Færsluflokkur: Bloggar
13.5.2007 | 00:22
Þoka á kosningamiðnætti
Allt frekar óljóst - enn.
En það ér þó nokkuð ljóst að austur-Evrópu áhrifin í Júróvissjóninu hafa teygt arma sína til Íslands. Nú fáum við 4 ár með allt á reiki. Þreyta fólksins og óþolinmæði var greinilega farin að segja til sín, þó svo að aldrei hafi fólk haft það betra í þessu landi á síðustu 1140 árum. En þegar utanríksiráðherra stingur upp á stjórnmálasambandi við Hamas er ekki nema vona að fólk kvái. Framsókn er tímaskekkja.
Basl- , biðraða- og spillingarflokkurinn úr sveitinni (B) hefur greinilega verið dæmdur úr leik og dregur kannski með sér gæðinga Geirs Haarde (D), sem ekki virðast hafa misst traust - né aukið. En í staðinn hefst að öllum líkindum nokkurra ára stjórn ævintýra- og rómantíkera á sauðsinnsskóm, sem vilja lifa af landinu og sölu myndbanda Ómars Ragnarssonar. Eiginlega ekki svo mikið öðruvísi en Framsókn. Það er bara búið að sparsla og mála framhliðina.
Einu sinni hefði ég kosið svona rauðgrænt. Þá var ég borgarskæruliði, fyrir ca. 25 árum. Nú er ég orðinn gamall og veit að það sem er boðið upp á eru innistæðulausir tékkar. Áfram munu flokksgæðingar reisa sumarbústaði sína á friðuðum stöðum, og enn sem áður verður vaðið út í botnlaust skuldafen vegna hégóma og vitleysu. Helluþjófar eru til í öllum flokkum og allir vilja tvíbreiða vegi í stað hraðatakmarkanna. Það er ekki hægt að strika í burtu.
Mér sýndist rétt í þessu að litla handtaskan hennar Ingibjargar Sólrúnar á Grand Hotel hefði verið nokkuð Gucci. Handtöskur eru gífurlega mikilvægar. Vonandi verður létt á einhverjum aurum úr töskunni fyrir þá sem minna mega sín á næstu 4 árum. Annars er auðvitað hægt að fella ríkisstjórnina hvenær sem er.
Ég sá líka Jón Baldvin Hannibalsson í viðtali á kosningavöku, þar sem hann minnti menn á það að ný ríkisstjórn þæði umboð sitt frá fólkinu í landinu, en ekki frá Bessastöðum. Það er greinilega enn straumur á tengigrindinni í Jóni. Ekki er víst að svo sé í yngri gerðum stjórnmálamanna.
Nú verðum við að bíða og sjá. Sumir af bestu vinum mínum eru í Samfylkingunni..... En talningu er enn ekki lokið.
Nú nenni ég ekki að vaka lengur. Klukkan orðin 2 að nóttu í Danmörku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2007 | 06:05
Mínu Mús hefur líka verið rænt
Nýjustu fréttir herma að Mínu Mús hafi verið rænt. Hún hefur sést á götu í Teheran, en ekki er hægt að staðfesta þessa frétt, þar sem okkar maður í Teheran hefur verið fangelsaður fyrir að taka myndir af konum í klæðnaði sem er þóknanlegur Allah. Daman á myndinni sagðist heita Mína retta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2007 | 05:27
Vive le Président
Kosningarbaráttan í Frakklandi var hörð en vonandi hefur betri maðurinn sigrað. Hins vegar hefur lýðurinn aldrei fengið eins mikla fullnægingu og útrás fyrir haturstilfinningar eins og í þessum forsetakosningum og sérstaklega í því litríka "ríki" sem sumir kalla Bloggheim. Fjöldi bloggara í Frakklandi heldur úti haturssíðum gegn Sarkozy.
Þetta blogg http://sarkostique.over-blog.com/ er nokkuð sjúkt og það er ekkert hóf í sarkozismanum. Það er einkennilegt og barnalegt þegar fólk fær einn mann svona algjörlega á heilann. Gert er grín að nafni mannsins, uppruna, útliti og hvað eina og áróðri gegn Sarkozy er skipulega safnað saman. Það hefði verið óskandi að borgarar í Bloggheim hefðu verið til þegar Hitler var í uppsiglingu, en ekki var svona áróður gegn honum, heldur ekki í Frakklandi. Gárungaherferðin gegn bin Laden og Saddam i BNA hefur á tíðum verið illkvittnisleg og barnaleg, en þar erum við að tala um kenndir í garð hryðjuverktaka.
Fyrrnefnd áróðurssíða í Frakklandi og herferðin gegn Sarkozy taka út yfir allan þjófabálk. Hún inniheldur virkilega hatur og þráhyggju sem er því miður oft eina vopn vinstrimanna nú á tímum. Sem betur fer sá meirihluti Frakka við því.
Ég tel heldur ekki að þessi maníska persónufixering í stjórnmálum ætti að vera til eftirbreytni á Íslandi. Heldur ekki þegar hún er á sagnfræðilegu nótunum eins og Guðmund Magnússon dreymir um, og sem telur rækt Frakka við hinn pólitíska menningararf þjóðarinnar lofsverða. Guðmundur segir að sagan sé lifandi hjá Frökkum í samtíðinni vegna þess að þeir sjá Sarkozy sem Napoleon. En þeir sjá hann nú líka sem Lenín, Stalín, Hitler og sem mann sem muni stefna landinu þeirra mikilvæga út í kjarnorkustyrjöld. Guðmundur skrifar reyndar: "Allt er gott í hófi" og þar erum við sammála..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2007 | 11:49
Leitin að beinum Egils (2. hluti)
"The skull gradually fills in with densitites, as shown here, and the skull thickens and softens"
Þessa skýringu á framskriðnum Paget's sjúkdómi er að finna á síðu Stanfords háskóla um sjúkdóminn. Ekki urðu meint bein Egils "soft", smkv. Egils sögu og Byock, eða hvað?
Leit Jesse L. Byocks að beinum Egils eru náttúrulega tálbeita. Byock notar álíka aðferð til að fá fjármagn til rannsókna sinna og þegar Kári í DeCode dáleiðir menn með "ættfræðirannsóknum", sem sýna eiga ættir manna aftur til sagnapersóna í miðaldabókmenntunum. Það hjálpar greinilega fjársterkum aðilum að létta á pyngjunni. Góð saga selur alltaf vel.
En Byock hefur farið óþarflega fram yfir það sem sæmilegt er í þessari sölumennsku í fræðunum. Að minnsta kosti yfir það sem leyfilegt er í fornleifafræði. En fornleifafræðin fjallar um allt annað nú á dögum en það að leita uppi ákveðnar persónur. Það virðast íslenskufræðingar enn vera að gera, líkt og þegar þeir eru að leita uppi höfunda Njálu og annarra fornrita.
Til þess að gera Mosfells-verkefnið kræsilegra telur Byock mönnum trú um að Egils saga lýsi Agli með sjúkdómseinkenni Paget´s disease. Hann trúir því greinilega einnig á söguna sem sagnfræðilega heimild. Hann hefur vinsað það úr af einkennum sjúkdómsins, sem honum hentuðu í greinum sínum um efnið í Viator (Vol 24, 1993) og Scientific American (1995). Menn geta svo, þegar þeir hafa lesið greinar hans, farið inn á vef Liðagigtarsamtaka Kanada (The Arthritis Society ) eða á þessa síðu til að fá aðeins betri yfirsýn yfir sjúkdómseinkenni hjá þeim sem hrjáðir eru af þessum ólæknandi sjúkdómi. Þau einkenni eru langtum fleiri en þau sem Byock tínir til og flóknari en hausverkurinn og höfuðskelin á Agli. Byock hefur ekki sagt lesendum sínum alla sjúkdómssöguna; til dæmis að þeir sem eru hrjáðir af sjúkdóminum geti einnig liðið af sífelldum beinbrotum og verði allir skakkir og skelgdir fyrir neðan mitti. Hryggurinn vex saman og mjaðmagrindin afmyndast. Byock heldur því fram að Agli hafi verið kalt í ellinni vegna þessa sjúkdóms. Annað segja nú sérfræðingarnir: "The bone affected by Paget's disease also tends to have more blood vessels than normal. This causes an increase in the blood supply to the area, and as a result the area may feel warmer than usual". Læknisfræði er greinilega ekki sterkasta hlið Byocks og óskandi er að hann stundi ekki lækningar í aukavinnu, líkt og þegar hann gengur fyrir að vera fornleifafræðingur á Íslandi.
Í greinum þeim um verkefnið, sem birtar hafa verið opinberlega, er heldur ekki verið að skýra hlutina til hlýtar. Eins og til dæmis að tæmda gröfin að Hrísbrú sé undir vegg kirkjunnar sem þar fannst. Það þýðir að gröfin eða gryfjan er eldri en kirkjan sem samkvæmt kolefnisaldursgreiningu er frá því um 960. Kannski er erfitt fyrir bókmenntafræðing eins og Byock at skilja svona flókna hluti. Hann átti líka erfitt með að skilja grundvallaratriði í fornleifafræði árið 1995 og þurfti að hafa íslenskan fulltrúa sér innan handar. Mér skilst að þetta sé nú mest orðið norsk-bandarísk rannsókn og gerir Margrét Hermannsdóttir skiljanlega nokkuð veður úr því í grein sinni í Lesbók Mbls. 5.5.2007. Þegar sótt var um rannsóknarleyfi og fjárveitingar árið 1996 var greint frá því að samvinna yrði höfð við fáeina Íslendinga "for ethical reasons".
Hvað varðar fjármögnun rannsóknarinnar, var alveg ljóst frá byrjun, að Byock hafði báðar hendur niður í íslenska ríkiskassann. Hann greindi mér hróðugur frá því, er hann reyndi að fá mig með í rannsóknina, að Björn Bjarnason væri "verndari" rannsóknarinnar og hefði lofað stuðningi, tækjum, fæði og þar eftir götunum. Björn bóndi hefur greinilega ekki brugðist Byock og hafa eftirmenn hans á stóli menntamála verið álíka gjafmildir. Að Björn Bjarnason er meiri aufúsugestur á Hrísbrú en ég og kollegar mínir, sést á þessari og annari færslu í dagbókum dómsmálaráðherrans.
Þegar íslenskir fornleifafræðingar með doktorsgráðu geta ekki starfað við grein sína sökum fjárskorts og aðstöðuleysis og einn þeirra vinnur sem póstburðardýr í Danmörku, vantar mig orð yfir þá fyrirgreiðslu sem prófessor Byock hefur fengið á Íslandi til að leita beina persónu úr Íslendingasögunum. Eins og ég skrifaði í greinargerð minni árið 1995 um leit hans af Agli: "Það er í sjálfu sér sams konar verkefni og leitin af beinum Jesús Krists og gröf hans eða leitin að hinum heilaga kaleik (The Holy Grail)".
En riddari nútímans leitar ekki að gylltum kaleik eða brandinum Excalibur , heldur Agli Skallagrímssyni. Riddarinn heitir Byock og atgeir hans heitir "Spin and PR". Riddarinn er reyndar búinn að afneita sér þeim óþægindum sem það virðist vera að vera Bandaríkjamaður í brynju. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2004 (væntanlega á eðlilegri hátt en tendadóttir ráðherra umhverfismála um daginn). Hver veit, kannski er Byock líka orðinn tengdasonur eftir langa búsetu á íslandi. Hann er að minnsta kosti orðinn "fornleifafræðingur", en það geta víst nær allir kallað sig á Íslandi sem kaupa sér skóflu.
Gárungarnir segja mér, að næsta verkefni Byocks sé að leita uppi Loðinn Lepp. Nafnið eitt bendir eindregið til þess að þessi norski erindreki á 13. öld hafi verið með sjúkdóm, sem lýsir sér í óhemju hárvexti, ekki ósvipað og á þessum kappa:
Bloggar | Breytt 29.12.2007 kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 10:23
Leitin að beinum Egils (1. hluti)
Í gær birti kollega minn merka grein í Lesbók Morgunblaðsins. Ég frétti af grein Margrétar Hermanns-Auðardóttur gegnum Morgunblaðsbloggið. Við dr. Margrét erum kannski ekki lengur starfsfélagar, því hvorugt okkar hefur haft sérstaklega góð tök á því að vinna við fræðigrein þá sem við notuðum fjölda ára til að sérhæfa okkur í. Ég hef þurft að leita á önnur mið eftir að mér var vísað úr starfi og ég settur í ævarandi atvinnubann á Þjóðminjasafni Íslands (Það er víst einsdæmi á Íslandi). En Margrét hefur alla tíð verið útundan í greininni, einatt vegna öfundar og óskammfeilni ýmissa kollega hennar og aðila, sem hafa reynd að hefta framgang fornleifafræðinnar á Íslandi.
Grein Margrétar fjallar á gagnrýninn hátt um fornleifarannsóknir Jesse L. Byocks í Mosfellsdal; um leitina að beinum Egils Skallagrímssonar, rannsóknir á haugi hans; um kirkju þá sem menn telja að haugbúinn Egill hafi verið greftraður í eftir að haugurinn var rofinn, svo og rannsóknir á Mosfelli, þar sem bein kappans munu hafa verið flutt til hinstu hvílu.
Jesse L. Byock er ekki fornleifafræðingur, en hefur samt stjórnað fornleifarannsóknum á Íslandi í rúm 10 ár. Það sem Margrét Hermanns- Auðardóttir skrifar um rannsóknir hans í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins, get ég í alla staðið tekið undir. Hvet ég fólk til að ná sér í Lesbókina og lesa greinina gaumgæfilega. Þar er einnig hægt að lesa um vinnubrögð í Háskóla Íslands, sem eru fyrir neðan allar hellur.
Ég skrifaði 9 blaðsíðna greinargerð þegar umsókn um leyfi til rannsóknarverkefnisins "The Mosfell Archaeological Project"barst Fornleifanefnd árið 1995. Ég sat þá í Fornleifanefnd tilnefndur af Háskóla Íslands. Það varð uppi fótur og fit. Lektor einn í háskólanum kvartaði fyrir hönd Jesse Byocks til Fornleifanefndar (með bréfi og greinargerð) og til menntamálaráðherra, sem kallaði strax formann nefndarinnar á teppið. Formaðurinn reyndi svo með öllum mætti að fá mig til að draga greinargerð mína til baka. Ég neitaði, því hún stangaðist ekki á við neitt í Þjóðminjalögum. Ég var bara að vinna fyrir nefndarlaununum og ég sá líka óhemjumarga galla á umsókninni. Rannsókninni var síðan veitt leyfi og það reyndar gefið fornleifafræðingi er heitir Timothey Earle (sem ekki er lengur viðriðinn rannsóknirnar í Mosfellsdal), þar sem Byock uppfyllti ekki skilyrðin til að stjórna rannsókninni. Ég ákvað að sitja hjá við leyfisveitinguna. Í greinargerð minni frá 1995 sýnist mér, í fljótu bragði, að ég hafi reynst nokkuð sannspár.
Margrét telur Byock og starfsfélögum hans það til lasts, að þeir hafi ekki einu sinni vitnað í rannsóknir mínar á Stöng í Þjórsárdal. Það er líka rétt hjá Margréti. Það er ekkert nýtt eða neitt sem ég kippi mér upp við. Ég er harla vanur fræðilegri sniðgöngu eða að aðrir geri mínar uppgötvanir að sínum (mun ég skrifa um það síðar). Þegar Byock og aðstoðarmenn hans sóttu um leyfi til rannsóknanna árið 1995, var þó lögð áhersla á mikilvægi rannsókna í Mosfellsdal í ljósi niðurstaðna rannsókna minna á Stöng. Síðan þá hafa þær ekki verið nefndar á nafn af Mosfellsmönnum. Kirkjurústin á Stöng, sem ég hef ekki getað stundað rannsóknir á síðan 1995, er líklega frá svipuðum tíma og kirkjan á Hrísbrú sem Byock og félagar hafa rannsakað. Úr kirkjugarðinum á Stöng hafa bein verið flutt í annan kirkjugarð eftir ákvæðum Grágásar. Sjá Lesbókargrein um rannsóknina.
Ef menn hefðu tekið tillit til greinargerðar minnar frá 1995, þar sem ég fjalla t.d. um tilurð sögunnar um haug Egils í Tjaldanesi, hefðu þeir ekki fyrir nokkrum árum asnast til að grafa í náttúrumyndun, þar sem ekkert fannst nema ísaldaruðningur. Hvers kyns "haugurinn" í Tjaldanesi er, kom einnig fram við fornleifaskráningu Þjóðminjasafnsins á svæðinu árið 1980. Árið 1817 könnuðust lærðir menn ekkert við þennan haug, þegar Commissionen for Oldsagers Opbevaring var að safna upplýsingum um fornleifar, fastar sem lausar, á Íslandi. Haugurinn er því rómantískt hugarfóstur frá 19. eða 20. öld, eins og svo margt annað í tengslum við The Mosfell Archaeological Project. Verkefnið teygir vissulega rómantíkina í fræðimennsku fram á 21. öld.
Bloggar | Breytt 29.7.2010 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 13:15
Íslendingar í Mannréttindaráð SÞ - með stuðningi Hamas?
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra Íslands, hefur upp á síðkastið lagt mikla áherslu á tvennt í utanríkispólitík sinni (Framsóknarflokksins). Hún vill "eðlilegt samband" við Palestínumenn, þ.e.a.s. við Hamas samtökin, og hún vill að Ísland fái sæti í Mannréttindaráði SÞ.
Það síðastnefnda gæti örugglega valdið einhverjum smávandræðum, ef það fyrrnefnda verður að veruleika. Náið samband við Hamas, eins og Norðmenn hafa flækt sér í, gæti reynst dýrkeypt. Hinn Hermannski armur Framsóknarflokksins, sem ekki styður tilvist gyðinga og Ísraelsríkis, yrði þó ef til vill góð viðbót við hlægilegan bægslagang Mannréttindaráðsins, sem starfar að fullum krafti við að gagnrýna Ísraelsríki, en er hins vegar alfarið óstarfhæft þegar rædd eru þjóðarmorð, mannréttindarbrot og glæpir annars staðar í heiminum.
Forseti palestínska löggjafaþingsins, Sheik dr. Ahmad Bahar, talsmaður þeirra afla sem Valgerður vill hafa nánari sambönd við, sagði þetta hér á dögunum:
"Það er Íslam, sem var á undan tímanum hvað varðar mannréttindi við meðferð fanga, en þjóð okkar smitaðist af krabbameinskýli, þ.e.a.s. gyðingunum, i hjarta hinnar arabísku þjóðar..... Verið fullviss um að Ameríka er um það bil að hverfa, Ameríka veltir sér [í blóði] í Írak og Afganistan, Ameríka hefur verið sigruð og Ísrael er sigruð, og var sigruð í Líbanon og Palestínu... Gerðu okkur [Allah] sigursæl yfir hinum vantrúuðu...Allah, taktu gyðingana og bandamenn þeirra, Allah, taktu Ameríkanana og bandamenn þeirra ... Allah, teldu þá og dreptu þá allt til hins síðasta og skildu ekki einu sinni einn eftir".
Hlustaðu, Valgerður, og horfðu á bandamann þinn dr. Bahar, fara með dauðaþuluna. Eiga Íslendingar að vera talsmenn þessa mannréttindafrömuðs hjá SÞ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2007 | 16:27
Eru gyðingar vandamál fyrir Íslendinga?
Rétt fyrir páska á síðastliðnu ári var mér boðið á ráðstefnu um gyðingahatur á Akureyri. Það var mjög góð ráðstefna, en illa sótt, þótt nokkrir hefðu komið gagngert að sunnan til að vera með. Líklega er gyðingahatur ekki sérstaklega mikið vandamál á Akureyri þessa dagana. Og ef það kraumar þarna kringum Norðurhjaraakdemíuna, þá var allt svo gaddfreðið í höfuðstað Norðurlands í fyrra, að allar slíkar kenndir voru undir feldi eða bara inni í tölvum manna.
Fyrir utan stutt erindi um sögu gyðinga á Íslandi á 20. öld, dreifði ég dæmum um svæsin ummæli, sem ég hafði tínt saman. Ég hafði eina kvöldstund, áður en ég hélt til Akureyrar, safnað saman ýmsu, sem ég hafði fundið á veraldarvefnum og sem varðaði skoðanir landsmanna minna á gyðingum. Kannski eru menn bara gyðingahatarar á vefnum?
Síðast í dag rakst ég á eftirfarandi bút, sem er ritaður af menntskælingi sem var gefið skrifborð í lok síðasta árs, sem mér skylst að gyðingar hafi pissað á. Kannski er þetta ekki antísemítismi heldur slangur eða unggæðisrugl, og höfundurinn verður stílfræðilega að teljast til þeirra sem við latínunemar kölluðum exkremista í MH í gamla daga. Þetta á gjarnan við um menn kringum tvítugt, sem blanda úrgangi í allt. Doddi litli skrifaði við nýja skrifborðið sitt:
"Ég fékk skrifborð í dag. Sérleg Júðsk sendinefnd kastaði vígðu vatni sínu yfir það, svo andagift allra snillinga þessa glæsta kynstofns mætti leka úr þvagleifum þeirra gegnum húð mína til heilans, er ég sit við skriftir. Vegginn krýnir að sjálfsögðu mynd af Alla Einsteins, enda er hann uppáhaldsgyðingurinn minn. Gyðingar virðast skara fram úr á öllum sviðum, og ekki er laust við það að maður öfundi þá nett af snilli þeirra. En þannig er það, og fáum Íslendingum er fært að plægja annað en hið norræna moldarflag sem grimmúð heimsins hefur skenkt þeim."
Já mikið er nú oft erfitt að vera Íslendingur.
Bloggar | Breytt 3.5.2007 kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.4.2007 | 14:17
Eistnesk stjórnvöld gera mistök
Nú er hún farin styttan af Rauðliðanum í Tallinn. Hvað með öll minnismerkin um nasistana í þessa góða landi?
Vandamál Eistlendinga með fortíðina leysast ekki við að fjarlægja minnismerki um fallna hermenn Rauða Hersins við Tonismagi Torg í Tallinn.
Einn maður er nú fallinn í valinn og 44 menn særðir eftir að eistnesk yfirvöld gengu í skrokk á Rússum, búsettum í Eistlandi, sem mótmæltu (þó nokkuð dólgslega) niðurrifi minnismerkis um hermenn Rauða Hersins í höfuðborginni Tallin. Minnismerkið, sem er hermaður úr bronsi, var reist í minningu þeirra hermenna Rauða Hersins sem féllu í baráttunni við nasismann. Í Eistlandi búa 1,3 milljónir manna. 300.000 þeirra eru Rússar. Mörgum þeirra þykir vænt um þetta minnismerki og það er ekkert óeðlilegt við það. Hins vegar hefur eitt helsta baráttumál Þjóðernishægriflokks Eistlands, sem heitir Pro Patria, lengi verið niðurrif Rauðliðans. Nýnasistar hafa oft ráðist á minnismerkið.
Eistlendingar líða það hins vegar, að víðs vegar um land þeirra standi minnismerki um fallna SS-liða. Eistnesk yfirvöld hafa oft verið beðin um að fjarlæga ýmis nasistaminnismerki. Samtök gyðinga hafa gert það og fjöldi einstaklinga hefur haft samband við stjórnvöld út af þeim minnismerkjum. Stjórnvöld í Eistlandi svara venjulega ekki slíkum erindum. Eistlendingar hafa enn ekki fjarlægt minnismerki um nasista og nasistar og nýnasistar fara gjarnan í pílagrímsferðir til staða, þar sem slík meinnismerki er að finna. Þettur er ljótur blettur á þessu nýja NATO-ríki.
Eistlendingar verða að horfast í augu við veruleikann. Ef ekki, ættu þeir kannski að íhuga að reisa Evaldi Mikson styttu, þar sem rauðliðinn var. Mikson, eða Eðvald Hinriksson eins og hann hét á Íslandi, var einn af þeim Eistum sem börðust heiftarlega gegn Rússum, en fyrst og fremst gegn gyðingum. Hann var stríðsglæpamaður (samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegar nefndar), en mér skilst einnig að hann sé líka dálítil þjóðhetja meðal ákveðins hóps í Eistlandi. Jú, setjum bara Mikson á stall í Tallinn í stað Rauðliðans og hugsanlega vilja einhverjir Íslendingar vera viðriðnir það prójekt?
Toomas Ilves, forseti Eistlands, hefur kallað þá sem mótmæltu fjarlægingu Rauðliðans, glæpamenn. Undir minnismerkinu af Rauðliðanum voru einnig jarðneskar leifar rússneskra hermanna. Þær hafa sömuleiðis verið fjarlægðar. Ekki er vitað hvar þær eru niður komnar né minnismerkið.
Hér heiðrar George W. Bush minnismerkið og virðist líka það vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.4.2007 | 21:15
Tískan á þingi: Skuplur, hattar eða hárkollur?
Asmaa Abdol-Hamid langar í Folketinget
Útlendingahatarar í Danska Þjóðarflokknum hafa nú líkt slæðum og andlitsblæjum múslimakvenna við hakakross nasista. Hugmyndaflugið virðist líka mikið í þessum öfgahópi. Hvað ætli nasistar hafi minnt Dani á árið 1945? Kannski hina rómuðu samvinnupólitík og góð sölu á dönskum afurðum í stríðinu.
Kona nokkur, Asmaa Abdol-Hamid, sem fer í taugarnar á danska þjóðarflokknum þar sem hún er kappklædd á höfði, langar mjög á þing í Danmörku. Hún hefur reyndar ekki afrekað neitt sérstakt til þess, annað en að koma fram með klútinn sinn vafinn um hausinn í spjallþáttaröð í danska sjónvarpinu, þar sem framkoma hennar var afar leiðigjörn. Nú vill hún á þing fyrir Enhedslisten (Einingarlistann), sem er samansull af fólki úr ýmsum framliðnum flokkum á öfgavæng vinstrimennskunnar í Danmörku. Kommar í Danmörku vilja greinilega nota klúta, slæður og skuplur í kosningaslaginn. Þetta hefur farið farið fyrir brjóstið á einum flokkmanni í Enhedslisten. Hann heitir Benito Scocozza, og er hann sagnfræðingur og gamalreyndur jálkur á vinstrivængnum og jafnvel meiri marxisti en Marx sjálfur.
Í gær, 22. apríl, birti dagblaðið Politiken stutt bréf, þar sem Scocozza skrifar, að það geti verið að Danski Þjóðarflokkurinn ætli sér að hefja trúarbragðastríð ef Asmaa Abdol-Hamid verði kosin á þing með vafninginn um hausinn. En gamli komminn undrast hins vegar mjög "að Einingarlistanum geti dottið í hug að bjóða fram trúaðan flokksmann, sama hvaða trúabrögð hann aðhyllist. Það ætti að vera hlutverk sósíalísks flokks að hindra hina umfangsmiklu trúarhyggju sem gripið hafi um sig á síðustu árum".
Já, kannski hefur Scocozza rétt fyrir sér. Ópíum fólksins og allt það. En er tíma prestaveldisins ekki lokið í Evrópu?
Gætuð þið góðir landsmenn unað því ef kona með slæðu, sem fylgjandi væri sharía-löggjöf fyrir utan lög landsins okkar, yrði kosin til Alþingis? Væri hulinshettan hennar mannréttindi? Mér skilst að höfuðbúnaður múslimakvenna, í hvaða formi sem hann er, sé upphaflega ekki einu sinni trúarlegt tákn, heldur uppfinning karlrassgata sem lagt hafa eign sína á gjörvallt kvenkynið.
Mér sýnist að margir á Íslandi eigi bágt með að sætta sig við menn sem vilja á Alþingi og sem tala vart annað en sloraíslensku. Aðrir mega ekki ganga bindislausir meðan aðrir virðast fæddir með slíka hengingaról um hálsinn. Er þar um að ræða tísku eða fordóma?
Mér er svo sem alveg sama hvað konur og karlar hafa á hausnum, ef eitthvað bitatstætt er inni í honum. Hef heldur ekkert á móti stjórnmálamönnum með hárkollur, ef þeir afneita ekki "hairpísinu". En öðru máli gegnir um konur og karla, sem vilja setja mér skorður í nafni trúarbragða. Það á ekki samleið með lýðræðinu.
Ég verð að viðurkenna, að sjálfur geng ég mikið með amerískan eightpiece eða írskan newsboy. Hattarnir mínir eru eins konar trúarleg tákn. Ég trúi því nefnilega að enginn, jafnvel ekki Herran, sjái skallann minn þegar ég er með húfuna á hausnum. Eru hattarnir mínir ástæða þess að ég er ekki enn kominn á þing, eða er það vísitalan undir hattinum? Á ég að fá mér hárkollu eða kannski slæðu og sjá hvað setur?
Asmaa hin þingelska er líka miklu myndarlegri undir hvítu klæði en ég:
Amen í þetta sinn.
Bloggar | Breytt 24.4.2007 kl. 02:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.4.2007 | 18:05
Hommi og fráfallinn múslimur - getur það orðið verra?
Essam Ghonneim al-Attar fórnarlamb fordóma og haturs. Það er Essam sem er í miðjunni.
Essam Ghonneim al-Attar er hommi og fráfallinn múslimur. Fyrir það gæti Essam Ghonneim al Attar til dæmis átt yfir höfði sér steinkast öfgamanna í heimi múslima. Essam, sem er 31 árs bankastarfsmaður, hefur hins vegar verið dæmdur í 15 ára prísund við sýndarréttarhöld í Cairo. Sök hans er sögð vera, að hann á að hafa njósnað fyrir Ísraelsmenn. Það er nefnilega þriðja höfuðsyndin í heimi öfganna. Ísrael harðneitar þessum fráleitu og barnalegum staðhæfingum egypskra yfirvalda.
Essam var reyndar kominn með dvalarleyfi í Kanada fyrir nokkrum árum, vegna þess að mönnum þótti ljóst að hann, sem yfirlýstur hommi sem að auki hafði sagt skilið við Íslam, væri í mikilli hættu í heimalandi sínu. Þau réttindi, sem al-Attar hafði fengið í Kanada, virða egypsk stjórnvöld að vettugi.
Samkvæmt ákærunni á hendur Essam á hann árið 2002 að hafa hitt ísraelsmann í Tyrklandi. Ísraelinn "mun hafa snúið honum til Zíonisma og valdið því að hann hvarf frá Íslam". Greinilegt er að íslamistum er fúlasta alvara þegar þeir halda að hægt sé lokka menn til Zíonisma með hjálp homma.
Azzam Azzam, Drúsi, sem sat í átta ár í egypsku fangelsi fyrir meintar njósnir fyrir Ísraelsríki hefur tjáð sig um ástæðuna fyrir dóminum yfir al-Attar. Hann segir að hún sé byggð á "Hatri Egypta á Ísraelsríki og íbúum þess". Margir Íslendingar eru einnig haldnir þessu hatri. Adolf Hitler hataði einnig á svipaðan hátt.
Kæru landsmenn, sjáið þið ekki vitleysuna á þröskuldi menningarheims okkar? Íslenskir sauðabúskapspólítíkusar, sem vilja taka upp stjórnmálasamband við hryðjuverkasamtök í Palestínu, hljóta einnig að vera hrifnir af því sem yfir Essam Ghonneim al Attar hefur dunið. Vinstrimenn, sem fynnst sniðugt að hafa íslamista að bandamönnum, hljóta að fagna dóminum yfir Essam. Zíonistahommi og heiðingi á bara að vera í fangelsi.....
Ríkisstjórn Íslands verður að mótmæla þessum sýndarréttarhöldum, sem arabalöndin virðast hafa sótt til kommúnistalandanna sálugu. Hvar ertu nú Valgerður Sverrisdóttir? Ætlar þú ekki að mótmæla opinberlega?
Ég leyfi mér aftur að minna á Abdilkareem Nabil, sem ekki mátti blogga eins og við á Íslandi. Hann situr í fangelsi fyrir að hafa móðgað einræðisherrann í Egyptalandi á bloggi sínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
- Jón hinn óboðlegi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 91
- Frá upphafi: 1352312
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 58
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007