Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ljós í myrkri

Hinir hræðilegu atburðir í Virginíu í Bandaríkjunum setja menn hljóða. Best er ekki að velta fyrir sér hvað fékk ungan mann, stúdent frá S-Kóreu, til að fremja ódæðið. En maður getur ekki komist hjá því.  Ef til vill var það eigingirni á háu stigi. Var hann einbirni sem fékk allt það sem hann benti á, og þegar hann svo einn dag ekki fékk það sem hann vildi, gerðist hann óður?  Fólk sem fremur sjálfsmorð, en getur það ekki án þess að teyma aðra með sér í dauðan, er eigingjarnt.

En ef ekki hefði verið hægt að nálgast vopn eins og sælgæti í BNA, hefði þessi atburður líklega aldrei átt sér stað. Bandaríkjamenn verða nú að fara að gefa ákveðnar hefðir upp á bátinn.

Í öllu fréttaflæðinu frá Virginia Tech háskólanum hef ég lesið eina frásögn, sem lyftir mannlegum anda. Það er frásögning af hetjudauða ísraelska prófessorsins Liviu Librescu, sem kastaði sér fyrir kúlnaregn morðingjans eftir að hafa skipað nemendum sínum að flýja. Engir nemenda hans munu hafa látist. Sjálfur missti Librescu fjölskyldu sína í Helförinni. Hægt er að lesa meira um hann á vefsíðu Jerusalem Post

Librescu

Prófessor Librescu og sonur hans, sem í dag greindi frá hetjudauða föður síns í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð.

 


Konungskoman 1921

Konungssýningin 1921 ÍR.little

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Konungskoman 1921 hefur alltaf leikið stórt hlutverk í lífi mínu. Þá stökk afi minn yfir hest og lék listir á þverslá fyrir hans hátign Kristján X. Þetta var á Konungssýningunni 3. júlí. Afi var í  ÍR  og fékk medalíu fyrir. Hana hef ég erft og geymi með öðrum gersemum. Það er danskur silfurpeningur sem hefur verið slípaður niður á bakhliðinni og þar hefur verið grafið Konungssýningin 1921. Á framhlið er vangamynd Kristjáns X. Kóngsi mun sjálfur hafa nælt medalíuna á afa og félaga hans. Stór dagur í lífi hans, sem ég heyrði oft um þegar ég var lítill. Myndin hékk líka alltaf á vel völdum stað í íbúðinni hans.

Afi minn, Vilhelm Kristinsson, er 4. frá vinstri í aftari röð á myndinni, sem ég geymi fyrir komandi kynslóðir. Afi bjó lengi að þeirri fimi, sem han þjálfaði í ÍR. Þótt hann væri í góðum holdum síðar á ævinni, gat hann staðið og gengið á höndum á sjötugsaldri og reyndi að kenna mér það. Það tókst aldrei að læra, enda hef ég ekki erft líkamlegt atgervi móðurafa míns á neinn hátt.

Ýmsir heiðursmenn voru í fimleikum með afa. Þar á meðal Benedikt G. Waage, Björn Ólafsson í Coca Cola, Ósvaldur Knudsen, Tryggvi Magnússon, Harald Aspelund, og þjálfari þeirra var að sjálfsögðu kempan Björn Jakobsson.

Og já, ÍR á 100 ára afmæli í ár. Til hamingju! Því miður er ekki lengur fimleikadeild í ÍR.


Léleg pápíska

Bálköstur kirkjunnar2

Páfagarður neitar að taka þátt í minningardeginum um helför gyðinga í Helfararsafninu (Yad Vashem) í Jerúsalem á morgun, á Yom Hashoah, minningardegi gyðinga um Helförina. Sendiherra Vatíkansins, erkibiskupinn Antonio Franco, ætlar að sniðganga sýninguna í safninu, þar sem þar er að finna mynd af Píusi XII. páfa, og greinargerð um það sem hann aðhafðist í stríðinu, eða réttara sagt það sem hann ekki aðhafðist til að reyna að bjarga meðbræðrum sínum. Franco neitar að vera viðstaddur ef myndin verður ekki fjarlægð.

Það verður að segja það eitt skipti fyrir öll: Kaþólikar verða að læra af sögunni eins og aðrir. Það er ekki hægt að fá fyrirgefningu syndanna í litlum kústaskáp í kirkunni fyrir meðferð kirkjunnar á gyðingum. Páfar eins og Píus XII. eru ekki, og verða aldrei, dýrðlingar. Píus XII. var raggeit. Mikill fjöldi kaþólskra presta, biskupa og erkibiskupa höfðu náin samskipti við nasista. Hann átalaði það ekki. Píus hefði getað leikið lykilhlutverk til þess að bjarga ættmennum Jesús. Það gerði hann ekki. Kaþólska kirkjan gæti hafa leikið lykilhlutverk við að koma morðingjunum fyrir dómsstóla. Kirkjan var hins vegar öflugust í að skaffa þeim farmiða til Suður-Ameríku og á aðra felustaði.

Vatíkanið verður tafalaust að opna skjalasöfn sín varðandi 2. Heimsstyrjöld. Vatíkanið verður að opna skjalsöfn með upplýsingum um gyðinga, sem páfagarður ofsótti gegnum árhundruðin. Það er í raun óskiljanlegt að þetta þurfi að segja heilagri stofnun suður í Róm á öndverðri 21. öld.  En hún er greinilega uppteknari af því að segja fólki í Afríku að nota ekki smokka.

Það er líklega margt ljótt að finna í skjalabúnkum Páfagarðs. En er ekki kominn tími til þess að kaþólska kirkjan komi út úr skriftarstólnum og viðurkenni syndir sínar og geri það sama sem hún skipar litla manninn að gera?


U.N. Believable - S.Þ. gangrýndar

Darfur

Allt fór í háaloft á þingi Mannréttindaráðs Sameinuðu Þjóðanna 23. mars síðastliðinn, þegar ráðinu var sagt til syndanna af Hillel Neuer forstöðumanni United Nations Watch í Genf, sem er sjálfstæð stofnun sem fylgist með störfum Sameinuðu Þjóðanna. Mannréttindaráð Sameinuðu Þjóðanna (United Nations Human Rights Council) er síðan í júní 2006 arftaki þess sem áður hét Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna (United Nations Commission on Human Rights), sem varð til árið 1946, er mönnum var ljóst að hörmungar 2. Heimsstyraldarinnar mættu ekki endurtaka sig.

Því miður hefur Mannréttindastofu Íslands ekki tekist, eða ekki viljað, skilja sögulega þróun nefndanna og skýrir stofan rangt og ruglingslega frá nöfnum nefndanna tveggja á heimasíðu sinni  og sömuleiðis rangt frá  ástæðunni fyrir nýja ráðinu, sem er með ólíkindum.

Ísland fagnaði nýja Mannréttindaráðinu og sagði Hjálmar W. Hannesson fastafulltrúi um það gamla: " The status of the Council as a subsidiary body of the General Assembly is a step forward and we look forward to the review of the status within the next five years, with a view to elevating it to a principal organ of the UN. We also recognise that its more frequent meetings will better equip it to address urgent human rights issues".

Fátt slíkt hefur gerst í nýja Mannréttindaráðinu það ár sem það hefur starfað. Þar keppast menn um að verja helfararráðstefnur, mismunun og árásir á samkynhneigða og annan ósóma og er fulltrúum þjóða sem beita sér fyrir slíku þakkað innilega af stjórn ráðsins. Siðmenntaðar þjóðir sitja og þegja þunnu hljóði.

En þegar Hillel Neuer kom, sá og sigraði og sagði ráðinu til syndanna, kom annað hljóð úr kútnum. Hann uppskar áminningu og ósómatal frá ósiðmenntuðum fulltrúum ríkja, þar sem mannéttindi eru fótum troðin. Sum þessarra ríkja aðhyllast öfgastefnu og fremja fjöldamorð. Þeim er hyglt í ráðinu, sem upphaflega var stofnað á líkbreiðu 2. Heimstyrjaldar, sem hin óferjandi ríki keppast nú um að afneita.

Ræða Hillels er meistaraverk og það ber að þakka honum fyrir nauðsynlega áminningu, sem hann gaf mannréttindasirkus S.Þ.

Það er orðið lengi síðan sumir Íslendingar sáu tvískinnungsháttinn í störfum Sameinuðu Þjóðanna. Árið 1962 kom ungur nemi og sölumaður, Þór Whitehead, hreint til dyranna í Morgunblaðinu og sagði sannleikann, sem embættismenn og mannréttindafrömuðir geta einatt ekki séð. Óskandi væri að fleiri Íslendingar hefðu í dag það raunsæi sem Þór hafði árið 1962.

Sölumaður á Varðbergi

 


Basl- og biðraðalistinn

 Basl og Biðraðalistinn

Í þingkosningum sumarið 1963 var tónninn hvass í Sjálfstæðismönnum, sem þá voru í “Viðreisnarstjórn” með Krötum og hötuðu Framsóknarmenn eins og pestina. Mogginn birti þessa klausu á blaðsíðu 5 í sérstöku síðdegisblaði sunnudaginn 9. júní, á sjálfan kosningardaginn. Áróðurinn var gífurlegur og ýmsar hættur steðjuðu að þjóðinni. Kommúnistar brugguðu launráð, heimurinn var á heljarþröm, en Framsóknarmenn voru hættulegastir allra.

Í klausunni í kosningarblaði Moggans stendur: " REYKVÍKINGAR henda gaman að bægslagangi Framsóknarflokksmanna, sem halda að höfuðborgarbúar muni styrkja þá til valda og áhrifa og kjósa yfir sig og aðra landsmenn að nýju þá vandræðastefnu sem einkennist af biðröðum, höftum, skömmtun og hverskyns spillingu. Finnst þeim B það sem Framsóknarmenn hafa verið að hengja upp í höfuðborginni,  táknrænt fyrir stefnu þeirra: Basl- og Biðraðastefna." SíS málið var greinilega ekki grafið og gleymt.

Framsóknarmenn höfðu hins vegar sterk vopn og mætti einn þeirra, bóndi sem rétt áður hafði brugðið búi og flust á mölina, á kjörstað með tvo til reiðar. Framsóknarflokkurinn fékk reyndar mesta stuðningsaukningu í Reykjavík allra flokka. 2.000 fleiri kusu flokkinn en í kosningum árið 1959 og bætti Framsókn við sig manni í Reykjavíkurkjördæmi.

Með tvo til reiðar

Eftir að kjörstöðum hafði verið lokað hafði Mogginn samband við formenn flokkanna, en náði ekki í Hannibal Valdimarsson. Mogginn reit: “ Nú liggur næst við á ná í Hannibal Valdimarsson, en það gengur treglega. “Hann er kannski ekki úti á landi, en örugglega ekki í Reykjavík”, sagði sá sem í símann svaraði “. Ætli þess tvímælandi símsvari hjá Hannibal hafi verið Jón Baldvin, og símar og svör verið farin að vefjast fyrir honum svo snemma?

Mogginn tók líka hús á leiðtoga Framsóknarmanna, Eysteini Jónssyni og fjölskyldu á Ásvallagötunni og var fjölskyldan að hlusta á útvarp, sem Eysteinn varð að viðurkenna að hann hafði fengið árið 1958 í Rússlandi. Blaðamaður Moggans, sem hafði sérstaka athyglisgáfu, greindi þannig frá veru sinni hjá Eysteini: “Engar tölur heyrast í útvarpinu, meðan við stöndum þar við, en úr því glymur lagið “Lapi er og Lapi verður listamannakrá”. Dóttursonur Eysteins og nafni fæst ekki til að vera með á myndinni og flýr út í horn stofunnar. Þá segir afi: “Hvað er þetta Eysteinn minn? Langar þig ekki til að koma í Mogganum “.   Miðað við þann áróður sem í Mogganum hafði birst dagana á undan, var ekki að furða að drengurinn væri smeykur. Framsóknarmenn urðu næstum því eins og gyðingar í Þýskalandi nasismans í meðferð Morgunblaðsins. Nú eru aðrir tímar. 

Fast Vegabréf á Völlinn

Fast Vegabréf á Völlinn

Áður en ég fæddist bjó karl faðir minn um tíma í Keflavík. Ekki var hann þó Keflvíkingur, en hann fékk ekki lán í banka nema að hann lofaði að reka heildverslun sína í Keflavík. Bankastjórinn, sem setti þær einkennilegu reglur, hafði eitt sinn verið í íslenska nasistaflokknum og honum leist víst ekkert á föður minn.

Pabba líkaði dvölin í Keflavík vel. Tók herbergi og bílskúr á leigu downtown, en eyddi líka miklum tíma á Vellinum, enda átti hann þar marga vini með svipaðan bakgrunn og hann. Hann fór þó öðru hvoru í rútu til Reykjavíkur, enda verðandi mamma mín þar, og þar þurfti hann að skipa upp innflutninginum og koma honum í búðir í Reykjavík.

Pabbi var svo tíður gestur á Keflavíkurflugvelli að hann fékk Fast Gestavegabréf Nr. 10. Vænti ég þess að Bjarni Ben og aðrir gestir á Vellinum hafi einnig átt Föst Gestavegabréf með lægri númerum en pabbi.  Kannski á Björn dómsmálaráðherra enn skjöld föður síns og eins ánægulegar minningar og ég frá Vellinum. Kannski á Björn sjálfur svona skjöld?

Síðar, þegar ég var ungur drengur, kom ég mikið með pabba upp á Völl, stundum hálfsmánaðarlega. Það voru menningarlegar ferðir.

Mér er sérstaklega minnisstæð ein heimsókn. Við fórum þá með eldri manni, sem hét Schuster, til að skoða rússneskar flutningavélar, sem leyft hafði verið að millilenda á Íslandi á leið til og frá Kúbu. Við komumst mjög nærri vélunum og viti menn Rússarnir komu og voru hinir vinalegustu. Einn þeirra hafði greinilega gaman af börnum og gaf mér og öðrum dreng nokkur merki. Ég fékk t.d. littla brjóstnál með mynd af Lenín sem dreng. Prjón þennan hélt ég mikið upp á og kenni honum oft um að ég gerðist sósíalisti um tíma. Ég notaði hann einnig sem vopn: Í MH kenndi ungliði úr Heimdalli mér um að ég hefði rænt honum og fært hann suður í Straum með valdi. Hann ásakaði ýmsa um það sama, áður en hinir einu sönnu glæponar fundust. Ég tók þetta stinnt upp og stakk Lenín prjóni mínum í þjó Heimdellingsins. Síðar var þessi góði maður, sem ég stakk með Lenín, m.a. lögreglumaður á Seltjarnarnesi, lögfræðingur og eigandi súludansstaðar, áður en hann var allur. Blessuð sé minning hans.

Ég á ekki lengur Lenín nálina, en tel víst að ég hafi náð henni úr rassi Heimdellingsins. Var hún lítið notuð eftir það. Vegabréf pabba á Keflavíkurflugvöll geymi ég hins vegar eins og annað erfðagóss, sem ég mun kannski segja sögur af seinna.

Lenín-nál með blóði súludansstaðareiganda hefði nú heldur ekki verið kræsilegur minjagripur. En kannski hefði Heimdallur þegið hann fyrir smáþóknun?


Bækur seljast ekki í gettóum

Bækur seljast ekki í gettóum

" Það er erfitt að selja bækur þessa dagana ". Þannig skrifaði Franciszka Glücksman syni sínum, sem var strandaglópur í Kaupmannahöfn 1939-1941. Þegar Franciszkca Glücksman skrifaði þetta, var hún fangi í gettóinu í Warsjá. Sonur hennar, sagnfræðingurinn dr. Stefan Glücksman, hafði farið á námskeið í dönsku í Kaupmannahöfn. Þegar Hitler og herir hans réðust á Pólland, var ekki lengur mögulegt fyrir Stefan að snúa aftur til Póllands. Stefan skrifaðist á við fjölskyldu sína í Warsjá, sem hann hafði miklar áhyggjur af. Til þess að móðir hans og systir, Wanda, gætu lifað af, bað hann þær meðal annars að selja allar bækurnar sínar.

En bækur seljast ekki vel í gettóum eins og kunnugt er. Matur er vinsælli. Bækur á sérfræðisviði Stefans, siðbótinni í N-Evrópu og tengslum Póllands við Norðurlönd, voru kannski ekki það sem eggjaði mest í gettóinu 1940-42.

Stefan Glücksman fylgdist úr fjarska með versnandi hag fjölskyldu sinnar í Warsjá. Þegar hann hafði verið hnepptur í varðhald danskra yfirvalda, sem reyndu að fá Þjóðverja til að taka við honum, fékk hann danska vini síni til að senda matarpakka til móður og systur. Stefán var vísað úr landi í Danmörku í hendur böðla sinna í lok janúar 1941. Hann var myrtur í fangabúðunum Gross Rosen í Póllandi í nóvember sama ár. Matarpakkar frá Danmörku framlengdu líklega lífið fyrir móður hans og systur. Síðasta lífsmark frá þeim barst á kvittun fyrir móttöku matarpakka, sem þær fengu í hendur vorið 1942. Sumarið 1942 voru þær að öllum líkindum myrtar í útrýmingabúðunum í Treblinka ásamt öðrum ættingjum og þúsundum annarra gyðinga, sem smalað var í lestarvagna og fluttar í dauðaverksmiðju nasismans (systur kommúnismans) í Treblinka.

Barátta Stefan Glücksmans og fjölskyldu hans er efni næstu bókar minnar. En bækur um gyðinga, sem dönsk yfirvöld vísuðu úr landi í Seinni Heimsstyrjöld, eru ekki vinsælar. Danir kaupa frekar matreiðslubækur og Kóraninn. Ef til vill er Danmörk orðið að einu allsherjar gettói, þar sem erfitt er að selja bækur.

Bók mín Medaljens Bagside, sem enn er hægt að kaupa, varð því miður ekki að neinni metsölubók, þótt hún sé lánuð grimmt á bókasöfnum. Þrátt fyrir allar spár og aðgerðir útgefanda míns og þrátt fyrir mjög góða ritdóma og mikla umræðu, seldist hún dræmt. Bókin kom út rétt fyrir 60 ára afmæli stríðslokanna í Danmörku. Fjöldi bóka um stríðið kom út á sama tíma. Kannski var þetta bara Bad timing? En þrátt fyrir að bók mín yrði ekki metsölubókin meðal allra þeirra bóka, fékk hún mesta umræðu stríðsárabókanna í fölmiðlum. Aðrir kollegar mínir hafa heldur ekki komist á metsölulistann. En ég bjóst nú heldur ekki við því að bókin myndi seljast. Þar réði bjartsýni útgefanda míns, sem væntanlega mun gefa út ævisögu Halldórs Guðmundssonar um Laxness á þessu ári.

Ég held að bókin mín fjalli um efni, sem Danir vilja helst ekkert heyra mikið um. Bók sagnfræðingsins og embættismannsins Bo Lidegaards, sem er hástemmt lofrit er mest fjallar um nauðsyn og snilli þess að Danir höfðu nána samvinnu við nasista, sér og sínum til bjargar, varð eina metsölubókin í þessum stríðsárageira árið 2005. Danir vilja greinilega heyra hvað snjallir þeir voru í samvinnu sinni við nasista. Verði þeim að góðu.


Frönsk áhrif á Skólavörðuholtinu?

Hallgrímskirkja 

Eftir að ég birti myndir af Hallgrímskirkju og kapellunni í Douaumont i Frakklandi í gær, hefur Guðmundur Magnússon, fyrrv. þjóðminjavörður með meiru, bent mér á að Morgunblaðið hafi birt mynd af beinakapellunni í Douaumont í Frakklandi árið 1936. Er ekki líklegt að Guðjón Samúelsson hafi séð þessa mynd eða lesið um kappelluna í tímaritum.

Ef til eru betri fyrirmyndir, eða aðrar skýringar, þætti mér vænt um að fá upplýsingar.


Seiðahirðirinn í Auschwitz

Seiðamaður í Auschwitz

Sumir af bestu vinum mínum eru Pólverjar. Ég á að 1/32 hluta eða svo ættir að rekja til Póllands. Bestu vinir mínir frá Póllandi eru reyndar gyðingar, sem flýðu vegna gyðingahaturs í Póllandi kómmúnismans. Á Hvítasunnudag mun ég halda erindi í félagi þeirra í Kaupmannahöfn um rannsóknir mínar á sögu pólskra gyðinga, sem Danir komu fyrir kattarnef í Seinni Heimsstyrjöld. Sumt af því fólki sem þar mætir til að hlusta á mig, hefur sjálft lifað hörmungarnar af en misst bróðurpart ættgarð síns í morðæðinu fyrir rúmum 60 árum.

Í þau skipti sem ég hef verið í Póllandi hefur erindið fyrst og fremst verið að heimsækja útrýmingarbúðir. Ég hef því ekki gert mikið í því að kynnast landi og þjóð. Bæti úr því síðar.

Haustið 2001 var ég í Auschwitz, í heilan dag.

Þá gekk ég ásamt Jacques Blum talmanni gyðingasafnaðarins í Kaupmannahöfn fram á manninn hér að ofan. Hann var að ná í fiskiseiði, sem hann var að ala í rústum kjallara í Auschwitz Birkenau. Rústin, sem hann notaði til þess arna, hafi eitt sinn verið kjallari undir húsi í þeirri deild búðanna, þar sem sígaunar voru hýstir áður en þeir voru myrtir. Síðar var þessi hluti svæðisins einnig notaður fyrir gyðinga.

Þegar maðurinn sá áhuga minn á athæfi hans, sem eg festi á filmu, flýtti hann sér að taka saman föggur sínar, setti fötu með seiðum sínum á rautt bifhjól og brunaði út úr búðunum.

Nokkrum árum síðar bar ég þessa einkennilegu iðju mannsins undir ráðamenn safnsins í Auschwitz. Þeir fengu algjört " szczschockk " þegar þeir sáu kauða og iðju hans í miðjum útrýmingabúðunum. Vonandi er búið að stöðva manninn og framtak hans í dauðabúðunum. En hugsanlega er enn verið að bjóða upp á reyktan silung a la Auschwitz í nágrenninu.

Virðingarleysi? Það finnst mér. Hvað finnst ykkur?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband