Færsluflokkur: Vísindi og fræði
1.7.2007 | 17:23
The Guardian 1713
Ég þekki ýmsa menn, sem sækja mest af sínum sannleika í The Guardian. Mér þykir það hins vegar leiðinlegur og fordómafullur bleðill, fullur af barnalegu, bresku Ameríkanahatri og margir blaðamenn The Guardians eru mjög frelsaðir. Miðausturlönd eru þeirra sterka hlið, það er að segja þegar blaðið skítur Ísrael út. Margir blaðamenn, líka bloggarar, halda reyndar að þeir hafi sérstöku hlutverki að gegna meðal þjóðanna og fyrir heimsfriðinn. Því miður hafa of margir blaðamenn komist til valda og metorða, en bloggarar ættu ekki að gera sér neinar grillur. Við erum bara kjaftaskar, sem ybbum kjaft inn í einhverja vél sem sendir kjaftæðið á skerminn hjá öðrum kjaftöskum. Á meðan sprengja ofstækismenn sprengjur sínar hvar sem þeim sýnist.
Hvernig var þetta á Lundúnablaðinu The Guardian, (sem ekki má rugla við The Manchester Guardian sem er forfaðir The Guardians nútímans) mánudaginn þann 20. júlí árið 1713, fyrir tæpum 300 árum. Blaðið á ég í hirslum mínum. Þá skrifaði þar pistla maður sem kallaði sig Ironside. Þrælfyndinn eins og Bretum einum er lagið. Hann gerði fyrrnefndan dag grín af mönnum sem íhuguðu möguleikann á því að menn gætu flogið í framtíðinni. Hann nefnir til sögunnar biskupinn John Wilkins (biskup af Chester, sem uppi var 1614-1672):
"Bishop Wilkins was so confident of Success in it, that he says he does not question but in the next Age it will be as useful to hear a Man call for his Wings when he is going a Journey, as it is now to call for his Boots."
Wilkins biskup var greinilega nokkuð á undan sínum tíma, og jafnvel okkar. Eitthvað annað en afturhaldsseggurinn Ironside á The Guardian. Hann var bara eins og seinni tíma blaðamenn á The Guardian afturhaldstík, sem var á móti frjálslegri hugsun og framförum.
Blaðið, sem var tvær blaðsíður árið 1713 (menn þurfa ekki að byrja stórt), hafði einnig eftirfarandi auglýsingu (auglýsingar voru jafn nauðsynlegar þá eins og nú).
"Robert Norris, on Snow-Hill, having had many Years Experience and good Success in the Cure of Lunatics, is removed to the Pestle and Mortar neas the the middle of Hatton-Garden, where he hath a very convenient large House and Garden, Airy and fit on recieve Persons of the best Rank of either Sex, with suitable Attendance. Any Person applying themselves as above, may there be satisfied, that the Cure shall be industrially endeavoured (and by God's Blessing effected) on reasonable Terms".
Allt var greinilega vitlaust að gera á vitleysingahælinu í Hatton Garden, líklega vegna þess að menn lásu léleg blöð eins og The Guardian, og gátu hvorki bloggað né flogið eins og við.
Þið sem hafið flogið til London og þekkið Hatton Garden i London nútímans vel, vitið að þar er sannarlega allt á ferð og flugi og mikið selt af geimsteinum og gulli. Ætli verði líka sprengt þar í nafni Allah? Það verður máske hægt að lesa ritskoðaða greinagerð um það í The Guardian á morgun.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2007 | 14:30
Sönnunargagn frá 1699
Sigið músinni á myndina til að sjá hana betri og stærri.
Ýmsir Íslendingar gera sér þær grillu, að landamæri Ísraelríki sé til umræðu eins og þorskkvótinn á Íslandi. Maður fær oft á tilfinninguna að þessu fólki sé næst að halda að Ísraelsmenn eigi að yfirgefa land sitt og fara eitthvað út í buskann. Hvert skal halda? Til Madagaskar, Patagóníu eða Alaska, eins og fyrrum var stungið upp á? Þessi veruleikafirring hjá Íslendingum, sem vilja bjarga heimsfriðinum með því að minnka og skera niður Ísraelsríki, og jafnvel hjálpa til við eyðingu þess með Hamas, byggir á hatursveilu sem margir vinstri minn hafa þróað með sér. Ísraelsríki er fyrir marga eitthvað sem ber að hafa fyrirlitningu á líkt og á Bandaríkjunum. Þetta er eins og hjá heilaþvegnum lýðnum á miðöldum, sem fylgdu hatursdoktrínum kirkjunnar. Þótt að gyðingar væru ekki til staðar í sumum löndum, voru þeir samt innilega hataðir, fyrir morðið á Kristi og fyrir flest annað sem miður fór um álfuna.
Tillögur um að koma gyðingum burtu úr Evrópu eða Palestínu hafa verið margar, sumar meira að segja settar fram af gyðingum til að friðþægja lýðinn. En þetta er gömul lausn, sem er greinilega miklu eldri en þær tillögur um brottflutning gyðinga sem settar voru fram i kjölfarið á ("fræðilegu") bíólógísku gyðingahatri 19. aldar.
Ég á í fórum mínum gamalt dagblað frá 17. júlí árið 1699. Cornelis van Bynkershoek, útgefandi dagbleðilsins Nieuwe Oprechte Haegse Mercur, sem gefinn var út í den Haag í Hollandi, skrifaði þann dag á forsíðu blaðsins um óskir sínar um að losa sig við gyðinga til nýja landsins í vestri, Ameríku. Hann heldur því meðal annars fram að gyðingar sitji á fjórðungi allra eigna í Evrópu. Van Bynkershoek var mikils metinn lögfræðingur og dómari. Lögfræði er handverk sem greinilega getur ekki læknað gyðinghatur. Hér sjáið þið lesendur góðir, að hin siðmenntaða Evrópa var orðin til og gyðingahatrið var hluti af Evrópu árið 1699, og það í ríkasta landi álfunnar. Þá, eins og í dag, leystu menn vandamál sín og geðræna kvilla með því að reka gyðinga í burtu og kenna þeim um alla heimsins kvilla.
Hollendingar stæra sig oft af því að vera það ríki í Evrópu, sem fyrst gaf gyðingum borgararéttindi og trúfrelsi og halda þess vegna að þeir hafi verið betri við gyðinga en flestir aðrir. Gyðingar í Hollandi voru oft taldir vera óhemjuríkir. Það er stór mýta. Í lok 18. aldar voru 54% gyðinga undi fátækramörkum og árið 1840 voru 60% gyðinga undir fátækramörkum. Í byrjun 20. aldar var ástandið ekki miklu betra. Þá voru hinir annars velstæðu, gyðingar ættaðir úr Portúgal orðnir armari en þýskættaðir gyðingar.
Gyðingahatur hefur ekki farið fram hjá hinu frjálslynda Hollandi í lok 20. aldar. Á síðustu árum hefur skítkastið og hatrið komið jafnt frá fótboltabullum sem kalla Ajax gyðingalið, sem frá ungum marokkönskum múslimum, sem gera aðsúg að gyðingum á leið til samkunduhúsa. Það hef ég sjálfur upplifað árið 1975 í den Haag. Ég leyfi mér aftur að mæla með ritgerð eftir Manfred Gerstenfeld
Þrátt fyrir morðæðið gegn gyðingum i Evrópu fyrir 60 árum, er ekkert fararsnið á gyðingum frá Ísrael. Fáir eru á leið til Madagaskar, Úganda eða Patagóníu, enda er land þeirra ÍSRAEL og það verður ekki aftur tekið.
Vísindi og fræði | Breytt 29.6.2007 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.6.2007 | 16:48
GRÍSLAND
Ísland er dauður grís með garnirnar úti, að minnsta kosti samkvæmt frönskum teiknara, sem teiknaði ástand Evrópu á "leiðrétt Evrópukort" árið 1876: L'EUROPE EN 1876, A LA PORTÉE DES GRANS ESPRITS, sem var til sölu hjá gyðingnum HEYMANN, á Rue du Croissant 15 í París fyrir 15 Cent. Teiknarinn var Yves & Barret Sc.
Ísland varð, sem sagt, að dauðu svíni í augum franska listamannsins, og er lýst á þennan hátt: ISLANDE: Ni situation, ni habitants. Sem útleggst getur: Hvorki ástand né íbúar.
Danmörk er teiknað eins og froskur á hausnum og skrifað stendur: Það er mjög slæmt ástand í Danmörku. Íbúarnir hafa þó ekki lélega siði. Um Grikkland skrifar gárunginn franski: Grikkland er án ástands. Íbúarnir eru fátækir, en grískir. Ekki eru Ítalir heldur hátt skrifaðir: Ástand Ítalíu er eins og stígvéls, sem bíður eftir því fyrir utan hótelherbergi að þjónn pússi það. Íbúarnir eru annaðhvort lassarónar eða ábótar. ... Mannasiðir og venjur:. Eftir að hafa étið fylli sína af makkaróní, hafa Ítalir fyrir sið á fara í gervi stígamanna til að eiga erindi við ferðamenn.
Frakkar eru, og hafa alltaf verið bestir, og ekki þorði gárungurinn annað en að lýsa þjóð sinni öðruvísi en svona: Það sem einkennir Frakkland er, Regla - Vinnusemi - Frelsi. Oui-oui!
Kort þetta, einblöðungur, sem er prentað á þunnan dagblaðapappír, átti Matthías Þórðarson þjóðminjavörður einu sinni. Þegar skjalasafn hans var skráð á Þjóðminjasafninu fyrir um það bil 15 árum var ákveðið að farga ýmsu úr því, sem ekki þótti ástæða til að geyma á Þjóðminjasafninu. Matthías safnaði öllu, t.d. öllum aðgöngumiðunum sínum í Tívolí til fjölda ára. Þeir var einnig meðal þess sem þjóðminjavörður ákvað að farga í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Matthías fékk líka mikið af rituðu máli frá háttsettum nasistum í Þýskalandi. Svo mikið var af þannig bleðlum í því sem Þjóðminjasafnið henti út á tveimur pöllum, að vart verður í framtíðinni hægt að sjá að Matthías hafi verið hallur undir hakakrossinn.
Þegar söfnunargleði Matthíasar var kastað á haugana var ég kominn með annan fótinn inn á Þjóðminjasafnið, og fékk leyfi þjóðminjavarðar í snarheitum að tína smáræði úr því "rusli", sem hent var úr geymslum Matthíasar Þórðarsonar, áður en því var hent inn í sendibíl. Meðal þess sem ég tók var dýrakortið (samanbrotið) á milli auglýsingaplakata úr Tívolí frá aldamótunum 1900. Kannski ætti ég að segja "dýra kortið".
Ef til vill hefði verið réttara hefði textinn á kortinu við Ísland verið: Hvorki ástand, íbúar, né menning.
Vive l'Islande
Vísindi og fræði | Breytt 15.6.2008 kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2007 | 00:31
Egill í Waldheimum
Lygari, tækifærissinni en ekki morðingi, skrifar Egill Helgason, alvitur, nú á Moggabloggi sínu, um Kurt Waldheim, fyrrverandi framkvæmdastjóra SÞ.
Egill Helgasson hefur greinilega ekki lesið skýrslu sagnfræðinganefndar sem afhent var austurrískum yfirvöldum árið 1988.
Eftir að Franz Vranitzky kanslari var búinn að lesa þá skýrslu, ákváðu austurrísk yfirvöld að birta ekki skýrsluna. Höfundar skýrslunnar fengu hana loks gefna út í Danmörku árið 1993.
Hvað sem líður viðtölum Egils við Símon Wiesenthal árið 1988, þá er dómur Egils um meinta glæpi Kurt Waldheims ekki marktækur.
Egill Helgason verður að setja sig inn í það sem ritað er og rannsakað og fá sér Waldheim-skýrsluna, sem gefin var út í Danmörku. Um leið getur Egill náð sér í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins (1994) sem kemst að sömu niðurstöðu og sagnfræðingarnir.
Kannski veit Egill eitthvað sem sérfræðingarnir vita ekki?
Gögn sem sýna að nafn Waldheims á lista yfir þýska yfirmenn, sem tóku þátt í hinni hræðulegu Kozora árás eru kannski tilbúningur? Tugir þúsunda féllu í þeim árásum, stór hluti þeirra börn.
Þúsundir fanga Þjóðverja í Júgóslavíu voru tekinn af lífi nokkrum hundruðum metrum frá skrifstofu Waldheims. Böðullinn og fasistaleiðtoginn Ante Pavelic þótti ástæða til að hengja medalíu á Waldheim fyrir frammistöðu sína í Kozora fjöllum.
Rosenbaum og Hoffer hafa einnig sýnt fram á það í bók sinni Betrayal: The Untold Story of the Kurt Waldheim Investigation and Cover-Up (1993), að Waldheim gaf grænt ljós fyrir dreifingu áróðurdreifimiða gegn gyðingum þar sem Rússar voru hvattir til að ljúka Gyðingastríðinu og drepa gyðingana og ganga í lið með nasistum.
Menn sem vissu af fjöldamorðum og dreifðu áróðursritum sem leiddu til morða, voru meira en tækifærissinnar.
Kannski vissi Jóhannes Páll páfi eitthvað meira en hinir dauðlegu, enda gaf hann Waldheim medalíu fyrir að vera góður kaþólikki árið 1994. Waldheim fékk líka 125.000 $ árlega í "lífeyri" frá SÞ. Hvað ætli fórnarlömb herdeilda Waldheims hafi fengið á ári?
Kurt Waldheim látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2007 | 06:30
Trúarfasisti, Hallelúja!
Í gær komst ég í tölu trúarfasista. Ævar Rafns Kjartansson dæmir mig og aðra og skrifaði:
"Það er aumt þegar þið trúarfasistarnir verjið gerðir gyðinga sem hafa verið úthrópaðar af öllum hinum siðmenntaða heimi en verndarvængur Bandaríkjanna heldur enn á floti. Enda stærsti kaupandi vopna frá þeim auk þess sem bandarískum fjölmiðlum og afþreyingariðnaði er að mestu stýrt af gyðingum sem vilja ekki flytja til Ísrael en kaupa sitt aflátsbréf með stuðningi."
Þessi orð Ævar Rafns sýnir að sjálfsögðu hvað hann er sjálfur. Hann dæmir sig best sjálfur, eins og aðrir stuðningsmenn hryðjuverka og öfgastefnu.
Þessi Stóri Dómur Ævars féll vegna þess að ég hef dregið heilbrigðið í tillögu Vinstri Grænna um að vilja stjórnmálasamband við Hamas í efa. Þá ritaði Ævar um barnamorð Ísraelsmanna. Það er mjög algeng athugasemd hjá þeim sem skilja Hamas, sem þó oftast gleyma því að blessuð börnin tína lífi sínu vegna þess að þeim er beitt sem vopnum í eldlínunni. Vinir Hamas vilja helst ekki heyra um börnin sem vinir þeirra myrða. Tilfinningataugin í Ævari er ekki eins fín þegar honum eru sýnd börn saklausra Ísraelsmanna, gyðinga, sem verða fyrir "frelsisbaráttu" Palestínumanna, múslima, sem Ævar og hans líkir segjast skilja. Börn Palestínumanna sem myrða og deyja í stríðinu eru frelsishetjur, en börn gyðinga eru augljóslega fórnarlömb frelsisbaráttu sem er skilin og studd af Ævari og hans félögum á Íslandi.
Hvers konar fasisti er svo Ævar Rafn, ef við hin erum trúarfasistar? Kannski auðtrúa fasisti? Veltið því fyrir ykkur, og svo getur Ævar horfst í augu við börnin sem uppáhaldsfrelsisbaráttan hans hefur myrt. Ætli hann skilji það sem gerst hefur og geti skammast sín?:
7.5.2007 | 11:49
Leitin að beinum Egils (2. hluti)
"The skull gradually fills in with densitites, as shown here, and the skull thickens and softens"
Þessa skýringu á framskriðnum Paget's sjúkdómi er að finna á síðu Stanfords háskóla um sjúkdóminn. Ekki urðu meint bein Egils "soft", smkv. Egils sögu og Byock, eða hvað?
Leit Jesse L. Byocks að beinum Egils eru náttúrulega tálbeita. Byock notar álíka aðferð til að fá fjármagn til rannsókna sinna og þegar Kári í DeCode dáleiðir menn með "ættfræðirannsóknum", sem sýna eiga ættir manna aftur til sagnapersóna í miðaldabókmenntunum. Það hjálpar greinilega fjársterkum aðilum að létta á pyngjunni. Góð saga selur alltaf vel.
En Byock hefur farið óþarflega fram yfir það sem sæmilegt er í þessari sölumennsku í fræðunum. Að minnsta kosti yfir það sem leyfilegt er í fornleifafræði. En fornleifafræðin fjallar um allt annað nú á dögum en það að leita uppi ákveðnar persónur. Það virðast íslenskufræðingar enn vera að gera, líkt og þegar þeir eru að leita uppi höfunda Njálu og annarra fornrita.
Til þess að gera Mosfells-verkefnið kræsilegra telur Byock mönnum trú um að Egils saga lýsi Agli með sjúkdómseinkenni Paget´s disease. Hann trúir því greinilega einnig á söguna sem sagnfræðilega heimild. Hann hefur vinsað það úr af einkennum sjúkdómsins, sem honum hentuðu í greinum sínum um efnið í Viator (Vol 24, 1993) og Scientific American (1995). Menn geta svo, þegar þeir hafa lesið greinar hans, farið inn á vef Liðagigtarsamtaka Kanada (The Arthritis Society ) eða á þessa síðu til að fá aðeins betri yfirsýn yfir sjúkdómseinkenni hjá þeim sem hrjáðir eru af þessum ólæknandi sjúkdómi. Þau einkenni eru langtum fleiri en þau sem Byock tínir til og flóknari en hausverkurinn og höfuðskelin á Agli. Byock hefur ekki sagt lesendum sínum alla sjúkdómssöguna; til dæmis að þeir sem eru hrjáðir af sjúkdóminum geti einnig liðið af sífelldum beinbrotum og verði allir skakkir og skelgdir fyrir neðan mitti. Hryggurinn vex saman og mjaðmagrindin afmyndast. Byock heldur því fram að Agli hafi verið kalt í ellinni vegna þessa sjúkdóms. Annað segja nú sérfræðingarnir: "The bone affected by Paget's disease also tends to have more blood vessels than normal. This causes an increase in the blood supply to the area, and as a result the area may feel warmer than usual". Læknisfræði er greinilega ekki sterkasta hlið Byocks og óskandi er að hann stundi ekki lækningar í aukavinnu, líkt og þegar hann gengur fyrir að vera fornleifafræðingur á Íslandi.
Í greinum þeim um verkefnið, sem birtar hafa verið opinberlega, er heldur ekki verið að skýra hlutina til hlýtar. Eins og til dæmis að tæmda gröfin að Hrísbrú sé undir vegg kirkjunnar sem þar fannst. Það þýðir að gröfin eða gryfjan er eldri en kirkjan sem samkvæmt kolefnisaldursgreiningu er frá því um 960. Kannski er erfitt fyrir bókmenntafræðing eins og Byock at skilja svona flókna hluti. Hann átti líka erfitt með að skilja grundvallaratriði í fornleifafræði árið 1995 og þurfti að hafa íslenskan fulltrúa sér innan handar. Mér skilst að þetta sé nú mest orðið norsk-bandarísk rannsókn og gerir Margrét Hermannsdóttir skiljanlega nokkuð veður úr því í grein sinni í Lesbók Mbls. 5.5.2007. Þegar sótt var um rannsóknarleyfi og fjárveitingar árið 1996 var greint frá því að samvinna yrði höfð við fáeina Íslendinga "for ethical reasons".
Hvað varðar fjármögnun rannsóknarinnar, var alveg ljóst frá byrjun, að Byock hafði báðar hendur niður í íslenska ríkiskassann. Hann greindi mér hróðugur frá því, er hann reyndi að fá mig með í rannsóknina, að Björn Bjarnason væri "verndari" rannsóknarinnar og hefði lofað stuðningi, tækjum, fæði og þar eftir götunum. Björn bóndi hefur greinilega ekki brugðist Byock og hafa eftirmenn hans á stóli menntamála verið álíka gjafmildir. Að Björn Bjarnason er meiri aufúsugestur á Hrísbrú en ég og kollegar mínir, sést á þessari og annari færslu í dagbókum dómsmálaráðherrans.
Þegar íslenskir fornleifafræðingar með doktorsgráðu geta ekki starfað við grein sína sökum fjárskorts og aðstöðuleysis og einn þeirra vinnur sem póstburðardýr í Danmörku, vantar mig orð yfir þá fyrirgreiðslu sem prófessor Byock hefur fengið á Íslandi til að leita beina persónu úr Íslendingasögunum. Eins og ég skrifaði í greinargerð minni árið 1995 um leit hans af Agli: "Það er í sjálfu sér sams konar verkefni og leitin af beinum Jesús Krists og gröf hans eða leitin að hinum heilaga kaleik (The Holy Grail)".
En riddari nútímans leitar ekki að gylltum kaleik eða brandinum Excalibur , heldur Agli Skallagrímssyni. Riddarinn heitir Byock og atgeir hans heitir "Spin and PR". Riddarinn er reyndar búinn að afneita sér þeim óþægindum sem það virðist vera að vera Bandaríkjamaður í brynju. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2004 (væntanlega á eðlilegri hátt en tendadóttir ráðherra umhverfismála um daginn). Hver veit, kannski er Byock líka orðinn tengdasonur eftir langa búsetu á íslandi. Hann er að minnsta kosti orðinn "fornleifafræðingur", en það geta víst nær allir kallað sig á Íslandi sem kaupa sér skóflu.
Gárungarnir segja mér, að næsta verkefni Byocks sé að leita uppi Loðinn Lepp. Nafnið eitt bendir eindregið til þess að þessi norski erindreki á 13. öld hafi verið með sjúkdóm, sem lýsir sér í óhemju hárvexti, ekki ósvipað og á þessum kappa:
Vísindi og fræði | Breytt 29.12.2007 kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 10:23
Leitin að beinum Egils (1. hluti)
Í gær birti kollega minn merka grein í Lesbók Morgunblaðsins. Ég frétti af grein Margrétar Hermanns-Auðardóttur gegnum Morgunblaðsbloggið. Við dr. Margrét erum kannski ekki lengur starfsfélagar, því hvorugt okkar hefur haft sérstaklega góð tök á því að vinna við fræðigrein þá sem við notuðum fjölda ára til að sérhæfa okkur í. Ég hef þurft að leita á önnur mið eftir að mér var vísað úr starfi og ég settur í ævarandi atvinnubann á Þjóðminjasafni Íslands (Það er víst einsdæmi á Íslandi). En Margrét hefur alla tíð verið útundan í greininni, einatt vegna öfundar og óskammfeilni ýmissa kollega hennar og aðila, sem hafa reynd að hefta framgang fornleifafræðinnar á Íslandi.
Grein Margrétar fjallar á gagnrýninn hátt um fornleifarannsóknir Jesse L. Byocks í Mosfellsdal; um leitina að beinum Egils Skallagrímssonar, rannsóknir á haugi hans; um kirkju þá sem menn telja að haugbúinn Egill hafi verið greftraður í eftir að haugurinn var rofinn, svo og rannsóknir á Mosfelli, þar sem bein kappans munu hafa verið flutt til hinstu hvílu.
Jesse L. Byock er ekki fornleifafræðingur, en hefur samt stjórnað fornleifarannsóknum á Íslandi í rúm 10 ár. Það sem Margrét Hermanns- Auðardóttir skrifar um rannsóknir hans í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins, get ég í alla staðið tekið undir. Hvet ég fólk til að ná sér í Lesbókina og lesa greinina gaumgæfilega. Þar er einnig hægt að lesa um vinnubrögð í Háskóla Íslands, sem eru fyrir neðan allar hellur.
Ég skrifaði 9 blaðsíðna greinargerð þegar umsókn um leyfi til rannsóknarverkefnisins "The Mosfell Archaeological Project"barst Fornleifanefnd árið 1995. Ég sat þá í Fornleifanefnd tilnefndur af Háskóla Íslands. Það varð uppi fótur og fit. Lektor einn í háskólanum kvartaði fyrir hönd Jesse Byocks til Fornleifanefndar (með bréfi og greinargerð) og til menntamálaráðherra, sem kallaði strax formann nefndarinnar á teppið. Formaðurinn reyndi svo með öllum mætti að fá mig til að draga greinargerð mína til baka. Ég neitaði, því hún stangaðist ekki á við neitt í Þjóðminjalögum. Ég var bara að vinna fyrir nefndarlaununum og ég sá líka óhemjumarga galla á umsókninni. Rannsókninni var síðan veitt leyfi og það reyndar gefið fornleifafræðingi er heitir Timothey Earle (sem ekki er lengur viðriðinn rannsóknirnar í Mosfellsdal), þar sem Byock uppfyllti ekki skilyrðin til að stjórna rannsókninni. Ég ákvað að sitja hjá við leyfisveitinguna. Í greinargerð minni frá 1995 sýnist mér, í fljótu bragði, að ég hafi reynst nokkuð sannspár.
Margrét telur Byock og starfsfélögum hans það til lasts, að þeir hafi ekki einu sinni vitnað í rannsóknir mínar á Stöng í Þjórsárdal. Það er líka rétt hjá Margréti. Það er ekkert nýtt eða neitt sem ég kippi mér upp við. Ég er harla vanur fræðilegri sniðgöngu eða að aðrir geri mínar uppgötvanir að sínum (mun ég skrifa um það síðar). Þegar Byock og aðstoðarmenn hans sóttu um leyfi til rannsóknanna árið 1995, var þó lögð áhersla á mikilvægi rannsókna í Mosfellsdal í ljósi niðurstaðna rannsókna minna á Stöng. Síðan þá hafa þær ekki verið nefndar á nafn af Mosfellsmönnum. Kirkjurústin á Stöng, sem ég hef ekki getað stundað rannsóknir á síðan 1995, er líklega frá svipuðum tíma og kirkjan á Hrísbrú sem Byock og félagar hafa rannsakað. Úr kirkjugarðinum á Stöng hafa bein verið flutt í annan kirkjugarð eftir ákvæðum Grágásar. Sjá Lesbókargrein um rannsóknina.
Ef menn hefðu tekið tillit til greinargerðar minnar frá 1995, þar sem ég fjalla t.d. um tilurð sögunnar um haug Egils í Tjaldanesi, hefðu þeir ekki fyrir nokkrum árum asnast til að grafa í náttúrumyndun, þar sem ekkert fannst nema ísaldaruðningur. Hvers kyns "haugurinn" í Tjaldanesi er, kom einnig fram við fornleifaskráningu Þjóðminjasafnsins á svæðinu árið 1980. Árið 1817 könnuðust lærðir menn ekkert við þennan haug, þegar Commissionen for Oldsagers Opbevaring var að safna upplýsingum um fornleifar, fastar sem lausar, á Íslandi. Haugurinn er því rómantískt hugarfóstur frá 19. eða 20. öld, eins og svo margt annað í tengslum við The Mosfell Archaeological Project. Verkefnið teygir vissulega rómantíkina í fræðimennsku fram á 21. öld.
Vísindi og fræði | Breytt 29.7.2010 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2007 | 15:10
Bækur seljast ekki í gettóum
" Það er erfitt að selja bækur þessa dagana ". Þannig skrifaði Franciszka Glücksman syni sínum, sem var strandaglópur í Kaupmannahöfn 1939-1941. Þegar Franciszkca Glücksman skrifaði þetta, var hún fangi í gettóinu í Warsjá. Sonur hennar, sagnfræðingurinn dr. Stefan Glücksman, hafði farið á námskeið í dönsku í Kaupmannahöfn. Þegar Hitler og herir hans réðust á Pólland, var ekki lengur mögulegt fyrir Stefan að snúa aftur til Póllands. Stefan skrifaðist á við fjölskyldu sína í Warsjá, sem hann hafði miklar áhyggjur af. Til þess að móðir hans og systir, Wanda, gætu lifað af, bað hann þær meðal annars að selja allar bækurnar sínar.
En bækur seljast ekki vel í gettóum eins og kunnugt er. Matur er vinsælli. Bækur á sérfræðisviði Stefans, siðbótinni í N-Evrópu og tengslum Póllands við Norðurlönd, voru kannski ekki það sem eggjaði mest í gettóinu 1940-42.
Stefan Glücksman fylgdist úr fjarska með versnandi hag fjölskyldu sinnar í Warsjá. Þegar hann hafði verið hnepptur í varðhald danskra yfirvalda, sem reyndu að fá Þjóðverja til að taka við honum, fékk hann danska vini síni til að senda matarpakka til móður og systur. Stefán var vísað úr landi í Danmörku í hendur böðla sinna í lok janúar 1941. Hann var myrtur í fangabúðunum Gross Rosen í Póllandi í nóvember sama ár. Matarpakkar frá Danmörku framlengdu líklega lífið fyrir móður hans og systur. Síðasta lífsmark frá þeim barst á kvittun fyrir móttöku matarpakka, sem þær fengu í hendur vorið 1942. Sumarið 1942 voru þær að öllum líkindum myrtar í útrýmingabúðunum í Treblinka ásamt öðrum ættingjum og þúsundum annarra gyðinga, sem smalað var í lestarvagna og fluttar í dauðaverksmiðju nasismans (systur kommúnismans) í Treblinka.
Barátta Stefan Glücksmans og fjölskyldu hans er efni næstu bókar minnar. En bækur um gyðinga, sem dönsk yfirvöld vísuðu úr landi í Seinni Heimsstyrjöld, eru ekki vinsælar. Danir kaupa frekar matreiðslubækur og Kóraninn. Ef til vill er Danmörk orðið að einu allsherjar gettói, þar sem erfitt er að selja bækur.
Bók mín Medaljens Bagside, sem enn er hægt að kaupa, varð því miður ekki að neinni metsölubók, þótt hún sé lánuð grimmt á bókasöfnum. Þrátt fyrir allar spár og aðgerðir útgefanda míns og þrátt fyrir mjög góða ritdóma og mikla umræðu, seldist hún dræmt. Bókin kom út rétt fyrir 60 ára afmæli stríðslokanna í Danmörku. Fjöldi bóka um stríðið kom út á sama tíma. Kannski var þetta bara Bad timing? En þrátt fyrir að bók mín yrði ekki metsölubókin meðal allra þeirra bóka, fékk hún mesta umræðu stríðsárabókanna í fölmiðlum. Aðrir kollegar mínir hafa heldur ekki komist á metsölulistann. En ég bjóst nú heldur ekki við því að bókin myndi seljast. Þar réði bjartsýni útgefanda míns, sem væntanlega mun gefa út ævisögu Halldórs Guðmundssonar um Laxness á þessu ári.
Ég held að bókin mín fjalli um efni, sem Danir vilja helst ekkert heyra mikið um. Bók sagnfræðingsins og embættismannsins Bo Lidegaards, sem er hástemmt lofrit er mest fjallar um nauðsyn og snilli þess að Danir höfðu nána samvinnu við nasista, sér og sínum til bjargar, varð eina metsölubókin í þessum stríðsárageira árið 2005. Danir vilja greinilega heyra hvað snjallir þeir voru í samvinnu sinni við nasista. Verði þeim að góðu.
31.3.2007 | 10:26
Álsambönd Hitlers
Ál Hitler
Kannski hefur það farið framhjá löndum mínum, að auður og velgengni ALCOA samsteypunnar á fyrri árum er hægt að þakka góðu sambandi fyrirtækisins og fyrri stjórnenda þess við Þýskaland Hitlers.
ALCOA var á sínum tíma ásakað um að eyðileggja fyrir uppbyggingu flugflota Bandaríkjahers i byrjun 5. árutugs 20. aldar. ALCOA hafði samvinnu við I. G. FARBEN verksmiðjurnar, sem voru m.a. með útibú í AUSCHWITZ.
Mellon fjölskyldan, sem átti stóran hlut í ALCOA félaginu, átti líka hlut í Bank of Boston, sem hafði mikil og góð viðskipti við Þýskaland nasismans. ACH SO!
Því má þó ekki gleyma, að fjöldi annarra bandarískra fyrirtækja veðjaði líka á Hitler.
En ætli Fjarðaál minnist þessa á einhvern hátt? Kannski verður hægt að festa álhausinn hér að ofan á eitthvað efniskennt í Austfjarðaálþokunni.
Vísindi og fræði | Breytt 1.4.2007 kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.3.2007 | 12:23
Falskir Íslendingar í Þýskalandi árið 1936
Dr. Eyþór greindi frá því að flokkurinn kallaði sig Eismännschen (sem má víst útleggjast sem ísdvergar). Hann lýsti listamönnumum sem stríhærðu fólki með rauðleit augu. Die ganze Aufmachung und die Primitivität der Darbietungen ist geeignet, bei den Zuschauern das isländische Volkstum herabzuwürdigen var haft eftir íslenska lækninum. Ræðismaðurinn danski lét þegar rannsaka málið og skrifaði skýrslu, sem send var danska sendiráðinu í Berlín og utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn.
Rannsóknin leiddi í ljós, að um var að ræða 6 manna hóp og fékk ræðismaðurinn mynd af hópnum. Í ljós kom einnig að hópurinn kallaði sig ekki Eismännschen heldur Eismenschen (Ísfólk). Á kynningarspjaldi var sagt að hópurinn kæmi frá Islands hohem Norden. Kynnir sýningarinnar tilkynnti hins vegar, að hér væri á ferðinni blómaviðundur frá Reykjavík. Það kostaði 10 pfenniga að sjá sýninguna. Ræðismaðurinn lét sig hafa það. Hópurinn kom svo fram á einföldu sviði og lék Sunnuleiki (Sonnenspielen), þar sem töfruð voru fram blóm svo að lokum varð úr blómahafinu Reykvískur blómagarður.
Eftir showið spurði ræðismaðurinn fyrirliða hópsins, hvort hann eða aðrir meðlimir væru í raun Íslendingar. Sagði fyrirliðinn, að foreldrar hans og forfeður hefðu verið Íslendingar, en að hann væri sjálfur Austurríkismaður. Hann bætti því við að allir í hópnum væru albínóar. Er kynnir sýningarinnar var spurður um uppruna hópsins, fór hann í fyrstu undan í flæmingi, en sagði að lokum að maður mætti ekki búast við neinni þjóðfræðilegri sýningu það sem boðið væri upp á væru Listir frá Norðurhöfum.
Ræðismaðurinn, sem greinilega hefur brosað út í annað munnvikið þegar hann skrifaði skýrslu sína, bætti við: Sýning þessarra albínóa gæti vel hugsast að gefa áhorfendum með litla þjóðmenningarlega þjálfun ranghugmyndir, en hins vegar verður að líta þannig á málið, að það er mjög lítill trúverðugleiki í sýningunni og að hana ber frekast að flokka undir töfrasýningu. Ræðismaðurinn lauk bréfi sínu til sendiráðsins í Kaupmannahöfn með því að skrifa: Skylduð Þér, þrátt fyrir það sem fram er komið, óska eftir því að ég hafi samband við tilheyrandi yfirvöld hér í bæ, þætti mér vænt um að fá skeyti þar að lútandi. H.P. Hoffmeyer í danska sendiráðinu taldi ekki neina þörf að eyða meiri tíma ræðismannsins í erindi Eyþórs Gunnarssonar, sem mógaðist yfir blómasýningu sex albínóa í München árið 1936.
Þetta á ekki að verða lærð grein, en þess má þó geta, að albínóar þóttu gjaldgeng viðundur fyrir sýningaratriði í fjölleikahúsum fyrr á tímum. Hér að neðan er mynd af hollenskri albínóafjölskyldu, Lucasie, sem sagðist vera komin af negrum frá Madagaskar. Hið rétta var að herra Lucasie var frá Frakklandi, kona hans frá Ítalíu og sonurinn var fæddur í Hamborg. Hinn heimsþekkti bandaríski sirkusmaður Phineas Barnum, flutti þau með sér til Bandaríkjanna árið 1857.
Allar frekari upplýsingar um austurrískan albínóna, son íslenskra hjóna, eru hins vegar vel þegnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 83
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007