla um heimsóknina.
Kynning | Breytt 21.11.2013 kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2008 | 21:49
Gagnauglýsing
Nú er aftur farið að auglýsa á blog.is. Kapítalisminn gefur og kapítalisminn tekur. En hver vill auglýsa á bloggi mínu? Það gæti komið ljótu orði á vöruna sem er verið að auglýsa.
Þeir sem eru æfir út í auglýsingabáknið og vilja báknið burt, ættu að búa til mótauglýsingar. Það gæti hugsanlega fengið Mbl.is ofan af þessum ósið.
Burt með NOVA!
Kynning | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
6.2.2008 | 12:21
Leitin að dóttur Fischers
DV greinir frá leitinni að Jinky Ong í dag. Ég er ekki búinn að sjá hvað þar stendur, en ég vona að það séu fleiri að leita að Jinky en ég og Greta Björg Úlfsdóttir. Eins og ég tjáði blaðamanni DV í gær, vona ég að leitarmálið sé nú í góðum höndum hjá filippseyska innanríkisráðuneytinu. Filippseyjar eru mjög fjölmennt land og skráningar á mannfólkinu ekki með sama hætti og á Íslandi.
Egill Helgason segist oft hafa séð Fischer og Miyoko saman á gönguför, og trúir því ekki að ættingjar hans í Bandaríkjunum hafi kært sig mikið um hann.
Ekki held ég að þetta sé rétt hjá Agli. Bróðir Fischers, Peter (Björn) Nemenyi, sem dáinn er fyrir nokkrum árum var að minnsta kosti í góðu sambandi við Bobby Fischer. Faðir þeirra beggja, Paul, greiddi meðlög og kvartaði til yfirvalda yfir því hvernig móðir Bobbys ól hann upp.
Kynning | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.2.2008 | 10:30
Líkrán og ljúgvitni
Í gær hafði varaforseti Skáksambands Íslands, Óttar Felix Hauksson, samband við stuðningshópinn fyrir Jinky Ong Fischer, sem ég og Greta Björg Úlfsdóttir reynum að byggja upp á bloggum okkar á milli annarra hugleiðinga og starfa. Í ljósi þeirra upplýsinga sem varaformaður kemur með og þeirra upplýsinga sem ég miðlaði í gær um reglur sem gilda fyrir bandaríska borgara sem giftast japönskum ríkisborgurum í Japan, má ætla að fleiri en einn glæpur hafi verið framinn í tengslum við lát Róbert J. Fischers. Það virðist svo að það sé enn meiri ástæða nú en áður, að leita uppi Jinky Ong, sem sögð er vera dóttir Fischers.
Þetta skrifaði Óttar til Gretu og mín:
Ég er varaforseti Skáksambands Íslands. Ég var að koma heim frá Frakklandi nú í vikulokin. Ástæða þess að þú hefur ekki náð sambandi er líklega sú að ég notaði þarlent símakort meðan ég var staddur í Frakklandi. Ég er hræddur um að sjálfur Arnaldur Indriðason hafi varla það hugmyndaflug sem þarf til að láta sér detta í hug þá atburðarás sem orðið hefur. Það líkist ótrúlegri bíræfni af hálfu Garðars Sverrissonar að hlutast til um að lík skákheimsmeistarans var flutt austur fyrir fjall í myrkrinu að morgni mánudagsins 21. janúar, huslað þar niður í kirkjugarði á býli tengdaföður Garðars Sverrissonar og ekki einu sinni sóknarprestinum gert kunnugt um gjörningin, líklega í fyrsta skipti í íslenskri kirkjusögu!. Þetta virðist kalla á lögreglurannsókn. Mér sýnist réttast að borgaryfirvöld biðji lögreglustjórann í Reykjavík að taka skýrslu af Garðari, lækni þeim er gaf út dánarvottorðið, ábyrgðarmanni þeirrar útfararstofu sem sá um kistulagninguna tæpum sólarhring eftir dauða Fischers og Jakobi Rolland kaþólska prestinum sem jarðsöng Fischer. Það lítur út fyrir að Garðar hafi gert sig myndugan í þessu máli gagnvart öllum aðilum, lækni þeim sem gaf út dánarvottorðið og sennilega afhent Garðari það og svo starfsmanni/mönnum útfararstofnunar þeirrar sem flýttu líksnyrtingu og kistulagningu sem fram fór föstudaginn 18. janúardaginn eftir dauða Fischers, svo og Jakobi Rolland kaþólska prestinum. Það virðist sem Garðar hafi látið í veðri vaka að hann hefði umboð eiginkonu hins látna. Líklegt verður að teljast að Garðar Sverrisson hafi því haft áætlun um framangreinda atburðarás strax við dauða Fishers. Mér var tjáð að Garðar hafi á fundi sínum við aðila tengda RJF hópnum ekki minnst einu orði á jarðsetninguna sem í vændum var. Mér skilst að á kvöldi sunnudagsins hafi hann farið hann suður á Keflavíkurflugvöll að sækja Miyoko Vatani og fer með henni og fjölskyldu sinni austur að Laugdælum þar sem tengdafaðir hans og mágur búa. Þar gista þau og snemma morguns koma líkbíllinn og presturinn og jarðsetning fer fram skammt frá gangstéttarkanti kirkjustéttarinnar. Enginn kross, ekkert. Maður sá bara moldarhrúgu í sjónvarpinu í kvöldfréttunum og glaðbeittan mág Garðars á gröfu sinn, hann virtist hinn ánægðasti. Merking orðsins "líkrán" hlaut nýja og eiginlegri merkingu í mínum huga við frétt þessa. Hverjir eru aðstandendur? Ef Garðar Sverrisson segir " að þetta sé að ósk hins fallna meistara" þá læt ég mér fátt um finnast. Arfleifð Bobby Fischers og íslenskrar skáksögu er stærri en svo að hann geti huslað heimsmeistaranum niður nánast í kálgarðinum hjá tengdapabba sínum. Reykjavíkurborg, sem Fisher kom á heimskortið og Skákakademía Reykjavíkur eiga að fara þess á leit við lögregluyfirvöld að þau, í samvinnu við sýslumanninn á Selfossi flytja líkið í kirkjugarð í Reykjavík og þeir aðalmenn sem upphaflega hvöttu forsætisráðherra Davíð Oddson að beita sér fyrir lausn Fishers úr fangelsinu í Japan ( giftingarpappírar Miyoko Vatani reyndust gagnslausir). Menn eins og Friðrik Ólafsson stórmeistari, Guðmundur G. Þórarinsson forseti Skáksambands Íslands í heimsmeistaraeinvíginu og síðast en ekki síst Helgi Ólafsson sem ötulastur allra hért á landi hefur verið að halda merki Fishers á lofti. Þetta eru mennirnir sem bera eiga kistu Fishers til grafar með sæmd í Reykjavík. Þar verði reist leiði sem skákáhugamenn hvaðanæva úr heiminum hafi aðgengi og geta vottað þessum merkasta heimsmeistara skáksögunnar virðingu sína. Garðar Sverrisson var alltaf í mínum huga aftaníossi þeirra manna er kölluðust RJF hópurinn. Þetta er svipað eins og Björgvin Halldórson vinur minn myndi orða það: "Söngvarinn er dáinn og nú er rótarinn búinn að reka alla í hljómsveitinni, tekur öll sólóin sjálfur og segir það vilja hins fallna meistara".
Kynning | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
2.2.2008 | 08:49
Bobby Fischer was her Chessmate
Mig langar til að benda lesendum á mjög áhugaverða færslu Gretu Bjargar Úlfsdóttur í gær, þar sem hún fer í gegnum mótsagnir í fréttum um meint hjónaband Fischers og Myoko Watais. Blaðamenn Morgunblaðsins gætu lært ýmislegt af Gretu.
Við Greta höfum tekið það dálítið inn á okkur hvað Íslendingar eru sljóir þegar að kemur að rétti lítils barns frá Asíu. Ég leyfi mér að lýsa því yfir, án samráðs við Gretu, að sá sljóleiki sé í ætt við þá litlu virðingu sem Íslendinga hafa alltaf borið fyrir erlendu fólki. Í mörg ár hefur maður orðið vitni að því hvernig íslenskir aumingjar hafa getað flutt inn konur á fæti frá Asíu, og sumir þeirra gert líf þessara kvenna að helvíti á jörð, misþyrmt þeim og jafnvel myrt. Mörg slík sambönd eru auðvitað líka vel heppnuð.
Mig langar einnig að benda lesendum á, að í Japan eru engin hjónabönd löggild nema að yfirvöld hafi viðurkennt þau. Það er alveg sama í hvaða hofi, kirkju eða samkunduhúsi maður er pússaður saman. Hjónabandið er ekki löglegt fyrr en yfirvöld hafa viðurkennt það.
Þá kemur hið áhugaverða: Allir erlendir borgarar sem vilja giftast Japana í Japan verða samkvæmt japönskum lögum, (sem BNA færðu þeim í lok síðari heimsstyrjaldar), að framvísa staðfestu vottorði um að þeir séu hæfir og lagalega séð frjálsir til að ganga í hjónaband, og verður slíkt vottorð að koma frá sendiráði útlendingsins eða ræðismannsskrifstofu heimalands hans í Japan.
Bandaríkjamenn, sem vilja giftast Japana í Japan, verða þannig að nota ákveðið eyðublað, sem þeir geta fengið hjá Bandaríska sendiráðinu og verður að útfylla það bæði á ensku og japönsku.
Allt í sambandi við hjónabönd í Japan, og meira til, er hægt að lesa hér .
Þetta sýnir mér, að miklar líkur séu á því að forseti skáksambands Japans, Myoko Watai, fari með rangt mál um samband sitt við Robert J. Fischer. Hann hafði ekkert samband við bandarísk yfirvöld og þau hefðu ekki farið að veita honum heimild til hjónabands þegar hann var eftirlýstur fyrir brot á bandarískum lögum.
Svo einfalt er málið. Þeir íslendingar sem halda því enn fram að Watai hafi verið gift Bobby Fischer, ættu kannski að fara kynna sér ákvæði hegningarlaga við slíku.
Kynning | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.1.2008 | 23:07
Hinn margsaga Johnny Bosnitch
Ég leyfi mér að furða mig á þessari yfirlýsingu Hr. Bosnitchs um að hann hafi verið vitni við brúðkaup Bobby Fischers og Myoko Watais.
Þegar Fischer var leystur úr haldi sagði Hr. Bosnitch aldrei annað en að Myoko Watai væri unnusta Fischers. Hann talaði um að hann ætlaði í mál við japönsk yfirvöld fyrir Bobby Fischer, þessi viðbjóðslegu yfirvöld, sem Fischer kallaði svo, um það leyti sem Bobby Fischer vildi gerast þýskur borgari.
Það var kannski ástæða til að leyna þessum hjúskap þangað til nú? Sér John Bosnitch einhverja sérstaka þörf á því að segja Íslendingum sannleikann nú?
Þegar Hr. Bosnitch talaði við umsjónarmann ástralsks útvarpsþáttar, sem ber nafnið PM kl. 18:29 þann 4. mars 2005 sagði hann þetta:
Þegar Bosnitch talaði við PM, virðist brúðkaupið sem talað var um árið áður enn ekki hafa átt sér stað. Hvenær giftist þá Watai Bobby Fischer? Þegar þessi frétt Reuters var skrifuð var brúðkaupið ekki orðið að veruleika. Meira að segja þegar þetta var skrifað virðast menn ekki hafa verið í vafa um það á Íslandi að Myoko Watai væri aðeins unnusta Fischers.
Allur vafi ætti samt að vera úr sögunni á næstu dögum. Frumgögn úr japanska fangelsinu eru væntanleg til Íslands, hins hugrakka lands hins sannarlega frjálsa manns, eins og Bosnitch orðar það. Hugrakkt land (Serbía) og frjálsir menn hafa reyndar líka verið drifkrafturinn í öðrum skrifum Bosnitch um óskir alþjóðasamfélagsins um réttarhöld yfir serbneskum stríðsglæpamönnum. Bosnitch hefur í mjög tilfinningaríkum bréfum um skoðanir sínar á því að Serbía eigi að halda sig utan Evrópubandalagsins lýst þessu yfir: "Let's stay in step with people like the British UKIP (Independence Party), Switzerland, and Iceland... people who know the difference between a con and a good deal".
Gera Íslendingar það?
Segist hafa verið vitni að giftingu Fischers og Watai | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kynning | Breytt 28.1.2008 kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.1.2008 | 09:17
Stuðningshópur Jinky Ong Fischers
Síðustu daga hefur verið rætt opinberlaga um arfinn eftir Róbert J. Fischer. Í umfjöllun fjölmiðla virðist sem Jinky Ong Fischer, meint dóttir Fischers á Filippseyjum, hafi þegar verið útilokuð frá því að erfa eitt eða neitt eftir föður sinn.
Miðað við aðrar upplýsingar um Jinky Ong, verður þó að gera ráð fyrir því að hún geti verið dóttir hans. Það verður auðvitað að sanna, líkt og Watai, meint eiginkona Fischers, þarf að sanna að hún hafi gifst Fischer.
Greta Björg Úlfsdóttir kom með mjög áhugaverða punkta á bloggi sínu í gær, og á síðustu færslu mína um dóttur Fischers. Hún stakk upp á stuðningshópi fyrir Jinky Ong Fischer.
Ég leyfi að taka undir þá tillögu og legg til að fólk skrifi hér í athugasemdir eða á bloggsíðu Gretu, að það vilji styðja slíkan hóp. Í framhaldi af því yrði hægt að stofna stuðningshópinn formlega og finna lögfræðing sem gæti varið rétt Jinky Ong.
Markmið hópsins myndi vera:
- Að komast úr skugga um hvort Jinky Ong er dóttir Fischers.
- Að stuðla að því að haft verði upp á henni hið fyrsta.
- Að stuðla að því að hún komist til Íslands.
- Að stuðla að því að hún erfi föður sinn (reynist meint faðernið rétt), samkvæmt íslenskum lögum.
Ef slíkur hópur er þegar til, ber að fagna því og myndu þeir sem styðja slíkt átak hér væntanlega ganga í og styðja þann hóp.
Kynning | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 81
- Frá upphafi: 1352296
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 53
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007