Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Helförin

Dönsk yfirvöld skipa gyðingum að hylja sig

Hors 1  mask
 

Í gær (15.1. 2011) birtist grein í danska dagblaðinu Berlingske Tidende eftir blaðamanninn og sagnfræðinginn Bent Blüdnikow um skrif mín í tímaritið Rambam, sem ég ritstýri. Rambam er ársrit sögufélags gyðinga, Selskabet for Dansk Jødisk Historie, í Danmörku og Blüdnikow er reyndar formaður þess félags. Í nýjasta árgangi ritsins eru margar merkar greinar sem fjalla um mjög mismunandi efni, allt aftur frá 18. öld fram á okkar daga.

Forside 2
Rambam 19/2010. Forsíðumyndin er af sjörnu þeirri sem danskir nasistar límdu á hús gyðinga
í Kaupmannahöfn í byrjun árs 1942.

Í inngangsorðum að Rambam 19/2010 greindi ég frá stuttum kvikmyndabút, sem nýlega var dreginn fram í dagsljósið vegna rannsóknar á aðild danska SS-mannsins Søren Kams að morðum í Danmörku og brottflutningi handsamaðra gyðinga frá Danmörku í fangabúðirnar Theresienstadt árið 1943. Dómsmálaráðherrann, sem árið 2007 var Lene Espersen, lét rannsaka aðild Kams að aðförinni gegn gyðingum í Danmörku árið 1943. Þá var fyrrgreindur kvikmyndabútur, sem aldrei hafði áður verið birtur/sýndur í Danmörku, dreginn fram í dagsljósið á Borgarskjalasafninu í Kaupmannahöfn og afhentur lögreglunni í Kaupmannahöfn sem sá um rannsókn málsins í samvinnu við saksóknara Kaupmannahafnar.

Þar sem mér þótti opinber skýrsla um rannsóknina sem birt var í lok árs 2008 mjög lítilfjörleg, bað ég strax um að fá aðgang að öllum gögnum. Mér var ítrekað neitað um það. Nú hef ég eftir öðrum leiðum fengið að sjá skýrslu lögreglumannanna sem rannsökuðu málið. Einn þeirra sýndi mér hana sjálfur á eigin ábyrgð, þar sem honum er einnig annt um að allur sannleikurinn komi fram í máli Kams.

Rannsóknarlögreglan í Danmörku fékk upphaflega stafrænt afrit af kvikmyndabútnum, en notuðu það ekki til ályktunar við rannsókn sína, sem verður að teljast ófullnægjandi rannsóknarferli. Furðu sætir einnig að skýrsla þeirra var greinilega stytt verulega af saksóknaranum í Kaupmannahöfn eða réttara sagt mjög ósamvinnuþíðum aðstoðarmanni hans Bo Bjerregaard. Simon Wiesenthal Center i Jerúsalem, sem beðið hafði um rannsóknina ásamt gyðingasöfnuðinum í Kaupmannahöfn, fékk því mjög yfirborðskennda niðurstöðu, (sem send var ódagsett sem viðhengi við tölvubréf dags. 6.11.2008), þar sem því var slegið föstu, að ekki hefði fundist afgerandi tengsl á milli þess sem er vitað um gerðir Kams og aðfararinnar gegn gyðingum í Danmörku árið 1943. Kvikmyndin frá Horserød var hins vegar alls ekki nefnd í skýrslu danskra yfirvalda.

Þegar ég heyrði um kvikmyndabútinn af Ríkisskjalasafninu í Danmörku í fyrra fyrir hreina tilviljun, keypti ég myndina dýrum dómum til að birta myndir úr þessari áður óþekktu kvikmynd, sem danskur nasisti í þjónustu Þjóðverja, Poul Hennig, tók í október 1943. Poul Hennig hafði ásamt öðrum rænt lista yfir meðlimi gyðingasafnaðarins í Kaupmannahöfn í ágúst 1943. Þann lista notuðu Þjóðverjar til að smala saman þeim gyðingum sem ekki hafði tekist að flýja til Svíþjóðar. Hennig sagði við réttarhöld yfir honum eftir stríð, að Søren Kam hafi verið með honum við ránið á listanum á skrifstofu formanns gyðingasafnaðarins safnaðarins. Søren Kam, er enn á lífi í Þýskalandi, verndaður af ESB-ríkinu Þýskalandi.

Við vildum auðvitað birta þessa merkilegu, áður óþekktu heimild í Rambam. En það máttum við ekki gera á eðlilegan hátt, þ.e. velja ákveðin myndskeið og birta myndir af þeim eins og þau eru. Nei, ég varð samkvæmt fyrirmælum Ríkisskjalasafnsins í Kaupmannahöfn að hylja andlit gyðinganna sem sáust á kvikmyndinni á einn eða annan hátt.

Útkoman var eins og þið sjáið. Í riti um sögu danskra gyðinga, þar sem yfirvöld fyrirskipa að hylja þurfi andlit gyðinga, birtum við t.d. mynd af schechter (kosher)-slátrara í Kaupmannahöfn, þar sem hann var viðstaddur trúarathöfn, eftir að hann var kominn heim heilu og höldnu frá fangabúðunum í Theresienstadt. Ef við hefðum birt mynd af honum frá fangabúðunum í Horserød árið 1943, hefðum við þurft að fylgja reglum Ríkisskjalasafnsins og hylja andlit hans. Hann mátti ekki þekkjast.

Rabinowitch maskeret 2010
 

Rabinowitch slátrari ásamt konu sinni í Horserød 1943, eins og dönsk yfirvöld vilja að við sjáum þau árið 2011. Hér fyrir neðan er hann í samkunduhúsinu í Læderstræde í júni 1945, á mynd sem birtist í Rambam 2010.

Læderstræde

Þrátt fyrir þetta furðulega bann, tók ég mér það bessaleyfi að gleyma að hylja ásjónu SS-manns sem stendur í dyrum eins skálans í Horserød. Í skýrslu rannsóknarlögreglunnar í Kaupmannahöfn kemur ekkert fram sem bendir til þess að rannsakað hafi verið hvaða SS-maður stóð í dyragættinni í Horserød og vinkaði vingjarnlega til ljósmyndarans, Paul Hennig, sem rændi lista þeim sem gerði Þjóðverjum kleift að smala saman gyðingum. Sú spurning hefur vaknað, hvort það sé ef til vill Søren Kam sem sést á myndinni. En það rannsökuðu dönsku yfirvöld sem sagt ekki og Lene Espersen gaf þess vegna, án þess að vita það, ekki rétta mynd af því efni sem tengir mál Søren Kams við atburðarásina við aðförina að gyðingum árið 1943.

Þar sem Ríkisskjalasafnið fyrirskipaði að kvikmyndin sem ég keypti yrði að vera stafrænt afrit af öðru miklu betra afriti af myndinni sem gert var í Hollandi fyrir nokkrum árum, þá eru gæði myndarinnar mjög léleg. Rannsókn á frummyndinni gæti væntanlega leitt í ljós hvaða maður stendur og vinkar til Paul Hennigs. Farið verður fram á rannsókn kvikmyndarinnar með tilliti til þess.

Fleira merkilegt birtist í nýjum Rambam  Til dæmis birtum við í fyrsta sinn mynd af gyðingastjörnu (sjá ofar), sem danskir nasistar límdu á hús gyðinga í Kaupmannahöfn í byrjun árs 1942. Þetta er stjarna af nákvæmlega sömu gerð og sú stjarna sem Reinhard Heydrich leiddi í lög þ. 19.  september 1941, og sem var sett á föt gyðinga í Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu og Hollandi árið 1942. Stjörnurnar í Kaupmannahöfn voru úr pappír, en stjörnur sem saumaðar voru á föt voru eins og kunnugt er ekki leiddar í lög í Danmörku, líklega vegna þess að Danir voru svo samvinnuþýðir við hernámsliðið og útveguðu morðsveitum þeirra mat - og græddu meira segja á því margir hverjir. Það hafa menn í bakspeglinum kallað Samarbejdspolitik, en aðrir kalla þetta meira neikvæðu orði: kollaboration, sem er orð sem oftast er notað um samvinnu við óvininn og svik við þjóðina. Margir Danir telja sig þó ekki hafa svikið eitt eða neitt, og sjá ekki hvernig samstarf þeirra við þriðja ríkið efldi níðingsverk nasista annars staðar. Sama fólk telur oft því allt til foráttu að danskir hermenn starfi við friðargæslu í Afganistan og Írak og líkja því ósmekklega við hersetu nasista í Danmörku.

Í grein minni í Rambam 19/2010 (sem lesa má hér), segi ég frá því hvernig Kristján 10. og gyðingarnir í Danmörku voru misnotaðir í dönskum áróðri á stríðsárunum og síðar. Ég greini m.a. frá heimild, sem nýlega hefur birst í mikilli bók um Kristján 10. Þar kemur fram að að Kristján 10. á að hafa stungið upp á almennri notkun gyðingastjörnunnar í Danmörku ef Þjóðverjar færu fram á einhverjar atgerðir gegn gyðingum í landinu. Þetta á konungurinn að hafa skrifað 9 dögum áður en lög nasista um stjörnur á klæði gyðinga voru birtar í fyrsta sinn. Furðulegt, ef satt er, en enn furðulegra er, að Ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn vildi ekki veita tímaritinu Rambam fyrirgreiðslu við að birta ljósmynd af því sem konungurinn skrifaði. Skjalasafnið neitaði að senda umsókn tímarits um sögu gyðinga áfram til Kabinetssekretariatet, skrifstofu hennar hátignar Margrétar Þórhildar Danadrottningar. Fyrir hönd Danadrottningar bannar Ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn því gyðingum að sjá hve fallega afi Margrétar 2. skrifaði um gyðingana í dagbók sína árið 1941.

Svo notuð séu orð Williams Shakespears í Hamlet : Something is rotten in the state of Denmark. Danmörk er víst eina landið í heiminum, ef til vill fyrir utan Íran, þar sem ekki má birta myndir af gyðingum, þegar þeir voru niðurlægðir af nasistum.

Danish Masquerade
Hann er ekki gyðingur, sá sem hér heilsar á drottninguna í Danmörku, en best er samt að hylja hann og drottninguna líka, svo ekki sé farið á skjön við dönsk lög. Danir leyfa nú öfgahópnum Hizb-ut-Tahrir að halda stórsamkomu í Konunglega Bókasafninu í Kaupmannahöfn í Kaupmannahöfn. Bókasafnið er steinsnar frá Ríkisskjalasafninu. Hizb-ut-Tahrir, sem stefnir að heimsyfirráðum Íslams, lýsti því yfir fyrir nokkrum árum, að samtökin hefðu að stefnu að drepa alla gyðinga, hvar sem þeir fyrirfinnast. Kannski er komið í tísku í Danmörku að láta gyðinga hverfa? Spurning sem einnig vaknar er, hvort að Danir eigi erfitt með að heyra um og sjá ljóta hluti frá fortíð sinni?

Við grétum án tára

Auschwitz-Birkenau
 

Mig langar að mæla með bók, sem ég tel holla lesningu fyrir Íslendinga, sérstaklega þá sem hatast á einn eða annan hátt út í gyðinga. Það er dönsk útgáfa á bók ísraelska sagnfræðingsins Gideon Greifs. Titill bókarinnar er Vi græd uden tårer, og var bókin nýlega gefin út af litlu forlagi hér í Danmörku, INTROITEpublishers!, sem lagt hefur mikla vinnu í að koma út mikilvægri bók í mjög vönduðu formi.

Bókin, sem gefin hefur verið út á Þýsku árið 1995 (Wir weinten tränenlos) og á ensku (We Wept Without Tears) árið 2005, er gefin út á dönsku með myndum frá Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðunum, sem fyrri útgáfur höfðu ekki, og miklum viðbótum frá þýsku og ensku útgáfunni. Bókin er innábundin, mjög vönduð og heilar 494 blaðsíður.

Efni bókarinnar er sorglegasta lesning sem hugsast getur. Bókin er samtalsbók Gideon Greifs við meðlimi Sonderkommmandoen, sérsveita þeirra gyðinga sem skipað var að sjá um að hirða lík úr gasklefum, raka hár fanganna, og koma þeim í „sturturnar", og ganga frá veraldlegum eigum þeirra, taka úr þeim tennurnar, setja hár þeirra í poka, flokka farangur og eignir hinna myrtu og koma líkamlegum leifum þeirra fyrir kattarnef eftir að fólk hafði verið tekið af lífi í dauðaverksmiðjum Þjóðverja. 

Ímyndið ykkur, að draga ættingja ykkar út úr gasklefa og brenna þá í líkbrennsluofni. Það er ekki hægt að ímynda sér óhugnaðinn, en manneskjan er fær um illsku, sem engin orð fá lýst og fæstir geta gert sér í hugarlund. Hatur á einum útvöldum hópi virðist mannskepnunni tamt og imperíalistar, hvort sem það eru nasistar, kommúnistar eða íslamistar, eiga það sameiginlegt að kenna fámennum hópi eða einstökum þjóðum um allt sem miður fer og telja sig ekki komast nær útópíunni fyrr en þeim hópi hefur verið útrýmt. Öfund heitir þessi kennd og er systir haturs og eru það sjúklegar systur.

greifforsidestor

Flestir meðlima sérsveitanna voru myrtar af nasistum. Nú eru aðeins örfáir eftir á lífi, en Gideon Greif tókst að ræða við nokkurn fjölda þessa ólánsömu manna, sem settust flestir að í Ísrael eftir síðara stríð. Það er grimm og sorgleg lesning. Það tekur tíma að lesa þessa bók. Maður grætur.

Ég hef lesið bókina að mestu og ritdómur hefur birst um hana í tímaritinu RAMBAM 19/2010, sem ég ritstýri. Danskir fjölmiðlar gerðu bókinni einnig mjög góð skil. En bókin er líklega enginn metsölubók, frekar en aðrar bækur um fórnarlömb nasismans. Karlmenn, á ákveðnum aldri, með "sögulegan áhuga" hafa meiri áhuga á kvölurunum og bækur um nasistaböðla seljast óvenjuvel í Danaveldi. En dauða gyðinga vilja menn sem minnst heyra um.

Á Íslandi er kannski einhver útgefandi, sem vill taka það að sér að gefa bókina út á íslensku?

Greif

Gideon Greif

Höfundinn, Gideon Greif, hef ég hitt og hlustað á. Hann er mikið eðalmenni. Útgefandinn Hans Bandmann, sem ég hef nýlega kynnst, á mikinn heiður skilinn fyrir að gefa þessa einstæðu bók út, því hún er mikilvægur minnisvarði og heimild fyrir komandi tíma, til að læra af. Ef menn lesa hana, hætta þeir kannski ógeðslegum samlíkingum sínum á helför gyðinga við sirkus Hamas á Gaza, sem menn í ósmekklegheitum líkja oft saman, líklega vegna fávisku. En inn á milli leynist böðull.


Das Amt und die Vergangenheit

Das Amt

Í Þýskalandi er komin út bókin Das Amt und die Vergangenheit. Bók þessi er heilar 900 síður og er skrifuð fyrir tilstuðlan Joschka Fishers. En hann pantaði rannsókn á fortíð utanríkisráðuneytisins þýska, þegar hann var utanríkisráðherra Þýskalands.

Helsta niðurstaða fjögurra höfunda bókarinnar er að utanríkisráðuneytið í Þýskalandi, Auswärtiges Amt (das Amt), hafi verið miklu meira fléttað inn í atburðaráðs glæpa Þriðja Ríkisins og í helförina. Einn höfundanna segir að allir í ráðuneytinu hafi vitað um helförina þegar hún fór fram.

Ég vissi að bók þessi var í smíðum og niðurstöður hennar koma mér alls ekki á óvart. Það voru einnig góðar fréttir sem ég fékk í gær, að mikið væri fjallað um þýska diplómatann g nasistann Georg Ferdinand Duckwitz í bók þessari. Duckwitz mun eftir stríð hafa leikið ljótan leik í þýska utanríkisráðuneytinu.

Þetta taldi ég víst að mundi koma í ljós, er ég skrifaði úttekt mína á gerðum Duckwitz í Danmörku fyrir fjórum árum. Hún birtist í Tímaritinu Rambam 15:2006, sem ég ritstýri nú. Greinina hafa lesendur mínir hér á blogginu getað lesið í nokkur ár.

Eftir að ég hafði samband við prófessor Moshe Zimmermann, einn af höfundum bókarinnar í gær í Jerúsalem, er ljóst að grein mín um Duckwitz mun verða nefnd í annarri útgáfu bókarinnar, því mínar niðurstöður um Duckwitz koma heim og saman við niðurstöður fjórmenninganna sem skrifuðu Das Amt und die Vergangenheit. Duckwitz var refur í sauðagæru og hjálpaði víst fleiri nasistum eftir stríð, en hann nokkru sinni hjálpaði gyðingum í Danmörku.

Mér var hins vegar hugsuð þegjandi þörfin af ýmsum þegar ég gaf út grein mína í lok árs 2006, og enn situr gamall, fúll sagnfræðingur í Danmörku og þykist vera að skrifa bók um hinn fráæra mann Duckwitz, launaður af utanríkisráðuneyti Þýskalands. Hann getur víst lagt þau skrif á hilluna nú.

Ég hef áður skrifað um Duckwitz hér á blogginu: http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1039997/

Sjá einnig: http://postdoc.blog.is/users/3d/postdoc/files/Ducky/ich_weiss_2244.pdf

Brown Dukwitz
Svona leit Duckwitz út þegar hann gekk í nasistaflokkinn
Einn líkur Duckwitz
Svona gæti kappinn hafa litið út ef óhæfuverk hans hefðu verið grafin fram fyrr.

Auschwitz-fangi á Íslandi

74521a
 

Það er virðingarvert þegar fórnarlömb helfararinnar geta sagt frá hörmungum sínum á gamals aldri. Það þarf oft mikið til og oftast talar fólk ekki um þessi erfiðustu ár ævi sinnar.

Hér í Danmörku hef ég þekkt og talað við nokkra pólska gyðinga sem lifðu af vistina í Auschwitz. Einn góður vinur minn var í fjórum fangabúðum í stríðinu. Ég er að skrifa grein um hann. Ég hef skrifað bók um þá gyðinga sem Danir sendur í dauðann. Nokkrir þeirrar voru myrtir í Auschwitz. Á Íslandi hefur reyndar meira borið á mönnum sem stunduðu gyðingamorð en á gyðingum, sem flestir hafa gengið með veggjum.  Einn böðlanna kom frá Eistlandi og annar maður frá Lettlandi, sem lengi bjó á Íslandi, hafði verið vörður í fanga- og útrýmingarbúðum í síðara heimsstríði.

George Berman, fæddur 1923 í Póllandi, komst lífs af í Auschwitz. Hann á son, Robert, og afkomendur á Íslandi og var í heimsókn á Íslandi á dögunum. Hann hélt um daginn fyrirlestur í HÍ um reynslu sína sem gyðingur í síðari heimsstyrjöld, og hefur RÚV gert þessu erindi hans skil (hlustið hér) og einnig Vísir.is. /Stöð2 og þetta blogg. Hlustið á Georg Berman á Stöð2 og RÚV

Það er ekki á hverjum degi að Íslendingar geta hlustað á vitni segja frá atburði, sem æ fleiri afneita eða misnota á ógeðfelldan hátt í stuðningi sínum við hryðjuverkastarfsemi gagnvart frjálsum heimi.

Myndin efst er tekin af Þjóðverja í Lodz gettóinu. Þar voru seldar bækur, en ekki vopn eins og í dag á þeim svæðum heimsins sem bandamenn hryðjuverka kalla gettó. Myndin hér fyrir neðan er af George Berman.

george_berman
09172
Drengur í Lodz gettóinu

Haturslistamaður Íslands 2010 fundinn

 

Hér var í gær mynd eftir Inga Jensson, sem

umsjónamaður Morgunblaðsbloggsins

 bað mig um að fjarlæga kl. 01.16, þann 16.6.

2010. Ingi Jensson var fyrst beðinn um að

 fjarlægja  listaverkið sitt á blogginu hjá sér.

 Ég geri ráð fyrir því að  umsjónamaður

bloggsins hafi beðið um að myndin hafi verið

fjarlægð, eftir að hafa lesið athugasemdir

mínar hér fyrir neðan. Við erum því miður

eftir að sjá birtingu fjöldans alls af teikningum

 eins og þeirri sem Ingi skóp, því margir

 listamenn

nota list

 sína til

 að sýna

hatur

sitt í stað

 þess að

 gefa pólitíska skoðun sína í ljós.

Hatrið er stundum skiljan legt í stjórnmálum, en þegar

hatrið bitnar á trú manna og uppruna, þá er það lögbrot.

שָׁלוֹם

 

Ingi Jensson heitir snjall skrípóteiknari, sem meira að segja hefur moggablogg og mörg önnur blogg til að koma sér og verkum sínum á framfæri, jafnt á Íslandi sem erlendis. En eins og við vitum gerast skrípóteiknarar oft sniðugari en þörf er, líkt og standpínutrúðar verða leiðinlegir, þegar þeir fara í pólitík. Skrípóteikningar geta haft geigvænleg áhrif. Þetta sáum við með teikningarnar af Múhameð. Það lá við heimsstyrjöld. Allir vissu að Múslímar yrðu fokillir, þegar einhver færi að teikna Múhameð, því hann var svo mikilvæg persóna, en reyndar líka fjöldamorðingi.

Ég birti ekki myndir af Múhameð spámanni nema til neyddur með sverðið yfir höfðinu. Mér finnst hann ekki það áhugaverður að það taki því að ímynda sér hvernig hann leit út. Ég lítilsvirði heldur ekki trú annarra, ef ég get komist hjá því.

Það gildir ekki um Inga Jensson, sem teiknaði myndina hér fyrir ofan og birti nýlega undir titlinum Shalom, mate! með þessum ummælum:  Ein gömul sem hægt er að endurnýta og endurnýta og endu... (teikning).

Þetta er vissulega ekki spámaður, sem Ingi hefur teiknað, heldur sjöarma ljósastika, Menorah, sem hann hefur einnig merkt með svo kallaðri Davíðsstjörnu. Þetta er óvirðing við fornt trúarlegt tákn, og það varðar við hegningarlög að óvirða trú annarra. Ætli Ingi Jensson viti það? Ætli þeir, sem ráða hann á Englandi og í Hollandi til að teikna fyrir sig, viti það? Hvernig væri nú ég gengi úr skugga um það?

Það vekur athygli mína, að Ingi skrípó er með þessa mynd af blóðugu trúartákni á íslensku bloggi sínu, en ekki á erlendum og alþjóðlegum heimasíðum sínum. Hann veit kannski að svona ósómi gengur víst bara á Íslandi? Eða er hann bara einfaldur, sköllóttur trúður eins og hann teiknar sjálfan sig. Haturslistamannalaunin fara í ár til Inga Jenssonar.

Ingi Jensson

Kæri Ilves forseti

Uffe Ellemann Jensen in Estonia

Kallis President Ilves 

Kui eemaldate mälestised Eestis, mis mälestuseks Waffen SS, et ma külastan oma riigi Islandi külalisena.Kui te süüdistuse Eesti natsi sõjakurjategijad, ma hea meelega saada oma sõbra ka.

On onu
Ellemann-Jensen Taanist, kes näitab meile SS-mälestusmärgid Eestis.

Handa ykkur, sem ekki skiljið Google-eistnesku, mæli ég með þessari grein: http://www.holocaustinthebaltics.com/AntonWeissWendt2008.pdf um vanda Eista, sem ég vona að þeir leysi fyrir 20 ára afmælið á næsta ári

estonia-monument
Sinimae_Statua_pro_nazi

 

Furðulegar, en ófalsaðar myndir frá Eistlandi.

Shut up, go back to Auschwitz

Ekki eru þetta mín orð heldur ykkar, sem fóruð í andanum og taumlausum öfgum ykkar á skipum "friðar" til Gaza. Þetta var þá allur friðarviljinn.

Til hamingju með friðarbaráttuna!  Þið eruð eftir að fara með hana alla leið til Auschwitz. Þið ætlið að halda helförinni áfram. Þið eigið bágt og hér er svo nýjasta myndbandið um ykkur


Ísland er nýjasta öfgaríkið

 

Barefli og teygjubyssur og söngur um að drepa gyðinga eins og Múhammeð gerði það er nóg til þess að hefja þjóðarmorð. Íslenskur maður var í gær dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að slá mann í höfuðið með skiptilykli. Það voru aðeins stærri bareflin sem friðarsinnarnir á ferjunni Mavi Marmara létu dynja á hermönnum Ísraels í gær, áður en þeir vörðu sig.  Er í lagi að fólk sem er tengt hryðjuverkasamtökunum IHH, Múslímska Bræðralaginu og Hamas og sem fer til Gaza til að verða píslarvættir (að eigin sögn), berji menn til óbóta? Á að láta slíkt fólk valsa laust? Mega Ísraelsmenn ekki sitja fólk sem ber með járnstöngum þrjú ár bak við lás og slá, líkt og gert er við árásarmenn á Íslandi?

RÚV kallaði vopn árásamannanna PRIK í fréttum í gær. Ef einhverjir eru PRIK þá eru það fréttamenn RÚV. Nú er komið í ljós að skipverjar á Mavi Marmaris voru, fyrir utan "prik", með skotvopn:

Hættulegustu vopnin um borð á Mavi Marmara voru þó söngvarnir um að útrýma gyðingum að hætti spámannsins og útlenskir einfeldningar og æsingafólk og aðrar tikkandi bombur.

Íslenskir stjórnmálamenn ganga miklu lengra en kollegar þeirra í nágrannaríkjunum. Einn dýpsti haturstónninn kemur t.d. úr Bolungarvíkurbassanum Einari K. Guðfinnssyni. Líklega er þetta vegna þess að sumir íslenskir stjórnmálamenn er enn í sjokki út af þeirri kreppu sem þeir áttu beint eða óbeint þátt í. Þeir þurfa að dreifa athyglinni. Meira segja Össur utanríkisráðherra dregur í land og segir Einar K. ganga of langt í yfirlýsingum sínum.

Össur vill ekki taka neina áhættu, enda á leiðinni inn í ESB, þar sem fíflalæti eins og tíðkast í íslenskri pólitík eru fátíð. Hann var líka búinn að heyra um að á friðarskipinu Mavi Marmara hefði verið mikið af vopnum, af þeirri tegund sem hægt er að senda menn í þriggja ára fangelsi fyrir að nota á Íslandi.

Flestir íslenskra þingmanna vilja greinilega útiloka eina lýðræðisríkið í Miðausturlöndum frá samskiptum við Ísland. Það segir mér eitt og annað. Ef það gerist, getur Ísrael líklegast lifað það af eins og svo marga aðrar árásir og mótbáru. "Einlægan stuðning" Einars K. við Ísraelríki er víst hægt að vera án. Íslendingar geta sent Hamas fleiri prik.

Yfirvöld í Ísrael, sem bera mikla virðingu fyrir Íslandi og muna þann tíma er Ísland varði stofnun Ísraelsríkis, vita hins vega vel að á Íslandi er gömul hefð fyrir gyðingahatri  jafnvel þótt gyðingar hafi ekki verið til staðar eða hafi verið mjög fáir einstaklingar sem földu uppruna sinn.

En það er vissulega merkilegt, að litla gjaldþrota ríkið á hjara veraldar með fallegustu konurnar, sterkustu mennina og hreinasta málið verði kannski eina landið í Evrópu sem slítur stjórnmálasambandi við Ísraelsríki, vegna þess að Ísraelsmönnum mistókst að koma í veg fyrir að hryðjuverkafriðarsinnar tækist ætlunarverk sitt sem var Jihaad-sjálfsmorðsferð til Gaza, með útlendinga sem gísla.

Ég endursýni þetta myndband ef einhver vill enn syngja með á viðlaginu við gamalt morðljóð múslíma fyrir gyðingadráp: Khaibar, khaibar..... Þið getið slegið prikum ykkar í takt:


Hriplekur friðarfloti

Öfgamenn á friðarflotanum sem stöðvaður var í gær, sungu um óskir sínar að kála gyðingum eins og þeir gerðu á tímum Múhameðs spámanns. Sjá:  http://palwatch.org/main.aspx?fi=157&doc_id=2323 

Þó svo að krimmahöfundurinn Henning Mankell tæki sjálfan Wallander með sér á hriplekan dall frá Tyrklandi og sigldi ólöglega inn í lögsögu Ísraelsríkis, myndi það ekki skapa frið. Meðan Mankell og aðrir velmeinandi gíslar öfgaíslams deila káhettu með öfgamönnum, þá er enginn friður á ferð. Meðan Ulf Carmesund frá Bræðralagi (Broderskapsrörelsen) Krata í Svíþjóð, sem eru samtök kristinna krata (já Amen!), ákveður að sigla til að bjarga Gaza, er kannski áhugavert að vita, að Bræðralagið í Svíþjóð hefur samvinnu við Bræðralag múslíma, Al-Ikhwān al-Muslimūn, sem styður hryðjuverk og hvetur til sjálfsmorðsaðgerða í Ísrael.

Þó svo að allir nóbelsverðlaunahafar heimsins flytu á fleka visku sinnar að ströndum Gaza, yrði þeim einskis ágengt, meðan að nýju "hipparnir" um borð bera vopn. Friðarboðberar gera ekki öfga-múlla, sem boðar Jiihad gegn Ísrael og afneitar því að Ísraelsríki sé til, að stýrimanni sínum. Ef hásetarnir hafa tengsl við hryðjuverkasamtök, er fullljóst að friðurinn er ekki í höfn.  Friðarboðberar sem styðja stjórnvöld á Gaza, hljóta að hafa mjög afbrigðilega skoðun á friði. Friður sá sem boðaður er á Gaza, er útrýming Ísraelsríkis.  Þann boðskap fá börn á Gaza í vöggugjöf.

Imperíalismi núverandi stjórnvalda í Tyrklandi er óþolandi. Ef Tyrkland telur það eðlilegt að tyrknesk skip brjóti hafréttarreglur og sigli í ísraelskri lögsögu, er það besta sem Ísrael getur gert að slíta stjórnmálasambandi við Tyrki. 10% Tyrkja telja að Tyrkland eigi að stækka og að núverandi stærð landsins beri vott um veikleika. Hvað gengur Tyrkjum til með því að senda "friðarflota" inn í lögsögu Ísraels?  Tyrkland þarf á stuðningsmönnum að halda við áform sín. Þess vegna þegja þeir yfir kjarnorkuríkinu Íran og segja ekkert við Sýrlendinga, sem geyma vopn Saddams. Samviska tyrkneskra stjórnvalda er svört.

"Friðarsinnunum" á tyrknesku skipunum var boðið að sigla til Haifa og Ashod og afhenda varning sinn til Gaza þar. Ísrael bauðst til að afhenda hann á Gaza. Reynslunni ríkari verða Ísraelsmenn náttúrulega að hafa eftirlit með því sem sent er til Gaza. Yfirvöldum þar er nefnilega meira annt um að fá vopn en mat handa börnum sínum. Margsinnis hafa Ísraelsmenn og Egyptar stöðvað vopnasendingar til Gaza. Yfirvöld á Gaza, hryðjuverkasamtökin Hamas, eru þau yfirvöld sem eyðilögðu öll gróðurhús Ísraela á Gaza. Gróðurhús, þar sem hægt hefði verið að rækta mat.

En lygaherferð hinna fljótandi friðarsinna er yfirgengileg. Heimurinn vill helst heyra um hamfarir á Gaza, þótt þar líði enginn skort. RÚV, með skrímslafræðinginn Þorvald Friðriksson í broddi fylkingar, miðlar afar takmörkuðum og vægast sagt undarlegum fréttaflutningi af því sem gerðist. Ísrael er versta skrímslið sem Þorvaldur þekkir. Þorvaldur hefur enn ekki sagt okkur frá því hvaða boðskapur var hafður í frammi um borð á tyrknesku skektunum.

Utanríkisráðherra Íslands, sem virðir þjóð sína að vettugi og hendir 7 milljörðum í ESB-ævintýri sitt, hrópar svo á torgum um ástandið á Gaza án þess að vita, eða vilja vita, hvað gerðist. Hann segir hins vegar mest lítið um um ástand sinnar eigin þjóðar, sem hefði getað notað þær 7 milljarða króna sem hann kastar á fórnareldinn. 7 milljarðar sem gætu farið til heilbrigðis-, skóla- og atvinnumála á Íslandi.

Hryðjuverkamenn finnast víða og Bræðralag Krata er og verður dýrt. Össur Skarphéðinsson er samhryðjuverkamaður þeirra "friðarsinna" á tyrknesku skipunum sem sungu um óskir sínar um að útrýma gyðingum. Össur hefur brotið hegningarlög svo um munar.  Ég sé ekki betur en að íslenska ríkisstjórnin hvetji til gyðingamorða í anda Múhameðs.

Farið í friði.

Það er munur að aðferðum "friðarsinna" og flota Ísraelsríkis.


Minnisvarði um Helförina eða stöplarit yfir viðskipti Þjóðverja við Íran?

1221pod08
 

Hjá Þjóðverjum,  Frökkum  og Dönum er business as usual. Þessi ríki hafa allra ríkja Evrópu mest viðskipti við Íran. Þjóðverjar stunda viðskipti upp á 4 milljarða evra við Íran og má nefna stór fyrirtæki eins og Linde group, sem fara fremstir í Íran, þar sem fólk er hengt í byggingarkrönum og konur eru grýttar fyrir það sem íslenskum konum þykir sjálfsögð kvenréttindi. Frakkar stunda enn útflutning á tæknibúnaði til Íran og olíufélagið Total er alltaf í jafngóðum viðskiptum við Íran. Danskir verktakar eru sem fyrr mikilvægari fyrir Danmörku en góð samviska og mannréttindi. Síðasti danski sendiherrann á Íslandi, sem laug að Politiken um atburði í kreppufárinu á Íslandi, var ekki fyrr kominn frá Íslandi, að hann var sendur út á Kastrupflugvöll til að kyssa Amadinejad á höndina, þegar litli skíthællinn kom og prumpaði á loftlagsráðstefnunni á síðasta ári.

Nú þegar drottnunareðli Þjóðverja hefur sýnt ógeðslegt háttalaga gegn Grikkjum undir sakleysislegri ásjónu Angelu Merkel með stóru hundsaugun, leyfir maður sér að spyrja hvernig það fer saman, að Þjóðverjar minnast Helfararinnar á gyðingum um leið og þeir stundi þjóða mest viðskipti við Íran, þar sem stjórnin segir opinberlega að Helförin hafi ekki átt sér stað.

Hvernig má það vera að Þjóðverjar, sem leggja svo mikla áherslu á að minnast Helfararinnar, séu í viðskiptum við hryðjuverkastjórnina í Teheran, sem telur Helförina vera lygi og vill útrýma ríki Gyðinga, Ísrael?

Græðgi og yfirgangur hefur aldrei horfið í Þýskalandi og það hvarflar að manni, að sumir Þjóðverjar noti sér "minninguna um Helförina" til að fá goodwill. Menn muna enn eftir 2. Heimsstyrjöld, og öll iðrun frá Þjóðverjum leggst vel í aðrar þjóðir. En er hægt að eiga viðskipti við stjórn hryðjuverkaríkis sem afneitar helför þeirri sem Þjóðverjar ollu með hatri sínu og græðgi?

Þjóðverjar keyptu sér áður fyrr goodwill. Þeir hafa örugglega borgað vel fyrir að gera nasista að dýrðlingi, þegar Georg Ferdinand Duckwitz var tekinn í dýrlinga tölu, þó svo að engar heimildir væru til stuðnings góðverkum þessa eina þýska diplómatans sem á að hafa verið góður á stríðsárunum (sjá hér).

Æ fleiri eru byrjaðir að draga góðan vilja Þjóðverja í efa og telja að hinn mikli áhugi þeirra á að efla minningu á Helförinni sé ekki einlægur. Minnismerkið um Helförina við Adlon hótelið í Berlín var líklegast fyrst og fremst hugsað sem friðþæging fyrir Þjóðverja sjálfa, meira en minnismerki um fórnarlömbin. Það sést vel á yfirlýsingum frá þýskum stjórnmálamönnum í aðdragandanum að gerð minnismerkisins. Í þeirri umræðu sem varð um stóra stöplaminnismerkið um Helförina, sagði þýskur diplómati við Der Spiegel: "Við þörfnumst þessa minnisvarða til að koma okkur á framfæri við heiminn, og sér í lagi við BNA".

Nú eru leiðtogar Gyðinga í Evrópu farnir að boða fjarveru sína, þegar á að halda upp á 10 ára afmæli þessa mikla minnisvarða í Berlín. Þeir benda á að það geti ekki farið saman minning fórnarlamba Helfararinnar og stórfelld viðskipti við hryðjuverkaríki, sem afneitar að þessi helför hafi átt sé stað.

Ef Þjóðverjar vilja minnast fórnarlamba forfeðra sinna, ættu þeir að einangra Íran á alþjóðavettvangi. Annað er og verður tvískinnungsháttur. 6 milljónir gyðinga hvíla þungt á samvisku Þýskalands meðan landið á í viðskiptum við öfgastjórnina í Íran upp 4 milljarða Evra.

hangingPA_228x350

Ein Teil der Deutchen Wirtschaft?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband