Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Friedman, hvar ertu?

 

Hérna áður fyrr í annálum, sem skrítnir karlar með gigt skráðu í moldakofum, var oft minnst á undur: Tvær sólir á himni, tvíhöfða hunda, áttfættan kálf og framandi dýr sem rak að landi, og sem ef betur er að gáð í dag reynast vera erlendir skipshundar. En í dag er aðalviðundrið á Íslandi hið íslenska efnahagsundur.

Ef dæma má út frá grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á bls. 24 i Fréttablaðinu í dag, á hið íslenska efnahagsundur sér þó alveg eðlilegar ástæður og Hannes telur, að við getum verið hreykin af kapítalistunum okkar. Sjá grein HHG: http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/070921.pdf eða hér http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/317826/

Ég hef fyrir venju að hreykja mér ekki af gerðum annarra, ekki einu sinni sigrum landsliðsins í fótbolta. Ég gleðst hins vegar yfir velgengi annarra, ef hún er byggð á góðum grundvelli. Vegna ættartengsla minna við Holland og þekkingar minnar á því hvernig kapítalisminn þróaðist og þróast enn í Niðurlöndum, er ég ekki eins fjálgur í að hreykja mér af velgengi landa minna í kapítalismanum eins og Hannes Hólmsteinn.

Ég var með fjölskylduna í Hollandi í síðustu viku fram í þessa. Þar tók ég vel eftir því að Hollendingar lifa enn eftir prinsippum 17. og 18. aldar um að aðhald skuli haft í anda Kalvíns, og öryggi og framsýni sem þeir lærðu best af portúgölsku gyðingunum og öðrum flóttamönnum sem tóku kapítalismann með sér eða fullþróuðu hann. Hvergi greiðir maður með greiðslukorti í Hollandi nema vera tékkaður í bak og fyrir, ekki einu sinni þótt það sé plátínukort. Hollendingar vilja helst seðla á borðið í míkróviðskiptum og helst einnig í makróviðskiptum.

Eftir að hafa skilið fjölskyldu mína eftir í kratahverfinu okkar í Danmörku, hélt ég til tímabundinnar vinnu minnar á  Íslandi. Það fór ekki fram hjá mér að margir farandverkamenn voru í flugvélinni, fyrir utan farandsveininn Bubba Morthens, sem var þó betur fataður en kollegar hans frá Póllandi. En eru pólskir lassarónar, sem raða sér fyrir utan flugstöðvarbygginguna og drekka fimm bjóra áður en einhver listrænn íslenskur "kapítalisti" kemur og sækir þá með eitt nafnnúmer fyrir 50 manns, sú "lífræna íslenska sköpun", sem Hannes Hólmsteinn skrifar um í merkri grein sinni í Fréttablaðinu í dag?

Einkavæðing er holl, en er einkavæðing á Íslandi alvöru einkavæðing? Ég leyfi mér að draga í efa að ör framsala á fyrirtækjum eða á hlut í fyrirtækum, sem bjargað hafa verið úr krumlu þjóðnýtingar, sé holl. Og þá skiptir mig engu máli hvort til hafi orði 370 milljarðar króna fyrir samfélagið.  Hreyfingar í íslenska efnahagsundrinu er býsna hraðar. Svo hraðar, að manni finnst maður vera í fjölleikahúsi þar sem einungis koma fram töframenn sem sérhæfa sig í hröðum bellibrögðum. 

Er fjármagnið orðið virkara en það var áður á Íslandi? Að sjálfsögðu. En virkt fjármagn er ekki endilega öruggt fjármagn og virkt fjármagn gæti skyndilega orðið ofvirkt, enda íslenska viðundrið aðeins lítil bóla á stærra viðundri, sem gæti lent í annálum fyrr en varir, ef einhver olíumógúll á sandhrúgu í suðurlöndum sýndist svo. Íslenskir kapítalistar eru líka greinilega fæstir í því að skapa auð í almenningsþágu. Sala á hlut í Icelandair nýlega sýnir að börn Framsóknarhyggjunnar eru söm við sig. Gamli sveitakapítalisminn lifir enn góðu lífi á Íslandi - eins og grein Lúðvíks Hermanns-Gizurarsonar undir grein Hannesar sýnir vel. Menn dreymir gamla daga.

Heavy stuff, these Icelandic economics


Sólarmegin í Auschwitz

  

Nýlega eru komnar í leitirnar myndir frá Síðari heimsstyrjöld, sem bandarískur dáti geymdi í fórum sínum þangað til í desember í fyrra. Myndirnar, sem eru 116 talsins, gaf hann nýlega U.S. Holocaust Memorial Museum i Washington. Myndirnar sýna hið ljúfa líf í útrýmingarbúðunum í Auschwitz í júnímánuði 1944, þegar útrýmingar voru flestar í búðunum.

Meðan hundruð og stundum þúsundir manna voru myrtar á hverjum degi nutu böðlarnir lífsins eins og ekkert hefði í skorist. Þarna hefur greinilega verið nóg af Mozart og Móselvíni, meðan að Felix Mendelssohn-Bartholdy var í banni. Það verður ekki skafið af germanskri menningu, hún hefur byggst upp á sterku fólki. Maður þarf að vera sterkur til að geta sýnt af sér það rólyndi sem myndin hér að ofan ljómar af, þegar maður er nýkomnir úr vinnunni þar sem þeir kæfðu nokkur hundruð gyðinga- og sígaunabörn með gasi. Ach mein lieber Augustin, sterkt fólk Þjóðverjar ....

Meðal þeirra sem sjást á myndunum sem nú eru komnar í leitirnar eru dauðalæknirinn Josef Mengele og foringinn Karl Höcker, sem andaðist í hárri elli árið 2000.

Hér http://www.ushmm.org/research/collections/highlights/auschwitz/ getið þið skoðað albúm Karls Höckers


Danskir dagar

  

Danir eiga ekki sjö dagana sæla þessa stundina. Ef það eru ekki Íslendingar sem kaupa ættarsilfur þeirra, þá sækir Al Quaeda að þeim.

Nyhedsavisen, blað í eigu Íslendinga, greinir frá því http://avisen.dk/alqaedahjemmeside-soeger-selvmordsbombere-danmark-190907.aspx, að það séu líka danskir dagar hjá hryðjuverkamönnum, sem ku leita eftir sjálfsmorðingjum til að gera usla í nafni Allah í Danmörku.

Eins og sumir Danir líta á sögu sína árin 1940-45 er væntanlega hægt að búast við því að margir þeirra taki vel á móti þeim sem vilja brjóta allt og bramla í landi þeirra. Sumir Danir eru nefnilega á þeirri skoðun að samvinnustefna þeirra við nasista hafi verið snilldarlegasta lausn Danmerkursögunnar.

Nú geta samvinnufúsir Danir haft samvinnu við Al Qaeda og bölvað og ragnað hættulegum Íslendingum í útrás. Kannski senda þeir Íslendinga úr landi, eins og gyðinga forðum?


Gluggasteinn

 Jóhanna túberuð

Ráðherrar eru líka myndefni í bókinni Gluggasteinn. Hér er verið að túpera Jóhönnu Sigurðardóttir í Ögri árið 1963.

Í dag leit ég í merka bók. Ljósmyndabókina Gluggastein, sem inniheldur 430 ljósmyndir sem sýna mannlífið í gamla Reykjafjarðar- og Ögurhreppi við Ísafjarðardjúp. Myndunum hefur safnað Sverrir Gíslason og sjálfur er hann höfundur margra þeirra.

Bókin lýsir mannlífinu á 20. öld á afar skemmtilegan og glettinn hátt. Þetta er einnig einstök þjóðlífslýsing. Bókin er vönduð, prentuð á góðan pappír og myndirnar njóta sín vel. Sumar myndirnar eru hrein meistarastykki.

Sverrir Gíslason hefur unnið merkt starf, sem margir munu geta notið góðs af.

Bókin kom út í ár hjá bókaforlaginu Gýgjarsteini og bókina er hægt að panta hjá Sverri Gíslasyni sjálfum í síma 4875631

 


Insula lapsa

Hrútey 

Kofinn á miðri myndinni var eitt sinn á Hrútey, bráðum liggur hann við þjóðveg 633

Anno Domini 2007, nánar tiltekið 9. september, fækkaði eyjum við Ísland um eina. Hrútey á Mjóafirði við Djúp, tengdist þennan dag landi þegar vegagerðamenn luku við granda sem þeir höfðu byggt með stórvirkum vinnuvélum út í eyjuna.

Þar sem mönnum er mikið til meinað að veiða þorsk úr sjó, eru í fjötrum kvóta og annars nútímakukls, sem er miklu hættulegra en galdrafár 17. aldar á Vestfjörðum, er gott að hafa góða vegi. Þegar vegagerðinni yfir Hrútey er lokið hafa sparast 28 km, sem menn á hraðleið í eða af Vestfjörðum þurfa annars að hlykkjast um Mjóafjörð.


Thorsóttur sannleikur

 RockwellCheck1Jul58No17

Mikil ósköp er það einkennilegt að láta eyða eða brenna bókum vegna þess að sannleikurinn hentar ekki.  Bókabrennur og eyðilegging á andlegri vinnu manna er síðasta skrefið á undan algerri óvirðingu fyrir manninum sjálfum. Nasistar brenndu bækur sem þeim líkaði ekki. Nokkrum árum síðar brenndu þeir lík fólks sem þeim líkaði ekki.

Fyrr í ár rakst ég á að hægt var að kaupa ávísun sem Þóra Hallgrímsson (Thors) borgaði með árið 1958, þegar hún var gift nasistanum George Rockwell. Ávísunin var upp á 7 dollara og 49 cent. Nú kostar hún 99$.  Allt verður greinilega að gulli sem um hendur Thorsaranna fer.

Skoðið ávísunina hér:

http://www.snyderstreasures.com/pages/rockwell.htm

Nú er ekki að vita nema að ávísunin verði keypt og rifin.


Síminn til ykkar

 

Í Reykjavík heyri ég að SÍMINN hafi þurft að farga annarri auglýsingu Jóns Gnarrs í röð helgispjalla hans fyrir Mammon á skjánum.

Auglýsing númer tvö gerist á Golgötu. Jesús er kominn á krossinn en heldur þó enn á myndsímanum sínum og skeggræðir við föður sinn. "Af hverju faðir?" hrópar Jesús.

Guð svarar: "Sonur, þeir leituðu að Júdasi og fundann ekki, svo ég benti þeim bara á þig".

Sannast sagna veit ég ekki hvað segja skal um auglýsingu Gnarrs fyrir Símann. Ég er enn að hlæja að því er Jesús segir með þóttasvip: "Við erum hér, hvar ert þú?". Ég er enn að hlægja að því hvernig menn hafa gefið Símanum ókeypis auglýsingu með því að tala um þetta rugl.

Þessi ógeðfellda saga, þar sem Júdas, gyðingnum, er kennt um að hafa selt meistara sinn í hendur Rómverja, er tímaskekkja.

Meginspurningin er í raun hvort síminn, sem er verið að selja í auglýsingunni, sé ekki líka tímaskekkja? Hann er langt á undan tímanum á Íslandi, þar sem enginn venjulegur Jón hefur ráð á honum, ekki einu sinni fyrir 30 silfurpeninga.

 

Siðareglur Símans

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband