Færsluflokkur: Vísindi og fræði
15.12.2007 | 01:04
Er James Watson kvenmaður?
Erfðamassinn í James Watson hefur verið mér ofarlega í huga síðustu dagana. Hér kemur fjórða færslan um málið. Ég hef beðið líffræðing og líkindareiknimeistara að líta á gögnin sem eru aðgengileg á veraldarvefnum. Þeir telja að það geti verið skekkja í mælingunni "eins og getur verið með allar mælingar", og að "Kári Stefánsson hafi greinilega lesið of mikið úr möguleikanum á negrum í fjölskyldu Watsons" Einnig gæti ýmislegt bent til þess að James Watson sé í raun kona, því ýmislegt geti bent til þess að að Watson sé með tvo X litninga samkvæmt rannsókninni.
Miðað við hinn mikla kostnað við raðgreiningu (genssekvenseringunni) á erfðamengi Watsons og hvað niðurstöðurnar eru gruggugar, er vart að hafa allan vara á þeirri þjónustu sem deDOCE býður upp á fyrir aðeins 62.000 krónur. Sér í lagi þegar Kári er að gera negra úr erfðamengi manna í alþjóðlegum fjölmiðlum. Ekki ber þó að skilja þetta þannig, að ég kenni í brjósti um Watson eftir að hann er orðið dálítið svartur. Vísindi eiga einfaldlega ekki að fara á það stig sem Kári virðist hafa fært þau á með þessu skrítna upphlaupi sínu. Var hann að selja sína raðgreiningarþjónustu með niðurstöðum annarra? Það hefur aldrei þótt fín aðferð.
Mér var í þessu sambandi hugsað til Wayne Joseph, sem er skjólastjóri í Chino i Kaliforníu. Hann sendi lífsýni til fyrirtækis sem selur slíka þjónustu og fékk harla merkilegar niðurstöður. Eftir að hafa lifað sem Kreóli, og halda sig hafa "negrablóð" í æðum í ein 50 ár fékk hann næstum því áfall þegar hann las niðurstöðuna um uppruna genasamsetningu sinnar: Því var haldið fram að hann væri 57 % indóevrópumaður, 39 % indíáni, 4% Asíumaður og 0% negri. Wayne Joseph var ekki lengur svartur samkvæmt genarannsóknum.
Hvað gerðist? Óð heil fjölskylda í villu um uppruna sinn eða eru rannsóknir þær sem boðið er upp á of óáreiðanlegar. Ég hallast að því að genarannsóknir séu ekki komnar á það stig, að hægt sé með góðri samvisku að bjóða upp á það sem Kári gerir.
Hvað varðar Watson, þá voru þeir sem kortlögðu erfðamassa hans búnir að lýsa því yfir að þeir myndu túlka það í grein sem mætti vænta á næstunni. Michael Egholm, varaframkvæmdastjóri fyrirtækisins 454 Genetics i Connecticut, hefur upplýst mig í tölvubréfi að verið sé að vinna að greininni og sé hún væntanleg. Hann gefur lítið fyrir niðurstöður Kára.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 14:34
Eru Íslendingar greindastir meðal hvítra manna?
Kári Stefánsson, vísindamaðurinn íslenski, er fyrst nú orðinn heimsfrægur. Og það fyrir að gera negra úr James D. Watson nóbelsverðlaunahafanum, sem lítur niður á svart fólk. Kári virðist hafa verið svo uppveðraður af "uppgötvun" sinni, að hann hoppaði á einum fæti um hálfa Ameríku og montaði sig af henni í nóvember síðastliðnum.
Hann kom t.d. við á skrifstofu tímaritsins Scientific American og þar greindi hann mönnum frá hinni fögru nýju þjónustu, sem hann er farinn að bjóða upp á fyrir minna en 1000 $ á manninn. Nikhil Swaminathan (sem er dulnefni fyrir léttgeggjaðan, en skemmtilegan mann, sem heldur úti bloggi á síðum Scientific Americans) skrifar þetta um heimsókn Kára:
" File Under: Hearsay:Earlier this week, Kari Stefansson, a well-known geneticist and the founder of deCODE, an Icelandic company specializing in translating human genetics into drug development and diagnostic tools, stopped by the Scientific American offices to talk about a new project: For less than $1,000, anyone can send his company a cheek swab and get his or her genome scanned. Then, via the decodeme.com website, they can review a number of predetermined complex genetic disorders to assess his or her relative risk for developing maladies such as diabetes, myocardial infarction and even restless leg syndrome.
In addition, you can check your ancestry to get an idea of the geographical distribution of their forefathers. According to Stefansson, when he put in James Watson's genome, which was sequenced earlier this year and made publicly available, the legendary geneticist turned out to be 20 percent African. (When we checked his claim, it was more like 16 percent, but with rounding, fine.) Stefansson remarked that the ancestry test suggests that Watson had at least one African ancestor within two or three generations of his birth.
Like I said, this is just gossip. But it would be ironic. Don't cha think? A little too ironic. "
Þið getið lesið alla greinina á Scientific American http://science-community.sciam.com/thread.jspa?threadID=300005381 og eins grein í The Scientist
Á þessu sést að Kári var að tala um 20% negragen þegar hann var í heimsókn hjá Scientific American. Nú er hann búinn að draga í land og talar um 16%. Bíðið við, hvað hefur gerst?
Kári gleymir orðum sínum um nauðsyn ættfræðinnar. Því miður, fyrir Kára og þá sem trúa á túlkun hans á erfðamengi Watsons, eru ættir James Watsons nokkuð vel þekktar aftur á 19. öld. Engir "svartir" þar eða "asískir". Til að fræða Kára Stefánsson og ykkur hin "sem á hann trúið", þá er hér ágæt úttekt á ætt James Watsons og hér getið þið lesið fyrsta kaflann í sjálfsævisögu mannsins.
En hvernig varð þá þekktasta niðurstaða Kára, fyrr og síðar, til? Kári vill ekki tjá sig um neitt samkvæmt Scientific American.
Kári verður að fara að sýna þá skrafreifi sem hann sýndi nýlega af sér á skrifstofu Scientific American og skýra málið. Í leiðinni gæti hann útskýrt fyrir okkur hvernig stendur á því að hann er komminn af einum eða einhleypum Víkingi: "Kari Stefansson can trace his lineage back to a single Viking". Ja, því er að vísu haldið fram á http://www.time.com/ og segir þar að margir Íslendingar séu í sömu skóm og Kári. Ég er ekki einn af þeim. Víkingarnir í mínum ættum voru sko ekki single.
Ef ég yrði einhvern tíma svo aðþrengdur, að ég þyrfti að sækja mér þjónustu hjá Kára Stefánssyni og Co, þá myndi ég velta 1000 dollurunum aðeins í lófanum áður en ég afhenti þá. Það kæmi mér hins vegar alls ekki að óvart ef töluvert væri af svörtum, gulum og áður ófundnum genum innra með mér mér. En hverju skiptir það?
Eitthvað í blóðinu í mér er nú farið að búa til rapp-vísu með dillibossum, gullkeðjum, köggum og öllu tilheyrandi um þessi merku tíðindi, en ég læt ykkur sleppa við það í þetta sinn. Þið fáið það kannski seinna.
Þangað til getið þið lesið um málið í tveimur fyrri færslum mínum hér og hér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.12.2007 | 11:44
Kári Svartlitningur
how I love you, how I love you...... Ó, ó, ó Kári
Kári Stefánsson er búinn að gera eins konar svertingja úr Dr. James Watson, sem deildi nóbelsverðlaununum árið 1962 með Crick og Wilkins fyrir að lýsa byggingu DNAsins
Nýlega talaði hann illa um negra (svarta, blökkumenn) og sagði þá vera minna greinda en hvíta manninn. Það þurfti Watson að éta ofan í sig aftur.
Nú berast fréttir utan úr heimi um að einhver Kari Stefansson sé búinn að greina erfðamassann í Watson fyrir blaðið Independent og segir niðurstaða Kara, að Watson sé 16 % negri (svartur, blökkumaður, black American, you name it).
Kannski komu þessi vitlausu og ógreindu ummæli Watsons um blökkufólk út úr honum vegna þess að hann er 16% blakkur?
Nú getur víst enginn verið óhultur fyrir Kára Svartlitningi.
Sjá: http://news.independent.co.uk/sci_tech/article3239366.ece
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2007 | 07:24
Ástand fyrri alda bjargaði íslensku þjóðinni
Í framhaldi af umfjöllun minni um kvikmyndina Iceland, er ætlun mín kynna eitt minna "lista"verk. 1940-41 gaf S.S. út þrjá bæklinga í Reykjavík sem báru titilinn "Setuliðið og Kvenfólkið". S.S. var ekki Sláturfélag Suðurlands eða Stormsveitin, heldur Steindór nokkur Sigurðsson rithöfundur (1901-1949). Steindór skrifaði líka aðrar predikanir undir dulnefninu Arnór Liljan Krossness um dáta sem dufluðu "stúlkukrakka". Steindór var íslenskur karlmaður sem ástandið fór mjög illa með.
Steindór karlinn var hræddur við það sem hann kallaði "þjóðernislega tortímingu". Skriftir hans voru greinilega knúnar af kenndum sem Siegmund Freud hefði getað skýrt betur en ég. En ekki myndi það undra mig ef Steindór hefði aldrei verið við kvenmann kenndur þegar ruglið lyppaðist úr honum á blað og inn einhverja kjallaraprentsmiðju, sem gaf óra hans út.
Tökum eitt gott dæmi um kvennalýsingar í einu af heftum Steindórs:
"En það verðum við þó að hafa hugfast, eins og áður hefur verið tekið fram, að ennþá er mikill meiri hluti ísl. kvenþjóðarinnar, sem betur fer, hrein af þessum málum. En daglega fjölgar þeim dætrum Íslands, sem ganga á hönd hins útlenda setuliðs. Það er eins og illkynjaður bráðsmitandi sjúkdómur sé að grafa um sig í Þjóðarlíkamanum".
Ef hin kvenmannslausi Steindór hefði verið uppi á 17. öld hefði hann væntanlega sýnt af sér vasklega framgöngu í Spánverjavígunum og í dag er andlega ættingja hans kannski að finna í Frjálslynda flokknum.
Að mínu mati bættu "kerlingar og stúlkukrakkar" og margar aðrar tegundir kvenna, sem Steindór skrifar um, kynstofninn. Setuliðið í Seinna Stríði og á Miðnesheiði var kærkominn möguleiki til þess að bæta kynstofninn. (Fantafemínistar geta mótmælt ef þær vilja, en aðeins með brjóstmynd og fullu nafni). Ef þjóð á stærð við Íslendinga, sem oft var í útrýmingarhættu vegna harðinda og skyldleikaræktar, hefði ekki gegnum tíðina fengið um 3% + nýjung í upphaflega erfðamassann, væru Íslendingar ekki til í dag. Karlar eins og Hermann Jónasson og konur hans sýndi okkur hvað lítill "fjölbreytileiki" og takmörkuð nýjungagirni gat verið í dreifingu hins íslensks erfðamengis.
Ekki veit ég hvernig konur skipuleggja þetta. Konur eru náttúrulega vandfúsar, og rannsaka vel gripinn áður en hann er settur á bás, nema að mikil harðindi séu fyrir dyrum. En þökk sé þeim, dóu Íslendingar ekki út í afdölum á 15. öld. Konur björguðu, og bjarga líklega enn, íslensku þjóðinni. Gekk þetta hjálparstarf oft undir ljótum heitum, eins og t.d. saurlifnaður. Þegar náskylt fólk af "alíslenskum" ættum var að fjölga sér saman, var hins vegar talað um ástir.
En nú eru aðrir tímar. Herir manna, sem gengu í pressuðum fötum og höfuð nælonsokka, tyggjó og annað gott í vösunum, er farnir og í stað þeirra komnir afkomendur öreigalýðs Rússnesku byltingarinnar, sem eru á lágmarkslaunum hjá íslenskum þjófahyski. Það þykir greinilega lítið varið í erfðamengi farandverkamanna frá Eystrasaltslöndunum og menn þaðan, sem kannski eru staddir hér í öðrum erindagjörðum en að láta arðræna sig af íslenskum kollegum, virðast vera fremur iðnir við að nauðga sig fram úr kvenmannsleysi sínu á Íslandi. Það er ljót þróun.
Þessi mynd er frá 19. öld og sýnir íslenskar stúlkur afklæða franskan ferðalanga og þvo honum hátt og lágt, líkt og japanskar geishur gera í ákveðnum hafnarhverfum Yokohama. Mitt sauruga ímyndunarafl segir mér að eitthvað gæti hafa gerst eftir þennan þvott, sem ekki var teiknað, en sem t.d. leiddi til þess að brún augu og brátt skap eru líka til á Íslandi. Í kirkjubókum var ávöxtur samfaranna "feðraður rétt", til að koma í veg fyrir óþarfa vandamál. Allar kirkjubækur Kára Klóns eru því rugl.
Ástandið er, og var, harla gott frá mínum bæjardyrum séð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.12.2007 | 16:37
ICELAND - Þegar Íslendingar urðu til þess að bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn var ritskoðaður
Fyrr á árinu skrifaði ég um hve illir Íslendingar gátu oft orðið, og verða enn, þegar að mannorði þeirra og menningu er vegið á erlendri grundu. Þá sagði ég frá "albínóum" í Þýskalandi á fjórða tug síðustu aldar, sem þóttust vera Íslendingar, og fóru slíkir loddarar fyrir brjóstið á íslenskum lækni sem þá var búsettur í Þýskalandi. Íslendingar eru ekki albínóar, bara dálítið fölir.
Árið 1942 kom á markaðinn bandaríska kvikmyndin Iceland, sem fjallar um ástir íslenskrar stúlku og bandarísks hermanns. Myndin er listskautamynd með norskættuðu skautadrottningunni Sonju Henie og hjartaknúsaranum John Payne í aðalhlutverkunum. Þetta var víst ósköp ómerkileg Hollywood klisja
Morgunblaðið greindi fljótlega frá þessari kvikmynd vegna þess að hinn voldugi kvikmyndagagnrýnandi við New York Times, Bosley Crowther (1905-89), fór ekki mjög lofsamlegum orðum um innihald myndarinnar og þótti hún til þess fallin að skapa Bandaríkjunum óvildarmenn og skemma vináttu á milli þjóða. Gangrýnandi The Washington Post tók í sama streng.
Yfirvöld á Íslandi höfðu strax samband við sendifulltrúa sinn í Washington, sem hefur líklega brugðið sér strax í bíó og orðið fyrir smá áfalli þegar hann sá Iceland. Myndinni var mótmælt harðlega af sendiherranum, Thor Thors. Morgunblaðið greinir frá því 18. desember 1942 og segir að fyrir óskir sendiherrans hafi nafni myndarinnar verið breytt og það sem í henni var, og sem tengdist Íslandi, hefði verið fjarlægt.
Í ársbyrjun 1943 er greint frá því, að vegna þessarar kvikmyndar og annarrar, "A Yank at Eton", hafi bandarísk yfirvöld krafist þess að lesa yfir handrit allra kvikmynda bandaríska kvikmyndaiðnaðarins áður en þær fóru í framleiðslu - Mótmæli smáþjóðar sem ekki einu sinni hafði séð kvikmyndina Iceland, olli því að ritskoðun hófst í kvikmyndaiðnaðinum í Bandaríkjunum á stríðsárunum. Það þykir mér nokkuð merkilegur áfangi í íslenskri sögu. Mér er í því sambandi hugsað til nokkurra Múhameðsteikninga sem teiknaðar voru í Danmörku nýlega.
Kvikmyndin Iceland fékk eftir sýningar í Bandaríkjunum nýtt nafn, Katina, en það nafn virðist ekki hafa fest sig í sessi, því myndin var t.d. sýnd á Stöð 2 fyrir 20 árum síðan undir nafninu "Iceland". Myndin var einnig sýnd með því nafni í Reykjavík árið 1944 og virðast mótmælin ekki hafa ekki verið eins sterk þá og 1942.
Þórður Albertsson (1900-72), fiskútflutningserindreki, sem árið 1942 var umboðsmaður Lýssissambands Íslenskra Botnvörpunga í New York, skrifaði Morgunblaðinu og lýsti kvikmyndinni. Læt ég lýsingu hans nægja:
Hjer hefur myndin fengið frekar slæma blaðadóm. Finst flestum sem efni myndarinnar sje ákaflega lítilfjörlegt og illa samið, en að það sjeu náttúrulega skautasýningar Sonju Henie, sem eigi og muni draga fólk að myndinni. Er það einkum stórblaðið "New York Times" (15. Október), sem tekur málstað Íslendinga. Skal jeg nú skýra frá, hvernig myndin kemur mjer, sem Íslending, fyrir sjónir. Það er þá fyrst, að þessi íslenska fjölskylda, foreldrar Katinu (Sonju), sem reka kaffistofu í Reykjavík og sjást mikið gengum alla myndina, eiga ekkert sameiginlegt með íslenskri fjölskyldu, heldur koma fyrir og leika sem væru leikararnir að sýna fjölskyldulíf t.d. í Palestínu, en það tekst ágætlega og er alveg "ekta" (jeg hef sjálfur verið í landinu helga). Undirlægjuháttur, peningaágirnd, níska, og alls konar fleðulæti með viðeigandi (óíslensku) handapati er það, sem einkennir þessa íslensku fjölskyldu. [Leturbreikkun blogghöfundar] Annað sjest ekki af Íslendingum í myndinni, nema sjálfur unnusti Katinu, og ísl. síldargrósseri og sonur hans. Er síldarkaupmaðurinn mjög ólíkur Íslendingi, og sonurinn svona góðlátlegur idíjót. En það er unnusti Katinu, sem er látinn heita Sven Sverdrup (og ætti því vitanlega að vera Svíi), sem kórónar allt í að gera okkur Íslendinga auvirðilega. Og, eins og ameríski blaðamaðurinn segir, myndi ekki ná í neina stelpu, hvað þá heldur skautadrottninguna Sonju Henie. Er hann látinn sitja eins og hálfbjáni og naga á sjer neglurnar, meðan að mótstöðumaðurinn tekur af honum stelpuna.
Í myndinni er þessi prestur, sem er látinn heita "Herrn Tegler"[Herr Sigvis Tegnar] og ætti því að vera þýskur, látinn ganga um á veitingahúsunum. Ef hann sjer Ameríkana með ísl. stúlku, gefur hann þeim nafnspjald sitt í auglýsingarskyni fyrir "giftingastofnun" sína. Hann er hinn fleðulegasti og sýnir áreiðanlega einhverja manntegund, sem búa sunnar á hnettinum en Íslendingar. Þegar hann er búinn að gifta þau Katinu og Ameríkanann, segir hann: "Tillykke og mange Börn" og bætir við á ensku: Það þýðir "Good luck and many children"
Aðrir Íslendingar sjást ekki í myndinni, nema skautafólk, sem fer í norska þjóðbúninga og dansar hálf-færeyska dansa á "Ólafsvökunni", en "innfæddir" hljófæraleikarar eru klæddir eins og svissneskir fjallgöngumenn. Tvisvar er talað um Eskimóa í myndinni. Í seinna skiptið segir ameríski hermaðurinn: "Fáðu Eskimóunum aftur skautana sína".
Ekkert sjest af bænum Reykjavík, engar götur aðeins skautahöllin, og þetta hótel Jorg, þar sem mjög fjölmenn og skrautleg hljómsveit leikur, og salirnir og dansgólfið er rúmgott og hið fegursta.
Það sem mjer finnst einna leiðinlegast við myndina er, að öll ísl. fjölskyldan og t.d. presturinn tala með greinilegum þýskum blæ, og er þetta augsjáanlega viljandi gert, því oft heyrir maður slíkt í myndum, þegar leika þarf þýska nasista. .....
Þó er skylt að geta þess, að kaffistofa sú, sem foreldrar Katinu reka í Reykjavík, er miklu snyrtilegri að öllu leyti en slíkar stofur heima. Það er satt að segja til háborinnar skammar, hvað slíkar stofur heima eru sóðalegar, að jeg tali ekki um þessar "holur", sem risið hafa upp með ástandinu. Það væri sannarlega meiri þörf á eftirliti, og að loka einhverjum af þeim, annars gæti verið að næsta Íslandsmynd sýndi eina slíka, eins og þær eru í raun og veru, og þá fyrst væri ástæða til umkvörtunar.
Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur, sem skrifaði um Iceland í Sagnir 13 árið 1992 kemst að eftirfarandi niðurstöðu: "Hins vegar virðast Íslendingar hafa tekið ótrúlega alvarlega áhrifin sem ein kvikmynd gat hugsanlega haft á viðhorf heimsbyggðarinnar til þeirra. Kannski helgaðist það af því hversu mótandi áhrif kvikmyndir höfðu á hugarheim þeirra sjálfra".
Þessi niðurstaða Eggerts stenst varla, þar sem Íslendingar höfðu ekki einu sinni séð kvikmyndina, þegar þeir fóru hamförum út af henni síðla árs 1942. Ef tekið er mið af lýsingu Íslendings í New York, sem sá myndina og sagði frá henni, fór mest fyrir brjóstið á honum að Íslendingar voru ýktir eins og einhverjir íbúar "Palestínu" sem töluðu með þýskum hreim. Það særði greinilega mest að Íslendingar yrðu að einhverjum fígúrum sem Bandaríkin börðust við, (þjóðverjum), og Þjóðverjar hötuðu, (gyðingum), og jafnvel að Eskimóum. Því sumir íslendingar höfðu lítið álit á nasistum meðan aðrir voru ekki minni gyðingahatarar en gekk og gerðist í Evrópu og BNA á þessum tíma.
En kannski var bjöguð landlýsing Iceland ekki svo fjarri lagi eftir alt. Í merkisgrein eftir Eggert Þór má lesa að ástandið varð nokkuð slæmt, að minnsta kosti ekki dans á skautum fyrir alla.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 11:34
Íslandsmissir Dana
Margt bendir til þess að danskir stjórnmálamenn hafi árið 1944 séð eftir því að hafa ekki sölsað Ísland almennilega undir sig og gert landið að nýlendu fyrr á 20. öldinni. Sömu stjórnmálamennirnir fengu sárabætur fyrir Íslandsmissinn. Þeir drekktu til dæmis sorg sinni með því að selja smjör til Þýskalands nasismans. Myndin sýnir þjóðverja skera danskt smjör úr tunnu. Maðurinn með litla, ljóta yfirvaraskeggið, sem stendur og fylgist með smjörskurðinum, er reyndar ekki Hitler. Hitler var grasaæta þótt að grasaætur harðneiti því.
Nýlega rak ég nefið niður í leynileg skjöl danska þingflokksins Venstre dags. 21. apríl 1944. Þau voru að minnsta kosti leynileg árið 1944. Venstre var, eins og fróðum mönnum má vera kunnugt, flokkur sveitanna og meginþorra velstæðra bænda í Danaveldi. Í dag er flokkurinn aðeins straumlínulagaðri og verkamenn geta meira að segja leyft sér að kjósa flokkinn án þess að verða fyrir aðkasti á vinnustað.
Það skjal sem ég fann var sem sagt leynileg greinargerð þingflokks Venstre til meðlima sinna. Af einhverjum ástæðum endaði þessi skýrsla þeirra líka í danska utanríkisráðuneytinu. Skrifin sýna að menn í þessum flokki dauðsáu árið 1944 eftir því að Danir hefðu ekki hafið stórfellda búsetu og landtöku á Íslandi árið 1908 og gert landið að eins konar nýlendu með dönskum herrum og tilheyrandi yfirstétt.
Greinargerðin fjallar að mestu um Ísland og sambandsslitin. Eftir langa lýsingu á sögu þjóðarinnar, séða með gleraugum gamals bónda á Norður Jótlandi, sem hélt ræðu á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930, er þessu fleygt fram:
"Eftir 1908, þegar samþykktum um Stjórnarskrá Íslands var hafnað af meirihluta Alþingis og eftir öll hin neyðarlegu íslensku mótmæli, hefði það verið gott tækifæri fyrir Danmörku að stuðla að danskri búsetu (Kolonisation) á Íslandi. Íslendingar voru miðað við hjálparhellur þeirra [Dani] mjög fámennir, og áttuðu sig ekki einu sinni á að nýta sér möguleikana. Við höfðum svo að segja kennt þeim næstum því allt".
Höfundur skýrslunnar lýsir harmi sínum yfir því að Danir skuli ekki hafa tekið afgerandi völd á Íslandi, þar sem "lavajorden er frugtbar", og að þeir hafi í staðinn leitað til til Vesturheims þar sem þeir hafi oft lifað erfiðislífi sem skóvarhöggsmenn og síðar í striti við að brjóta land til búsetu á preríunni.
Skjalið byrjar hins vegar á vangaveltum flokksforystunnar í Venstre um sölu landbúnaðarafurða til Englands eftir að stríðinu líkur. Danir, sem í stríðinu seldu Þjóðverjum allar umframafurðir sínar, voru þarna samir við sig. Lætur höfundur greinargerðarinnar sig dreyma um stórt útflutningsátak til Englands eftir stríð. Hann metur stöðuna þannig, að Holland, Svíþjóð, Pólland og baltnesku löndin, sem fyrir stríð áttu 25% markaðsaðild í beikon- og flesksölu á Bretlandseyjum, muni alls ekki geta tekið upp sömu viðskiptahætti fyrr en að mörgum árum liðnum eftir stríðslok. Höfundurinn reyndist sannspár. Hann græddi væntanlega sem bóndi á tá og fingri með því að fóðra þýska herinn með svínum sínum meðan aðrar þjóðir Evrópu voru rændar og myrtar af nasistum.
Svona voru sumir Danir nú spældir - og vitlausir. Þeir sáu eftir því að hafa ekki tekið Ísland almennilega í geng þegar tækifæri gafst fyrir 100 árum síðan. En þeir fengu hins vegar margar rúllur af plástri á sárið um leið og þeir misstu Ísland. Þeir gátu öll styrjaldarárin haft náið samstarf við Þýskaland og selt afurðir sínar til Þjóðaverja á góðu verði og losað sig við nokkra óæskilega flóttamenn ofan í kaupin. Stríðið var ekki neitt gjaldþrot fyrir frændur okkar. Ísland var áhætta sem þeir losnuðu við. En saga sambandsslitanna er vissulega ekki að fullu sögð.
En hvernig hefði það verið að vera danskur þegn á Íslandi árið 2007? Ég er viss um að þjóðfélagsmyndin hefði ekki verið mjög lík þeirri sem við sjáum á Grænlandi í dag. Annars er ekki neitt vit í því að vera að velta sér upp út því hvernig hlutirnir hefðu orðið, ef þeir hefðu þróast á annan veg. Íslendingar eru sínir eigin herrar nú og Íslendingar eru að kaupa ættarsilfur Dana á skipulegan hátt .......
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.12.2007 | 20:27
Bagaleg frétt
Um leið og ég óska biskupi Íslands til hamingju með nýja rússneska bagalinn, þarf víst smá leiðréttingar við frá fornleifafræðingi varðandi bagalega frétt Morgunblaðsins.
Baglar þessir eru á fagmálinu kallaði Tau-baglar [borið fram "tá"] og er þetta fræðiheiti dregið af gríska bókstafnum "tau/tá" T. Tau-baglar eru ekkert sérfyrirbæri Austurkirkjunnar. Þeir baglar, sem eru líkastir baglinum sem fannst á Þingvöllum, eru reyndar úr tré og hafa fundist í Dyflinni á Írlandi. Fagurlega útskornir tau-baglar úr fílsbeini eða rostungstönn hafa fundist nokkrum löndum vestur-Evrópu. Tau-bagallinn á Þingvöllum er því ekki sönnun þess að prelátar frá Rússlandi eða Austur-kirkjunni hafi verið á Íslandi.
Tau-baglar hafa þekkst með mismunandi lagi í gjörvallri Austurkirkjunni og einnig í koptísku/eþíópísku kirkjunni. Stíll og gerð gripa geta eins og kunnugt er breiðst á milli landa og heimsálfa eins og fatatíska, en þurfa ekki endilega alltaf að gefa til kynna uppruna gripanna eða hvað þá heldur uppruna fólks sem átti þá eða notaði.
Eþíópískur munkur með tau-bagal
Ólíklegt er, að þeir "(h)ermsku" prestar, sem greint er frá í Íslendingabók, þeir Petrus, Abraham og Stephanus, hafi tapað bagli sínum á Þingvöllum. Stíll (Úrnesstíll) sá sem bagallinn frá Þingvöllum er skreyttur með, var ekki þekktur í armenskri kirkjulist og tau-baglar voru ekki notaðir í Armensku kirkjunni.
Ef maður fylgir skoðun Magnúsar Más Lárusonar um að ermskir (hermskir) prestar í íslenskum handritum hafi verið prestar frá Ermlandi (rétt austan við Gdansk) er enn fráleitara að hugsa sér að Þingavallbagallinn hafi komið hingað með þeim, því tau-baglar eru ekki þekktir á því svæði sem kallaðist Ermland. Tilgáta F. B. USPENSKIJ frá 2000 finnst mér betri. Hún gengur út á það, að þegar nefndir eru girskir og hermskir prestar í íslenskum heimildum, þá sé ekki endilega átt við uppruna manna, heldur frekar kirkju þeirra. Mér þykir vænlegast að taka mið af þeirri tilgátu og sýnir ákvæði í Grágás það líka að mínu mati. En þrátt fyrir það gæti það alveg eins verið alíslenskur pater sem tapaði baglinum sínum á Þingvöllum.
Ég skrifaði um bagalinn frá Þingvöllum í sýningarritið From Viking to the Crusader: Scandinavia and Europe 800-1200, gripur 335, bls. 314, mynd 155 ef einhver vill kynna sér þetta nánar.
Annars er þessi bagall líklegast ekkert annað en táknræn, kristin gerð stafs Móses. Sumir álíta að prestar gyðinga, rabbíar, hafi gengið með svona staf. Stafur Móses var til í musterinu í Jerúsalem, eða svo segja fróðir menn.
Biskup fær rússneskan biskupsstaf að gjöf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 11.11.2009 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007 | 21:25
Einstakur viðburður
Í kvöld sýndi sænska sjónvarpið fyrsta þáttinn í nýrri þáttaröð sem ber heitið Vrakletarna.
Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni hér: http://svt.se/svt/play/video.jsp?a=971670
Og þessa frábæru stuttmynd og frétt á hollensku:
Fyrir fornleifafræðing er fundur þessa 17. aldar skips eins og að drekka eðalkoníak eftir fimmstjörnumáltíð. Ég naut þáttarins til fulls og gerðist drukkinn af upplifuninni.
Með nýjustu tækni og vísindum, sem lýst er þokkalega í þættinum, og þegar ekki var verið að mynda freigátuna sem stjórnar þættinum, Jonnu Ulin fornleifafræðing, fengu áhorfendur mynd af flaki, sem hugsanlega er heillegra en Wasa, konungsskipið, sem sökk árið 1628 og var lyft á land árið 1961.
Skipið, sem fannst á 125 metra dýpi úti fyrir suðausturhluta Svíþjóðar, sést hér á mynd sem er unnin úr gögnum dýparmælinga. Þetta virðist vera kaupfar. Ekki sáust neinar fallbyssur við þær frumathuganir sem fóru fram í sumar. Sérfræðingarnir telja að þarna sé á ferðinni hollensk flauta (fluit) frá 17. öld. Skipið er aðeins 20-25 metrar að lengd og mjög vel varðveitt. Útskurður og annað skreyti er enn varðveitt. Skipið Melkmeyt, sem sökk við Flatey árið 1659 var einmitt af þessari gerð skipa. Flautur sigldu fyrst um 1590 og er skipið sem var sýnt í kvöld í sænska sjónvarpinu af eldri gerð slíkra skipa. Það er óneitanlega eitthvað 16. aldarlegt yfir því. Hið dæmigerða flautuskip var miklu ávalara en það skip sem skuggamyndin af botni Eystrasalts sýnir.
Þetta er einstakur viðburður. Eins og veisla fyrir fornleifafræðing. Aðrir hljóta að hrífast með. Horfið á þáttinn.
Sjónvarpsmenn fundu skipsflak frá sautjándu öld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.11.2007 | 10:53
Danski stríðsglæpamaðurinn sem enginn mátti heyra um
Í byrjun árs 2005 birtist eftir mig grein í helgarblaðinu Weekendavisen í Danmörku. Greinin, sem hægt er að lesa hér, fjallaði um danskan stríðsglæpamann, Gustav Alfred Jepsen, sem enginn hafði heyrt um áður. Ástæðan fyrir þeirri þögn var að dönsk yfirvöld höfðu klórað mjög vandlega yfir málaferli gegn honum og aftöku hans árið 1947. Þessi danski borgari framdi stærsta glæp Dana í síðari Heimsstyrjöld. Dönsk yfirvöld vildu ekki að mál hans skyggði á "hetjulega" framgöngu þeirra í stríðinu.
Þegar ég sá heimasíðu íslenskra rasista (skapari.is, sem virðist hafa verið lokað), sem mikið hefur verið skrifað um, kom danski fjöldamorðinginn upp í huga mér. Ég held að einstaklingarnir bak við þá síðu eigi bágt eins og danski stríðsglæpamaðurinn. Ég held að þessir menn gætu hæglega leikið sama hlutverk og danski SS maðurinn ef aðstæður væru fyrir hendi.
Ekki voru allir Danir sáttir við grein mína. Fylgismenn þeirrar söguskoðunar, að samvinna við Þriðja ríkið hafið verið vænsti kostur fyrir Dana eru margir. Fyrir utan hótunarbréf og tvö dólgsleg símtöl, skrifuðu nokkrir Danir lesendabréf í Weekendavisen og mótmæltu grein minni. Þeir töldu Gustav Alfred Jepsen hafa verið Þjóðverja, vegna þess að hann tilheyrði þýska minnihlutanum í Danmörku. Gustav Alfred Jepsen leit hins vegar sjálfur á sig sem Dana og var danskur þegn, skráður í SS sem Dani og krafðist þess að tala dönsku við réttarhöld sín. Dönsk yfirvöld litu á hann sem eins konar Dana, lagalega séð, og héldu vörð um þögnina til hins síðasta, eins og fram kemur í grein minni. Dönsk yfirvöld mæltu með því við konu hans og son, að þau færu ekki til að kveðja hann áður en hann var hengdur.
Sumir Danir töldu árið 2005 að Þjóðverjar væru einir færir um að fremja þá glæpi sem Gustav Alfred Jepsen framdi. Ég er á annarri skoðun og tel að einstaklingarnir bak við rasistasíðuna íslensku séu á góðri leið að lenda í sömu sporum og morðhundar Heimsstyrjaldarinnar.
Lögregluyfirvöld og dómskerfið á Íslandi verða að hafa upp á þessum pörupiltum og koma þeim bak við lás og slá eða í meðferð á geðsjúkrahúsi. Þessi síða þeirra er ekkert spaug, heldur endurtekning á morðhótunum sem hafa heyrst einum of oft.
Vísindi og fræði | Breytt 6.2.2022 kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.11.2007 | 17:01
Axarskaft á Þjóðminjasafni
Í gær var múgur og margmenni saman komin á Þjóðminjasafni Íslands. Þá bauðst fólki að koma með forngripi sína í greiningu. Það var góð og tímabær hugmynd að efna til greiningardags.
Á Mbl.is birtist í dag mynd af öxi sem kona fann í Þjórsárdal. Hún gekk heim frá sérfræðingum Þjóðminjasafns í þeirri trú að hún hefði fundið öxi frá 11. eða 12. öld.
Annað hvort hefur sérfræðingurinn sem aðstoðaði blessaða konuna ekkert vit á því sem hann er að gera, eða hann hefur verið úti á þekju í gær. Kannski var þetta tvennt vandamálið.
Öxin sem fannst í Þjórsárdal er ekki frá 11. eða 12. öld. Síðasta byggð dalnum innanverðum fór í eyði á fyrri hluta 13. aldar, en ekki í og rétt eftir stóra Heklugosinu árið 1104, þó að afleiðingar þess hafi haft mikið að segja síðar. Gripir sem finnast í Þjórsárdal þurfa ekki að vera frá því fyrir 1104.
Yngri gripir en frá því í byrjun 13. aldar hafa fundist í Þjórsárdal. T.d. eineggja sverð frá því um 1500.
Öxin, sem komið var með til greiningar í gær á Þjóðminjasafni Íslands, er eins konar skeggöxi, sem ber ekki einkenni axa frá 11. og 12. öld. Sérfræðingur safnsins ætti að vita betur. Axir af þessari gerð eru aldursgreindar til tímabilsins 1300-1500 og voru oftast verkfæri og ekki vopn. Miðað við bækur þær sem ég hef undir höndum, tel ég að aldursgreining til 15. aldar sé líklegust. Líklegt er að að þetta hafi verið öxi Skálholtsbiskupa, en Skálholtsstóll átti lengi skógarítök í Þjórsárdal eftir að byggð lagðist þar í eyði.
Í norskum miðaldamáldögum má lesa að um 1350 hafi ein slík öxi fengist fyrir eitt kýrverð. Það verður þó at teljast líklegt að verðið hér á landi hafi verið hærra. Það er, eins og kunna er, alltaf lagt á á Íslandi. Það hefur reyndar líka verið lagt ærlega á aldur axarinnar í Þjórsárdal.
Þess má geta að dr. Kristján Eldjárn treysti sér ekki í doktorsritgerð sinni Kuml og Haugfé að aldursgreina axir eins og þær sem komið var með á Þjóðminjasafni í gær. Mönnum hefur greinilega aukist þor og kunnátta síðan sú biblía kom út
En það hefur nú gerst áður að sérfræðingum á Þjóðminjasafninu hefur brugðist bogalistin. Eitt sinn komu ákaflega þrjóskir ævintýramenn niður það sem þeir héldu vera hollensk gullskip á Skeiðarársandi sem strandaði þar árið 1667. Þeir höfðu meira að segja í hita leiksins fengið staðfestingu á að svo væri frá einum af fremstu sérfræðingum Þjóðminjasafnsins í silfurkönnum. Hann taldi í hita leiksins keðju sem kom upp úr sandinum vera vera ævaforna. Skömmu síðar kom í ljós að keðjan var úr þýskum togara frá upphafi 20. aldar. Þjóðminjasafn fékk reyndar aukafárveitingu upp úr krafsinu, enda ekki úr of miklu að moða á þeim árum. Ekki var það heldur efnilegt þegar silfursjóður einn frægur austan af landi gerðist miklu yngri en hann er, eftir að hafa verið í höndum eins fremsta sérfræðings Breta í silfurfræði víkingaaldar. Álit Bretans var hrakið af miklu kappi og offorsi og þykir sjóðurinn nú einn merkilegasti silfursjóður Norðurlanda frá víkingaöld. Einn gripanna í sjóðnum er nefnilega talinn geta verið frá nútíma og þegar sjóðurinn fannst í jörðu hafði ekki einu sinni fallið á hann. Það hefur aldrei gerst í sögu silfursjóða á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Fyrir hugsjónamenn hlýtur mold frá Austurlandi að vera gott efni í meiri háttar útrásardæmi. Aldrei mun falla aftur á silfur ef á er borin austfirsk drulla.
"Eigendur taka gripina með sér aftur að lokinni skoðun" sagði í kynningu á gripagreiningunni á Þjóðminjasafni. Hvernig fær það staðist Þjóðminjalög í tilfelli axarinnar? Öxin hefur vonandi verið afhent Þjóðminjasafninu í gær eða samningur gerður um að það verði gert hið fyrsta.
Þótt sumum bloggurum finnist þetta ómerkilegt ryðgað járnadrasl, þá er svona drasl einu sinni þjóðminjar Íslendinga. Ég sá margt annað merkilegt frá þessari greiningu á Þjóðminjasafni Íslands í útsendingu sjónvarpsins í gær, sem örugglega hefur verið dæmt og greint af fróðari mönnum en þeim sem sendi konu heim með 800 ára gamla öxi í misgripum.
Spaugstofan gerði þetta nýdæmi á Þjóðminjasafni spaugilegt þann 24. nóvember 2007.
Fjöldi fólks varð frá að hverfa í Þjóðminjasafninu í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 26.11.2007 kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 87
- Frá upphafi: 1352308
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007