8.8.2009 | 13:26
Feilnótur Jóns Leifs
Ekki er það nú alveg rétt, að saga Jóns Leifs hafi ekki verið skrifuð áður. Mjög stór hluti sögu hans er sögð af Ásgeir Guðmundssyni í bókinni Berlínarblús (1996), en þar er mörgu ábótavant (sjá eftirfarandi pistil minn). Það er því ánægjulegt að Árni Heimir Ingólfsson sé búin að skrifa bók um Leifs, en hann skrifaði m.a. grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1997.
Landsölutaktar Leifs eru vel þekktir. Ég greindi frá því fyrr hér á blogginu mínu, að Jón Leifs hafi reynt að selja Ísland nasistum. Ef Jón hefði lifað í dag, væri ég viss um að hann hefði verið harður ESB-sinni eins og landsölumenn eru í dag.
Ástæðan til þess að Örn Helgason nefnir ekki Jón Leifs á nafn í bók sinni, Kóng við viljum hafa!, hefur örugglega verið hræðsla við hörð viðbrögð í þjóðfélaginu. Meðal ýmissa menningavita á Íslandi hefur Jón Leifs lengi verið í dýrlinga tölu og klisjukennd músík hans hefur verið talin til stærstu meistaraverka sögunnar. Ég deili ekki þeirri skoðun. Mér leiðist tónlist Jóns Leifs. Mér finnst samt gaman af Heklu. Árni Heimir ritar: "Jón var ekki glöggskyggn maður þegar kom að pólitík sem sést best á því að hann gaf embættismönnum nasista undir fótinn með ýmsu móti, þrátt fyrir að hann væri sjálfur kvæntur konu af gyðingaættum."
Þetta held ég að sé alrétt hjá Árna Heimi. Ef Jón hefði verið það, hefði hann verið búinn að koma fjölskyldu sinni burt frá Þýskalandi nasismans fyrr en hann gerði. Hann hugsaði fyrst og fremst um eigin fægð og frama.
Ég var fyrir löngu búinn að skrifa eftirfarandi pistil um Jón Leifs, vegna ýmissa rangfærslna sem ég hafði séð í bók Ásgeirs Guðmundssonar, en hafði aldrei komið honum frá mér. Hér koma fleiri feilnótur úr lífi Jóns Leifs:
Á síðasta áratug 20 aldar blómgaðist áhuginn á Jóni Leifs. Þá voru liðin tæp 30 ár frá dauða tónskáldsins. Þá fá menn oft endurreisn, sem þeir nutu ekki í lifanda lífi. Gerð var leikin kvikmynd, sem þó getur ekki flokkast til heimildamynda. Ýmsir fræðimenn skrifuðu um Leifs og vildu hreinsa nasistastimpilinn af honum. Ekki langar mig að stimpla Leifs sem nasista, heldur aðeins greina frá örfáum atriðum, sem gleymdust hjá sagnfræðingum í meðferð þeirra á Jóni Leifs rúmum 30 árum eftir dauða hans árið 1968.
Í bók sinni Berlínarblús (1996), leggur Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur sig mjög fram við að hreinsa þennan blett af Jóni Leifs, um leið og hann setur þá á aðra menn. Ásgeir kennir dr. Þór Whitehead ranglega um að hafa sett stimpilinn á Leifs, vegna túlkunar hans á bréfum um járnvinnslu (stóriðju á Íslandi), sem Jón sendi til þýska utanríkisráðuneytisins árið 1939.
Aðrir menn en Jón vildu ólmir gefa nasistum upplýsingar og hráefni. Íslendingur, búsettur í Kaupmannahöfn, sem taldi sig lögmætan eiganda óðala á Vestfjörðum, reyndi ákaft að upplýsa um íslenska boxítnámur og aðrar ímyndaðar auðlindir, sem gætu gagnast ef að þýskri yfirtöku landsins yrði. Annar maður í Kaupmannahöfn, Þjóðverji, var handtekinn fyrir njósnir fyrir Þjóðverja árið 1939. Í gögnum um hann hef ég fundið fjölmörg bréf Íslendingsins með gylliboðum til Þriðja Ríkisins um auðlindir, virkjanir og álframleiðslu á Íslandi. Skrif hans þóttu svo ruglingsleg, að ekki þótti ástæða til að tengja óðul mannsins á Íslandi við ákærur á hendur þýska njósnaranum, sem síðar var dæmdur fyrir aðrar syndir.
Hafa ber í huga að þegar Jón Leifs og landi hans i Kaupmannhöfn voru að falbjóða auðlindir lands síns í Þýskalandi nasismans, höfðu flest lönd Evrópu skapað ákveðna stefnu í auðlindamálum gagnvart Þýskalandi vegna styrjaldarhættu. Athæfi Jóns Leifs, og vestfirska álbóndans, var því á skjön við utanríkisstefnu Dana og Íslands. Þetta voru landráð.
Þrátt fyrir vinaleg tilboð frá Íslendingum voru Þjóðverjar árið 1939 orðnir stærri álframleiðendur en Bandaríkjamenn.
2
Í ákefð sinni við að hreinsa mannorð Jóns, var kaflinn um Jón í bók Ásgeirs Guðmundssonar, Berlínarblús, líkur kvikmynd sem kom út um tónskáldið á svipuðum tíma. Maður veit ekki hvað er satt og fleiri spurningar vakna en svarað er. Kvikmyndin var vissulega ekki heimildamynd, en ef bók Ásgeirs er hugsuð sem fræðileg heimildaúttekt á íslenskum meðreiðarsveinum nasista, vaknar spurning sem Ásgeir hefði átt að svara í bók sinni.
Hvernig gat maður, sem var útlendingur, leyft sér að neita að borga í söfnun til stríðsreksturs Þjóðverja árið 1941, eins og Ásgeir greinir frá? Jón Leifs var samkvæmt hugmyndafræði nasista kvæntur kynþáttaníðingi (Rassenschänder). Hann var kvæntur konu sem var gyðingur. Hvað gerið Jóni kleift að halda uppi slíkum ósóma í ríki sem hafði sett lög um brottflutning gyðinga og manna eins og hans, sem hafði kvænst niður í óæðri kynstofn og getið af sér börn með gyðingi? Voru það góð sambönd eða snilldarleg tónslitargáfa, eða aðeins vegna þess að hann var Íslendingur, "ein bischen exotisch"?
Eins og kunnugt er hnepptu nasistar ekki "lægri kynþætti" sem Kínverja, Indónesa og t.d. Palestínuaraba sem bjuggu í Evrópu í útrýmingarbúðir. Þeir, og menning þeirra voru talin spennandi rannsóknarefni. Sama hefur hugsanlega gilt um Íslendinga? Vart hefur Jón verið friðaður vegna tónlistarinnar. Verk hans voru bönnuð í Þýskalandi nasismans árið 1937 og voru aðeins flutt stöku sinnum með sérstakri Ríkisundanþágu.
En hvað með Íslending, sem með gyðinglegu kvonfangi var orðinn hálfgyðingur samkvæmt hugmyndafærði nasista? Var hann spennandi í augum nasista? Áðurnefnd spurning leitar sterkt á þá sem hafa áhuga á sögusviði þessa tíma. Hvað gerði Jón til að bjarga sér og konu sinni, sem flestum öðrum tókst ekki? Kannski voru það einvörðungu fálkaorðurnar sem Jón hafði milligöngu um að nældar voru á fjölda Þjóðverja í lok 4. áratugarins? Kannski voru það landsöluáform Leifs? Kannski var Jón nógu helvíti frekur til að standa í hárinu á Gestapo?
3
Jón Leifs var, eins og Ásgeir Guðmundsson bendir réttilega á í bók sinni Berlínarblús, þjóðernissinni af gamla skólanum líkt og margir samtímamenn hans. Jón var aðdáandi háþýskrar menningar eins og margir samtímamanna hans, en það gerir hann auðvitað ekki að nasista. Hann var einnig duglegur að ota sínum tota, kvörtunargjarn og þótti oft óheflaður, sem oft er sú lýsing sem væskilslegir skriffinnar ráðuneyta gefa viljasterkum einstaklingum með réttlátar og stórar hugsanir.
Eitt af þeim skjölum sem Ásgeir Guðmundsson hefur misst af í gloppóttri yfirreið sinni yfir skjöl í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn sýnir þetta í hnotskurn. Jón kvartaði sáran í bréfi til danska sendiráðsins í Berlín árið 1923 yfir starfsaðferðum lögreglunnar í Halle gagnvart sér, sem og yfir óeðlilegu verðlagi, sem hann hélt fram að væri krafist af útlendingum á hótelum og við aðra þjónustu í Þýskalandi. Jón hélt því fram að mismunun ætti sér stað gagnvart útlendingum í Þýskalandi.
Miklu síðar (1934) þótti danska utanríkisráðuneytinu Jón Leifs hofmóðugur í meira lagi, er hann sem tónlistaráðunautur Útvarps Reykjavíkur ritaði frá heimili sínu í Rehrbrücke við Wannsee og bað sendiráð Dana í Berlín að koma sér í samband við leiðandi menn í tónlistalífi Þýskalands. Hann ritaði á þýsku, sem Dönum þótti harla óviðeigandi. Eftir að hafa tekið á móti Leifs í sendiráðinu í Berlín ritar starfsmaður sendiráðsins til utanríkiráðuneytisins í Kaupmannahöfn:
"Hr. Jón Leifs leit hins vegar sjálfur út fyrir að vera alveg vissum um hvað hann eiginlega vill, sem sjálfsagt tengist því að hann hefur ekkert opinbert umboð og er þess vegna í sannleika sagt ekki fær um að stinga upp á neinu jákvæðu - fyrir utan, náttúrulega að bjóða sín eigin verk til flutnings".
Jón Krabbe, sem sá um íslensk málefni í danska utanríkisráðuneytinu svaraði:
"Ég er alveg sammála skoðun yðar á málinu; Leifs hefur fengið ráðningu í eitt ár sem stjórnandi tónlistardeildar íslenska Útvarpsins; eins og einn kunningja hans sagði mér, verður það varla meira en þetta eina ár. Þar sem hann er þekktur fyrir að vera erfiður í samstarfi........ ég (er) sammála yður um að það verður að aðstoða hann við störf, sem hið opinbera hefur trúað honum fyrir. En hvað varðar metnað hans í þá átt að vera eins konar sendiherra Íslands á öllum sviðum menningar, þá held ég ekki að hæfileikar hans hafi tærnar þar sem metnaður hans hefur hælana".
Krabbe rifjaði í þessu sambandi upp hvernig Jón Leifs hafði á ókurteisan hátt sett fram kröfur við yfirmann sænskra tónlistamála um þátttöku Íslands í norrænni tónlistahátíð, sem íslensk yfirvöld ákváðu að taka ekki þátt í. Krabbe ráðlagði sendiráðinu varúð ef Jón bæði um aðstoð til mála sem lágu utan starfssviðs hans.
Þessar heimildir um Jón Leifs hafa ekki áður verðið birtar. Jón Krabbe reyndist sannspár. Leifs missti stöðu sína við Útvarpið árið 1937.
4
Af skjölum utanríkisráðuneytisins danska, sem engar kvaðir liggja á, og sem höfundur bókarinnar Berlínarblús nýtti sér ekki, má sjá að Jón heldur því fram við sendiherra Dana í Stokkhólmi, að bandarísk heryfirvöld í Reykjavík hafi borið ábyrgð á handtöku sinni árið 1945. Hann segir að hann hafi fengið það staðfest í breska sendiráðinu í Reykjavík, að upplýsingar sem handtakan byggi á kæmu frá dönskum yfirvöldum. Þetta bréf skrifaði Leifs 10. október 1945, mánuði eftir að hann sendi svipað bréf til sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Eins og Ásgeir Guðmundsson bendir á, virðast engin svör hafa borist við aðild Dana í handtöku Jóns. Mál þetta varð að mikilli áráttu hjá Jóni.
En gæti það verið, að dönsk yfirvöld hafi í raun enga aðild átt að handtöku hans? Sú spurning vaknar, hvort hugsanlegt sé að einhver landa Jóns hafi með orðrómi valdið handtöku Jóns á Esjunni, líkt og þegar orðrómur landa hans varð tilefni fyrrnefnds dóms danska utanríkisráðuneytisins yfir honum árið 1934. Jón var ekki vinsæll maður og margir öfunduðust út í hann.
Að bréfi Jóns má lesa að hann telur Dani vera á bak við handtöku sína og nasistastimpilinn. Hann skrifaði:
"Ég sem virkur í alþjóðlegu, opinberu lífi, get alls ekki sætt mig við þess konar meðferð eða við minnsta vott um grun að Dana hálfu. Áður en ég leita til dómstóla í málinu, reyni ég að leysa það á vinsamlegan hátt til gagns fyrir dansk-íslenska samvinnu í framtíðinni (og norræna samvinnu), sem ég mun vinna að. Ef Þér vilduð nálgast upplýsingar í Danmörku, þangað sem yfirheyrslugögnin voru send frá Íslandi, myndi ég gjarna gefa nánari smáatriði varðandi málið".
Sendiráð Dana í Stokkhólmi ráðlagði Jóni að skrifa sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn, sem Jón hafði reyndar þegar gert. Utanríkisráðuneyti Dana hafði ekki neinar mikilvægar upplýsingar um Jón eftir 1936 og grunaði hann ekki um neitt sem leitt gat til handtöku, eins og hann hélt.
Þessar upplýsingar vantaði því miður í bók Ásgeirs Guðmundssonar.
Jón barst út í hringiðu heimsins og gata hans varð því aldrei eins slétt og heimalningsins. Hann var afar hreinskilinn maður og sagði óspart meiningu sína. Jón var einnig einstaklingshyggjumaður, þjóðernissinni og hafði mikið skap. Hann var óvinsæll og öfund lítilsigldra landsmanna hans lék hann grátt. En hann var ekki meðreiðarsveinn. Hann treysti þó ótrúlega lengi á nasismann og á að nasistar myndu virða íslenskt vegabréf hans og fjölskyldunnar. Hann reyndi því ekki að forða fjölskyldu sinni, konu, dætrum og tengdaforeldrum, sem voru gyðingar, frá Þýskalandi. Erfitt er þó að sjá, hvort hann gæti hafa komið þeim til Íslands í lok 4. áratugarins eins og málum var háttað á Íslandi gangvart gyðingum. Hvort honum hefur dottið slík björgun í hug, er þó á huldu.
Ég held að hann hafi í lengstu lög reynt að verða stór stjarna á tónslistarhimni nasista. Í Danmörku og á Íslandi höfðu túnin reynst honum ærið þýfð, en hann hafði hlotið sæmilegar undirtektir í Þýskalandi í byrjun 4. áratugarins. Hann notaði ýmis góð sambönd í Þýskalandi, sem hann bjó að frá því að allt lék í lyndi og áður en að byrjað var að henda gaman af verkum hans. Slík sambönd urðu til þess að hann komst með fjölskylduna til Svíþjóðar árið 1944. Til þess þurfti mjög góð sambönd. Þangað kominn óskaði hann eftir skilnaði frá konu sinni Annie Riethof, sem var henni og dætrum þeirra mikið áfall.
En ef einhver leitar næststærsta örlagavalds Jóns Leifs, fyrir utan hann sjálfan, langar mig að setja fram skoðun mína:
Það var hans eigin þjóð sem var honum verst og gerði hann að eins konar flóttamanni. Hann varð að útlendingi, þótt hann vildi helst vera Íslendingur. Þannig eru oft örlög frumkvöðla í mýfluguþjóðfélögum eins og því íslenska.
Bauð konungdóm yfir Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Menning og listir, Vísindi og fræði | Breytt 1.6.2023 kl. 08:05 | Facebook
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.9.): 3
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 54
- Frá upphafi: 1351604
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
Athugasemdir
Það er leiðinlegt brengl í textanum varðandi höfund þessa Berlínarblúss. Hann er ýmist Ásgeir eða Ágúst. Sjálfsagt lagaru það og eyðir þessari athugasemd.
Skarpi, 8.8.2009 kl. 13:41
Skarpur Skarpi, ég skerpi þetta!
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.8.2009 kl. 13:54
Það væri nú kannski ekki jafn illa fyrir þjóðinni komið, ef við hefðum verið undir Þjóðverjum. Íslendingar hafa því miður ekki kunnað að fara með sjálfstæðið. Nú eru þeir endanlega búnir að skíta upp á bak og hver á að þrífa það? Réttast væri að gefa Norðmönnum landið og taka upp norska krónu. Ísland er eitt mesta spillingarbæli veraldar, enda kölluð Nígería norðursins.
Stebbi (IP-tala skráð) 8.8.2009 kl. 18:36
Ógurlegur hroki er þetta í Jóni og þessum tveimur öðrum íslendingum að þykjast geta boðið konungdom yfir landinu. Höfðu þeir nokkuð umboð til þess?
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.8.2009 kl. 00:54
Thad kom út bók í Svíthjód fyrir um thad bil átta árum um Jón Leifs.
Bókin heitir: Jón Leifs - kompositör i motvind. Hún er skrifud af Carl Gunnar Åhlén , tónlistargagnrýnanda í Svenska Dagbladet. Bókin er mikill dodrantur, naerri 500 bladsídur og fylgir henni diskur med sýnishorni af tónlist Jóns. Ég las bókina en get ekki lengur gert grein fyrir efninu, en ég man ad mér fannst hún mjög ítarleg.
Kannski hefur bókin verid thýdd á íslenzku. Mér er thó ókunnugt um thad.
S.H. (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 07:57
S.H. þakka þér fyrir þessar upplýsingar. Ekki hef ég lesið þessa sænsku, bók en býst við því að Árni Heimir hafi örugglega gert það, en hann segist líka aðeins vera fyrsti Íslendingurinnsem gefur út bók um Leifs. Ætli Åhlen hafi heldur ekki þær upplýsingar sem ég bendi á? Smáatriði.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.8.2009 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.