Leita í fréttum mbl.is

Álsaga Íslands - Fyrstu árin

Stóriðjudraumar íslenskra stórmenna á 20. öld

Aluminium

Nú hafa tæplega 6000 Hafnfirðingar kosið í álkosningu.

Álver, og það helst mörg, hljómar eins og tónlist í eyrum marga Íslendinga. Menn með mikil tóneyru höfðu einnig stórar hugmyndir um stóriðju á Íslandi. Einn þeirra var Jón Leifs.

Á síðasta áratug 20 aldar blómgaðist áhuginn á Jóni Leifs. Þá voru liðin tæp 30 ár frá dauða tónskáldsins. Þá fá menn oft endurreisn, sem þeir nutu ekki í lifanda lífi.  Gerð var kvikmynd, sem þó getur ekki flokkast undir heimildamyndir. Ýmsir fræðimenn skrifuðu um Leifs og vildu hreinsa nasistastimpilinn af honum. Ekki langar mig að stimpla Leifs sem nasista, heldur aðeins greina frá örfáum atriðum, sem gleymdust hjá sagnfræðingum í meðferð þeirra á Jóni Leifs rúmum 30 árum eftir dauða hans árið 1968.

Í bók sinni Berlínarblús (1996), leggur Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur sig mjög fram við að hreinsa nasistastimpilinn af Jóni Leifs, um leið og hann setur þá á aðra menn. Ásgeir kennir dr. Þór Whitehead ranglega um að hafa sett stimpilinn á Leifs, vegna túlkunar hans á bréfum um járnvinnslu (stóriðju á Íslandi), sem Jón sendi til þýska utanríkisráðuneytisins árið 1939.  Aðrir menn en Jón vildu ólmir gefa nasistum upplýsingar og hráefni. Íslendingur, búsettur í Kaupmannahöfn, sem taldi sig lögmætan eiganda óðala á Vestfjörðum, reyndi ákaft að upplýsa um íslenska boxítnámur og aðrar ímyndaðar auðlindir, sem gætu gagnast ef að þýskri yfirtöku landsins yrði.

Annar maður í Kaupmannahöfn, Þjóðverji, var handtekinn fyrir njósnir fyrir Þjóðverja árið 1939. Í gögnum um hann hef ég fundið fjölmörg bréf Íslendingsins með gylliboðum til Þriðja Ríkisins um auðlindir, virkjanir og álframleiðslu á Íslandi. Skrif hans þóttu svo ruglingsleg, að ekki þótti ástæða til að tengja óðul mannsins á Íslandi við ákærur á hendur þýska njósnaranum, sem síðar var dæmdur fyrir aðrar syndir.

Hvort einhver ættartengsl eru á milli vitlausa, íslenska landsölumannsins í Kaupmannahöfn og Álkana nútímans (eða Alcoa) hef ég ekki rannsakað. En hafa ber í huga að þegar Jón Leifs og landi hans i Kaupmannhöfn voru að falbjóða auðlindir lands síns í Þýskalandi nasismans, höfðu flest lönd Evrópu skapað ákveðna stefnu í auðlindamálum gagnvart Þýskalandi vegna styrjaldarhættu. Athæfi Jóns Leifs, og vestfirska álbóndans, var því á skjön við utanríkisstefnu Dana og Íslands.

Þrátt fyrir vinaleg tilboð frá Íslendingum voru Þjóðverjar árið 1939 orðnir stærri álframleiðendur en Bandaríkjamenn.


mbl.is Tæplega 6.000 Hafnfirðingar hafa greitt atkvæði í álverskosningunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Að tengja þetta álumræðu nútímans eða fortíðarinnar á Íslandi er svolítið furðulegt. Þór Whitehead hefur fjallað um áhuga Þjóðverja á Íslandi í bók sinni Íslandsævintýri Himmlers og þar man ég ekki eftir að hafa lesið staf um þennan óðalsbónda. Væntanlega af því að hann hefur ekki verið tekinn alvarlega. Fyrir 1942 er í raun ekki að ræða um neina umræðu eða hugmyndir umálframleiðslu á Íslandi og í það skiptið eru það Bretar sem hafa áhuga á að reisa álver á Íslandi.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 1.4.2007 kl. 07:56

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég hef líka tekið eftir því, að Þór Whitehead, sem að mínu mati er einn fremsti sagnfræðingur Íslendinga, er ekki með allt í bókum sínum og hef bent á það í tveimur Lesbókargreinum, án þess að vera klína því upp sem einhverri sensaskjón. Ég hef litið á upplýsingar mínar sem viðbætur.

En gögn um "álbóndann" sem bjó í Kaupmannahöfn eru vel varðveitt í dönskum skjalasöfnum og í afriti í mínu eigin skjalasafni. Danir vissu ekki í fyrstu, hvað þeir ættu að halda, enda alveg ónýtir í jarðfræði Vestfjarða. Þeir afgreiddu ekki manninn sem vitleysing á upplýsingum um boxít, heldu á því hve ruglingsleg skrifin voru.

Svo þú sérð, Íslandssagan er ekki fullrituð enn, þótt að því sé oft haldið fram.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.4.2007 kl. 08:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband