Færsluflokkur: Helförin
20.7.2008 | 21:25
Homo Catholicus
Bloggörninn Jón Valur, sem oft flýgur þangað sem við hin þorum ekki að fara, er í dag með færslu um gleði sína yfir komu páfans í Róm til Ástralíu. Ég samgleðst Jóni yfir því að Benedikt páfi sé nú í landi andfætlinga. Það er töluvert afrek, þegar miðaverð er orðið svona hátt. En ætli Vatíkanið hafi ekki enn ráð á því?
Ég gladdist hins vegar meira yfir því í dag, að finna mynd af Henricusi, auðmjúkum hollenskum munki og presti sem bjó í gömlu rauðmáluðu húsi í nágrenni Karmelítaklaustursins í Hafnarfirði. Þar var hann með alifuglarækt. Líklega voru það Jófríðarstaðir, eða fyrrum Ófriðarstaðir, þar sem Henricus bjó, en nú er húsið ekki lengur til og búið er að byggja allt of mikið á svæðinu.
Af og til fékk faðir minn fugla sem Henricus slátraði, bæði kjúklinga og endur, sem ekki var hægt að fá í kæliborðinu úti í búð á 7. áratug síðustu aldar.
Ég man eftir Henricusi nokkuð eldri en hann er hér á myndinni, en andlitinu gleymi ég aldrei og mjög vinarlegu viðmóti mannsins. Það lýsti af honum gæska.
Þegar nunnurnar í Hafnafirði voru hollenskar, átti faðir minn lengi við þær smá viðskipti og einnig við Henricus. Ég man sérstaklega eftir tveimur nunnum sem maður mátti sjá. Þær voru í brúnum kuflum og með breið svört belti . Eina þeirra kallaði ég í minningunni systur Feldman, þar sem hún var með sama augnsjúkdóm og andlitsbyggingu og leikarinn Marty Feldman.
Karmelítareglan varð til í Palestínu, en múslímar réðust á stofnklaustur reglu þeirra og myrtu alla munkana á 15. öld. Reglan breiddist víða.
Kaþólikkar hafa staðfest helgi karmelítanunnunnar, Edith Stein / heilagrar Teresu Benedictu af Krossinum, sem var af gyðingaættum og var þess vegna myrt í Auschwitz. Hún var handsömuð í klaustri í Hollandi, ekki vegna trúar sinnar heldur vegna uppruna síns. Kaþólikkar telja hana hins vegar til píslavotta sinna. Hvað ætli Edith Teresa Benedicta hafi álitið þegar hún var með hinum gyðingunum í gasklefanum?
Nú eru víst aðeins pólskar nunnur í Hafnarfirði.
Helförin | Breytt 21.7.2008 kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.7.2008 | 16:34
Hetjurnar snúa heim
Líkamlegum leifum ísraelsku hermannanna Ehud Goldwassers og Eldad Regevs var í dag skilað til Ísraelsríkis. Ráðist var á þá í Ísrael, þeim rænt og þeir myrtir af hryðjuverkasamtökunum.
Hizbollah, sem á stefnuskrá sinni hafa eyðingu Ísraels og útrýmingu ísraelsku þjóðarinnar, fékk bæði líkamsleifar fanga og glæpamenn á fæti fyrir bein Goldwassers og Regevs.
Einn þeirra sem nú snýr aftur til Líbanon á lífi sem hetja er Samir Qantar (Sameer Kuntar), Drúsi og ótíndur glæpamaður, sem árið 1979 gerðist málaliði Palestínsku hryðjuverkasamtökunum PLF og réðst til landgöngu í Naharía sunnan við Landamæri Líbanons. Hann myrti þar 31 ára gamlan fjölskylduföður, Danny Haran og 4 ára dóttur hans, Einad. Eftir að hafa skotið Danny Haran í bakið og drekkt honum fyrir framan barnið, sneri hann sér að henni. Hann sló hana margoft með riffilskeftinu og kramdi svo höfuð hennar með því að trampa á því. Kona Dannys, Smadar, faldi sig og hélt fyrir vit yngra barns þeirra hjóna, svo það gréti ekki þegar hetjan Kuntar réðst á fjölskylduna. Barnið kafnaði. Kuntar myrti einnig ísraelskan lögreglumann.
Nú er hetjan Samir Kuntar kominn heim, meira að segja með gráðu í stjórnmálafræði í farteskinu, sem hann fékk við háskóla í Ísrael meðan hann var í fangelsi.
Fagnið þið sem styðjið málstað hans. Það gerið Abbas á Vesturbakkanum og á Gaza er Kuntar þjóðhetja. Íslenskir vinir þessa fólks ættu að halda veislu í kvöld, setja gott kjöt á grillið og gleðjast yfir því að Kuntar er kominn heim. Þetta er stórfenglegur málstaður sem þið berjist fyrir.
Helförin | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.7.2008 | 15:50
Ljóshærði drengurinn frá Haifa
Asaf Zur var ósköp venjulegur ísraelskur unglingsstrákur, langur sláni sem hafði áhuga á sjóbrettum, íþróttum, ferðalögum, partíum og stelpum. Hann var ljóshærður, sem er ekki algengasti háraliturinn í Ísrael. Vinir hans kölluðu hann þess vegna Blondi. Það var líf í þessum dreng.
5. mars árið 2003 rann blóð um hár Asafs, þar sem hann lá líflaus í braki strætisvagns í Haifa. Hann varð aðeins 17 ára. 17 aðrir voru myrtir í þessari fólskulegu árás á saklaust fólk. Því réð ein af þessum rómuðu frelsishetjum frá Palestínu, sem eiga fullt af stuðningsmönnum á Íslandi. Eftir sátu unnusta Asafs, móðir hans Lea, faðir hans Yossi, og bróðir hans Almog sem var aðeins var 7 ára þegar hann missti bróður sinn.
Þessi auma lýsing mín á lífi og örlögum Asaf Zur er hægt að endursegja um hundruð annarra fórnarlamba raggeitanna, sem drepa saklaust fólk, vegna þess að þessir hryðjuverkamenn vilja stofna ríki á ísraelskri jörð, þar sem þeir ætla sér að troða mannréttindum og lýðræði fótum líkt og venjan er í flestum ríkjum sem umlykja Ísrael.
Fjölskylda Asafs kemst aldrei yfir missinn. Faðir hans vill ekki að neinn gleymi syni sínum og ég leyfi mér að minna Íslendinga á Asaf með honum. Ef Asaf hefði lifað, hefði hann ferðast um heiminn að lokinni herskyldu eins og margir jafnaldrar hans frá Ísrael. Faðir Asafs langar til að Asafs verði minnst á eins mörgum stöðum og mögulegt er.
Pabbi Asafs biður alla sem vettlingi geta valdið um að prenta mynd af syni sínum og taka svo mynd af sér og/eða fjölskyldunni með myndina af Asaf; Líka að taka mynd af sér og myndinni hvar maður er staddur í heiminum, t.d. á Þingvöllum, Geysi og Gullfoss. Faðir Asafs vill gjarna fá myndirnar sendar og mun safna þeim öllum saman og birtir þær á minningarsíðu Asafs.
Þetta gæti allt eins hafa verið sonur ÞINN, og þinn og þinn.......
Hér er hægt að nálgast myndina af Asaf og upplýsingar um það sem gera skal og hér fyrir neðan skýrir faðir Asafs fyrir ykkur hvað þið getið gert.
Helförin | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.6.2008 | 09:28
Er fótbolti uppbyggileg íþrótt ?
Einn af þeim sem yngist allur upp ef knattspyrna er annars vegar er stríðsglæpamaðurinn Milivoj Asner, sem framdi hræðilega glæpi gegn mannkyninu í Króatíu í síðari Heimsstyrjöld. Asner sem býr í Klagenfurt í Austurríki er 95 ára, en það aftrar honum ekki frá því að fara á völlinn, þar sem lið Króatíu hefur haft aðsetur meðan að Evrópumótinu í knattspyrnu fer fram.
Breska blaðið SUN náði í karlinn þar sem hann spókaði sig um götur borgarinnar með frú Edeltraud upp á arminn. Hann gekk meira en mílu án stafs og stoppaði á kaffihúsum og ræddi við menn um leikinn, drakk vín og kaffi.
Blaðamaður Sun fylgdi eftir og filmaði glæpamanninn og hér má lesa um það. Þegar blaðamaðurinn spurði hann til nafns, staðfesti karlinn að hann væri Milivoj Asner, en sagðist aldrei hafa snert hár á höfðu nokkurs mann. Það er er þekkt viðkvæði hjá stríðglæpamönnum
Dr. Efraim Zuroff forstöðumaður Simon Wiesenthal Stofnunarinnar í Jerúsalem, segir:
"Austurríki hefur lengi verið annáluð paradís fyrir stríðsglæpamenn. Ef maðurinn [Asner] er nógu hraustur til að labba í bæinn og drekka vín, er hann nógu hraustur til að standa reikningsskil gerða sinna"
Zuroff mun nú enn einu sinni krefjast þess að Asner verði framseldur.
Við verðum að vona að Íslenska sendinefndin í Vín, sem oft hefur tekið þátt í ráðstefnum um Helförina og skilda hluti, mótmæli nú stefnu Austurríkis. Sendiráðið getur fengið Ingibjörgu víðförlu í lið með sér. Þess má geta að húsið sem sendiráðið er í í Vín var einu sinni í eigu gyðinga. Í húsinu beint á móti sendiráði Íslands í Vín voru höfuðstöðvar SS-Sonderinspektion IV sem stjórnað var af SS hershöfðingjanum og stríðsglæpamanninum Hans Kammler, sem aldrei sást til eftir 1945. Ætli hann hafi lifað óáreittur í Austurríki eins og svo margir aðrir morðingjar og fylgst með fótboltanum?
Í dag gengur Asner undir nafninu Georg Aschner og býr beint á móti menningarmiðstöð Króata í Klagenfurt og allir vita hver hann er og hvað hann hefur gert af sér. Króatar, sem eru búsettir á þessum slóðum, eru frekar stoltir af karlinum.
Það er glæpsamlegt athæfi, að Austurríki hafi látið þennan óþokka lifa óáreittan í landi Vínarvalsanna. Það eru of margar feilnótur An der schönen blauen Donau
1.5.2008 | 17:45
(Nasjónal)sósíalsimi í réttu ljósi
Það er ekki lengur óalgengt á Íslandi að maður sjái svona ósóma eftir svokallaða vinstrimenn. Vésteinn Valgarðsson, sem ritar þetta, er að eigin sögn mikill friðarsinni. Mér er ómögulegt að sjá það.
Mig langar að benda á góða grein eftir vin minn Manfred Gerstenfeld, sem stýrir riti sem ég hef skrifað tvær greinar í. Grein hans, sem hann kallar Holocaust Trivialization, kom formlega út í dag. Í henni getur maður getur lesið dæmi um hinar mismunandi aðferðir sem óprúttnir menn og óvitar nota til að gera lítið úr Helför gyðinga, hvernig hún er misnotuð og örlög milljóna manna eru vanvirt og tengd flatneskju og öðrum málstað eða baráttum, sem ekki kemur örlögum 6 milljón manna við.
Hvað fær menn t.d. til að líkja banni þýskra yfirvalda á hættulegum bardagahundum við helför gyðinga?
Það gerist líka iðulega að fórnalömb Helfararinnar eru vanvirt af fólki sem líkir örlögum gyðinga í Seinna stríði við hryðjuverkamenn, sjálfsmorðssprengjumenn nútímans og örlögum þeirra við lélegan öfgamálstað nútímans. Svo eru til karakterar sem eru í beinu sambandi við ríki og hafa skilning á þjóðhöfðingjum sem afneita Helförinni. Vésteinn Valgarðsson er t.d. nýbúinn að vera í Egyptalandi, sem er einræðisríki þar sem gyðingahatur er sýnt í sjónvarpinu. Vésteinn fór á ráðstefnu um frið í Egyptaland. He he! Mönnum er líka bannað að blogga á Egyptalandi. Ætli Vésteinn hafi mótmælt þessu þegar hann var í skugga píramídanna?
Saklaust fólk, sem allar bjargir voru bannaðar er ekki hægt að líkja við ríki öfgasamtaka, sem hafa útrýmingu gyðinga á dagsskránni líkt og nasistar fyrir 65 árum síðan. Ísraelsríki er ekki hliðstæða Þriðja Ríkisins. Og fyrir þá sem styðja Amadinejad i Íran, þá upplýsist hér með að Helförin átti sér stað.
Hvenær hætta íslenskir vinstrimenn þessum ósköpum? Eru þeir ekki með öllum mjalla? Er arfur nasismans svo lokkandi að þeir þurfi að eftirapa hann, eða er bara svona lítill munur á nasíónalsósíalisma og sósíalisma?
Einn argasti gyðingahatari Íslands eftir Síðari Heimsstyrjöld var kratinn, Alþingismaðurinn og embættismaðurinn Jónas Guðmundsson. Hann gaf út rit sem voru morandi í gyðingahatri. Á heimasíðu Alþingis er ekki minnst einu orði á þessar einkennilegu kenndir Jónasar. Skrif hans og útgáfa hafa vonandi ekki á sínum talist til góðrar latínu á Íslandi? Margir keyptu tímarit rit Jónasar, Dagrenning, sem út kom í 12 ár, og bókasöfn höfðu fjölda eintaka af ritum hans til láns.
Jónas Guðmundsson, krati sem gaf út andgyðingleg rit eftir Heimstyrjöldina síðari.
Hvað gerist í kollinum á sumum vinstrimönnum og hvað gerist stundum í kollinum á sumum Íslendingum? Bara að ég vissi það.
Helförin | Breytt 3.5.2008 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
1.5.2008 | 14:51
Yom haShoah
Í maí 1944, mánuði áður en Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði sínu og urðu fullvalda þjóð, var verið að slátra gyðingum á fullu í útrýmingarbúðum og fangabúðum um gjörvalla Austur-Evrópu.
Myndin, sem SS menn tóku í Auschwitz, sýnir börn og konur frá ungverska hluta Úkraínu, sem valin höfðu verið til útrýmingar bíða örlaga sinna. Þetta gerðist mánuði áður en Íslendingar fengu sjálfstæði sitt (án þess að úthella svo miklu sem einum blóðdropa). Nokkrum tímum eftir að mynd þessi hafði verið tekin, var þetta fólk dáið. Sumir Íslendingar töldu land sitt hertekið, aðrir höfðu frekar viljað fá Þjóðverja yfir sig en Breta og Bandaríkjamenn.
Árið 1948 varð Ísrael líka af sjálfstæðu ríki, sem fjöldi annarra ríkja og skósveina þeirra hafa viljað feigt allar götur síðan. Mikið fjári eru Íslendingar nú heppin þjóð.
Í dag halda gyðingar minningardag um Helförina, Yom haShoah, og í Ísrael minnast menn hennar með tveggja mínútna þögn kl. 10 að morgni. Menn stöðva alla vinnu og akstur og standa og halda andagt.
Ísraelsríki varð meðal annars til vegna þeirar miklu brennifórnar sem Evrópumenn ákváðu að framkvæma á gyðingum á síðustu öld.
Það er því enginn gyðingur sem getur tekið þá Evrópumenn alvarlega, og minnst af öllu Íslendinga, sem styðja öfgasamtök sem hafa útrýmingu gyðinga og Ísraelsríkis á stefnuskrá sinni.
Maður lætur ekki bjóða sér sama óþverrann tvisvar.
Helförin | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2008 | 00:02
Léleg bók
Skáldsaga Írans John Boynes, Strákurinn í röndóttu náttfötunum, er komin út á íslensku.
Ég las nýlega bókina á dönsku og þótti lítið til hennar koma.
Bókin er að mínu mati illa rannsökuð unglingabók. Söguþráðurinn er þunnur og ef Boyne hefði rannsakað málin, vissi hann að flest 9 ára börn í Auschwitz voru send í gasklefana við komuna þangað. Smávægileg rannsókn hefði fullvissað hann um að börn böðlanna voru hvergi nærri búðunum. Sjálfur hef ég skrifað sannsögulega bók um örlög gyðinga sem Danir sendu í klær nasista. Margir þeirra enduðu ævina í Auschwitz, þar á meðal þrjú börn. Mér er því kunnugt um flestar villurnar og ruglið sem er að finna í bók John Boynes. Ef 9 ára drengur (Bruno), sonur ímyndaðs yfirmanns í Hitler-apparatinu sem vann við útrýmingar, hefur ekki vitað hvað um var vera, svo hlýtur hann að hafa verið illa gefinn aríi. Boyne bókin lætur Bruno hitta jafnaldra sinn, gyðinginn Shmuel, handan við girðinguna. Það afar ólíkleg atburðarrás. Girðingar voru ekki einfaldar í Auschwitz og voru þær oftast tengdar við háspennu.
Til að bæta gráu ofan á svart hefur bókaútgáfan Veröld sett mynd af fanga í "röndóttum náttfötum" á kápu bókarinnar. Fanginn er hins vegar ekki gyðingur, heldur pólskur drengur, einn af mörgum pólskum börnum sem rænt var af Þjóðverjum. Hönnuður og útgefandi bókarinnar hefðu getað gert betur. Til eru myndir af gyðingabörnum.
Hér er hægt að horfa á íslenskan bókmenntagagnrýnanda blaðra um bókina. Hún hefur greinilega ekki komið til Auschwitz. Hún talar um auðnina þar. Auschwitz liggur í blómlegri sveit í Póllandi. Gagnrýnandinn hefur á hinu háa Alþingi flutt ræðu, þar sem hún sagði m.a. þetta: "Allt síðan þá, frá fyrri hluta 20. aldar, hefur innflutningur gyðinga til Palestínu aukist og til ársins 1947 þegar Bretar afsöluðu sér formlega allri ábyrgð á Palestínu og í kjölfar þess var ákveðið af Sameinuðu þjóðunum að skipta landinu í tvennt, í Palestínu og Ísrael, og Jerúsalem yrði undir alþjóðlegri stjórn." Útrýmingar á gyðingum i Evrópu frá 1940-1945 fækkaði vissulega mjög þeim gyðingum sem flutt gátu til Palestínu. Gleður það eða syrgir það gangrýnandann Katrínu Jakobsdóttur sem gjarnan líkir saman kjörum gyðinga í Evrópu í Síðara stríði og ástandi Palestínuþjóðarinnar í dag? Gaman væri að fá svar frá henni. Hvar voru vopn gyðinganna? Hvar voru eldflaugarnar?
Ferðataska Petr Eislers. Hann átti ekki afturkvæmt frá Auschwitz
Ég mæli með því að fólk lesi frekar frásagnir þeirra sem lifðu Helförina af og jafnframt sagnfræðirit um það fólk sem myrt var af nasistum, í stað þess að lesa rugl eftir einhvern írskan hugórasmið, sem gert hefur örlög fólks, sem Írar neituðu að hjálpa á 4. áratug síðustu aldar, að féþúfu. Kannski skrifar hann næst um hvernig Írar lokuðu landi sínu fyrir flóttamönnum á 4. áratug síðustu aldar. Kannski hefði einhver Shmuel geta orðið Íri á þeim árum? Nei því miður, Írland hleypti færri gyðingum inn en flestar aðrar þjóðir í Evrópu. Nú keppast þeir, eins og Mörlandinn, við að rægja Ísraelsríki.
Þýskar (og ef til vill skandínavískar) nasistamellur, svo kallaðar SS Helferinnen, í Solahütte nærri Auschwitz sumarið 1944. Þarna voru þær nýbúnar að borða bláberin sín og sýna tómar skálar sínar því til sönnunar. Það voru engir Þjóðverjar í Auschwitz sem ekki vissu hvað þar fór fram. Þeir skemmtu sér og nutu lífsins þegar þeir voru ekki að myrða gyðinga og aðra fanga í búðunum.
Helförin | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.4.2008 | 12:10
Spurning varðandi Ruth Rubin
Nýlega, þegar fréttir bárust af hryllilegu morði á 10 ára barni í Svíþjóð, urðu menn forviða og harmi slegnir. Allir, og sérstaklega allir foreldrar, fyllast harmi og hryllingi við slíkar fréttir frá nágrannalandi okkar, þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur alið manninn og hlotið menntun sína og gildismat. Ekki vantaði heldur dóm íslenskra bloggverja yfir manninum sem framdi ódæðið. Hann verður örugglega dæmdur eftir þeim lögum sem gilda í Svíþjóð.
Annað var upp á teningnum fyrir fyrir u.þ.b. 16 árum, þegar farið var fram á rannsókn á máli meints stríðsglæpamanns á Íslandi sem hafði gerst íslenskur ríkisborgari eftir að hann strandaði hér á leið til Venezuela. Gömlum vitnisburði og skýrslum var til að byrja með hafnað sem KGB áróðri, t.d. af Morgunblaðinu, sem dældi út rógi um Simon Wiesenthal stofnunina. Lögfróðir menn, sem leitað var til, töluðu gegn betri vitund og rannsókn málsins var dregin á langinn. Maðurinn, Eðvald Hinriksson, var t.d. ásakaður um aðild að morði á ungri stúlku, Ruth Rubin, sem var í haldi lögreglusveitar þess sem hann var meðlimur í. Evald Mikson hét hann, þegar sveit sú sem hann var í hóf gyðingamorð. Sveitin byrjaði á morðunum áður en Þjóðverjar voru almennilega búnir að ná yfirráðum í Eistlandi.
Mikson dó drottni sínum rétt eftir að Íslensk yfirvöld tóku við sér og ákváðu að líta á ásakanirnar á hendur honum. Þrátt fyrir að honum hafi verið hlíft við rannsóknum og réttarhöldum, skilgreina eistnesk stjórnvöld hann nú sem stríðsglæpamann.
Forseti vor og utanríkisráðherra höfðu, þegar mál hins meinta stríðsglæpamanns var í gangi, ýmislegt til málanna að leggja. Hér og hér getið þið lesið hvernig málið leit út frá þeirra sjónarhorni. Leiðtogar Hisbollah áttu alla samúð Ólafs, eins og það kæmi eitthvað máli eistnesks stríðsglæpamanns við, og Ingibjörg víðförla var á því að gyðingar ættu engan einkarétt á helförinni eða þjáningu. Mun hún endurtaka það í Öryggisráði SÞ?
Algjör þögn virðist nú vera um mál stríðsglæpamannsins á Íslandi. Blaðamaður í fremstu röð, "sem þorði meðan aðrir þögðu" var næstum því búinn að missa vinnunna vegna þess að hann skrifaði um málið. Hann ætlaði að skrifa bók um efnið, en stendur nú í staðinn í því að skýra gjörðir yfirvalda í Kópavogi. Ég bíð eftir bókinni.
Af hverju fyllist íslenska þjóðin af hryllingi yfir barnamorði í Svíþjóð, þegar stór hluti hennar vill verja mann sem ásakaður var fyrir að hafa nauðgað stúlku og myrt?
Ég geri mér grein fyrir því að fjarlægðin í tíma og rúmi getur gert menn miskunnsamari gagnvart voðaverkum og sekt? Það, að hinn meinti stríðsglæpamaður var orðinn Íslendingur og átti syni sem voru duglegir íþróttamenn á heimsmælikvarða, hafði líka mikið að segja í sambandi við álit Íslendinga. Hann var "einn af okkur". Svo þekkist viðkvæðið: "Aðrir skulu ekki koma hér og segja okkur fyrir verkum". Það heyrðist nýlega þegar Íslendingur fékk sjö ár í steininum í Færeyjum fyrir aðild að kókaínsmygli. Hann hefði, samkvæmt lögfróðum Íslendingum eins og Brynjari Níelssyni og Sigurði Líndal, aðeins fengið innan við ár á Íslandi.
Það læðist að mér sá grunur að áhugi Íslendinga, og margra annarra, á fórnarlömbum og órétti stýrist t.d. af því hvaða þjóðflokkur hefur orðið fyrir órétti. Margir Íslendingar gráta frekar sænska stúlku en gyðingastúlku í Tallinn. Getur þetta verið rétt athugað hjá mér?
Helförin | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
21.3.2008 | 14:27
Eimskipasaga
5. febrúar árið 1940 fór Valerie Neumann, 65 ára kona í Vín Austurríki, í sendiráð Dana í Vín og sótti um 14 daga landvistarleyfi í Danmörku, til þess að bíða þar eftir skipi til Íslands. Erindi hennar var sent til útlendingadeildar Ríkislögreglunnar í Kaupmannahöfn, sem hafði samband við skipafélög sem sigldu á Ísland.
Danska skipafélagið DFDS upplýsti að ekki yrði siglt í bráð til Íslands, þar sem hætta væri á því að skip félagsins yrðu tekin af Bretum og færð til hafnar á Bretlandseyjum, sérstaklega ef "þýskir þegnar" væru um borð. Danska lögreglan fór annars með umsókn Valerie Neumann sem umsókn gyðings og færði hana inn í skýrslur sem Valeire Sara Neumann. Lögreglan gerði DFDS það ljóst að Valerie Neumann væri gyðingur frá Austurríki. Þýsk yfirvöld kröfðust þess að gyðingakonur bæru millinafnið Sara í skilríkjum sínum og karlar millinafnið Israel. Hún var líka afgreidd sem Valerie Sara Neumann í Danmörku.
Eimskipafélagið hf upplýsti, þegar mál Valerie Söru Neumann var borið undir það, að maður myndi gjarnan taka þýska ríkisborgara með á skipum sínum, ef þeir hefðu meðferðis vottorð frá breskum yfirvöldum. Eimskipafélagið vissi hins vegar vel að þýsk yfirvöld gáfu ekki út nein slík vottorð.
Danski lögreglufulltrúinn H. Krause, sem var nasisti og gyðingahatari, skrifaði í skýrslu sína um Valerie Neumann "Það kom fram í máli félagsins að maður vildi helst vera laus við farþega sem kynnu að valda vandamálum eða seinkunum fyrir skipið".
Norðmenn neituðu líka Valerie Neumann um leyfi til að bíða eftir skipi til Íslands í Bergen.
The Wonderland of Contrasts
Nokkrum mánuðum síðar, eftir að Valerie Neumann ítrekaði umsókn sína og einnig fjölskylda hennar á Íslandi, n.t. systursonur hennar Viktor Urbantitsch (Urbancic) sem var búinn að kaupa handa henni farmiða, var aftur haft samband við Eimskipafélag Íslands í Kaupmannahöfn.
Eimskipafélagið upplýsti þann 5. apríl 1940 að það hefði verið svo mikið "Vrøvl" og erfiðleikar með bresk yfirvöld, svo það væri ekki hægt að leyfa frú Neumann að sigla, nema að hún fengi bresk vottorð og gildandi íslenskt landgönguleyfi. Skrifstofa félagsins í Kaupmannahöfn upplýsti að siglt yrði þann 10. apríl og svo aftur 1. maí. Embættismaður við Ríkislögregluembættið, Troels Hoff, ákvað hins vegar sama dag að Valerie Neumann fengi ekki leyfi til að dvelja í Danmörku.
Fjórum dögum síðar buðu Danir, svo að segja án nokkurrar mótspyrnu, þýsku herraþjóðina velkomna. Og já, ekki má gleyma því að Þjóðverjar, sem Íslendingar báru svo mikla virðingu fyrir, tóku Gullfoss traustataki í Kaupmannahöfn.
Valerie Neumann sat áfram í Vín og fjölskyldan á Íslandi var rukkuð um 31 Íslenskar krónur fyrir símskeytakostnaði í bréfi dags. 28. nóvember 1940. Áður hafði danska forsætisráðuneytið minnt á þessa skuld í bréfi til Sendifulltrúa Íslands í Kaupmannahöfn.
Danir fengu peningana sína, eins og alltaf, og Eimskip losnaði við vandræði. Nasistar fengu Gullfoss og var skorsteinsmerki skipsins þeim líkast til að skapi.
Valerie Neumann, jú hún var send í fangabúðirnar í Theresienstadt 21. júlí 1942. Andlát hennar skráð 9. ágúst 1944. Hvort hún hefu dáið þann dag eða verið send í útrýmingarbúði er óvíst.
Skömmu áður höfðu nasistar búið til áróðurskvikmynd um ágæti þessara fangabúða í fyrir utan Prag. Í kvikmyndinni sést fólk í sparifötunum við ýmsa iðju. Flestir þeir sem þarna sjást voru sendir til útrýmingarbúðanna Auschwitz og Sobibor að loknum myndatökunum, m.a. kvikmyndagerðamaðurinn. Kvikmyndin sýnir gyðinga frá Austurríki, Hollandi, Danmörku, Austurríki og Tékkóslóvakíu.
Hér eru tvö skeið úr áróðurskvikmyndinni frá Theresienstadt
http://www.youtube.com/watch?v=OlIMAJF3kic
http://www.youtube.com/watch?v=E9gSzo0x4ak
Í þessu húsi við Haidgasse í Vín bjó Valerie Neumann árið 1940. Síðar bjó hún í Rotensterngasse. Síðasta heimilisfangið henna á þessari jörð var ekki Reykjavík heldur Theresienstadt.
Helförin | Breytt 1.3.2019 kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.3.2008 | 19:36
Íslenskir öfgabloggarar
Miklir öfgamenn hafa lagt leið sína á blogg mitt að undanförnu. Skrif mín virðast æsa þá, enda slær hjarta þeirra í takt við sprengjuhríð hinna þjáðu á Gaza. Þeir kenna Bandaríkjunum og jafnvel sjálfum sér um morðöldu og innbyrðis skálmöld í hinum mismunandi löndum múslíma. Vegna óhemju og gífuryrða í minn garð hef ég meinað nokkrum þeirra aðgang að bloggi mínu. Það er tilgangslaust að þrátta við fólk sem styður hópæsingu og öfga óupplýsts heims, heims sem ærist ef einhver í fjarlægu landi teiknar mynd af skrýtnum karli og sem kaupir sprengjur frekar en mat fyrir börnin sín.
Öfgarnar hjá þessum hatrömmu stuðningsmönnum öfganna renna allar að einum ósi. Feigðarósi stuðnings við öfl sem hafa eyðingu Ísraelríkis á stefnuskrá sinni og sem helst sjá endalok vestrænna gilda. Sjá hér. Sumir þessara gesta minna hafa lýst yfir harmi sínum yfir því að Hitler hafi ekki tekist betur við drápin en þær 6 milljónir gyðinga sem hann kálaði. Aðrir eru enn slímugri í hugsun, því þeir vilja banna gyðingum og Ísraelsríki að "misnota" útrýmingarherferð gegn gyðingum í Evrópu á 20. öld. Það gerði Ingibjörg Sólrún líka hér um árið, þegar hún hélt því fram að Ísrael ætti ekki neinn einkarétt á réttlæti þrátt fyrir ósköpin í síðari heimsstyrjöld. Það sagði hún þegar leitast var eftir réttarhöldum yfir stríðsglæpamanni sem bjó á Íslandi. Núverandi utanríkisráðherra á Íslandi barðist gegn því að réttlætið mætti sigra yfir böðli gyðinga. Þvílík ósvífni.
Kannski kemst Ingibjörg í Öryggisráð SÞ með hirð fólks sem hefur atvinnu af því að túlka heiminn eftir kenningum pólitískrar rétthugsunar og hræsni. Þá mun heimurinn komast af því sanna um "hlutverk Íslands á meðal þjóðanna", en annars geta menn lesið um það hér ef þeir vilja og leita eftir nafni ráðherrans.
Helförin | Breytt 6.12.2018 kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Tapað-fundið á DV
- Ekki fleiri sokka frá Íslandi, TAKK.
- Trumpur Eyjajarl
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1354193
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Janúar 2025
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007