Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Stuðningshópur Jinky Ong Fischers

 
justitia

 

Síðustu daga hefur verið rætt opinberlaga um arfinn eftir Róbert J. Fischer. Í umfjöllun fjölmiðla virðist sem Jinky Ong Fischer, meint dóttir Fischers á Filippseyjum, hafi þegar verið útilokuð frá því að erfa eitt eða neitt eftir föður sinn.

Miðað við aðrar upplýsingar um Jinky Ong, verður þó að gera ráð fyrir því að hún geti verið dóttir hans. Það verður auðvitað að sanna, líkt og Watai, meint eiginkona Fischers, þarf að sanna að hún hafi gifst Fischer.

Greta Björg Úlfsdóttir kom með mjög áhugaverða punkta á bloggi sínu í gær, og á síðustu færslu mína um dóttur Fischers. Hún stakk upp á stuðningshópi fyrir Jinky Ong Fischer.

Ég leyfi að taka undir þá tillögu og legg til að fólk skrifi hér í athugasemdir eða á bloggsíðu Gretu, að það vilji styðja slíkan hóp. Í framhaldi af því yrði hægt að stofna stuðningshópinn formlega og finna lögfræðing sem gæti varið rétt Jinky Ong.

Markmið hópsins myndi vera:

  1. Að komast úr skugga um hvort Jinky Ong er dóttir Fischers.
  2. Að stuðla að því að haft verði upp á henni hið fyrsta.
  3. Að stuðla að því að hún komist til Íslands.
  4. Að stuðla að því að hún erfi föður sinn (reynist meint faðernið rétt), samkvæmt íslenskum lögum.

Ef slíkur hópur er þegar til, ber að fagna því og myndu þeir sem styðja slíkt átak hér væntanlega ganga í og styðja þann hóp.


Dóttir Fischers

 Baby Fischer

 

Hvað erfir dóttir Róberts Fischers?

Nú þegar menn virðast farnir að rífast um hvar eigi að jarðsetja Bobby Fischer, er kannski best að spyrja hver á að sjá um dóttur hans á Filippseyjum? Hún er dóttir Íslendings og ætti að geta sest að á Íslandi, sérstaklega ef eitthvað er eftir af búi Bobba.

Sýnum nú stórhug og bjóðum þessum nánasta ættingja hans og barnsmóður hennar til Íslands!

 

baby_chess

 


Góður vinur kvaddur

Paul Sandfort 

Ég fylgdi góðum vini til grafar á miðvikudaginn var. Paul Aron Sandfort yfirgaf þennan heim þann 29. desember síðastliðinn. Ég kynntist Paul fyrir allmörgum árum í tengslum við rannsóknir mínum á sögu gyðinga í Danmörku. Upp úr því tókst vinskapur og hann hringdi reglulega í mig síðustu árin til að tala um daginn og veginn. Eitt sinn við slíkt karlaslúður, sem gat tekið drykklanga stund, kom einnig í ljós að tengdasonur hans (nú fyrrverandi) var góðvinur minn á námsárunum í Árósum. Fyrir liðlega 10 árum, þegar Paul bjó í Róm, hittumst við tvisvar fyrir hreina tilviljun á Kastrup flugvelli þar sem ég hjálpaði honum með farangurinn, því Paul var illa haldinn af liðgigt. Paul var mjög forvitinn um Ísland, þótt hann hefði aldrei til Íslands komið, en hann var þó einn af fáum Dönum sem gátu borið nafnið mitt rétt fram.

Danskir gyðingar, sem ekki tókst að flýja til Svíþjóðar voru teknir af nasistum og aðstoðarmönnum þeirra og sendir til fangabúðanna í Theresienstadt. Paul var 13 ára þegar hann var tekinn, þar sem hann faldi sig á kirkjulofti í Gilleleje á Norðursjálandi. Theresienstadt í Tékkóslóvakíu voru "fyrirmyndarfangabúðir" nasista. Þar reistu þjóðverjar leiktjöld árið 1944 þegar yfirmönnum Rauða Krossins og dönskum embættismönnum voru sýndar búðirnar. Þeir létu blekkjast og óskuðu ekki, og kröfðust ekki, að skoða aðrar búðir.

Paul og danskir gyðingar voru í hópi þeirra heppnu i Theresienstadt, sem ekki voru sendir til útrýmingarbúðanna eftir leiksýningu nasista, sem einnig var fest á filmu

Paul komst vegna hljómlistahæfileika sinna í barnahljómsveit búðanna sem trompetleikari og var með í barnaóperunni Brundibar, eftir Hans Krása, sem sett var á svið í búðunum. 60 árum eftir stríðlok var óperan endurflutt í búðunum með inngangskafla eftir Paul Sandfort.

Faðir Pauls var rússneskur gyðingur, Aron Rabinowitch að nafni. Paul hitti aldrei föður sinn, sem bjó lengst af í Frakklandi. Hann var myrtur í Auschwitz árið 1943.

Paul Sandfort starfaði sem menntaskólakennari og var einnig tónskáld. Hann var sannkallaður fjöllistamaður, en síðustu árin helgaði hann sig einnig skriftum lesendabréfa í dönsk dagblöð, þar sem hann skar ekki utan af skoðunum sínum. Heilagir húmanistar myndu væntanlega ekki hafa veigrað sér við að kalla skoðanir hans öllum illum nöfnum. Hann gaf út minningar sínar frá Theresienstadt í skáldsögunni Ben, sem hefur verið gefin út á ýmsum tungumálum og tók þátt í útgáfu á ýmsum ritum. Fyrir mánuði síðan kom út síðasta grein eftir Paul í tímaritinu Rambam sem ég sit í ritstjórn fyrir ásamt öðrum. Hún fjallaði einnig um þau tvö ár í prísund sem áttu eftir að verða ör á lífi allra sem komust þaðan lifandi.

Svarthvíta myndin hér að ofan var tekin í Theresienstadt árið 1944 og sést Paul Sandfort, lítill að vexti, í dökku prjónavesti. Nýlega greindi hann frá dvöl sinni í fangabúðunum í sjónvarpsþáttinum 60 Minutes.

Paul trúði ekki lengur á Guð eftir dvöl sína í Theresienstadt og skilgreindi sjálfan sig sem ótrúaðan gyðing. Það var þó ekki nein mótsögn í því að fylgja honum til grafar að hætti gyðinga. Annað kom ekki til greina eftir það sem hann hafði þurft að þola sem gyðingur. Örlög sín flýja menn ekki.


Indónesía, fjölmennasta ríki múslima

Surabæa2
 

Frændi minn (til vinstri) á Súrabaju ca 1935. Hjónin með börnin lentu í fangabúðum Japana.

Nýlega var haldin ráðstefna á eyjunni Bali í Indónesíu. Ráðstefnan var eins konar mótmælaráðstefna við ráðstefnur og sýningar þær sem haldnar hafa verið í Íran til að afneita helför gyðinga (Holocaust) í Annarri Heimsstyrjöld.

Samkvæmt tímaritinu The Jerusalem Report (9. júlí 2007, bls. 44) var fyrrverandi forseti fjölmennasta ríki múslima, Abdurrahman Wahid viðstaddur ráðstefnuna og hann viðurkenni alfarið að helförin hafi átt sér stað. Hann sagði við blaðamenn: "Þótt ég sé góður vinu Ahmedinejad, verð ég að segja að hann hefur rangt fyrir sér. Ég heimsótti safnið í Auschwitz og sá marga skó sem tilheyrt hafa fólki sem er dáið. Þess vegna, trúi ég því að Holocaust hafi átt sér stað."

Góð byrjun, og við getum vonað að fleiri í heimi múslima hætti að bendla gyðinga við helvíti og skilji einstaka vinstri menn á Íslandi eina á eftir með þær sjúku kenndir.

Ráðstefnan á Bali var haldin með þátttöku hindúa, búddista, kristinna, múslima og meira að segja rabbína. Gyðingdómur er ekki lengur viðurkennd trúarbrögð í Indónesíu og landið viðurkennir ekki tilvist Ísraelsríkis. Betur má ef duga skal!

Gyðingar voru þegar komnir til Indónesíu á 7. öld e. Kr., þ.e.a.s. 400 árum áður en Íslam hóf innreið sína á eyjurnar.

 


Azzah

Gaza 1857 

Azzah árið 1857

Azzah, eða Gazaborg eins og hún heitir á arabísku, er ævagömul borg. Borgin var að öllum líkindum stofnuð af Egyptum, en var síðar undir yfirráðum Filistea, sem sumir rugla vísvitandi við hinn mög svo blandaða hóp Palestínumanna nútímans. Borgin lá í alfaraleið milli Egyptalands og Asíu og var því mikilvæg fyrir verslun og íbúarnir voru fyrr á tímum velstæðir mjög. Um 150 f. Kr. réðu Gyðingar það ríkjum en var bolað burt af Rómverjum. Síðar var borgin byggð kristnu fólki. Alla tíð bjuggu þó Gyðingar í borginni og mikils metnir rabbínar og lærifeður störfuðu þar. Margoft var reynt að koma gyðingunum í burtu og voru þar að verki alls kyns "illmenni" og "ruddar": Persar, krossfarar, múslimir, Tyrkir og Bretar.

Eitt stærsta samkunduhús gyðinga til forna var í Azzah. Egypskir fornleifafræðingar fundu rústir samkunduhússins árið 1966. Þegar þeir birtu niðurstöður sínar, héldu þeir því fram að þetta væru rústir kirkju. Ári síðar, rétt áður en Ísraelsmenn hertóku svæðið,  fundust leifar mósaíkmyndar af Davíð konungi, syni Jesse. Egypsku fornleifafræðingarnir birtu grein um fund sinn og héldu því fram að mósaíkmyndin sýndi Orfeus, þó svo að yfir myndinni stæði "Davíð" á hebresku. Skrítið hvernig men geta tapað allri glóru vegna haturs.

David in Gaza

Hann Allan Johnston, sem nú er í Gaza í boði "vina" sinna, skrifaði árið 2004 um fornleifarannsóknir og fornleifar á Gazaströndinni. Honum tókst að greina frá sögu svæðisins án þess að nefna Gyðinga. Nú sýpur hann seyðið af vinsemd sinni við vitleysingana, sem eru að eyðileggja svæðið.

Alvarlegra er, að margar fornminjar sem til vitnis eru um veru gyðinga á þessu svæði, hafa verið eyðilagðar af Palestínumönnum í viðleitni þeirra að sýna hinum auðtrúa umheimi, að þeir hafi búið frá örófi alda á svæðinu. Tengdafaðir forseta íslenska lýðveldisins á reyndar ýmsar merkar fornminjar sem sýna tilvist  gyðinga í Gaza fyrr á öldum, áður en Palestínumenn "urðu til".

Til þess að gera langs sögu stutta: Árið 1929 voru gyðingar sem búsettir voru í Gaza þvingaðir í burtu af Bretum eftir að arabar höfðu myrt 150 Gyðinga í borginni

GAZA

Og ef dæma má út frá þessu frímerki, höfðu Egyptar ákveðnar skoðanir á yfirráðum sínum yfir Gaza árið 1948. Hugsið ykkur hvernig ástandið í Gaza hefði verið ef Egyptar hefðu þar enn yfirráð.

Ísraelar ("búsetar") yfirgáfu Gazaströnd árið 2006. Enn er þeim þó kennt um skálmöldina þar og blaðamenn tala enn um hersetu Ísraels. Ef það hefur farið fram hjá löndum mínum, þá stjórna hryðjuverkasamtökin Hamas Gaza í dag þessum landskika í raun. Þau eru studd af einfeldningum á vesturlöndum, sem vantar einhvern að hatast út í til að upphefja sjálfa sig.

Fyrir skömmu ætlaði utanríkisráðherrann okkar, hún Ingibjörg Sólrún, að heimsækja þetta litla strandríki til að eiga samleið með Norðmönnum í stuðningi þeirra við Palestínumenn. Ég minni menn gjarna á að Norðmenn eru þjóðin sem ekkert sagði þegar gyðingum Noregs var smalað í skip til Þýskalands áleiðis til Auschwitz, en þeir halda ekki vatni né sönsum ef soðinn er krabbi í beinni útsendingu í norska sjónvarpinu. Ingibjörg Sólrún á samleið með þjóð sem reyndi að setja peninga myrtra norskra gyðinga í eigin vasa og sem nú sendir sekkjafylli, nei gáma af peningum til Hamas. Ingibjörg vill eiga samleið með Norðmönnum sem styrkja áframhaldandi morðöldu meðal Palestínumanna. Á fé Íslendinga að fara í sömu vitleysuna?

Mér var hugsað til eins atriðis varðandi Gaza. Þegar Ísraelsmenn gjalda í sömu mynt fyrir eldflaugaárásir Hamas á saklaust fólk í Ísrael, segja fréttastofur einatt frá því hve margir óbreyttir borgarar hafi fallið í Gaza. Þegar Hamas og Fatah berast á banaspjót eru oftast aðeins upplýsingar um tölu fallinna og særðra, en ekkert um fjölda fallinna óbreyttra borgara. Er þetta ekki dálítið skrítið? Ef til vill fær Ingibjörg Sólrún skýringu á þessu í ferð sinni til Gaza. Gazalega verður gaman þá.

Ítarefni um sögu gyðinga á Gaza.


Siðferðisleg skylda Íslendinga?

Siðferðileg skylda Íslendinga

Á miðöldum töldu menn það líka siðferðislega skyldu sína að tuska gyðinga til og einangra þá. Nú ætlar Ingibjörg Sólrún að fara að leika þann ljóta leik.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vart búin að verma stól utanríkisráðherra meira en nokkra daga, þegar hún var farin að vasast í mikilvægasta málinu í utanríkisstefnu flokks sín. Hana langar, eins og forveranum, Valgerði Sverrisdóttur, að komast í fast samband við Hamas í Palestínu. Blessaðar konurnar vilja fylgja fordæmi Norðmanna, sem reyndar hafa ekkert gert fyrir Palestínumenn síðan þeir viðurkenndu Hamas annað en að senda peninga, sem notaðir eru til vopnaskaks og innbyrðis óaldar meðal Palestínumanna.

Oft les maður um skrítnar konur um allan heim, sem vilja giftast föngum á dauðaganginum, Death Row í BNA. Hvernig skilgreinir maður þá ráðherra sem vilja í samband við heilu hryðjuverkasamtökin? Ég er ekki sálfræðingur og ég hef því ekki klíníska skýringu á þessari áráttu kvenna taka málstað morðingja og það gjarnan fjöldamorðingja. Kannski er þetta "frumstætt" móðureðli. En ég hallast frekar að því að þetta sé stórfellt dómgreindarleysi.

Ég get ég sagt að ég hafi haft mikinn áhuga á, eða kunni góð deili á stjórnmálaferli Ingibjargar Sólrúnar, en ég tók eftir einu fyrir tæpum 15 árum síðan, sem sýndi mér, að Ingibjörg Sólrún hefur merkilega röksemdatækni og skoðanir á sögu Miðausturlanda.

Þá var hún þingmaður Kvennalistans sálugu. Hún ásakaði Ísraelsríki og stofnun Simon Wiesenthals fyrir ýmislegt ómerkilegt, þegar stofnun Símon Wiesenthals óskaði eftir því að sækja íslenskan mann til saka fyrir stríðsglæpi.

Eftir að Davíð Oddson hafði verið í opinberri heimsókn í Ísrael og Palestínu og hafði tekið á móti kröfu Símon Wiesenthals stofnunarinnar um að sækja íslenska stríðsglæpamanninn Eðvald Hinriksson til saka, var þetta haft eftir Ingibjörgu þann 26. febrúar 1993:

"Í rauninni er þessi ferð leiðindaferð, sem hefði betur aldrei verið farin," sagði hún. Um afhendingu bréfs Wiesenthal-stofnunarinnar sagði þingmaðurinn m.a. það skoðun sína að málið gæfi tilefni til að benda á að stjórnvöld Ísraelsríkis væru ekki sérstakir handhafar réttlætis þrátt fyrir hina skelfilegu helför gegn gyðingum í síðari heimstyrjöldinni. Rakti þingmaðurinn alvarleg mannréttindabrot sem hefðu fylgt Ísraelum allt frá stofnun þess og væru það hvað alvarlegust brot þeirra á Genfarsáttmálanum, sem Íslendingar væru aðilar að. Vitnaði hún m.a. í grein eftir Sölva Sölvason lögfræðing um kynningu á Genfarsáttmálanum þar sem hann segði m.a. að aðilaríki sáttmálans skuldbindi sig til að virða og tryggja helgi hans. Því bæri Íslendingum skylda til að einangra þá siðferðislega sem hefðu gerst brotlegir við sáttmálann".

Í sömu fréttaskýringu Morgunblaðsins var einnig rætt við Ólaf Ragnar Grímsson (núverandi forseta lýðveldisins Íslands), sem sýndi að hryðjuverkaleiðtoginn Abbas Mussawi (ö.n. Sayyed Abbas al Mussawi) leiðtoga Hezbullah, sem Ísraelsmenn felldu 16. febrúar 1992, var Ólafi mikill harmdauði.

Ári síðar hafði Ingibjörg Sólrún sett sig aðeins betur inn í málið (enda með próf í sagnfræði) og var hætt að kenna Ísraelsríki um kröfu Stofnunar Símons Wiesenthal. En í staðinn ásakaði hún stofnunina fyrir að vera pólitískt handbendi ísraelskra stjórnvalda og vera ótrúverðuga vegna þess að hún tæki ekki á stríðsglæpum Ísraelsmanna eins og hún tæki á stríðglæpum nasista.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir setti þannig ósmeik og ósmekklega samasemmerki á milli útrýmingarherferðar nasista á hendur gyðingum og stríðsátaka Ísraelsmanna við Palestínumenn og araba, sem sumir hverjir vilja Ísraelsríki afmáð af landakortum eins og kunnugt er.

Nú er Ingibjörg greinilega á leið til Palestínu sem utanríkisráðherra og væntanlega getur hún kennt Palestínumönnum ýmislegt um alþjóðasáttmála og mannréttindi.  Hún gæti t.d. spurt hvernig stendur á því að Palestínumenn myrða sitt eigið fólk á þennan hátt án dóms og laga:

SMS til Imbu

Æstur múgur ljósmyndar lík ungs, palestínsks manns sem nokkrum mínútum áður hafði verið tekin af lífi án dóms og laga af Palestínumönnum. Myndskeið af aftökunni og vanvirðingu múgsins á líki mannsins læt ég flakka hér Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og skoðanabræðrum og -systrum til upplýsingar.

En ef Ingibjörg Sólrún telur það enn skyldu Íslendinga að einangra Ísraelsríki siðferðilslega eins og hún ætlaði sér árið 1992, þegar í ljós kom að íslendingar hafði verið stríðsglæpamaður, er vert að mæla með því að Ísraelsríki hugsi sig tvisvar um áður en að á móti henni verður tekið.

Mæli ég með því að allir lesi þessa grein Ingibjargar, því hún veitir skilning á frelsisást og vináttuböndum þeim sem Ingibjörg Sólrún vill eiga við hryðjuverkasamtök.


Trúarfasisti, Hallelúja!

Í gær komst ég í tölu trúarfasista. Ævar Rafns Kjartansson dæmir mig og aðra og skrifaði:

"Það er aumt þegar þið trúarfasistarnir verjið gerðir gyðinga sem hafa verið úthrópaðar af öllum hinum siðmenntaða heimi en verndarvængur Bandaríkjanna  heldur enn á floti. Enda stærsti kaupandi vopna frá þeim auk þess sem bandarískum fjölmiðlum og afþreyingariðnaði er að mestu stýrt  af gyðingum sem vilja ekki flytja til Ísrael en kaupa sitt aflátsbréf með stuðningi."

Þessi orð Ævar Rafns sýnir að sjálfsögðu hvað hann er sjálfur. Hann dæmir sig best sjálfur, eins og aðrir stuðningsmenn hryðjuverka og öfgastefnu.

Þessi Stóri Dómur Ævars féll vegna þess að ég hef dregið heilbrigðið í tillögu Vinstri Grænna um að vilja stjórnmálasamband við Hamas í efa. Þá ritaði Ævar um barnamorð Ísraelsmanna. Það er mjög algeng athugasemd hjá þeim sem skilja Hamas, sem þó oftast gleyma því að blessuð börnin tína lífi sínu vegna þess að þeim er beitt sem vopnum í eldlínunni. Vinir Hamas vilja helst ekki heyra um börnin sem vinir þeirra myrða. Tilfinningataugin í Ævari er ekki eins fín þegar honum eru sýnd börn saklausra Ísraelsmanna, gyðinga, sem verða fyrir "frelsisbaráttu" Palestínumanna, múslima, sem Ævar og hans líkir segjast skilja. Börn Palestínumanna sem myrða og deyja í stríðinu eru frelsishetjur, en börn gyðinga eru augljóslega fórnarlömb frelsisbaráttu sem er skilin og studd af Ævari og hans félögum á Íslandi.

Hvers konar fasisti er svo Ævar Rafn, ef við hin erum trúarfasistar? Kannski auðtrúa fasisti? Veltið því fyrir ykkur, og svo getur Ævar horfst í augu við börnin sem uppáhaldsfrelsisbaráttan hans hefur myrt. Ætli hann skilji það sem gerst hefur og geti skammast sín?:

Kornabörn

1til2ára

3til4ára

5til8ára

9til11ára

12til13ára

14ára

15ára

16ára

17 ára


Börn eru heilög

 

Ævar Rafn Kjartansson, grafískur hönnuður, sendi mér línu, tengi í ritgerð sína um "barnamorð" Ísraelsmanna. Þessa sendingu fékk ég vegna þess að ég skrifaði um löngun Vinstri Grænna eftir því að koma Íslendingum í stjórnmálasamband við Hamas og aðra óbótamenn.

MYRTAR AF HAMAS

Þessi mynd er af Tali Hatuel og dætrum hennar fjórum, sem voru skotnar sundur og saman af Hamas 2. maí árið 2004. Bíll sem þær ferðuðust í hafði verið skotin frá öllum hliðum, væntanlega af ungum og glæsilegum frelsishetjum Hamas, sem Ævar og hans skoðanabræður vilja hafa samræði við. Hila (11), Hadar (9), Roni (7) og Merav (2) fundust í bílnum þar sem þær hjúfruðu sig saman. Blessuð sé minning þeirra.

Ævar og þeir Íslendingar, sem syrgja palestínsk börn, sem oft eru notuð í við eldlínuna til að koma fyrir sprengjum og bera sprengjubelti, er vitanlega fyrirmunað að syrgja þá gyðinga sem hafa misst líf sín fyrir hendi palestínskra hryðjuverkamanna. En ef til vill hefur Ævar áhuga á að lesa um það fólk við tækifæri, þegar hann er búinn að syrgja heilaþvegin börnin sem sett eru á sprengjubelti.

Schijveschuurders

9. ágúst 2001 var nær heilli fjölskyldu útrýmt þar sem hún vara að borða pizzu í hjarta Jerúsalem. Morti Schijveschuurder kona hans Tzira, og þrjú börn Ra'aya, Yitzhak, og Hemda voru myrt af sprengju sem var fyllt af nöglum, skrúfum og brotajárni. 15 manns voru myrtir í árásinni. Afi Motti Schijveschuurders var samstarfsmaður bróður ömmu minnar í Hollandi. Ég syrgi börn Motti og Tziru Schijveschuurders. Tæpu ári áður en þessi fjölskylda var eyðilögð, sat ég með konu minni og dóttur og borðaði á sama pizzustaðnum þar sem Palestínumaður tók 15 manns með sér í dauðann til að frelsa landið sitt. Mig dreymir oft óhugnarlegan draum um þennan stað.

Ævar Rafn Kjartansson, mér þykir líka leitt að börn Palestínumanna þurfi að stunda hernað í stað þess að vera í skóla. Mér þykir leitt að palestínsk börn séu misnotuð til þess að halda áfram skærum, sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir ef fullveðja Palestínumenn hefðu haldið rétt á spilunum og viljað frið. Horfið á þetta myndskeið, þar sem heilaþvegin börn hryðjuverkakonu eru misnotuð í "Stundinni okkar" í landi Hamas. Takið eftir því að móðir barnanna drap gyðinga, ekki Ísraelsmenn! Skoðaðu þetta Ævar, þú hinn mikli vinur barnanna í Palestínu.

1132 manns hafa misst lífið vegna óeirða og hryðjuverka Palestínumanna síðan um aldamótin 2000.

Hér getið og hér  getið þið lesið meira um þetta fólk sem var tekið úr umferð vegna frelsisbaráttu Palestínumanna.


Ferðafólkið er í bráðri hættu!

Norskir tatarar 

Tónelska ferðafólkið, sem allir eru að tala um, eru Roma, þ.e.a.s. sígaunar. Áður fyrr voru sígaunar og tatarar oft sjómenn í Noregi. Sumir komu til Íslands.

Norðmenn eru vanir að senda sígauna úr landi. Þeir lokuðu á þá árið 1927 og boluðu mörgum burt. Seinna var þetta fólk í flestum tilfellum myrt í útrýmingu nasista á fólki sem minnti þjóðverja á mannlegt eðli. Sígaunar og tatarar (Sinti), sem enn voru í Noregi, átti að koma fyrir kattarnef árið 1943, en því var sem betur fór aldrei komið í verk. Eftir stríð reyndu norsk yfirvöld að sundra tatarafjölskyldum og þvinga þær til fastrar búsetu. Norskar sígaunakonur voru vanaðar með valdi og börn voru tekin frá fjölskyldum sínum og nauðgað. Norðmenn eru enn ekki búnir að bæta fyrir þessar hörmulegu aðfarir að þessum minnihlutahópi í landi sínu. Norðmenn ætluðu sér líka að setja peninga og eignir þeirra 769 gyðinga sem voru sendir til Auschwitz í ríkiskassan.

Ég beini þeim óskum til íslenskra yfirvalda: Frelsið það fólk sem þið senduð úr landi úr klóm Norðmanna. Sagan sannar að þeim er ekki treystandi í meðferð sinni á farandsfólki.

Hér getið þið lesið örlítið um LOR, Landsorganisasjonen for Romanifolket í Noregi


mbl.is Norska útlendingastofnunin í viðbragðsstöðu vegna Rúmena
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmenskir spilimenn – Saga sígauna á Íslandi

Vísað burt

Sígaunar sem líka var vísað burt. Myndin er tekin í útrýmingabúðum nasista í Belzec

Mikið varð nú stutt saga rúmensku sígaunanna á Íslandi, sem vísað var úr landi fyrir að spila á nikku við Bónus og frjósa í almenningsgörðum. Hvað kom til? Borgaði tónlistarfólkið kannski ekki STEF-gjöldin? Eða voru þetta bara hin venjulegu, íslensku viðbrögð við fátækum útlendingum, sem allir eru að reyna að klína á Frjálslynda flokkinn.

Ég efast um að Roma fólkið frá Rúmeníu hafið komið hingað til lands til að leita uppi ættmenni sín, dansk- og norskættaða sígauna, sem ekki hafa haft hátt um uppruna sinn. Hver veit, lögreglan gæti einnig farið að skutla þeim út á Keflavíkurflugvöll á bye-bye miða. Best er að gefa ekkert upp um ættir íslenskra sígauna.

Hér í Albertslundi, þar sem ég bý, eru sígaunar (Roma) frá Rúmeníu að spila í öllum veðrum. Leita sumir þeirra skjóls í undirgöngum undir lestarstöðinni okkar. Þessa dagana er maður um fimmtugt að spila og spilar hann reyndar listavel. Ég læt alltaf gljáðan skilding falla í nikkukassan, þegar ég kem þar hjá. Han spilar fyrir mig jazz, kletzmer, sígaunavalsa og tarantellur og er farinn að gefa mér extra númer. Albert, sá sem bæjarfélagið heitir í höfuðið á, var franskur maður af ætt Roma, sem varð læknir Danakonunga á 19. öld. Átti hann hér sumarhús, eða frekar stóran húsvagn.

Í vetur sá ég hins vegar ljóta sjón. Ég kom hjólandi á leið í búðir og ætlaði að fara niður í göngin fyrrnefndu. Þá stóð þar Benz bíll á sænskum plötum og sígaunar tveir, vel klæddir, að kljást við þann þriðja og hentu honum svo að segja út úr bílnum með nikkuna. Ég stöðvaði til að sjá ósköpin, en maðurinn með nikkuna forðaði sér í burtu og hinir velklæddur óku á brott. Síðar sá ég manninn, sem var verið að tuska til, þenja nikkuna nokkuð eymdarlega. Ég er viss um að þetta fólk á ekki sjö dagana sæla, en það er oft þeirra eigið ættfólk sem eru þrælahaldararnir.

Mér finnst gaman af ákveðinni nikkumúsik og sérstaklega af leikni sígauna með nikkuna. Fyrir svona 7-10 árum síðan voru hér í Kaupmannahöfn rússar, hálærðir músíkantar, sem spiluðu á nikkur og balalækur í öllum stærðum. Þeir kunnu líka að betla. Þeirra tónlist var ekki nærri því eins skemmtileg og músík rúmensku sígaunanna. Rússarnir eru nú farnir. Vonandi þénuðu þeir vel.

Ég skil ekkert í fólki á Íslandi, eða löggunni, að vilja ekki njóta góðrar tónlistar aðeins lengur. Menn gætu hafa beðið með að senda sígaunana úr landi eftir gott nikkusumar. Tekið þetta sem viðbót við Listahátíð og hýst fólkið í vinnuskúrum.  En svona eru nú Íslendingar, kaldir og ómúsíkalskir.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband