Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kynning

Ljós í myrkri

Hinir hræðilegu atburðir í Virginíu í Bandaríkjunum setja menn hljóða. Best er ekki að velta fyrir sér hvað fékk ungan mann, stúdent frá S-Kóreu, til að fremja ódæðið. En maður getur ekki komist hjá því.  Ef til vill var það eigingirni á háu stigi. Var hann einbirni sem fékk allt það sem hann benti á, og þegar hann svo einn dag ekki fékk það sem hann vildi, gerðist hann óður?  Fólk sem fremur sjálfsmorð, en getur það ekki án þess að teyma aðra með sér í dauðan, er eigingjarnt.

En ef ekki hefði verið hægt að nálgast vopn eins og sælgæti í BNA, hefði þessi atburður líklega aldrei átt sér stað. Bandaríkjamenn verða nú að fara að gefa ákveðnar hefðir upp á bátinn.

Í öllu fréttaflæðinu frá Virginia Tech háskólanum hef ég lesið eina frásögn, sem lyftir mannlegum anda. Það er frásögning af hetjudauða ísraelska prófessorsins Liviu Librescu, sem kastaði sér fyrir kúlnaregn morðingjans eftir að hafa skipað nemendum sínum að flýja. Engir nemenda hans munu hafa látist. Sjálfur missti Librescu fjölskyldu sína í Helförinni. Hægt er að lesa meira um hann á vefsíðu Jerusalem Post

Librescu

Prófessor Librescu og sonur hans, sem í dag greindi frá hetjudauða föður síns í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð.

 


Konungskoman 1921

Konungssýningin 1921 ÍR.little

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Konungskoman 1921 hefur alltaf leikið stórt hlutverk í lífi mínu. Þá stökk afi minn yfir hest og lék listir á þverslá fyrir hans hátign Kristján X. Þetta var á Konungssýningunni 3. júlí. Afi var í  ÍR  og fékk medalíu fyrir. Hana hef ég erft og geymi með öðrum gersemum. Það er danskur silfurpeningur sem hefur verið slípaður niður á bakhliðinni og þar hefur verið grafið Konungssýningin 1921. Á framhlið er vangamynd Kristjáns X. Kóngsi mun sjálfur hafa nælt medalíuna á afa og félaga hans. Stór dagur í lífi hans, sem ég heyrði oft um þegar ég var lítill. Myndin hékk líka alltaf á vel völdum stað í íbúðinni hans.

Afi minn, Vilhelm Kristinsson, er 4. frá vinstri í aftari röð á myndinni, sem ég geymi fyrir komandi kynslóðir. Afi bjó lengi að þeirri fimi, sem han þjálfaði í ÍR. Þótt hann væri í góðum holdum síðar á ævinni, gat hann staðið og gengið á höndum á sjötugsaldri og reyndi að kenna mér það. Það tókst aldrei að læra, enda hef ég ekki erft líkamlegt atgervi móðurafa míns á neinn hátt.

Ýmsir heiðursmenn voru í fimleikum með afa. Þar á meðal Benedikt G. Waage, Björn Ólafsson í Coca Cola, Ósvaldur Knudsen, Tryggvi Magnússon, Harald Aspelund, og þjálfari þeirra var að sjálfsögðu kempan Björn Jakobsson.

Og já, ÍR á 100 ára afmæli í ár. Til hamingju! Því miður er ekki lengur fimleikadeild í ÍR.


Léleg pápíska

Bálköstur kirkjunnar2

Páfagarður neitar að taka þátt í minningardeginum um helför gyðinga í Helfararsafninu (Yad Vashem) í Jerúsalem á morgun, á Yom Hashoah, minningardegi gyðinga um Helförina. Sendiherra Vatíkansins, erkibiskupinn Antonio Franco, ætlar að sniðganga sýninguna í safninu, þar sem þar er að finna mynd af Píusi XII. páfa, og greinargerð um það sem hann aðhafðist í stríðinu, eða réttara sagt það sem hann ekki aðhafðist til að reyna að bjarga meðbræðrum sínum. Franco neitar að vera viðstaddur ef myndin verður ekki fjarlægð.

Það verður að segja það eitt skipti fyrir öll: Kaþólikar verða að læra af sögunni eins og aðrir. Það er ekki hægt að fá fyrirgefningu syndanna í litlum kústaskáp í kirkunni fyrir meðferð kirkjunnar á gyðingum. Páfar eins og Píus XII. eru ekki, og verða aldrei, dýrðlingar. Píus XII. var raggeit. Mikill fjöldi kaþólskra presta, biskupa og erkibiskupa höfðu náin samskipti við nasista. Hann átalaði það ekki. Píus hefði getað leikið lykilhlutverk til þess að bjarga ættmennum Jesús. Það gerði hann ekki. Kaþólska kirkjan gæti hafa leikið lykilhlutverk við að koma morðingjunum fyrir dómsstóla. Kirkjan var hins vegar öflugust í að skaffa þeim farmiða til Suður-Ameríku og á aðra felustaði.

Vatíkanið verður tafalaust að opna skjalasöfn sín varðandi 2. Heimsstyrjöld. Vatíkanið verður að opna skjalsöfn með upplýsingum um gyðinga, sem páfagarður ofsótti gegnum árhundruðin. Það er í raun óskiljanlegt að þetta þurfi að segja heilagri stofnun suður í Róm á öndverðri 21. öld.  En hún er greinilega uppteknari af því að segja fólki í Afríku að nota ekki smokka.

Það er líklega margt ljótt að finna í skjalabúnkum Páfagarðs. En er ekki kominn tími til þess að kaþólska kirkjan komi út úr skriftarstólnum og viðurkenni syndir sínar og geri það sama sem hún skipar litla manninn að gera?


Fast Vegabréf á Völlinn

Fast Vegabréf á Völlinn

Áður en ég fæddist bjó karl faðir minn um tíma í Keflavík. Ekki var hann þó Keflvíkingur, en hann fékk ekki lán í banka nema að hann lofaði að reka heildverslun sína í Keflavík. Bankastjórinn, sem setti þær einkennilegu reglur, hafði eitt sinn verið í íslenska nasistaflokknum og honum leist víst ekkert á föður minn.

Pabba líkaði dvölin í Keflavík vel. Tók herbergi og bílskúr á leigu downtown, en eyddi líka miklum tíma á Vellinum, enda átti hann þar marga vini með svipaðan bakgrunn og hann. Hann fór þó öðru hvoru í rútu til Reykjavíkur, enda verðandi mamma mín þar, og þar þurfti hann að skipa upp innflutninginum og koma honum í búðir í Reykjavík.

Pabbi var svo tíður gestur á Keflavíkurflugvelli að hann fékk Fast Gestavegabréf Nr. 10. Vænti ég þess að Bjarni Ben og aðrir gestir á Vellinum hafi einnig átt Föst Gestavegabréf með lægri númerum en pabbi.  Kannski á Björn dómsmálaráðherra enn skjöld föður síns og eins ánægulegar minningar og ég frá Vellinum. Kannski á Björn sjálfur svona skjöld?

Síðar, þegar ég var ungur drengur, kom ég mikið með pabba upp á Völl, stundum hálfsmánaðarlega. Það voru menningarlegar ferðir.

Mér er sérstaklega minnisstæð ein heimsókn. Við fórum þá með eldri manni, sem hét Schuster, til að skoða rússneskar flutningavélar, sem leyft hafði verið að millilenda á Íslandi á leið til og frá Kúbu. Við komumst mjög nærri vélunum og viti menn Rússarnir komu og voru hinir vinalegustu. Einn þeirra hafði greinilega gaman af börnum og gaf mér og öðrum dreng nokkur merki. Ég fékk t.d. littla brjóstnál með mynd af Lenín sem dreng. Prjón þennan hélt ég mikið upp á og kenni honum oft um að ég gerðist sósíalisti um tíma. Ég notaði hann einnig sem vopn: Í MH kenndi ungliði úr Heimdalli mér um að ég hefði rænt honum og fært hann suður í Straum með valdi. Hann ásakaði ýmsa um það sama, áður en hinir einu sönnu glæponar fundust. Ég tók þetta stinnt upp og stakk Lenín prjóni mínum í þjó Heimdellingsins. Síðar var þessi góði maður, sem ég stakk með Lenín, m.a. lögreglumaður á Seltjarnarnesi, lögfræðingur og eigandi súludansstaðar, áður en hann var allur. Blessuð sé minning hans.

Ég á ekki lengur Lenín nálina, en tel víst að ég hafi náð henni úr rassi Heimdellingsins. Var hún lítið notuð eftir það. Vegabréf pabba á Keflavíkurflugvöll geymi ég hins vegar eins og annað erfðagóss, sem ég mun kannski segja sögur af seinna.

Lenín-nál með blóði súludansstaðareiganda hefði nú heldur ekki verið kræsilegur minjagripur. En kannski hefði Heimdallur þegið hann fyrir smáþóknun?


Seiðahirðirinn í Auschwitz

Seiðamaður í Auschwitz

Sumir af bestu vinum mínum eru Pólverjar. Ég á að 1/32 hluta eða svo ættir að rekja til Póllands. Bestu vinir mínir frá Póllandi eru reyndar gyðingar, sem flýðu vegna gyðingahaturs í Póllandi kómmúnismans. Á Hvítasunnudag mun ég halda erindi í félagi þeirra í Kaupmannahöfn um rannsóknir mínar á sögu pólskra gyðinga, sem Danir komu fyrir kattarnef í Seinni Heimsstyrjöld. Sumt af því fólki sem þar mætir til að hlusta á mig, hefur sjálft lifað hörmungarnar af en misst bróðurpart ættgarð síns í morðæðinu fyrir rúmum 60 árum.

Í þau skipti sem ég hef verið í Póllandi hefur erindið fyrst og fremst verið að heimsækja útrýmingarbúðir. Ég hef því ekki gert mikið í því að kynnast landi og þjóð. Bæti úr því síðar.

Haustið 2001 var ég í Auschwitz, í heilan dag.

Þá gekk ég ásamt Jacques Blum talmanni gyðingasafnaðarins í Kaupmannahöfn fram á manninn hér að ofan. Hann var að ná í fiskiseiði, sem hann var að ala í rústum kjallara í Auschwitz Birkenau. Rústin, sem hann notaði til þess arna, hafi eitt sinn verið kjallari undir húsi í þeirri deild búðanna, þar sem sígaunar voru hýstir áður en þeir voru myrtir. Síðar var þessi hluti svæðisins einnig notaður fyrir gyðinga.

Þegar maðurinn sá áhuga minn á athæfi hans, sem eg festi á filmu, flýtti hann sér að taka saman föggur sínar, setti fötu með seiðum sínum á rautt bifhjól og brunaði út úr búðunum.

Nokkrum árum síðar bar ég þessa einkennilegu iðju mannsins undir ráðamenn safnsins í Auschwitz. Þeir fengu algjört " szczschockk " þegar þeir sáu kauða og iðju hans í miðjum útrýmingabúðunum. Vonandi er búið að stöðva manninn og framtak hans í dauðabúðunum. En hugsanlega er enn verið að bjóða upp á reyktan silung a la Auschwitz í nágrenninu.

Virðingarleysi? Það finnst mér. Hvað finnst ykkur?

 


The French Connection?

Eglise_Hallgrimskirkja

Icelandic design

douaumont2

French design

Þeir sem að Kristí krossi senn

komu og fram hjá gengu,

hristu með háðung höfuðin,

honum til brigslis fengu,

heitorð sín hefði hann haldið lítt,

herrans musteri að brjóta,

á þremur dögum annað nýtt

efna með bygging fljóta.


Álsagan er ljót

 Aluminium hælar

Þessir forljótu tjaldhælar þýska nasistahersins úr áli minna mig á söguna um Hitler og Göbbels sem fóru í útilegu. Þegar þeir fóru að tjalda sagði Göbbels:"hæl Hitler, hæl Hitler, hæl Hitler, hæl Hitler....". Ætli álið í hælunum hafi verið framleitta af fyrirtækjum sem síðar hvörfuðust inn í þann risa sem Hafnfirðingar höfnuðu í gær?

Í gær sigraði naumur meirihluti Hafnfirðinga yfir ALCAN. Ég verð að hæla Hafnfirðingum fyrir þetta afrek.

Í gær greindi ég frá viðskiptum álrisans ALCOA við nasista í Seinni Heimstyrjöld. Það virtist fara fyrir brjóstið á ýmsum.

En fleiri álrisar undu vel hag sínum í viðskiptum við Þriðja Ríkið. Mörg svissnesk fyrirtæki stofnuðu leppfyrirtæki í Þýskalandi, til að geta haldið áfram rekstri sínum þar í "hlutleysi" lands síns. Meðal þessarra fyrirtækja voru Nestlé, ABB Ltd. (Brown Boweri & Cie), og Swiss Aluminium Industrie AG (AIAG), sem síðar gekk undir nafninu Algroup/Alusuisse Group AG (ALIG), sem keypt var af kanadíska fyrirtækinu ALCAN. Verksmiðjur Alusuisse voru m.a. í Martinswerk i Bergheim, í Singen og Lonza. Álrisarnir eru búnir að "friða samviskuna" með því að lofa að borga skaðabætur, en maður heyrir sjaldan um fórnarlömb sem hafa notið góðs af því.

Árið 2001 kom út merk svissnesk skýrsla sagnfræðinganefndar undir stjórn Jean Francois Bergiers. Í henni er hægt að finna upplýsingar um að leppfyrirtæki fyrrgreindra og annarra svissneskra fyrirtækja í Þýskalandi hafi notast við þræla; Fólk sem nasistar fluttu nauðugt til að vinna í þýskum iðnaði. Sum svissnesk leppfyrirtæki notuðu meira að segja þræla frá Auschwitz.

Næst þegar þið "búið til súpu" úr MAGGI pakka, getið þið minnst þess að Maggi var leppfyrirtæki Nestlés í þýska ríkinu. Súpur þessar hituðu morðingjum nasista. Rétt áður en Bandaríkjaher nálgaðist þetta þrælasúpufyrirtæki árið 1944, var hakakrossfáninn dreginn niður og að húni var dregið svissneska flaggið, blóðrauðugt með hvítan kross.

Álsagan er því miður blóðug! munið það Hafnfirðingar! Og þótt breski herinn hafi leitað uppi og skráð nasista í bæ ykkar árið 1940, var þar afar lítið að finna af ljótum körlum á við það sem svissneskur iðnaður lumaði á.

Ég hvet nú yfirvöld í Hafnafirði til að hefja alvöru rannsókn á tíðni krabbameinstilfella og annarra alvarlegra sjúkdóma meðal starfsmanna ALCAN (ALÍS/Alusuisse). Einnig væri spennandi að fá að vita hvað sumir af þýsku frumkvöðlunum í Straumsvík voru að gera í verksmiðjunum í Bergheim og Singen í Seinni Heimsstyrjöldinni.

 


mbl.is Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jesús - 485.460 kaloríur

chocolate-jesus-lg

 

Súkkulaði Kristur í Nýju Jórvík, sem kaþólskir telja til helgispjalla, og sem ég sagði frá í gær, er ekki meira né minna en 480.000 kaloríur. Hvort einhverjir leggja sér meistarann til munns um Páska veit ég ekki, en þá verða þeir að vara sig, því að hann inniheldur 7020% meira af kólestróli en hollt þykir í daglegan skammt manns. Ekkert C vítamín er í Kristi.

"Maður lifur ekki á súkkulaði einu saman" ....  Það get ég alveg.


Súkkulaði Kristur

My sweet Lord

Allt er að verða vitlaust í heimi kaþólskra, því að stytta af Kristi krossfestum verður afhjúpuð næstkomandi mánudag í New York.  

Styttan er eftir matarly(i)stamanninn Cosimo Cavallaro, og er hún alfarið búin til úr gæðasúkkulaði. Þykir kaþólskum það miður. Líkami og blóð Krists er, eins og kunnugt er, étið í miklum mæli í formi obláta og víns, en súkkulaði hefur hingað til ekki verið notað mikið sem sakramenti.  Ekki einu sinni í Sviss. 

Talsmaður pápískra, Bill Donohue, segir að Súkkulaði Kristur sé alversta móðgun við kristna menn frá fæðingu meistarans. Eins og dönsk Múhameðsteikning.

Það sem mest fer fyrir brjósin á Donohue er að hlutföll öll á Súkkulaði Kristi eru rétt og mun hann einnig vera umskorinn og líkur gyðingi.

En hvaða mórall er þetta? Það er ekkert nýtt undir sólinni. Jesús súkkulaði hefur verið selt í áraraðir.

Hvað með svona oblátur í íslenskar kirkjur? I am Cerious, Nói!

GLEÐILEGA PÁSKA

Choko Christus

 


Falskir Íslendingar í Þýskalandi árið 1936

Eismenschen

Árið 1936 steig á fjöl frekar fölleitur leikflokkur í München. Leikflokkurinn kom fram á mörkuðum, kabarettum og á leikvöngum á Oktoberfest, þar sem þeir klæddust eins konar fornaldarklæðum. Íslenskur læknir, Eyþór Gunnarsson (1908-69), (afi Péturs súperbloggara Gunnarssonar), sem um þessar mundir var staddur í Þýskalandi, nánar tiltekið við nám og störf á eyrnadeild Háskólans í München, brá sér á kabarett og sá sýningu þessarra listamanna. Eyþór Gunnarssyni ofbauð sýningin svo, að hann fór daginn eftir í danska konsúlatið í München og setti fram kæru vegna þessa hóps loddara sem sögðu sig vera Íslendinga.

Dr. Eyþór greindi frá því að flokkurinn kallaði sig “Eismännschen” (sem má víst útleggjast sem ísdvergar). Hann lýsti listamönnumum sem stríhærðu fólki með rauðleit augu. “Die ganze Aufmachung und die Primitivität der Darbietungen ist geeignet, bei den Zuschauern das isländische Volkstum herabzuwürdigen” var haft eftir íslenska lækninum. Ræðismaðurinn danski lét þegar rannsaka málið og skrifaði skýrslu, sem send var danska sendiráðinu í Berlín og utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn.

Rannsóknin leiddi í ljós, að um var að ræða 6 manna hóp og fékk ræðismaðurinn mynd af hópnum. Í ljós kom einnig að hópurinn kallaði sig ekki Eismännschen heldur Eismenschen (Ísfólk). Á kynningarspjaldi var sagt að hópurinn kæmi frá “Islands hohem Norden”. Kynnir sýningarinnar tilkynnti hins vegar, að hér væri á ferðinni “blómaviðundur” frá Reykjavík. Það kostaði 10 pfenniga að sjá sýninguna. Ræðismaðurinn lét sig hafa það. Hópurinn kom svo fram á einföldu sviði og lék “Sunnuleiki” (Sonnenspielen), þar sem töfruð voru fram blóm svo að lokum varð úr blómahafinu Reykvískur blómagarður.

Eftir showið spurði ræðismaðurinn fyrirliða hópsins, hvort hann eða aðrir meðlimir væru í raun Íslendingar. Sagði fyrirliðinn, að foreldrar hans og forfeður hefðu verið Íslendingar, en að hann væri sjálfur Austurríkismaður. Hann bætti því við að allir í hópnum væru albínóar. Er kynnir sýningarinnar var spurður um uppruna hópsins, fór hann í fyrstu undan í flæmingi, en sagði að lokum að maður mætti ekki búast við neinni þjóðfræðilegri sýningu – það sem boðið væri upp á væru “Listir frá Norðurhöfum”.

Ræðismaðurinn, sem greinilega hefur brosað út í annað munnvikið þegar hann skrifaði skýrslu sína, bætti við: “Sýning þessarra albínóa gæti vel hugsast að gefa áhorfendum með litla þjóðmenningarlega þjálfun ranghugmyndir, en hins vegar verður að líta þannig á málið, að það er mjög lítill trúverðugleiki í sýningunni og að hana ber frekast að flokka undir töfrasýningu. Ræðismaðurinn lauk bréfi sínu til sendiráðsins í Kaupmannahöfn með því að skrifa: “Skylduð Þér, þrátt fyrir það sem fram er komið, óska eftir því að ég hafi samband við tilheyrandi yfirvöld hér í bæ, þætti mér vænt um að fá skeyti þar að lútandi”.  H.P. Hoffmeyer í danska sendiráðinu taldi ekki neina þörf að eyða meiri tíma ræðismannsins í erindi Eyþórs Gunnarssonar, sem mógaðist yfir blómasýningu sex albínóa í München árið 1936.

Þetta á ekki að verða lærð grein, en þess má þó geta, að albínóar þóttu gjaldgeng viðundur fyrir sýningaratriði í fjölleikahúsum fyrr á tímum. Hér að neðan er mynd af “hollenskri” albínóafjölskyldu, Lucasie, sem sagðist vera komin af negrum frá Madagaskar. Hið rétta var að herra Lucasie var frá Frakklandi, kona hans frá Ítalíu og sonurinn var fæddur í Hamborg. Hinn heimsþekkti bandaríski sirkusmaður Phineas Barnum, flutti þau með sér til Bandaríkjanna árið 1857. 

Allar frekari upplýsingar um austurrískan albínóna, son íslenskra hjóna, eru hins vegar vel þegnar.

 

Fam. Lucasie


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband