Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Af nýafstöðnum hengingum á Bessastöðum

 
Óli hengir fálka

 

Nú er Ólafur Ragnar Grímsson búinn að hengja og næla fálka og jafnvel stórfálka á handboltadrengina "okkar". Ekki segi ég að þeir eigi það ekki skilið eftir að þeir fengu okkur alveg til að gleyma því hvernig Kínverjar fara með margt fólk sem aldrei kemst á Ólympíuleikana.

Eitt sinn var til Heiðurspeningur Forseta Íslands. Hefði slík medalía ekki verið betur við hæfi? Gleði forsetans við að næla í menn orður er þó ekkert miðað við gleðibútbrot Þorgerðar Katrínar, sem fann heilan silfursjóð til að efla handboltaíþróttina. Slíkir sjóðir virðast leynast hér og þar. Þorgerður Katrín á stórriddarakross skilinn fyrir að finna þennan sjóð.

Heiðurspeningur
Heiðurspeningur Forseta Íslands

Mér hefði þótt nóg ef sprengdir hefðu verið nokkrir kínverjar á Bessastöðum.

Mér finnst alltaf gaman að bera saman þjóðir. Danir, frændur vorir, hlaða ekki orðum á menn sem þegar eru þegar komnir með skotsilfur um hálsinn. Fjölskylda drottningarinnar er undantekningin, og er karlpeningurinn í hennar ætt hlaðinn síldasalati frá fermingu. Danir settu líka þá reglu eftir Síðara stríð, að ekki ætti að gefa mönnum sem börðust geng nasismanum Dannebrogsorður. Heiðurinn að berjast fyrir föðurlandið var nægilegur. Einn fremsti nasisti Dana, SS-maðurinn Søren Kam, sem enn er eftirlýstur fyrir glæpi sína, þar sem hann lifir undir verndarvæng Þjóðverja í hárri elli, varð þeirrar hamingju nótandi að mjög orðuglaður maður, sem hét Hitler, nældi í hann tvo járnkrossa. Ef maður barðist gegn Danmörku fékk maður orður. Hitler var alltaf orðuglaður við stráka í stórræðum. Ekki segi ég að Danir beri betra skynbragð á það en Íslendingar, hverjir hæfir séu til að bera orður og afrekspjátur um hálsinn. Danir gáfu Ceausescu einræðisherra og kommúnista í Rúmeníu stórriddarakross Dannebrog og Elefantorðuna árið 1980. 

Já, svona er dómgreind manna nú merkileg, þegar kemur að orðuhengilshætti. Þó ég hafi engu áorkað sem veitt getur jakkaskreytingar, tala bæði og skrifa ljótt mál og illa um fólk, leyfi ég mér að  koma með tillögu: Að fyrir utan fálkaorðuna, sem nú hefur lent í óðaverðbólgu, verði tekin upp Hvítabjarnaorðan, sem fyrst og fremst verði gefin leiðtogum og íþróttamönnum sem stunda skot og hraðaupphlaup. Stríð halda áfram og hætt er við að Íslendingar vinni fleiri verðlaun á Ólympíuleikum.

Medalíum

Hver vinnur ?

 

Blóðpeningur

 

Íslenska landsliðið í handbolta keppir nú til úrslita þegar þetta er ritað. Það er annað hvort silfur eða gull í Beijing 2008, þótt að silfur sé nú líklegast. Landsliðað á hvortveggja skilið og fá það sem þeir verðskulda, "strákarnir okkar", alveg sama þótt að þeir verði burstaðir.

Hins vegar fá þeir sem sitja í fangabúðum í Kína hvorki silfur né gull. Hús 79 ára konu var rifið niður án skaðabóta svo íþróttahátíð mannsandans gæti farið fram í Beijing. Hún var sett í endurhæfingarbúðir vegna þess að hún ritaði nafn sitt á lista, þar sem hún óskaði eftir því að taka þátt í mótmálum. Gamla konan kemst ekki á verðlaunapall eins og strákarnir okkar.

Engir eðalmálmar og medalíur verða gefnir þeim sem mótmæla mannréttindabrotum í Kína. Engin silfurverðlaun fyrir það sem sitja í stofufangelsum eða þá sem ekki mega fara á Veraldavefinn. Engin verðlaun fyrir þá sem langar að hugsa frjálst í Kína. Það verður væntanlega heldur ekki silfur eða gull í kúlunum sem Kínverjar verða skotnir með í hnakkann um næstu helgi, þegar ógnarstjórnin í Beijing byrjar stórhreingerningar sínar eftir Ólympíuleikana.

Gull eða silfur til Íslands? Alveg sama, segir forseti Íslands, það verður þjóðhátíð um næstu helgi. Blóðrauðar veigar verða drukknar með grillkjötinu. Partý, partý.

En það verður engin þjóðhátíð í Tíbet eða veisla í kínverskum fangabúðunum um næstu helgi. Eru öll tárin sem felld hafa verið fyrir Tíbet á Íslandi til einskis? Brunnu kertin út um leið og samkenndin með hinum þjáða lýð í Kína?  Fá gulldraumar og silfuræði Íslendinga til að gleyma?  

Gull- eða silfurdrengirnir fá verðlaun sem eru blóði drifin. Mannrétttindabrot fengu stærstu gullpeninginn í Beijing. Silfur er svo sem ágætt. Heimsmarkaðsverð á gulli hefur líka lækkað svo mikið upp á síðkastið og mannréttindi eru víst einskis virði lengur.  15:10 það lítur illa út í hálfleik. Ætli sér kominn hálfleikur í Kína öfganna.

Til hamingju.


Margumtalaðar dagbækur

 

Dagbók Johannesens

 

Hin mikla umræða um dagbækur Matthíasar varð til þess að ég settist niður og las nokkrar síður.

Ekki get ég fallist á að þetta séu góðar heimildir um sögu Íslands á seinni tímum eins og sumir menn telja. Þetta er fyrst og fremst túlkun Matthíasar á atburðum líðandi stundar, sem snúa að honum og nánasta hópi einhverra karlpunga sem hann hefur umgengist. Svo er þetta heimild um innræti og persónugerðs pólitísks skálds í dvergríki. Kannski líka góð heimild um að æðstu yfirmenn okkar hafi ekki alltaf verið neinir þokkapiltar, og að þeir hafi oft lagst mjög lágt þegar þeir voru til dæmis að velta fyrir sér sjúkrareikningum fyrrverandi forsetafrúar. En sýnir það ekki líka að þeir eru mannlegir eins og skáldin og við hin hinir dauðlegu borgarar og þorparar?

Guðmundur Magnússon  telur að Matthías ætti að hafa beðið menn að lesa sumt af þessu yfir, áður en það var birt. Yfirlestur á gögnum frægra manna, áður en þau er sett á skjalasöfn eða opinberuð, eru stundum nauðsynleg fjölskyldunnar vegna, en einnig vegna þeirra skítverka sem þeir kynnu að hafa framkvæmt og sem fjölskyldan og stjórnmálaflokkurinn vilja ekki að séu á vitorði allra. Ætli slík "ritskoðun" hafi nokkru sinn átt sér stað á Íslandi? Í ekta lýðræðisþjóðfélagi ætti það auðvitað ekki að vera nauðsynlegt.

Nú var Matthías bara ritstjóri, svo hann hefur svo sem fullan rétt á því að setja sjálfan sig á útopnuna með þessum hætti í ellinni. Mín heimildagagnrýni segir mér hins vegar, að dagbókabrot Matthíasar hafi verið vel lesin yfir, og stundum læðist að mér sá grunur, án þess að ég geti sannað eitt eða neitt að skáldskapargáfa Matthíasar hafi stundum borið hann ofurliði þegar hann sat og skrifaði dagbókina. En þetta er bara getgáta. Þegar ekki verið að velta sér upp úr stjórnmálum er oft gaman að lesa dagbókina t.d. kaflann sem ber yfirskriftina Í lok Október - Eftirmáli (1998).

Ég hef sjálfur unnið við útgáfu dagbóka, flóttamanna og diplómata. Ég verð að segja, að þörf manna á birtingu dagbókabrota í lifanda lífi, geti bent til þess að ekki sé allt með felldu. En ekki segi ég að svo sé í tilfelli Matthíasar, enda er Matthías heiðvirður maður og ég þekki hann ekki af neinu misjöfnu. Þekki hann reyndar bara ekki neitt og ætti kannski ekki að vera að blanda mér í hans útgáfumál. Annar rithöfundur, Guðbergur Bergsson, hefur þetta að segja um menn sem opinbera sig á bloggum og væntanlega líka í dagbókum á Netinu: Blogg er viss tegund af blaðri, viss belgingur, sjálfshyggja á afar lágum nótum. Það er útbreiðsla eldhússins sem ríður hvarvetna húsum í skvaldurmenningu samtímans, kerlingaskvaldur í skólagengnum búningi "földu svuntunnar".

Mikið væri gaman að sjá origínalinn af þessum strjálu og oft á tíðum gloppóttu dagbókafærslum hans Matthíasar Johannessens. Voru þetta dagbækur eins og þessi að ofan, stílabækur, minnisbækur frá Shell, eða laus blöð á borðinu sem heftuð voru saman við tækifæri? Bíð ég svo eftir því að fá svör við því unz Matthías er búinn að setja þær á pdf skrár í náinni framtíð, svo þjóðin geti líka skoðað rithandasýni hans í allri skvaldurmenningunni.


Kim Larsens schlechte Gesundheit

Larsen og sigo
 

Stórkjafturinn Kim Larsen, þjóðsöngvari Dana, sem meira að segja hefur komið til Íslands til að syngja sína einföldu smelli til að efla áhuga Íslendinga á danskri tungum, er búinn að koma sér í slæmt mál

Larsen hefur gerst forystumaður fyrir hópi fólks sem finnst brotið á þeim vegna reykingabanns. Larsen er greinilega á góðri leið til þess að fá krabbamein vegna mikilla reykinga. Það er hans eigið mál. Hann gæti líka orðið 96 ára alveg eins og langamma mín sem keðjureykti frá 9 ára aldri.

En Larsen er nú í forystu fyrir átaki danskra reykingamanna sem finnst að sér vegið vegna hertra reglna um reikningar á opinberum stöðum. Eitt af slagorðum þessa átaks er: Gesundheit macht frei. Þetta er afar keimlíkt orðum þeim sem nasistar skreyttu útrýmingarbúðir sínar með "Arbeit macht frei". Reyndar er það ekki óþekkt slógan. Á skóla hér í nágrenninu stendur "Flid skaber frihed" en það var ætlað börnum.

Andspyrnumaðurinn og læknirinn Jørgen Kieler, sem ég þekki vel, hefur gagnrýnt Larsen og sjóð hans Himmelblå fonden fyrir að hafa notað umritað slagorð nasista í tengslum við að Larsen og hans fólk mótmæla reykingalögum í Danmörku með tilvísunnar til þess að nasistar hafi verið þeir fyrstu sem settu lög um reykingabann. Kieler, sem sjálfur sat í fangabúðum nasista, finnst þetta slagorð Larsens og Co. vitanlega vera ósmekklegt, og það finnst mér líka.

Larsen virðist bara púffa á það og telur að ríkistjórn, sem sett hefur ný reykingalög í Danmörku, sé gerræðisstjórn sem vel eigi skilið samlíkingu við nasista. Ríkisstjórnin er nú samt örugglega alveg nógu góð til að borga sjúkrareikninga þeirra Dana, sem drepið hafa sjálfa sig og aðra, hægt og bítandi með tillitslausum reykingum.

En mikið er gott til þess að vita, að Kim Killroy Larsen greiði sína reikninga sjálfur, þegar hann er kominn á life support.

Hóst!


Smokkur, smokkur, smokkur, smokkur

Á Indlandi er mikil sókn í gangi til að fá karla til að setja á sig smokkinn. Ekki veitir af. Allt of margir Indverjar eru vandamál og allt of margir þeirra eru með HIV. Líklegast er betra að fækka Indverjum með smokkum en aukinni HIV útbreiðslu.

 

 

Hlustið á tón fyrir farsíma, sem minnir á átakið og auglýsinguna sem vakið hefur heimsathygli. Smokkvísir Indverjar.

 


Ólympíuleikana til Íslands 2020

 

Dorrit keppir á sjóskíðum

 

Ég hef einu sinni rassberað forsetafrúna og vona að hún fyrirgefi mér það. En nú ætla ég að flengja hana vegna þess að ég er enn ekki búinn að fá fálkaorðu og vegna þess að ég er óforskammaður dóni.

The first lady of Iceland studdi nefnilega drauma einræðisríkisins Katars (Qatar) sem langaði að halda Ólympíuleikana árið 2016. Land, sem ekki viðurkennir tilvist annarra ríkja, getur auðvitað ekki haldið Ólympíuleikana, nema að það sé eins stórt og Kína.

En Dorrit var ekki í vafa. Hún vildi til Katar árið 2016. Nú hefur Katar hins vegar verið fært frá og bardaginn stendur héðan í frá á milli Chicago, Tokyo, Rio og Madrid. Megi besta og ríkasta borgin vinna, og íbúar hennar borga meira í skatta 20-30 ár á eftir.

Þessum stuðningi sínum við Katar lýsti Dorrit rækilega í Huffington Post, sem er vefrit sem rekið er af merkilegri konu, Aríönu Huffington (fæddri Stassiopoulos) sem líkist Dorrit mjög á yfirborðinu

Dorrit skrifaði m.a. I was born into one of the oldest Jewish families in Jerusalemand have been fortunate to have had many Arab and Israeli leaders among my closest personal friends in recent decades. In my capacity as the First Lady of Iceland, I have come to know Qatar even better and been privileged to enjoy cooperation and dialogue with the Royal Family and the educated and visionary leadership of the country.

Það eru ýmsar villur í þessari málsgrein. Ég þekki nú margar gyðingaættir í Jerúsalem, sem hafa alið þar manninn lengur en Mosaef fjölskyldan. Þær voru komnar aftur til Jerúsalem löngu fyrir þann tíma að Moussaieffarnir voru að vefa ábreiður og klæði fyrir þjóðarmorðingjann Djengis Khan einhvers staðar í Uzbekistan á 12. öld, þegar trúbræður þeirra sættu ofsóknum annars staðar. 

Dorrit skrifar nú ágætlega miðað við að hún er lesblind. Kannski les Ólafur þetta yfir fyrir hana?

En af hverju mælir Dorrit einfaldlega ekki með Ólympíuleikum á Íslandi? Á hún kannski fleiri vini í arabaheiminum en á Fróni?


Grænt ljós frá Íslandi

Grænt ljós frá Íslandi

 

Ef þetta er spurning um klukkutíma, skiptir það ekki máli, nema að sagnfræðinginn gruni að Davíð Oddsson eða einhverjir aðrir hafi talað við bresk stjórnvöld án þess að Halldór vissi það. Þá er mig farið að gruna að það séu annarlegar ástæður sem drífi sagnfræði Vals Ingimundarsonar. Hver var fyrstur geta þeir fyrrverandi forsætisráðherrar deilt um til dauðadags, og slegist um hvort ljósið sem Bretar fengu frá Íslendingum var grænt eða blátt.

Samþykkt Íslendinga til að lýsa stuðningi við aðgerðir gegn ógnarstjórninni í Írak skipti svo sem engu máli, en hún er heldur engum til vansa, þótt einfeldningar sem styðja hryðjuverkahópa telji svo vera og telji sig bera ábyrgð á dauða fólks í Íran. Ekki tel ég mig ábyrgan fyrir þeim.


mbl.is Bresk stjórnvöld fengu grænt ljós 17. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn sanni íþróttaandi

Jú hann er til og það er um að gera að sýna hann í stað þess að fylla sig með EPO og sparka í andstæðinginn þegar dómarinn sér ekki til. Enn er þó hægt að neita að keppa við gyðinga á Ólympíuleikunum. Andi Hitler-leikanna 1936 svífur yfir vötnunum í Beijing.

Ljótur blettur var settur á leikana um daginn. Íranskur sundmaður, Mohammad Alirezaei, taldi sig ekki geta synt í sama riðli og sömu laug og Ísraelskur sundmaður og sagði sig því sjálfkrafa úr leikunum. Eins og allir vita halda Íranar að gyðingar gefi frá sér hættuleg efni í vatni. - Bara að grínast.  Ætli þessi ákvörðun hafi ekki verið tekin fyrir sundmanninn af litlum mönnum með eitrað hugarfar, sem er studdir af einfeldningum á Vesturlöndum? Það held ég nú. Svipaður atburður gerðist á Ólympíuleikunum í Aþenu. Íran viðurkennir eins og kunnugt er ekki tilvist Ísraelsríkis.

 

Blatt

 

Landsliðsþjálfari Rússa, David Blatt, sem er Ísraeli og gyðingur, tók hins vegar innilega í höndina á fyrirliða Íranska landsliðsins í körfu sem tapaði fyrir liðinu sem Blatt þjálfar. Blatt sagði við blaðamenn "Þetta er fegurð íþróttanna" og "strax þegar maður byrjar að hlaupa gleymir maður öllu og man að við erum öll sömul eins. Því miður eru stjórnmál ekki í höndum venjulegs fólks og íþróttamanna". Sjá hér. Ég veit nú ekki alveg hvort ég er sammála Blatt um að mannsandinn hreinsist alveg af íþróttunum einum.

Greinilegt er, að það líðst að íþróttamenn vilji ekki synda með gyðingum. Það er fyrst og fremst  vandamál fyrir alþjóðlegu Ólympíunefndarinnar, meðan mannréttindin í Kína er eitt aðalvandamál alls heimsins. En er gyðingahatur um heim allan það ekki líka?

 

 

Með gleði sé ég að Palestína sendir 4 íþróttamenn í mengunina í Beijing, 2 frjálsíþróttamenn, og 2 sundmenn. Liðið átti að verða stærra, en stangastökkvarinn og hindrunarhlaupararnir voru hlaðnir verkefnum heima fyrir og skytturnar eru flestar í ísraelskum fangelsum (ég vona ekki að menn taki þennan brandara of illa upp). Einn palestínsku þátttakendanna kemur frá þeim hluta Gaza, þaðan sem flugskeytum er skotið á Ísrael. Það tók langan tíma fyrir ýmis ísraelsk og palestínsk samtök að fá leyfi Hamas og ísraelskra stjórnvalda til þess að Nader Masri gæti keppt á leikunum í Beijing.

Næst þegar ég skrifa um íþróttir, er það um þátttakendurna frá Darfúr á leikunum í Beijing. Ég er enn að rannsaka málið. Ég er hræddur um að eitthvað hafi gerst í Darfúr.


Stuðningsmenn Obama eiga skoðanabræður á Íslandi

Obamamamyman

 

Þótt Obama hafi farið til Berlínar og sagst vera súkkulaðibolla, líkt og þegar J.F. Kennedy sagðist vera "ein Berliner", er hann enn óskrifað blað fyrir mér. Hann segir eitt og annað, og æsti til dæmis ærlega vinstri menn og áhangendur hryðjuverkaliðs, þegar hann lýsti yfir stuðningi sínum við Ísrael um daginn. Ég er nú eftir að sjá þann stuðning í raun áður en ég trúi.

Líklega eru fylgismenn Obama fyrst og fremst heiðvirt fólk sem vill heilbrigðiskerfi fyrir alla og að blökkumenn í Bandaríkjunum þurfi ekki að fara verst út úr kreppunni, nú þegar margir þeirra áttu í fyrsta skipti ráð á því að kaupa sér hús.

En Obama á sér líka aðhlæjendur, sem ég vona að hann losi sig við hið fyrsta og fordæmi.

Í takt við tímann er framboð Obamas með heimasíðu, http://my.barackobama.com, þar sem mönnum gefst kostur á að rita blogg og setja fram skoðanir sínar. Á þessum vefsíðum hefur líka safnast saman mikill ruslaralýður sem tekur Obama í gíslingu, gerir honum upp skoðanir eða telur hann hafa sama innrætið og það sjálft.  Lesa má grein um þetta fólk hér. Þessir einstaklingar þrífst á hatri á gyðingum og Ísraelsríki, samsæriskenningum um 9/11 og öðrum ósóma, þar sem einni þjóð og einum trúflokki er kennt um allar ófarir heimsins.  Slíkur lýður og slíkar skoðanir er svo sannarlega líka til á Íslandi og er Morgunblaðsbloggið misnotað til þess að setja þær fram. Það sem sameinar þetta auma fólk í BNA sem og á Íslandi, er að það skilur ekki og heldur ekki að takmörk séu fyrir því hvað menn geta skrifað í nafni ritfrelsis og lýðræðis. Oft er þetta fólk sem telur sig hafa einkarétt á hreinni hugsun og hærri gildum hér í lífinu en aðrir. En hin sorglega staðreynd er að skítkast, hatur og mannvonska er helsta vopn þeirra og heimilisfangið er forarpyttur vonleysisins og mannfyrirlitningarinnar.

Þegar gagnrýnendur gerðu  Myobama.com viðvart um hatursáróðurinn sem menn reyndu á hýsa þar, brugðust stjórnendur netsins og Obama fljótt við og fjarlægðu allt hatrið sem plantað hafði verið á vef forsetaframbjóðandans.

Nú stendur bara "Error", þar sem áður var sjúklegt skítkast og bloggin hafa verið fjarlægð, eða athugsemdir eins vinsaðar út, t.d. þessi " "Burn something else besides oil...start with the Zionists". Álíka hefur nú sést á Moggablogginu, en þar er mönnum fyrst og fremst úthýst ef þeir gagnrýna trúarbrögð sem lýsa gyðingum sem svínum og öpum. Blog.is gæti lært af Barack Obama. Menn geta nefnilega ekki alltaf stýrt penna sínum og bloggið hefur sent marga aftur á steinöld, eða sýnt að lítil þróun hefur orðið í sumum ættum síðan þá.

En það er gott að sjá að Barack Obama er á sömu skoðun og ég um að árásir rugludalla á Ísrael og gyðinga eiga ekki heima í hinum siðmenntaða heimi.


Einu sinni féll ég næstum því

 

Fallen angel
 

Ég hef aldrei farið í gleðigöngu. Ekki einu sinni verið attaníossi í þeim eins og Sigurður Þór.

Hins vegar var ég næstum fallinn niður á gleðigöngu í Kaupmannahöfn árið 2001. Þannig er mál með vexti, að ég vann á 5. hæð í húsi í miðbæ borgarinnar á helfarar og þjóðarmorðastofnun, þar sem morð og ósómi var rannsakaður af sumum sem þar unnu. Aðrir voru bara að leika sér. Fólk var mjög vinnusamt og við sátum nokkur þarna á sunnudegi og skrifuðum. Þá kom gleðigangan framhjá og við út í glugga til að sjá herlegheitin. Þar sem þetta var á þakhæð varð maður að setjast í gluggakistuna til að sjá þennan hóp karla og kvenna, sem Hitler hafði einu sinni haft horn í síðu á.

Ég settist svo langt út á gluggakistuna, að ég rann út .... úps, en sem betur fer út á syllu, og komst inn aftur fyrir eigin rammleik. Hommar og lesbíur litu upp, héldu höndum fyrir vitum sér en veifuðu svo og ég veifaði á móti með lífið í lúkunum og hjartað í rassinum.

Hugsið ykkur ef þetta hefði farið verr og ég hrapað niður og eyðilagt hinsegin daginn. Yfirskriftin, hugsið ykkur: "Islandsk  folkedrabsforsker falder på bøsser, dræber 8". Þetta er enn martröð hjá mér.

 

fallegur

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband