Færsluflokkur: Vísindi og fræði
27.8.2009 | 10:42
Víkingavísitasía
Í vor kom ég við í Víkingaheimum í Innri Njarðvík. Á fallegum sólskinsdegi. Góðvinur minn hafði boðið mér í smá Suðurnesjatúr og við komum víða við. Við fórum m.a. upp á Völl, þar sem ég sýndi honum hvar ég hafði oft verið um helgar með föður mínum, sem var um tíma "Kefl-víkingur" eða á 5. áratug síðustu aldar, og hafði fast gestavegabréf á Völlinn. Það geymi ég vel, ef ég þyrfti að fara þangað og hitta einhvern. En, það gerist æ sjaldnar.
Við komum í lok ferðarinnar í Víkingaheima á Víkingabraut 1 í Suðurnesjabæ (Innri Njarðvík). Það er merkilegt safn, sem mér þótti gaman að heimsækja. Þarna var nú umhverfið allt hálfklárað og frekar óhræsislegt, en innanhúss var allt að komast í lag. Gólfklæðingin var eins og mjúkur lakkrís. Ég gekk nýlega á svona gólfi í Hollandi. Ég sá að þarna var mikið um sýningargripi, sem komu af síðustu stóru Víkingasýningunni á Smithsonian í BNA. Enda er safnið eins konar afsprengi þeirrar sýningar.
Okkur gestunum þótti skrítið, að sumir sýningarskáparnir voru enn tómir. Mér finnst alltaf gaman að spyrja, og spurði því hvort við fengjum ekki afslátt, úr því sýningin var ekki alveg fullkláruð. Starfsmennirnir höfðu víst aldrei hitt fyrir Íslending, svo meðvitaðan um peninga vinar síns, (sem borgaði aðgangseyrinn), að þeir brostu bara sætt eins og Suðurnesjamönnum er lagið. En yfirmaður safnsins, ung kona á besta aldri sem talaði amerísku með íslenskum hreim, skýrði svo fyrir okkur að hlutirnir væru á leiðinni frá ýmsum söfnun um allan heim. Okkur gestunum létti við þær fréttir.
Heildarálit 9, nei 8,5 á 10-skala, enda var ég með nýju Ray-Ban sólgleraugun mín, sem eiga það til að fegra hlutina.
Safnið er auðvitað ekki neitt Þjóðminjasafn, en miðað við allar villurnar (og meira um það síðar), sem er að finna í föstum sýningum Þjóðminjasafnsins, myndi ég frekar senda fólk í Víkingaheima og austur að Skógum til Þórðar Tómassonar til að fræðast um víkingana og íslenska menningu, en á Þjóðminjasafnið.
Mikið væri nú gott, ef Víkingaheimar gætu notið góðs af þeim fornleifarannsóknum sem fram hafa farið á Íslandi á undanförnum áratugum.
Í maí var kollega minn, dr. Bjarni F. Einarsson, sem líka hefur ákveðin tengsl við Keflavíkurvöll, að grafa upp merkilega rúst suður í Höfnum, við Kirkjuvogskirkju. Ég kom þar við ásamt tveimur góðum vinum og heimsótti Bjarna og nema hans, sem voru að rannsaka hluta af skálarústinni sem kölluð er Vogur (eða Waage á meðal gárunga). Þetta var mjög fallegur uppgröftur og greinilega merkileg rúst. Bjarni var, milli þess sem hann reitti af sér upplýsingar í okkur heiðursgestina, mikið upptekinn við að segja rútufyllum af skólakrökkum af Suðurnesjum frá rannsókninni og landnámsmönnum. Krakkarnir voru algjörlega dolfallin. Kannski væri líka hægt að segja frá þessari merku rannsókn hans Bjarna í Víkingaheimum? Er það ekki upplagt?
Já, eitt að lokum. Ég myndi fjarlægja rör og stúta af skipinu Íslendingi, sem Víkingaheimar hafa verið reistir yfir. Þetta er eitthvað svo ó-ekta boginntittur (sjá mynd). En safnið stendur fyrir sínu og er vonandi eftir að standa undir sér fjárhagslega.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2009 | 17:45
Svíar fórnuðu 20.000 gyðingabörnum árið 1943
Í símskeyti dagsettu þann 30. október 1943, sem sendiherra Bandaríkjanna í Stokkhólmi sendi utanríkisráðuneytinu í Washington, skýrir sendiherrann frá því af hverju Svíar höfðu ekki lengur áhuga á að taka á móti 20.000 gyðingabörnum frá stríðshrjáðri Evrópu. Samtök gyðinga og aðrir höfðu leitað til Svíþjóðar um hjálp fyrir gyðingabörnin, sem þeir voru að semja við ákveðna aðila í Þriðja ríkinu um. Þeir héldu sig hafa fengið jákvætt svar frá Svíum. Björgunaraðgerð þessi er þekkt undir nafninu Adler-Rudel björgunin og hefur verið skrifað töluvert um hana. Hér skal látið ósagt hvort þessi björgun hafi verið raunsæ, en þegar sendiherra Bandaríkjanna minntist á hin 20.000 börn í bréfi sínu, skýrði hann út af hverju Svíar væru hættir við áform sín.
Svíar töldu sig vera búna að gera nóg, þegar þeir voru búnir að taka á móti tæplega 7000 flóttamönnum frá Danmörku í byrjun október 1942. Það gerðu þeir reyndar fyrst þegar sendiherra Dana í Washington hafði gefið loforð um að danska útlagastjórnin í Washington myndi borga allan kostnað við dvöl gyðingana í Svíþjóð. Samkvæmt skeyti sendiherra Bandaríkjamanna í Svíþjóð, þá vildu Svíar ekki 20.000 gyðingabörn, því þeir voru líka búnir að bjóða norskum börnum til sumar- og afþreygingardvalar í Svíþjóð.
Þetta skeyti bandaríska sendiherrans í Stokkhólmi var fyrst birt í bók minni Medaljens Bagside (2005). Skeytið hafði ekki verið þekkt meðal þeirra sem skrifað hafa um sögu Adler-Rudel áætlunarinnar, því það hafði verið sett í skjöl varðandi Danmörku í bandaríska Utanríkisráðuneytinu.
Það er afar sorglegt að sjá menn eins og Carl Bildt, nær ómenntaðan utanríkisráðherra Svía, verja óþverrahátt og gyðingahatur með prentfrelsi. Er Bildt of vitlaus til að sjá, að land hans hefur miklu fleiri mannslíf á samviskunni en Ísrael, sem vinstrisinnaðir gyðingahatarar í Svíþjóð væna um líffærastuld.
Svíar hafa allt of lengi verið erindrekar öfgasamtaka og aðstoðarmenn þjóðarmorðingja. Bildt vill prentfrelsi fyrir áróður Hamas, en lokar munninum á sænska sendiherranum í Ísrael, sem leyfði sér að gagnrýna birtingu ósómans í Aftonbladet.
Svíar ættu að grannskoða sína eigin sögu, áður en þeir nota "prentfrelsið" til að svína Ísrael og Gyðinga til.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
20.8.2009 | 07:43
Brotasilfur
Þessa dagana er haldin Víkingaráðstefna á Íslandi. Ekki er þetta ráðstefna íslenskra útrásavíkinga, heldur The 16th Viking Congress. Slík ráðstefna hefu ekki verið haldin á Íslandi síðan á 6. tug síðustu aldar. Þar fara ekki ölóðir Drag-víkingar, eins og þeir sem sjást við Fjörukrána í Hafnarfirði. Þetta er ráðstefna virtra fræðimanna. Þorri fyrirlestranna eru því miður ekki opnir almenningi, svo menn geta ekki gert nein fræðileg strandhögg á þessari ráðstefnu. Kreppuíslendingum býðst þó einn fyrirlestur á hverjum degi.
Í gær, á miðvikudegi, hélt James Graham-Campbell fyrrverandi prófessor við University of London (UCL) fyrirlestur um silfur og gull á Íslandi. Prófessor Graham-Campbell komst dálítið í fréttirnar á síðasta áratug 20 aldar. Hann hélt því fram að heill silfursjóður austur á landi væri falsaður, ekki meira né minna. Aðra grunaði þetta líka. Mig sjálfan t.d., vegna þess að þegar sjóðurinn fannst í jörðu eftir að hafa legið þar í 1000 ár, hafði ekki ekki fallið á hann. Hvergi í heiminum þekkjast dæmi þess að silfursjóður hafi fundist óáfallinn í jörðu, sérstaklega ekki í jarðvegi eins og þeim sem sjóðurinn fannst í.
Þessa niðurstöðu víkingasérfræðingsins James-Graham Campbell gátu menn ekki sætt sig við á Íslandi. Sérfræðingar í öðrum löndum voru fengnir til að gefa álit sitt, og komust þeir af annarri niðurstöðu en Graham-Campbell. Efnagreining, sem gerð var í Kaupmannahöfn, vó þar þyngst. En niðurstöður hennar og aðferðafræði voru síðar gagnrýndar af breskum sérfræðingi og nú vilja þeir sem rannsóknina gerðu ekki svara spurningum um framkvæmd hennar. Enginn hefur enn getað skýrt varðveislu sjóðsins þegar hann fannst í jörðu. Hann þurfti ekki einu sinni forvörslu. Er jarðvegurinn á Austurlandi, þar sem silfursjóðurinn fannst, svo öflugur að hann varðveitir gljáa silfurs í 1000 ár? Goddard og Brasso geta farið að pakka saman ef það er rétt. Útflutningur jarðvegs frá Austurlandi er kannski það sem bjargað getur þjóðarbúinu. Í stað fægilagar, geta menn haldið silfri sínu í mold frá Íslandi. No toil, use Icelandic soil.
Það hefur oftar en einu sinni borið við hér á blogginu, að mönnum sem illa var við skoðanir mínar og persónu, báru mér á brýn að ég hefði verið rekinn af Þjóðminjasafninu fyrir að hafa verið samsinna James-Graham Campbell um silfursjóðinn. Meira að segja hefur því verið haldið fram við mig, að ég hafi haft áhrif á niðurstöður breska prófessorsins. Það er auðvitað ekki rétt. Ég dáleiði ekki fólk. Brottrekstur minn var fyrst og fremst vegna gagnrýni minnar á Þór Magnússon fyrir slælega stjórnun hans á Þjóðminjasafninu. Þór setti mig í ævarandi atvinnubann á Þjóðminjasafni Íslands, sem formlega er enn ekki búið að afturkalla. Sjálfur missti Þór nokkrum árum síðar starf sitt vegna óhóflegrar framúrkeyrslu. Hann gat ekki gert grein fyrir því hvað tugir milljóna króna úr ríkissjóði höfðu verið notaðir í. Sá mikli og aldni "víkingur" situr líka Víkingaráðstefnuna í Reykjavík. Hann er meira að segja Honarary Member of the Congress alveg eins og útrásarvíkingahöfðinginn Ólafur Ragnar Grímsson. Og ég sem hélt að hann væri í reiðtúr og hefði dottið af baki.
Vísindi og fræði | Breytt 23.8.2009 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.8.2009 | 13:26
Feilnótur Jóns Leifs
Ekki er það nú alveg rétt, að saga Jóns Leifs hafi ekki verið skrifuð áður. Mjög stór hluti sögu hans er sögð af Ásgeir Guðmundssyni í bókinni Berlínarblús (1996), en þar er mörgu ábótavant (sjá eftirfarandi pistil minn). Það er því ánægjulegt að Árni Heimir Ingólfsson sé búin að skrifa bók um Leifs, en hann skrifaði m.a. grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997.
Landsölutaktar Leifs eru vel þekktir. Ég greindi frá því fyrr hér á blogginu mínu, að Jón Leifs hafi reynt að selja Ísland nasistum. Ef Jón hefði lifað í dag, væri ég viss um að hann hefði verið harður ESB-sinni eins og landsölumenn eru í dag.
Ástæðan til þess að Örn Helgason nefnir ekki Jón Leifs á nafn í bók sinni, Kóng við viljum hafa!, hefur örugglega verið hræðsla við hörð viðbrögð í þjóðfélaginu. Meðal ýmissa menningavita á Íslandi hefur Jón Leifs lengi verið í dýrlinga tölu og klisjukennd músík hans hefur verið talin til stærstu meistaraverka sögunnar. Ég deili ekki þeirri skoðun. Mér leiðist tónlist Jóns Leifs. Mér finnst samt gaman af Heklu. Árni Heimir ritar: "Jón var ekki glöggskyggn maður þegar kom að pólitík sem sést best á því að hann gaf embættismönnum nasista undir fótinn með ýmsu móti, þrátt fyrir að hann væri sjálfur kvæntur konu af gyðingaættum."
Þetta held ég að sé alrétt hjá Árna Heimi. Ef Jón hefði verið það, hefði hann verið búinn að koma fjölskyldu sinni burt frá Þýskalandi nasismans fyrr en hann gerði. Hann hugsaði fyrst og fremst um eigin fægð og frama.
Ég var fyrir löngu búinn að skrifa eftirfarandi pistil um Jón Leifs, vegna ýmissa rangfærslna sem ég hafði séð í bók Ásgeirs Guðmundssonar, en hafði aldrei komið honum frá mér. Hér koma fleiri feilnótur úr lífi Jóns Leifs:
Á síðasta áratug 20 aldar blómgaðist áhuginn á Jóni Leifs. Þá voru liðin tæp 30 ár frá dauða tónskáldsins. Þá fá menn oft endurreisn, sem þeir nutu ekki í lifanda lífi. Gerð var leikin kvikmynd, sem þó getur ekki flokkast til heimildamynda. Ýmsir fræðimenn skrifuðu um Leifs og vildu hreinsa nasistastimpilinn af honum. Ekki langar mig að stimpla Leifs sem nasista, heldur aðeins greina frá örfáum atriðum, sem gleymdust hjá sagnfræðingum í meðferð þeirra á Jóni Leifs rúmum 30 árum eftir dauða hans árið 1968.
Í bók sinni Berlínarblús (1996), leggur Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur sig mjög fram við að hreinsa þennan blett af Jóni Leifs, um leið og hann setur þá á aðra menn. Ásgeir kennir dr. Þór Whitehead ranglega um að hafa sett stimpilinn á Leifs, vegna túlkunar hans á bréfum um járnvinnslu (stóriðju á Íslandi), sem Jón sendi til þýska utanríkisráðuneytisins árið 1939.
Aðrir menn en Jón vildu ólmir gefa nasistum upplýsingar og hráefni. Íslendingur, búsettur í Kaupmannahöfn, sem taldi sig lögmætan eiganda óðala á Vestfjörðum, reyndi ákaft að upplýsa um íslenska boxítnámur og aðrar ímyndaðar auðlindir, sem gætu gagnast ef að þýskri yfirtöku landsins yrði. Annar maður í Kaupmannahöfn, Þjóðverji, var handtekinn fyrir njósnir fyrir Þjóðverja árið 1939. Í gögnum um hann hef ég fundið fjölmörg bréf Íslendingsins með gylliboðum til Þriðja Ríkisins um auðlindir, virkjanir og álframleiðslu á Íslandi. Skrif hans þóttu svo ruglingsleg, að ekki þótti ástæða til að tengja óðul mannsins á Íslandi við ákærur á hendur þýska njósnaranum, sem síðar var dæmdur fyrir aðrar syndir.
Hafa ber í huga að þegar Jón Leifs og landi hans i Kaupmannhöfn voru að falbjóða auðlindir lands síns í Þýskalandi nasismans, höfðu flest lönd Evrópu skapað ákveðna stefnu í auðlindamálum gagnvart Þýskalandi vegna styrjaldarhættu. Athæfi Jóns Leifs, og vestfirska álbóndans, var því á skjön við utanríkisstefnu Dana og Íslands. Þetta voru landráð.
Þrátt fyrir vinaleg tilboð frá Íslendingum voru Þjóðverjar árið 1939 orðnir stærri álframleiðendur en Bandaríkjamenn.
2
Í ákefð sinni við að hreinsa mannorð Jóns, var kaflinn um Jón í bók Ásgeirs Guðmundssonar, Berlínarblús, líkur kvikmynd sem kom út um tónskáldið á svipuðum tíma. Maður veit ekki hvað er satt og fleiri spurningar vakna en svarað er. Kvikmyndin var vissulega ekki heimildamynd, en ef bók Ásgeirs er hugsuð sem fræðileg heimildaúttekt á íslenskum meðreiðarsveinum nasista, vaknar spurning sem Ásgeir hefði átt að svara í bók sinni.
Hvernig gat maður, sem var útlendingur, leyft sér að neita að borga í söfnun til stríðsreksturs Þjóðverja árið 1941, eins og Ásgeir greinir frá? Jón Leifs var samkvæmt hugmyndafræði nasista kvæntur kynþáttaníðingi (Rassenschänder). Hann var kvæntur konu sem var gyðingur. Hvað gerið Jóni kleift að halda uppi slíkum ósóma í ríki sem hafði sett lög um brottflutning gyðinga og manna eins og hans, sem hafði kvænst niður í óæðri kynstofn og getið af sér börn með gyðingi? Voru það góð sambönd eða snilldarleg tónslitargáfa, eða aðeins vegna þess að hann var Íslendingur, "ein bischen exotisch"?
Eins og kunnugt er hnepptu nasistar ekki "lægri kynþætti" sem Kínverja, Indónesa og t.d. Palestínuaraba sem bjuggu í Evrópu í útrýmingarbúðir. Þeir, og menning þeirra voru talin spennandi rannsóknarefni. Sama hefur hugsanlega gilt um Íslendinga? Vart hefur Jón verið friðaður vegna tónlistarinnar. Verk hans voru bönnuð í Þýskalandi nasismans árið 1937 og voru aðeins flutt stöku sinnum með sérstakri Ríkisundanþágu.
En hvað með Íslending, sem með gyðinglegu kvonfangi var orðinn hálfgyðingur samkvæmt hugmyndafærði nasista? Var hann spennandi í augum nasista? Áðurnefnd spurning leitar sterkt á þá sem hafa áhuga á sögusviði þessa tíma. Hvað gerði Jón til að bjarga sér og konu sinni, sem flestum öðrum tókst ekki? Kannski voru það einvörðungu fálkaorðurnar sem Jón hafði milligöngu um að nældar voru á fjölda Þjóðverja í lok 4. áratugarins? Kannski voru það landsöluáform Leifs? Kannski var Jón nógu helvíti frekur til að standa í hárinu á Gestapo?
3
Jón Leifs var, eins og Ásgeir Guðmundsson bendir réttilega á í bók sinni Berlínarblús, þjóðernissinni af gamla skólanum líkt og margir samtímamenn hans. Jón var aðdáandi háþýskrar menningar eins og margir samtímamanna hans, en það gerir hann auðvitað ekki að nasista. Hann var einnig duglegur að ota sínum tota, kvörtunargjarn og þótti oft óheflaður, sem oft er sú lýsing sem væskilslegir skriffinnar ráðuneyta gefa viljasterkum einstaklingum með réttlátar og stórar hugsanir.
Eitt af þeim skjölum sem Ásgeir Guðmundsson hefur misst af í gloppóttri yfirreið sinni yfir skjöl í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn sýnir þetta í hnotskurn. Jón kvartaði sáran í bréfi til danska sendiráðsins í Berlín árið 1923 yfir starfsaðferðum lögreglunnar í Halle gagnvart sér, sem og yfir óeðlilegu verðlagi, sem hann hélt fram að væri krafist af útlendingum á hótelum og við aðra þjónustu í Þýskalandi. Jón hélt því fram að mismunun ætti sér stað gagnvart útlendingum í Þýskalandi.
Miklu síðar (1934) þótti danska utanríkisráðuneytinu Jón Leifs hofmóðugur í meira lagi, er hann sem tónlistaráðunautur Útvarps Reykjavíkur ritaði frá heimili sínu í Rehrbrücke við Wannsee og bað sendiráð Dana í Berlín að koma sér í samband við leiðandi menn í tónlistalífi Þýskalands. Hann ritaði á þýsku, sem Dönum þótti harla óviðeigandi. Eftir að hafa tekið á móti Leifs í sendiráðinu í Berlín ritar starfsmaður sendiráðsins til utanríkiráðuneytisins í Kaupmannahöfn:
"Hr. Jón Leifs leit hins vegar sjálfur út fyrir að vera alveg vissum um hvað hann eiginlega vill, sem sjálfsagt tengist því að hann hefur ekkert opinbert umboð og er þess vegna í sannleika sagt ekki fær um að stinga upp á neinu jákvæðu - fyrir utan, náttúrulega að bjóða sín eigin verk til flutnings".
Jón Krabbe, sem sá um íslensk málefni í danska utanríkisráðuneytinu svaraði:
"Ég er alveg sammála skoðun yðar á málinu; Leifs hefur fengið ráðningu í eitt ár sem stjórnandi tónlistardeildar íslenska Útvarpsins; eins og einn kunningja hans sagði mér, verður það varla meira en þetta eina ár. Þar sem hann er þekktur fyrir að vera erfiður í samstarfi........ ég (er) sammála yður um að það verður að aðstoða hann við störf, sem hið opinbera hefur trúað honum fyrir. En hvað varðar metnað hans í þá átt að vera eins konar sendiherra Íslands á öllum sviðum menningar, þá held ég ekki að hæfileikar hans hafi tærnar þar sem metnaður hans hefur hælana".
Krabbe rifjaði í þessu sambandi upp hvernig Jón Leifs hafði á ókurteisan hátt sett fram kröfur við yfirmann sænskra tónlistamála um þátttöku Íslands í norrænni tónlistahátíð, sem íslensk yfirvöld ákváðu að taka ekki þátt í. Krabbe ráðlagði sendiráðinu varúð ef Jón bæði um aðstoð til mála sem lágu utan starfssviðs hans.
Þessar heimildir um Jón Leifs hafa ekki áður verðið birtar. Jón Krabbe reyndist sannspár. Leifs missti stöðu sína við Útvarpið árið 1937.
4
Af skjölum utanríkisráðuneytisins danska, sem engar kvaðir liggja á, og sem höfundur bókarinnar Berlínarblús nýtti sér ekki, má sjá að Jón heldur því fram við sendiherra Dana í Stokkhólmi, að bandarísk heryfirvöld í Reykjavík hafi borið ábyrgð á handtöku sinni árið 1945. Hann segir að hann hafi fengið það staðfest í breska sendiráðinu í Reykjavík, að upplýsingar sem handtakan byggi á kæmu frá dönskum yfirvöldum. Þetta bréf skrifaði Leifs 10. október 1945, mánuði eftir að hann sendi svipað bréf til sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Eins og Ásgeir Guðmundsson bendir á, virðast engin svör hafa borist við aðild Dana í handtöku Jóns. Mál þetta varð að mikilli áráttu hjá Jóni.
En gæti það verið, að dönsk yfirvöld hafi í raun enga aðild átt að handtöku hans? Sú spurning vaknar, hvort hugsanlegt sé að einhver landa Jóns hafi með orðrómi valdið handtöku Jóns á Esjunni, líkt og þegar orðrómur landa hans varð tilefni fyrrnefnds dóms danska utanríkisráðuneytisins yfir honum árið 1934. Jón var ekki vinsæll maður og margir öfunduðust út í hann.
Að bréfi Jóns má lesa að hann telur Dani vera á bak við handtöku sína og nasistastimpilinn. Hann skrifaði:
"Ég sem virkur í alþjóðlegu, opinberu lífi, get alls ekki sætt mig við þess konar meðferð eða við minnsta vott um grun að Dana hálfu. Áður en ég leita til dómstóla í málinu, reyni ég að leysa það á vinsamlegan hátt til gagns fyrir dansk-íslenska samvinnu í framtíðinni (og norræna samvinnu), sem ég mun vinna að. Ef Þér vilduð nálgast upplýsingar í Danmörku, þangað sem yfirheyrslugögnin voru send frá Íslandi, myndi ég gjarna gefa nánari smáatriði varðandi málið".
Sendiráð Dana í Stokkhólmi ráðlagði Jóni að skrifa sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn, sem Jón hafði reyndar þegar gert. Utanríkisráðuneyti Dana hafði ekki neinar mikilvægar upplýsingar um Jón eftir 1936 og grunaði hann ekki um neitt sem leitt gat til handtöku, eins og hann hélt.
Þessar upplýsingar vantaði því miður í bók Ásgeirs Guðmundssonar.
Jón barst út í hringiðu heimsins og gata hans varð því aldrei eins slétt og heimalningsins. Hann var afar hreinskilinn maður og sagði óspart meiningu sína. Jón var einnig einstaklingshyggjumaður, þjóðernissinni og hafði mikið skap. Hann var óvinsæll og öfund lítilsigldra landsmanna hans lék hann grátt. En hann var ekki meðreiðarsveinn. Hann treysti þó ótrúlega lengi á nasismann og á að nasistar myndu virða íslenskt vegabréf hans og fjölskyldunnar. Hann reyndi því ekki að forða fjölskyldu sinni, konu, dætrum og tengdaforeldrum, sem voru gyðingar, frá Þýskalandi. Erfitt er þó að sjá, hvort hann gæti hafa komið þeim til Íslands í lok 4. áratugarins eins og málum var háttað á Íslandi gangvart gyðingum. Hvort honum hefur dottið slík björgun í hug, er þó á huldu.
Ég held að hann hafi í lengstu lög reynt að verða stór stjarna á tónslistarhimni nasista. Í Danmörku og á Íslandi höfðu túnin reynst honum ærið þýfð, en hann hafði hlotið sæmilegar undirtektir í Þýskalandi í byrjun 4. áratugarins. Hann notaði ýmis góð sambönd í Þýskalandi, sem hann bjó að frá því að allt lék í lyndi og áður en að byrjað var að henda gaman af verkum hans. Slík sambönd urðu til þess að hann komst með fjölskylduna til Svíþjóðar árið 1944. Til þess þurfti mjög góð sambönd. Þangað kominn óskaði hann eftir skilnaði frá konu sinni Annie Riethof, sem var henni og dætrum þeirra mikið áfall.
En ef einhver leitar næststærsta örlagavalds Jóns Leifs, fyrir utan hann sjálfan, langar mig að setja fram skoðun mína:
Það var hans eigin þjóð sem var honum verst og gerði hann að eins konar flóttamanni. Hann varð að útlendingi, þótt hann vildi helst vera Íslendingur. Þannig eru oft örlög frumkvöðla í mýfluguþjóðfélögum eins og því íslenska.
Bauð konungdóm yfir Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 1.6.2023 kl. 08:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.7.2009 | 09:11
Hver mun nú hafa andlega og veraldlega forsjá með þeim söfnuði á úthafseyju, sem mælt er að fyrirfinnist á enda veraldar?
Jón nokkur var biskup í Skálholti frá 1406 til 1413. Afar lítið er vitað um þennan Jón, nema að hann var hinn fjórði meðal Jóna á biskupsstóli í Skálholti. Í síðari heimildum var hann oft nefndu Jón danski. Hann var einn af fyrstu dönsku embættismönnunum á Íslandi. Áður en þessi Jón hneppti Skálholtsstól hafði hann verið ábóti í Munklífi í Björgvin, sem var eitt ríkasta klaustur Noregs. Þegar Jón var kominn til Íslands reið hann vísitasíu norður um land þar sem honum var vel tekið. Mikið meira en þetta er nú ekki vitað um blessaðan Jón.
Við vitum einnig, að Jón hefur líklega ekki gengið heill til skógar, og væntanlega hefur hann því verið sendur til Íslands. Hann var holdsveikur og dó á biskupsstóli árið 1413. Í páfabréfi frá 24. júlí 1413, sem Jóhannes XXIII páfi ritaði biskupinum í Lýbíku (Lübeck) er meginefnið veikindi Jóns biskups á Íslandi. Páfi bað biskupinn í Lübeck um að grennslast fyrir um hvort presturinn Árni Ólafsson (síðar biskup í Skálholti) væri nothæfur til að hafa andlega og veraldlega forsjá með þeim söfnuði á úthafseyju , sem mælt sé að fyrirfinnist á enda veraldar" (Hljómar þetta ekki eins og umræðan um Ísland í ESB?). Samkvæmt bréfi páfa var Jón yfirkominn af sjúkdómnum, og hold hans og bein hrundu af fótum og höndum.
Förum nú hratt yfir sögu. Árið 1879 fundu menn innsiglisstimpil í jörðu í Árósi í Danmörku. Innsiglisstimpillin hafði tilheyrt Jóni biskupi í Skálholti. Á innsiglinu mátti lesa þetta: + SIGILLU: IohIS: [DEI:GRA:EPIS]COPI:SCALOT
Enginn Íslendingur frétti af þessu innsigli áður en ég gerði það skömmu eftir að ég hóf nám í fornleifarfræði við háskólann í Árósi árið 1980. Ég hafði samband við Kristján Eldjárn, ritstjóra Árbókar hins Íslenzka Fornleifafélags (þegar enn var stíll var yfir því riti), og hann hvatti mig til að skrifa grein um innsiglið, sem má lesa hér. Eftir langa og lærða skýringu á því hvaða Jón hefði getað átt innsiglið, komst ég að þeirri niðurstöðu að innsiglisstimpill þessi hefði tilheyrt Jóni hinum fjórða í Skálholti og að hann hefði líklega verið að ættinni Finkenow. Ættmaður Jóns, Nikulás (Niels) hafði verið erkibiskup í Niðarósi. Niels var illa þokkaður af Norðmönnum. Rændi hann dýrgripum kirkjunnar þegar hann hvarf frá Niðarósi. Upphaflega var þessi Finkenow fjölskylda komin sunnan úr Þýskalandi til Danmerkur.
Síðar hef ég hallast meira að þeirri skoðun, sem ég viðra aðeins í greininni, að líklegast hafi þessi stimpill verið gerður af óprúttnum náungum sem ætluðu sér að misnota nafn Jóns Skálholtsbiskups í Danmörku. Líkþráir menn eru oft misnotaðir.
Nýlega fann ég í gömlum pappírum möppu með gögnum sem ég vinsaði að mér þegar ég skrifaði mína fyrstu grein í fornleifafræðinni. Þar var líka að finna þetta bréf frá dr. Kristjáni Eldjárn, sem ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast. Hann bauð mér þrisvar sinnum heim til sín í morgunkaffi snemma á sunnudagsmorgnum þegar ég var á Íslandi yfir sumarmánuðina. Hann útvegaði mér einnig vinnu við fornleifauppgröft með einu símtali. Hann hvatti mig til að rita tvær fyrstu greinar mína fyrir Árbók Fornleifafélagsins og til þess að sækja um fjármagn til að hefja fornleifarannsóknir í Þjórsárdal.
Í dag, þegar Íslendingar þjást af líkþráa í andlegum sem veraldlegum efnum, er ef til vill ekki fjarri lagi að spyrja eins og Jóhannes Páfi gerði árið 1413. Hver mun nú hafa andlega og veraldlega forsjá með þeim söfnuði á úthafseyju, sem mælt sé að fyrirfinnist á enda veraldar? Viljum við gráðuga, þjófótta og holdsveika embættismenn neðan af meginlandinu, eða Össur Skarphéðinsson og Jóku stressuðu? Það hljóta að vera fleiri valkostir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2009 | 16:02
Orrahríð í íslenskri fornleifafræði
Það vakti mikla athygli hér um árið, er dr. Orri Vésteinsson var ráðinn að fornleifadeild Háskóla Íslands. Doktorspróf hans í sagnfræði var tekið fram yfir próf umsækjenda, sem voru með doktorstitla í fornleifafræði frá Svíþjóð. Allt það mál dró mikinn dilk á eftir sér, eins og kunnugt er orðið, og fór fyrir hæðstu dómstóla. Það var HÍ til lasts og dómnefndarmönnum, sem dæmdu hæfi manna í stöðuna, til vansa. Fullvíst má telja að HÍ hafi séð mikið eftir þeirri stöðuveitingu, þó svo að menn hafi kannski enn ekki lært af henni. Nú eru hins vegar aðrir tímar, fjármagn allt af skornum skammti og framtíð fornleifafræðinnar ef til vill ekki eins glæsileg og hún virtist vera í góðæri síðasta áratugar.
Nú um daginn reyndi Orri Vésteinsson, maður sem hefur það fyrir venju að vitna mjög takmarkað í rit fornleifafræðinga, (eða þekkir þau jafnvel ekki), að fullvissa okkur um, að hann og stofnunin, (FSÍ), sem hann rekur með öðrum jafnframt því að vera starfsmaður HÍ, eigi engan hlut að máli í þeirri aðför sem doktorsnemi í fornleifafræði varð nýlega fyrir í New York. Aðför þessi átti sér stað í kjölfar þess að stúdentinn var svo frakkur að leyfa sér að freista gæfunnar á frjálsum" markaði íslenskrar fornleifafræði. Sjá um það mál hér og hér.
Það má teljast skrítin árátta hjá stórum prófessor í New York að reka Íslending úr námi, vegna þess að neminn leyfir sér að fara í samkeppni við stofnun á Íslandi sem lektor í HÍ tengist - lektor, sem (alveg óvart) hefur verið í margra ára fjárhagslegu og akademísku sambandi við prófessorinn í New York og stofnun hans. Ef við veljum trúa Orra og sakleysi hans, er prófessorinn í New York líklegast ekki með öllum mjalla. Hvaða heilvita maður gengur í það að bana ferli ungs og efnilegs fornleifafræðings og kalla hana lélegan nemanda opinberlega, vegna þess að hún leyfir sér að stunda þá tegund af fornleifafræði sem Orri og íslenskir samverkamenn hafa stundað manna mest, og sem tröllriðið hefur öllu á Íslandi.
Hvað eiga menn að lesa út úr orðum Thomas McGoverns, þegar hann segist vera að velja á milli hennar og FSÍ um leið og hann gengur milli bols og höfuðs á henni? Af hverju þarf þessi maður að hafa sér eins og mannýgt naut? Jú það liggur í augum uppi. Hann sinnir sínum eiginhagsmunum. Þeim er best borgið í samvinnu við FSÍ, en ekki Albínu Huldu Pálsdóttur, sem leyfði sér að fara inn á svæði, sem FSÍ telur sig hreinlega eiga einkarétt að. Er það frjáls samkeppni? Það hljóma í mínum eyrum, og væntanlega Skúla Fógeta sem vakir fyrir Alþingisreit, sem einokun.
Um leið og Orri lýsir sakleysi sínu án nokkurra sönnunargagna, lýsir hann ágæti eigin verka í greinargerð sinni í Morgunblaðinu, og er jafnframt að fárast yfir þeirri verðbólgufornleifafræði á Íslandi, sem hann, ef einhver, ber einna mesta ábyrgð á. Hann talar niður til námsmanna, þ.e. sinna eigin námsmanna í HÍ, og segir þeim að stunda sitt nám og eyða ekki tíma í uppgraftarævintýri.
Það vekur kátínu að sjá sagnfræðing vera með slíkar yfirlýsingar við fornleifafræðinga, en kannski er þetta dæmigert. Samkvæmt Orra eiga nemar HÍ að stunda sitt nám meðan Orri, félagar hans í FSÍ og samstarfsaðilar í BNA fá öll verkefnin. Kannski er þetta rétt hjá Orra. Varla á það að vera hlutskipti nema að standa í hinum endalausu klögumálum, kærum og jafnvel réttarhöldum sem tengjast framkvæmd fornleifarannsókna á Íslandi. Ástandi sem ekki hefur frægt greinina. Ekki dreg ég í efa að stúdentar við HÍ hafi notið góðs af leiðsögn góðra manna hjá FSÍ, en flestir þeirra stúdenta sem ég hef talað við hafa kvartað sáran yfir því að FSÍ borgi verst allra á hinum frjálsa markaði fornleifageirans.
Ekki er hægt að segja annað en að mokað hafi verið undir FSÍ. Þeir hafa notið ýmissar fyrirgreiðslu frá íslenska ríkinu og ýmsum sveitarfélögum, sem verður að teljast óeðlilegt ferli í frjálsri samkeppni. Reykjavík hefur valið FSÍ sem sinn aðalverktaka þegar fornleifar eru annars vegar. Öll nýlega útboðin fornleifaverkefni í Reykjavík hafa greinilega, af ástæðum sem hljóta að vera eðlilegar, farið til FSÍ og félaga. Þess vegna verður auðvitað uppi fótur og fit þegar FSÍ fær svo ekki stórt verkefni eins og rannsóknin á Alþingisreit er. Sjóðir FSÍ hljóta því að vera magrir nú en, árin á undan hafa vissulega verið feit.
Ef græðgi hefur slegist í för með fornleifavísindunum, eða við þau eins og Orri gerir því skóna, þá er það líklegast frekast á FSÍ, þar sem fundin var upp íslenska útboðsfornleifafræði, sem þrifist hefur í séríslenskri gerð frjálsrar samkeppni", allt þar til nú.
Þó ég sé einhvers konar liberalisti, þá er ég í vafa um að fornleifafræði sé hentug grein á markaði í litlu landi eins og á Íslandi.
Vandi sá sem við eigum við að etja í fornleifamálunum á Íslandi, sem menn hafa kvartað undan á mismunandi hátt, er þó fyrst og fremst fortíðarvandi, sem skapaðist í ládeyðu og fjársvelti því sem var í þeim málum á Þjóðminjasafni Íslands allar götur frá stofnun Lýðveldis og fram til 1995, er sjálfstæð fornleifafyrirtæki komu fram í sviðsljósið. Fornleifafyrirtækin í dag eiga sannast sagna afar erfitt með að yfirgefa þá einokunartilhneigingar sem ávallt ríktu í tóminu á Þjóðminjasafninu. Eitt fornleifafræðifyrirtækið (og það er ekki svo að þau séu mörg) á greinilega sérstaklega erfitt með að standa á eigin fótum án þess að hafa samstarf við fremur óyfirvegaða menn í útlöndum, eins og Thomas McGovern, sem finnur þörf hjá sér að lóga framtíð íslensks stúdents síns, þegar hann heldur að það gagnist viðskiptavinum sínum á Íslandi.
Ég vorkenni líka dálítið Fornleifavernd Ríkisins (sem mönnum ber ekki að rugla saman við Fornleifastofnun Íslands. Fornleifaverndin er ríkisapparat en Fornleifastofnun er prívatfyrirtæki), sem samkvæmt lögum er stofnun sem hlýtur ströngum siðferðilegum reglum. Það hlýtur að vera erfitt í landi, þar sem siðferði í stjórnmálum og fjármálum er slakt, að framkvæma hina göfugu fornleifagæslu án þess að komast í siðferðilegar hremmingar.
Nú, eftir veislu í fornleifafræðinni eins og í gjörvöllu íslenska þjóðfélagi, og í miðri kreppu þjóðarinnar, er fornleifafræðin líklega aftur orðin spörfuglafag, þar sem ránfuglaháttur og græðgin sem ríkt hefur á tímum guðanna sem átu gull með hrísgrjónunum, hlýtur að minnka og vonandi hverfa. Draga mun mjög úr öllum framkvæmdum og þar með úr fornleifarannsóknum tengdum raski og framkvæmdagleði. Um leið og jarðýturnar þagna, missir fornleifafræðingurinn vinnunna á Íslandi.
Mæli ég með því að menn setjist niður á næstu árum og klári verk sín eins og völ er á. Þessi mögru ár koma ekki einvörðungu niður á FSÍ. Þau koma verst niður á stúdentunum í faginu, sem ekki fá eins góð tækifæri í fornleifafræðinni og sagnfræðingurinn Orri Vésteinsson og samverkamenn hans, sem vitanlega voru fremstir. Fremstir í því að skapa það ástand, sem veldur því að erfitt er að sjá hvort vísindi ráði ferðinni í fornleifafræði á Íslandi, ellegar hin miskunnlausa græðgi mannsins, sá eiginleiki sem dregur Íslendinga í -dilka, í feitu sauðina og þá rúnu.
Ef Yahoo er spurt hvað fornleifafræðingar geri eiginlega, kemur upp eftirfarandi svar, sem ekki á við um Ísland, enda einhver rómantík hjá höfundi, sjá hér: Most archaeologists work with universities or museums, and part of their job is to obtain funding for digs. They also may employ students on digs to have extra man or womanpower on the job. Students usually work without pay, but relish the training they receive in their chosen field.
Sjá Einnig: The Big Professor , Af siðferði og siðleysi í íslenskri fornleifafræði
Vísindi og fræði | Breytt 3.6.2009 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.5.2009 | 16:44
The Big Professor
Um daginn greindi Morgunblaðið frá samstarfi Fornleifastofnunar Íslands (FSÍ) við frægan og stóran prófessor og háskóla í New York borg.
Ungur fornleifafræðingur, Albína Hulda Pálsdóttir, hafið greinilega troðið þeim öllum um tær með því að sýna sjálfstæði og dug til að leggjast í stórt verkefni. Haldið er fram að FSÍ hafi fengið Stóra Prófessorinn í New York til að bola fornleifafræðinemanum (doktorsnemanum) úr námi við Hunter College á CUNY og hræða hana frá því að kasta sér sér út í verkefnið vestan við Alþingishúsið.
Í fyrradag barst hins vegar yfirlýsing frá stóra prófessornum í New York, þar sem hann sór og sárt við lagði, að hann hann hefði ekki rekið Albínu vegna óska frá samstarfsaðilum sínum á Íslandi sem með honum vildu stjórna rannsóknum svokölluðum Alþingisreit. Hann rak hana vegna þess að verkefni hennar stangaðist á við reglur City University of New York.
Eins og sakleysið uppmálað lýsir stóri prófessorinn, McGovern, því einnig yfir, að Albína hafi verið lélegur nemi og þess vegna hafi hann líka rekið hana. Það er væntanleg ekki það sem gerðist, ef ég hef lesið gögn sem birtust í Morgunblaðinu þann (sjá hér) rétt.
Lélegur nemandi getur Albína ekki hafa verið fyrst henni hefur verið leyft að fara í doktorsnám. Og Albína sýnist mér hafa fengið styrki frá ýmsum Bandarískum sjóðum. Það bendir nú frekar til þess að hún sé afburðarnemandi.
Það er lágkúrulegt að sjá stóra menn eins og Thomas H. McGovern leggjast svo lágt að svína fyrrum nemanda sinn til, eftir að hann hefur reynt að eyðileggja fræðilegan heiður hennar og framtíð hennar með því að reka hana úr námi. Stórir menn leggjast stundum einum oft lágt.
Ég vona að Albína Hulda sé ekki búin að fá sams konar bréf og ég fékk einu sinni frá McGovern. Þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi sjá til þess að ég fengi aldrei vinnu í íslenskri fornleifafræði framvegis og myndi beina fjármagni sem annars gæti runnið til Íslands til Rússlands. Þegar ég var ráðinn að Þjóðminjasafni Íslands árið 1993 sendi þessi stóri prófessor bréf til Þjóðminjavarðar til að sverta mig og rægja.
Reglur og lög á CUNY eru vitaskuld alls ekki leikreglur og lög á Íslandi. CUNY hefur ekkert að segja á Íslandi. Hafa verður samband við forráðamenn á CUNY og láta þá vita hvernig aðferðir McGovern hefur notað á Íslandi og hvernig hann hefur komið fram við nemanda sinn. CUNY er reyndar ekki neitt fínt plagg í BNA, nema þegar menn eru komnir í doktorsnám. Frægt er orðið mál samprófessors McGoverns, Leonard Jeffries, sem lýsti því yfir að gyðingar bæru ábyrgð á þrælaflutningum til Bandaríkjanna og væru skúnkar. Gyðingahatari var meðprófessor McGoverns á CUNY, og meirihluti prófessora á CUNY vildi ekki einu sinni láta reka Jeffries fyrir hatur í garð gyðinga og hvítra manna. Les hér um Dr. Jeffries.
Hér um árið útdeildi stóri prófessorinn lítilli ritgerð til samstarfsmanna sinna á Íslandi, sem ættuð var frá herjum Bandaríkjanna. Í riti þessu voru mönnum settar reglur í samgegni við Íslendinga og okkur Íslendingu lýst eins og einhverjum afdalamönnum (sem við erum líkast til). Einhvern tíma mun ég birta brot úr þeim fyrir lesendur mína til skemmtunar. En þangað til gætir stóri Prófessorinn lesið þær aftur og hagað sér sómasamlega á heimilum annarra þjóða.
Aðrir Bandaríkjamenn hafa reyndar starfað hér í fornleifafræðum líka, jafnvel þó þeir séu ekki fornleifafræðingar. Ekki hafa þeir sýnt svo ljótan þokka af sér eins og McGovern. Sem betur fer er misjafn sauðurinn þar vestra. Það eru nefnilega ekki allir eins og Stóri Prófessorinn á CUNY. Ég held að ég hafi aldregi fyrirhitt Bandaríkjamann eins og hann.
Ungir fornleifafræðingar og fornleifafræðinemar, ég hef eitt ráð til ykkar: Haldið ykkur frá stóra prófessornum og deild hans á Hunter College, CUNY. Eftir að hann hefur haft mest möguleg not af mönnum og mergsogið þá, spýtir hann þeim út. Það versta er að hann heldur að hann hafi haft einhverja þýðingu fyrir íslenska fornleifafræði. Það er hinn mesti misskilningur. Nú er hann svo farinn að gera tilgátur annarra að sínum.
Það ber að taka fram, að myndin er ekki af Thomas H. McGovern þar sem hann situr sveittur og ver heiður sinn og gjörðir gegn ungri og efnilegri íslenskri námskonu. Maðurinn á henni er mjög líkur McGovern, eins og þeir sem þekkja stóra prófessorinn sjá.
23.5.2009 | 14:03
Útrásarsvínainflúensa
Vart hefur orðið við útrásarsvínainflúensu, HINIR40. Ef maður fær hita, er best að fara úr öllu.
Svínaflensa á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2009 | 18:11
Gölluð kirkja
Nú gleðjast óguðlegir væntanlega, ef þeir halda að ég fari að hallmæla kirkju og trú. Þess vegna segi ég við yður: Bless vantrúarmenn og farið til fjandans, eða eitthvað annað. Þið verðið ykkur að voða hér. Þetta er hálfheilagt blogg.
Ég heimsótti nýverið Þjórsárdalinn, þar sem ég hef ekki komið í nær 13 ár. Dalurinn hefur haft mikla þýðingu fyrir líf mitt, enda stundaði ég þar rannsóknir í nokkur sumur á tveimur síðustu áratugum 20. aldar. Ég er nú loks aftur farinn að vinna úr þeim rannsóknum, en fæ til þess lítinn stuðning.
Eins og ég greindi frá í nýlegri færslu, leyfði ég mér að endurskoða aldursgreiningu á byggð í Þjórsárdal. Nú virðist loks sem aðrir séu komnir á sömu skoðun og ég, og telji af og frá að byggð hafi lagst af í dalnum árið 1104.
En greinilega eru ekki allir tilbúnir að meðtaka nýjan sannleika. Meðan ég hef búið í Danmörku síðan 1996, hefur verið reist eftirmynd þeirrar kirkju sem ég rannsakaði á Stöng í Þjórsárdal árið 1986, 1992 og 1993. Ég hef gert þessu Guðshúsi töluverð skil og meira að segja gefið Hjörleifi Stefánssyni arkitekt, sem lengi var á sérverktakasamningi í tengslum við Þjóðminjasafni, öll gögn í hendur til að hægt væri að reisa eftirgerð kirkju við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal. Ég hélt einn fund með honum á teiknistofu hans áður en ég flutti til Danaveldis árið 1996 og gaf honum ýmsar upplýsingar.
Mér bárust fréttir af lokum þess verkefnis og frá vígslu kirkjunnar, sem var í höndum biskups Íslands. Mér var náttúrlega ekki boðið að vera viðstaddur, frekar en á sýningu þá í Þjóðminjasafni, þar sem haglega gerðir innviðirnir kirkjunnar voru sýndir áður en kirkjan var reist í Þjórsárdal. Hvað sýnir það ykkur kæru lesendur? Ég sé starfshætti eins og þeir tíðkuðust í DDR forðum.
Þegar ég loks sá kirkjuna við Þjóðveldisbæinn við Búrfell með eigin augum, brá mér heldur betur í brún. Arkitektinn hefur tekið sér það bessaleyfi að stækka hana alla í hlutföllum. Í stað tveggja steinalaga í vegg, eru 4-5 lög, miklu stærri steina en þeirra sem fundust í vel varðveittri rústinni að Stöng. Í stað þess að veggurinn sé um einn metri að breidd eins og hann var, því hann er varðveittur óhruninn, hefur teiknimeistarinn gert hann helmingi breiðari. Kór kirkju Hjörleifs hefur fengið einhvern "aukarass" aftan við kórinn. Engin merki þessa "skagfirska", seinni tíma lags var að finna við fornleifarannsóknirnar. Þó ég hefði beðið Hjörleif Stefánsson að taka hliðsjón af tilgátumyndum sem ég teiknaði, þá gerði hann það ekki. Kirkjan er því allt of háreist og sýnir alls ekki hvernig litlar bændakirkjur voru í öndverðri kristni á Íslandi. Ekki frekar en Þjóðveldisbærinn sýnir húsakost á Stöng í Þjórsárdal.
Hörður Ágústsson lista- og fræðimaður réði smíði skálans, sem því miður lýsir aðeins hans eigin þjóðernisrómantík. Bæjarhús á Stöng í Þjórsárdal voru aldrei eins háreist og skálinn sem reistur var við Búrfell, sem gárungar og fornleifafræðingar kalla Gúmmí-Stöng. Við þekkjum nú loks gerð veggja yngsta skálans á Stöng eftir rannsóknir á Stöng árið 1994 og getum því með góðri samvisku sagt, að hæðið hafi verið miklu minni en á Þjóðveldisbænum. Við getur líka með vissu sagt, að skálinn sem fannst árið 1939 var reistur löngu eftir að gosið í Heklu árið 1104.
Enn er því verið að ljúga ferðamenn fulla í Þjóðveldisbænum í Þjórsárdal, þegar sagt er að bærinn hafi farið í eyði árið 1104. Hér geta fararstjórar lesið sér örlítið til og hér er að finna ítarefni.
Hjörleifur skáldar hringlaga kirkjugarð
Hvaðan Hjörleifur hefur það, að hringlaga garður hafi verið kringum kirkjugarðinn á Stöng, veit ég ekki. En það var ekki frá mér komið. Við erum enn ekki búin að finna hann.
Því miður hefur biskup Íslands vígt sögufölsun. Nóg er víst til af þeim í veikum viðum kirkjunnar. Það er falskirkja sem byggð hefur verið í Þjórsárdal. Það er fölsun, þegar menn fara ekki að ráðum þeirra sem þekkja til, fela sannleikann og ljúga.
Guðs orð og helgiathafnir eru þó vitaskuld eins góð í þessu litla/stóra guðshúsi eins og alls staðar annars staðar. Leiðinlegt er þó að húsið sé byggt á lygum og fáfræði. Kirkjan að Stöng var vitaskuld rammkaþólsk og því hefði verið betra og við hæfi að láta kaþólskan biskup vígja kirkjuna.
Þess má geta að byggingameistari "gúmmí-kirkjunnar" í Þjórsárdal er bróðir Kára í DeCode. Þetta er stórtækir bræður. Hjörleifur Stefánsson hefur gegnum árin leyst mörg verkefni fyrir Þjóðminjasafnið listavel, en kirkjan við Þjóðveldisbæinn er manísk og ýkt, þó smíðavinna á henni sé listavel úr garði gerð að mínu mati.
Leiðinlegt að þetta skyldi hafa farið á þennan veg og skömm sé íslensku þjóðkirkjunni fyrir að taka þátt í aðför að fræðilegum heiðri manna. Slíkri kirkju mun aldrei farnast vel.
Vísindi og fræði | Breytt 29.6.2023 kl. 05:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.4.2009 | 20:14
Vei, Óðinn var gay !
Nú er "hinsegin- og kynjafræði" í tísku í fornleifafræðinni, á Íslandi að minnsta kosti, því þar eru menn stundum dálítið á eftir. Þessar bylgjur í fræðinni komu svo sannarlega aftan að square tradisjónalista eins og mér. Þær tröllriðu sumum fornleifadeildum, fyrir meira en áratug síðan. Ég leyfi mér að skýra uppruna þessara fyrirbæra sem tímanna tákn.
Samtímaumræðan hafði einum of mikil áhrif á fræðimennskuna. Femínismi var í tísku og gat, eins og við vitum, farið út í öfgar. Þegar (kven-) mönnum vantaði ritgerðaefni varð kynjafornleifafræði oft fyrir valinu. "Hinsegin" fólk hefur líka lagt stund á fornleifafræði og leggur vitaskuld sitt gildismat á það sem þeim sýnist. Það getur líka farið út í öfgar.
Nú vill svo skemmtilega til, að í tilefni af 10 ára afmæli Fornleifafræðingafélags Íslands er boðið til hinsegin- og kynjafundar á Þjóðminjasafninu kl. 13:00 á laugardag. Allir eru velkomnir. Á fundinn hefur verið boðið norskum fornleifafræðingi, Brit Solli, sem mun flytja eftirfarandi boðskap:
Queering the Cosmology of the Vikings" - útdráttur:
Ideas concerning eros, honour and death were central to the Norse perception of the world. Odin is the greatest war god, and associated with manliness. However Odin is also the most powerful master of seid, an activity associated with women. Seid may be interpreted as a form of shamanism. If a man performed seid he could be accused of ergi, that is unmanliness. Consequently Odin exercised an activity considered unmanly. How could Odin perform seid without losing his position as the god of war and warriors? This paradox is discussed from a queer theoretical perspective. On this basis a new interpretation of the so-called "holy white" phallic stones in western Norway is suggested. Most of these stones are associated with burials from the later part of the Scandinavian Early Iron Age. The temporal distribution of the white phallic stone correlates well with the increasing importance of the cult of Odin. There may be a cultic association between the cult of Odin and the burial practices involving white holy phallic stones.
Ég hef verið gildur limur í þessum félagsskap (Fornleifafræðingafélaginu), án þess að hafa mætt á einn einasta fund í 10 ár. Þar hefur ýmislegt verið að gerjast. Ja, og næstkomandi laugardag kennir vissulega margra grasa.
Seiður er sagður shamanismi. Ég fellst á það, nema það hvað völur og seiðkerlingar og -karlar fyrri tíma þekktu ekkert svona fínt orð ættað úr Síberíu. Shamanisminn blessaður, hefur nú líka heldur betur verið tískuviðfangsefni í fornleifafræðinni á undan queer og gender fræðum.
En að seiður (seid eins það er kallað í erlendum gandreiðar og hamskiptingakreðsum), sé eitthvað sem kvenkyns menn hafi einir haft einkarétt á, ætla ég nú að leyfa mér að draga í efa, enda er ég sjálfur mikill seiðkarl án þess að vera argur eða ragur.
En ég vona að mönnum sé ljóst, að það er verið að rugla með svona pælingar í fornleifafræði vegna þess að Snorri Sturluson skrifaði um ergi seiðs, þegar hann var að lauma kristnum móralisma og kvenfyrirlitningu inn í rit sín heilum 300 árum eftir að seiðkerlingar voru að hrjá hetjurnar hans í Íslendingasögunum.
Ekki veit ég hvernig Óðinn, æðstur Ása, tekur því að vera vændur um ergi ("unmanliness"). Ég vona bara að Þór verði ekki queeraður á næstunni!
En hvernig er hægt að ræða útbreiðslu hvítra ballarsteina í Noregi út frá queer theoretical perspective? Hvað þýðingu hafa hvít norsk steintippi eiginlega? Eru þau eitthvað sem fá menn til að hugsa um ergi Óðins, eða voru steintippin vegleg mótefni gegn dylgjum um að Óðinn karlinn hafi verið, (eða sé), homse, eins og argir eru kallaðir í Noregi nú til dags? Er Óðinn yfirleitt bara nokkuð kominn út úr skápnum í Valhöll? Af hverju kölluðu menn hann Geirlöðni, Vingni eða Tveggi?
Í Laxdælu (76. kapítula) er sagt frá eins konar fornleifafræði, sem sver sig í ætt við kerlingabækur eins og þær sem liggja á fornleifafræðinni á Íslandi eins og mara: "Síðan vaknaði Herdís og sagði Guðrúnu drauminn. Guðrúnu þótti góður fyrirburðurinn. Um morguninn eftir lét Guðrún taka upp fjalar úr kirkjugólfinu þar sem hún var vön að falla á knébeð. Hún lét grafa þar niður í jörð. Þar fundust undir bein. Þau voru blá og illileg. Þar fannst og kinga og seiðstafur mikill. Þóttust menn þá vita að þar mundi verið hafa völuleiði nokkuð. Voru þau bein færð langt í brott þar sem síst var manna vegur".
Fræðin geta verið hættuleg mannfólkinu. Það er greinilegt, að sumir fá meira "kikk" en aðrir út úr öllu því sem stendur upp á kant og líkist kústskafti eða agúrku. Misjafnt er manns gaman. Ég held að Æðstur Ása sé mér sammála um það.
Ef hægt er að losa sig við svona ruglfræði, þá stendur ekki á mér! Stundum finnst mér ég samt vera orðinn hálfsteinrunnin, eins og gamall hvítur steingöndull, þegar kemur að því sem fólk er að velta fyrir sér í fornleifafræði þessa dagana.
En þegar menn eru á annað borð að velta fyrir sér ergi Óðins, leyfi ég mér að mæla með þessum brúna (Brúni var eitt af mörgum nöfnum Óðins) og glansandi Gay-Odin. Ég get troðið honum endalaust upp í mig: http://www.gay-odin.it/
Vísindi og fræði | Breytt 9.3.2024 kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 86
- Frá upphafi: 1352301
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007