Færsluflokkur: Vísindi og fræði
28.8.2007 | 13:32
Palestínumenn fremja skemmdaverk á fornleifum
Ég er fornleifafræðingur, og sem fornleifafræðingur fordæmi ég Palestínumenn fyrir skemmdaverk á fornminjum og vanvirðingu þeirra á heilögum stöðum annarra.
Myndu Íslendingar grafa skurði yfir þvera og endilanga Þingvelli? Palestínumenn grafa skurði á óhemjulegan hátt í helgustu borg heims.
Palestínumenn hafa umsjón með musterishæð í Jerúsalem. Gyðingar eru ekki velkomnir þar og hundruð saklausra manna hafa verið myrtar vegna æðis sem greip um sig er forsætisráðherra Ísraels leyfði sér að fara í heimsókn á Musterishæð. Fornleifavernd Ísraels þorir ekki að hvessa klærnar gegn þeim sem hafa umsjón með musterishæð.
Nú virðist sem frændi einhvers háttsetts preláta á Musterishæð hafi unnið útboðið í framkvæmdir á hæðinni. En Það er greinilega engin skipulagsstofnun til staðar og enginn áhugi á fornleifunum.
Sagt er að Musterishæð sé einn af heilögustu stöðum Íslam. En fer maður svona með heilaga staði?:
Eða svona?
Eða svona?
Það þurfti meira rafmagn í Al Aqsa moskuna. Þess vegna fór þessi eyðilegging fram.
Fornleifar, m.a. byggingarbrot með skreyti, gólfhellur úr marmara og öðrum aðfluttum steintegundum, og brot úr fornum gler- og leirílátum voru grafin upp án eftirlits fornleifafræðinga.
Svona skemmdaverk eru aðeins unnin í þjóðfélagi, þar sem eitthvað mikið er að. Hvers konar trú leyfir svona helgispjöll? Hvers konar virðingarleysi er rótin að þessum skemmdaverkum?
Gamla Jerúsalem hefur síðan 1981 verið tilnefnd til World Heritage listans, sem Þingvellir eru komnir á (ég var meðhöfundur að fyrstu skýrslunni til að kynna Þingvelli fyrir UNESCO apparatinu). En enn heyrist ekkert frá World Heritage bákninu (UNESCO) um eyðileggingar Palestínumann á fornleifum. UNESCO hefur einungis verið upptekið af því að banna Ísraelsmönnum að stunda fornleifarannsóknir í hinni fornu borg.
Hér getið þið séð nýjasta glæpavídeóið frá Musterishæð.
Hér getið þið mótmælt eyðileggingunni.
PostDoc hefur áður skrifað um þetta efni: http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/124173/
Vísindi og fræði | Breytt 2.12.2007 kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.8.2007 | 23:21
Fornminjarnar, hinn forni fjandi
10. gr. Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins.
13. gr. Nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fengin er ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins um hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum.
Þetta segja nú Þjóðminjalög.
Bóndi vestur á landi hafði aðra skoðun er hann fann fornan spjótsodd í jörðu þegar hann gróf fyrir brunni. Hann hunsaði lögin og sagði, að því er virðist nokkuð upp með sér: Ég passaði mig bara að setja brunninn niður fyrst svo þeir gætu ekki stoppað það af".
Þeir sem bóndinn er að tala um ef Fornleifavernd Ríkisins. Fornleifaverndin kom svo á staðinn og greip í tómt enda bóndinn búinn að umturna öllu svo rannsóknir voru fyrir bí. Skýrsla stofnunarinnar hljóðar í stuttu máli svo: "ólíklegt að fleiri fornminjar leynist í jörð þar sem oddurinn fannst, auk þess sé nú búið að raska svæðinu svo mikið að ekki sé hægt að ganga úr skugga um það".
Að öllum líkindum er oddurinn frá síðari hluta Víkingaaldar eða 11. öld ef dæma má út frá myndinni sem sýnir glaðan brunneiganda og spjótsoddinn.
Fréttablaðið greinir frá þessum sérstæða fornleifafundi sumarsins en finnst greinilega merkilegastur draumur bóndans í þjóðlegu lopapeysunni. Eigandi atgeirsins kom í draumi til bóndans haldandi um skaftið, en af var oddurinn. Þetta er kannski besta lýsingin á þjóðminjalögunum. Þau eru til einskis nýt, ef menn geta endalaust eyðilagt fornleifar án þess að bera ábyrgð.
Voða er nú erfitt fyrir Íslendinga að fara að lögum og bera smá virðingu fyrir menningararfi sínum. Sums staðar ríkir algjör Menningarnótt.
Vísindi og fræði | Breytt 19.8.2007 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2007 | 11:24
Ferðasögur fyrirmenna
Heyrt hef ég, að verið sé að skrifa sögu konungsheimsóknanna á Íslandi. Það er afar merkileg saga og verður gaman að sjá hvernig það verk verður leyst.
Saga íslenskra ráherra- og forsetaferða gæti einnig orðið hin skemmtilegasta lesning. Eitt sinn fóru íslenskir forsetar ekki eins víða og ferðalangarnir Vigdís og Ólafur Ragnar hafa gert. Flugferðir voru dýrar og forseti eins og Eldjárn var aldrei eins mikið partýljón og eftirmenn hans. Þegar Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra komst hann oft aðeins í opinberar utanlandsferðir vegna þess að velunnari Íslendinga, C.A.C. Brun ráðuneytisstjóri í Danska utanríkisráðuneytinu, sá til þess að hann gleymdist ekki. Þetta gerðist til dæmis árið 1948 í janúar á ráðstefnu norrænna utanríkisráðherra. Brun reit: "Við tog imod paa Bristol. Dagen igennem ordinært nordisk Udenrigsministermøde, Island inkluderet. Bjarni Benediktsson spiller, imidlertid som sædvanlig, en aldeles ynkelig Rolle..." . C.A.C. Brun bjóst við meiru af embættismönnum unga lýðveldisins, sem hann hafði stutt manna mest í fæðingarhríðunum. En þar er saga sem nú er verið að vinna í.
Sveinn Björnsson átti í stökustu erfiðleikum með sjálfan sig þegar Kristján síðasti konungur Íslendinga (1918-47) andaðist vorið 1947 og honum var boðið í útförina. Sveinn hafði m.a. áhyggjur á viðhorfum Dana til sín vegna sonarins, sem var svæsinn nasisti og SS-liði í Danmörku á stríðsárunum. Sveinn hafði því samband við gamlan vin sinn, C.A.C. Brun. Brun sagði honum að koma og sá persónulega til þess að dagblöð eins og Information héldu sig á mottunni og væru ekki með neitt skítkast á meðan Sveinn var í Danmörku.
Síðdegis þann 28. apríl 1947 ók Brun út á flugvöll með J.R. Dahl, sem var hásettur í hernum og átti að fylgja Sveini Björnssyni við hvert fótmál. Dahl þessi var hins vegar ekki eins háttsettur og generalmajorinn sem fylgja átti Hákoni Noregskonungi. Einhverjar rökræður höfðu spunnist í utanríkisráðuneyti Dana um hvort hægt væri að senda lágsettan mann eins og J.R. Dahl til móts við Svein. Brun lýsti svo því sem gerðist á flugvellinum:
"Á flugvellinum var okkur vísað inn á skrifstofu flugvallastjórans, þar sem Prins Knud var þegar mættur. Þarna var kræsilegt rækjusmurbrauðsborð með bjór og snaps, sem Prinsinn var þegar búinn að gera sig ríkulega heimakominn í. Hann hagaði sér eins og trúður. Friðrik Konungur vildi gjarnan hafa tekið á móti forsetanum, en þar sem ekki hafði verið gefinn upp nákvæmur lendingartíma um hádegi, hafði hann sent erfðaprinsinn í sínu umboði.
Mér kveið örlítið fyrir því, hvernig það myndi fara og .... Þegar prinsinn segir við mig:
Heyrðu, hvað vill þessi forseti eiginlega hér niður?"
Ég: Já það er eðlilegt að hann mæti"
Pr: "Núú, eftir allt sem hefur gerst!"
Ég: Hvað er hans konunglega hátign að gefa í skyn?"
Pr: "Þér vitið alveg eins vel og ég. Hann fór bara til Íslands bara til að ræna krónunni af Pabba!"
Ég: "Ég held, að yðar konunglega hátign hafi fengið rangar upplýsingar. Sv. Bj. gerði alveg öfugt allt til að seinka málinu og setti alla sína pólitísku framtíð og politískan orðstír undir (o.s.fr.)".
Pr: "Já, en það var akkúrat það, sem Þér áttuð að segja maður! Þess vegna gaf ég boltann upp. Ég hef heyrt eitthvað um það, en aðrir segja að það sé rangt. En ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að honum líkaði við pabba minn og vildi halda í Konungsdæmið. Segðu bróður mínum þetta, heyrið Þér, það er mjög mikilvægt, hann hefur gott að því að heyra það"!. "
Þá vitum við það.
Knútur prins (f. 27.7. 1900 - d. 14.6. 1976) var reyndar hið mesta flón, og vegna gáfnabrests var rétturinn til að erfa krúnuna eftir eldri bróður hans, Friðrik IX, tekinn af honum og gefinn Margréti Þórhildi árið 1953. Orðatiltækið "En gang til for Prins Knud" er enn notað þegar einhver "fattar" ekki hlutina nógu fljótt.
Þessi barnsungi matrós skemmti sér konunglega með Knúti
Hvað varðar Knút er grein Glücksborgarættarinnar út frá honum dálítið veik að líkamlegu og andlegu atgervi og var greinilega lengi hornkerling í höllum Margrétar Danadrottningar. Frænka Margrétar, Elisabeth prinsessa, dóttir Knúts, heldur nú orðið jólin ein og yfirgefin með eldabusku sinni og sagði frá því í Søndagsavisen árið 2005.
Það sem Knútur prins sagði við Brun yfir smurbrauðinu á flugvellinum í Kastrup endurspeglaði viðhorf bróður hans, Friðriks IX, sem var óþreyttur að segja C.A.C. Brun neikvæða skoðun sína á fyrsta íslenska forsetanum, en Friðrik rómaði hins vegar jafnan aðra Íslendinga.
Sveinn Björnsson kom til Kaupmannahafnar og tók þátt í útför Kristjáns X á tilheyrilegan hátt og enginn angraði hann opinberlega.
Hér eru nokkrar söguhetjurnar saman komnar á Íþróttavellinum í Reykjavík þann 18. júní 1936. Knútur prins (1), Kristján tíundi (2), C.A.C. Brun (3), Hermann Jónasson (4) og óþekk(t)ur drengur (5):
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.8.2007 | 07:44
The Freud Watch
Á síðustu 30 árum hefur vinnumarkaðurinn í Evrópu breyst mjög. Konur fóru út á markaðinn og nú þarf tvö laun til að framfleyta venjulegri fjölskyldu. Ekki get ég skýrt út þær hagfræðilegu breytingar, en hugsanlega skýrir hún líka af hverju neyslan er meiri nú en þegar maður var barn fyrir 40 árum síðan. Jafnmargar konur og menn á vinnumarkaðnum er auðvitað mannréttindi og ég vil ekki láta skilja mig þannig að það hafi ekki verið góð þróun.
Nú er hins vegar landlæg ný bylgja eða fyrirbæri á vinnumarkaðnum. Hún hefur reyndar verið að krauma í nokkur ár, án þess að ég hafi velt þessu mikið fyrir mér. Það er hin öfgafulla ungviðisdýrkun vinnumarkaðarins.
Í Danmörku hefur það verið þannig í mörg ár, að maður gat ekki komið inn í bakarí án þess að afgreiðslustúlkurnar væru á barnsaldri, helst ljóshærðar, laglegar og ekki sérlega sleipar í reikningi. Engin tilviljun er heldur að þær voru kallaðar bagerjomfruer. Það sama gilti í ýmsum illa launuðum atvinnugreinum. Þar voru aðeins ráðnar ógiftar konur. Þetta voru einu störfin sem þeim stóð til boða á vinnumarkaðinum, áður en þær giftust smiði, lækni, tæknifræðingi eða öðrum lögnum handymönnum og eignuðust mörg börn.
Ef Freud karlinn hefði verið á lífi nú, hefði honum þótt gaman að sjá hvað var að gerast. Allar ungu konurnar sem voru að farast úr hýsteríu og penisöfund á hans tíma eru orðnar vinsælasta vinnuaflið. Því yngri, því betri. Freud hefði örugglega haft söftuga skýringu á þeim atvinnurekendum sem útiloka fólk ef það er orðið 40 ára og gagnrýnið.
"Vinnuafl sem orðið 40 ára er ekki lengur sexý" las ég eitt sinn í grein, og tók til mín. Ég er því miður ekki spengileg, ljóshærð blondína, 28 ára og nýskriðinn út úr undirstrikuðum kennslubókunum. En ég verð að bíta í það súra epli að 28 ára blondínur eiga meiri möguleika á því að fá vinnu sem fornleifafræðingar en ég í Danmörku. Doktorspróf og reynsla skipta engu máli. Hipparnir, sem fengu vinnu sem safnstjórar ár 8. áratug síðustu aldar, eru mest fyrir stelpur og ekki hafa ófáir þeirra fengið sér nýjar yngri konur úr hópi þeirra sem þeir réðu.
Hjá danska Póstinum, þar sem ég starfa enn, er líka óhugnanlega ungdómsdýrkun. Allar yfirlýsingar og bæklingar sem fjalla um jafnræði og tillitssemi á vinnustaðnum eru þverbrotnar. Post Danmark vill fyrst og fremst ungt fólk sem getur hlaupið hratt. Gamlar konur með slitgigt, eins og maður sér bera út póst í Reykjavík, yrðu ekki ráðnar hjá danska Póstinum. Vinnustaðurinn er oft eins og unglingaskóli. Launin eru líka fyrir unglinga. Ég rétt slapp inn þar sem ég skoraði 98% á gáfna- og lestrarprófi sem ég fór í.
Mig grunar einnig, að yfirmenn og fyrirtækjaeigendur hugsi oft með honum litla sínum og líbidóinu, þegar þeir ráða starfsfólk. Þegar yfirmennirnir eru karlar er þetta náttúrulega fínt fyrir konur undir þrítugu en ekki gamlingja á fimmtugsaldri. Af hverju ráða ekki kvenyfirmenn karla með vömb og skalla?
Auðvitað hef ég skýringu á þessu eins og öllu. Því yngra liðið er, því auðveldara er að móta leirinn og stjórna liðinu eftir sínu höfði. Eitt sinn vann ég með hópi amerískra fornleifafræðinga. Þeir höfðu tekið með sér ungar stúdínur, sem voru eins og gengilbeinur. Ég spurði eina þeirra af hverju hún hagaði sér eins og barpía og segði í sífellu "Yes boss, oh boss og ah boss" við prófessorinn. Hún trúði mér fyrir því að þetta væri lenska í BNA, og ef hún væri ekki sæt við prófessorinn fengi hún aldrei gráður. Henni hefur gengið vel.
Þessi áhugi á bruminu og nýgræðinum fram yfir reynslu og öryggi er skrítin þróun og ekki til farnaðar fyrir vinnumarkaðinn frekar en önnur lög þjóðfélagsins.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.7.2007 | 09:54
Diskó Kristjáns níunda og konungssteinninn
Þegar Íslendingar héldu upp á 1000 ára afmæli búsetu í landinu árið 1874 var mikið um dýrðir. Kristján konungur vor, níundi, kom í heimsókn. Myndir í vikublaðinu Illustrated London News eru líklega með bestu heimildum sem til eru um þessa heimsókn.
Í september árið 1874 birti blaðið röð lítilla fréttapistla um það sem gerðist á Íslandi við konungskomuna. Ekki er ég þó viss um að stálstungan frá dansiballinu hér fyrir ofan gefi rétta mynd af því sem gerðist. Þetta var hættan við stálstungur. Þær áttu til að ýkja. Stóri salurinn á líklega að vera salur Lærða Skólans.
Stúlkurnar í skautbúningunum voru sem dáleiddar af dönsku riddurunum.
Önnur mynd, sem birtist fyrr í Illustrated London News, sýnir Stjána númer 9 skoða stærðar stein þar sem í var höggvið fangamark hans hátignar. Þessi steinn er enn til, en þó nokkuð veðraður, við Geysi í Haukadal, eins tveir aðrir steinar frá konungskomunum 1907 og 1921.
Ég var við Geysi um daginn, en náði ekki mynd af steinunum. Ég fékk því þessa að láni hjá meistaraljósmyndaranum Ingva Stígssyni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2007 | 18:00
Brot úr sögu Flateyjar
Þegar ég sá viðtalið við Ragnar Edvardsson fornleifafræðing nýverið, var mér hugsað til annarrar fornleifarannsóknar, sem vegna fjárskorts var aldrei kláruð. Það var rannsókn á flaki hollenska skipsins Melkmeyt, Mjaltastúlkunnar, sem sökk við Flatey á Breiðafirði árið 1659.
Skipið var hlaðið varningi, líklegast vöru sem skipverjar seldu vel álnuðum Íslendingum til að drýgja hlut sinn. Skip, eins og það sem lagðist að við Viðey, var líklega á ferð til ýmissa hafna Hollendinga á norðurslóðum til að sækja lýsi og fisk. Mesta magn leirkera, sem fundist hafa í einni og sömu fornleifarannsókninni á Íslandi, fannst við köfun dr. Bjarna F. Einarssonar og félaga niður á flakið árið 1993 (sjá skýrslu Bjarna í Árbók hins íslenska Fornaleifafélags árið 1993), en ég var að nafninu til stjórnandi rannsóknarinnar, enda landkrabbi.
Einhvern veginn svona leit Melkmeyt út áður en hún sökk
Leirkerabrotin í Melkmeyt eru miklar gersemar. Flest leirkerabrotin úr Melkmeyt eru hollensk að uppruna. Melkmeyt er í raun "Gullskipið". Öll leit af Het Wapen van Amsterdam var út í hött.
Ég fór árið 1995 gagngert til Hollands með brot af nokkrum leirmunum, sem mig grunaði að gætu verið lengra að komin en úr Harlem og Delft eða nærliggjandi plássum í Hollandi, þaðan sem meginþorri leirtausins er ættaður. Í Amsturdammi gekk þar á fund sérfræðings, sem heitir Jan M. Baarts. Jan samþykkti að skoða leirkerabrotin og myndir af öðrum brotum sem honum yrðu send. Hann var á sömu skoðun og ég. Skipverjarnir á Melkmeyt ætluðu greinilega að selja Íslendingum gæðadiska frá Ítalíu. En septembernótt árið 1659 gerði mikinn storm á Breiðafirði og eldur braust út um borð á Melkmeyt, sem kom í veg fyrir frekari sölumennsku skipverja.
Brotið hér að neðan er frá Norður-Ítalíu. Áður en ítölsku diskabrotin fundust í Flatey, höfðu sérfræðingar í Hollandi aldursgreint þessa tegund leirtaus til 1650-1660. Aldur brotanna í flaki Melkmeyts passar eins og flís í rass á þeirri aldursgreiningu og gerðafræði annarra forngripa í flakinu.
Brot af ítalskri skál sem fannst í flaki Melkmeyt við Flatey
Samkvæmt Kjósarannáll tókst meðal annars að bjarga hrísgrjónum úr flakinu og hafði áhöfnin þau til matar um veturinn, en Íslendingar gaukuðu að þeim öðru matarkyns og hafa vonandi fengið hrísgrjónagraut hjá Hollendingum og smá jenever sem þakkir fyrir hjálpina við skipbrotsmennina.
Gaman væri að heyra álit manna á því hvort ekki sé kominn tími til að klára rannsóknina í Viðey.
Þetta væri verkefni sem íslensk stórfyrirtæki gætu með góðu móti styrkt. Heyri ég gjarnan frá einu þeirra.
Býflugan vinnusama. Hana er að finna á nokkrum brotanna úr Melkmeyt
Diskur með skreyti þar sem líkt er eftir kínversku postulíni
© dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur
17.7.2007 | 05:07
Dies caniculares
Sannkallaðir hundadagar.
Hér færi ég sönnur fyrir því, að hundaspark er gömul og góð norsk íþrótt, sem snemma þróaðist í fótbolta og múgæsingu. Sparkaðir hundar leituðu einatt til fjalla og gerðust vitanlega styggir.
Talið er víst að íþróttin hafi borist frá Afríku með hvíta manninum þegar hann fór til Evrópu. En sumir vísindamenn harðneita þessu og telja víst að fólk í Afríku hafi aðeins stundað hundakast.
Hundakast í Afríku
Franskur ferðamaður sendi mér þessa mynd af hundi í kirkju á Akureyri. Hann uppgötvaði fyrst hundinn þegar hann setti myndirnar inn á tölvu sína heima í Avignon.
Hundurinn Lúkas á lífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.7.2007 | 19:02
Merk rannsókn Ragnars Edvardssonar
Fornleifarannsóknir Ragnars Edvardssonar á Ströndum eru með þeim merkari á Íslandi á síðari árum. Ég hef lesið rannsóknarskýrslu Ragnar frá síðastliðnu ári og er viss um að ef rannsóknin fær nægilegt fé á næstu árum, komi út úr henni mikilvæg viðbót við Íslandssöguna og iðnaðarsögu Íslendinga. Ég hlakka til að sjá hvað Ragnar segir í Mogganum á morgun.
Hér að ofan er lágmynd af hvalskurði á 17. aldar skáp sem er varðveittur á safninu í Horn á Fríslandi (Hollandi). Þannig hefur hvalaskurður og bræðsla líklega farið fram á Strákatanga og víðar á Íslandi. Hér fyrir neðan er mynd frá "stóriðjubræðslu" á Jan Mayen, en bræðslan á Strákatanga var nú líklegast smærri í sniðum.
Njótið myndarinnar til fullnustu með því að klikka tvisvar á hana
Stóriðja sautjándu aldar á Ströndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007 | 11:34
Fjölmiðlasaga
Í Lundúnum var á 17. öld prentað dagblað sem kallaðist The Athenian Mercury. Ég á eintak af þessu blaði frá 14. ágúst 1694. Þetta var uppfræðandi blað. Suma daga voru spurningar af ýmsu tagi, trúarlegar og lagalegar, sem lesendur gátu sent ritstjórninni. Ritstjórnin leitaði eftir bestu getu að svörum. Blaðið, sem oftast var einblöðungur, var prentað af John Dunton "at the Raven in the Poultrey".
Auglýsingar báru náttúrulega þetta framtak Duntons uppi. Hins vegar var ýmislegt vafasamt oft auglýst, eins og t.d. þjónusta læknisins Thomas Kirleus, sem var greinilega hinn versti loddari og bölvaður skottulæknir. Svona lýsti hann sjálfur þjónustu sinni:
"In Grays-Inn-Lane in Plow-yard, the third Door, lives Dr. Thomas Kirleus, a Collegiate Physician, and a Sworn Physician in Ordinary to King Charles the Second, until his death; who with a Drink and a Pill (hindring no Business) undertakes a cure any Ulcers, Sores, Swellings in the Nose, Face or other parts; Scabs, Itch, Scurfs, Leprocies, and Venerial Disease, expecting nothing until the Cure be finished: Of the last he hath cured many hundreds in this City, many of them after fluxing which carries the evil from the Lower Parts to the Head, and so destroys many. De Drink is 3 s. The Quart, the Pill 1 s. a Box, with Directions; a better Purger than which was never given, for they cleanse the Body of all Impurities, which are the causes of Dropsies, Gouts, Scurviews, Stone or Gravel, Pains in the Head, and other parts. Take heed whom you trust in Physick, for it's become common Cheat to prosess it. He gives his Opinion to all that write or come, for nothing."
Þetta var 17. öldin. En er ekki verið að auglýsa vitagagnlausa ristilsskolun í dag á Íslandi?
2.7.2007 | 11:50
700 geitur létu lífið fyrir þríbók um mosku í Kaíró
Forlagið Vandkunsten í Kaupmannahöfn hefur nýverið gefið út þrjár litlar bækur um Al-Azhar moskuna í Kaíró. Það væri ekki í frásögur færandi ef 700 geitur hefðu ekki mátt láta lífið til að verða kápur um bækur þessar.
Bækurnar hafa verið bundnar saman eins og harmóníka, þannig að hægt er að lesa tvær þeirra frá einni hlið og eina frá hinni. Snjöll hugmynd, en líklega erfið í framkvæmd fyrir bókbindarann. Ágæt lausn fyrir samrýnd hjón sem vilja lesa saman, en ekki hlið við hlið.
Forlagið Vandkunsten, sem einnig gaf svo listalega út mína bók, Medaljens Bagside, hefur oft unnið til verðlauna fyrir best hönnuðu bækurnar í Danmörku. Stofnandi útgáfunnar, Søren Møller Christensen er óforbetranlegur fagurkeri. Bækurnar frá Vandkunsten eru góð lesning, og sumar einnig lítil listaverk.
Í bækurnar um Al-Azhar hafa verið notaðar ekki meir né minna en 700 húðir af vinjageitum, sem eru geitur sem slitið hafa húð sína með því að nudda sér upp að þyrnirunnum og gömlum bílhræjum í eyðimörkinni, eins og upplýst er á heimasíðu forlagsins.
Snorra Sturlusyni hefði væntanlega þótt sárt að missa 700 sauði í bókband. Dýravinir eru örugglega farnir að hóta Møller Christensen vegna þess að geiturnar voru líklega skornar á háls. En geitur úr vinjum Egyptalands eru með svo lélega húð, að ekki er hægt að búa til úr þeim Gucci töskur. Það er vissulega miklu virðulegra fyrir geit að enda sem kápa fyrir bók en sem taska.
Geiturnar 700 eru örugglega nú á beit á himnaríkishólum, stoltar af því að vera kápur um þríbók um Al Azhar moskuna í Kairó frá Forlaginu Vandkunsten í Kaupmannahöfn. Þetta eru þrjár bækur á verði einnar, bundnar í geit og hægt að nota sem harmóníku ef maður er illa læs. Bækur fyrir bókasafnara og bækur fyrir þá sem vilja gefa konunni eitthvað flott ! Örugglega bók fyrir áhugamenn um íslamska byggingalist sem er skemmtilegri en íslamlistísk niðurrifslist, sem við heyrum einatt meira um.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 91
- Frá upphafi: 1352312
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 58
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007