Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Bækur seljast ekki í gettóum

Bækur seljast ekki í gettóum

" Það er erfitt að selja bækur þessa dagana ". Þannig skrifaði Franciszka Glücksman syni sínum, sem var strandaglópur í Kaupmannahöfn 1939-1941. Þegar Franciszkca Glücksman skrifaði þetta, var hún fangi í gettóinu í Warsjá. Sonur hennar, sagnfræðingurinn dr. Stefan Glücksman, hafði farið á námskeið í dönsku í Kaupmannahöfn. Þegar Hitler og herir hans réðust á Pólland, var ekki lengur mögulegt fyrir Stefan að snúa aftur til Póllands. Stefan skrifaðist á við fjölskyldu sína í Warsjá, sem hann hafði miklar áhyggjur af. Til þess að móðir hans og systir, Wanda, gætu lifað af, bað hann þær meðal annars að selja allar bækurnar sínar.

En bækur seljast ekki vel í gettóum eins og kunnugt er. Matur er vinsælli. Bækur á sérfræðisviði Stefans, siðbótinni í N-Evrópu og tengslum Póllands við Norðurlönd, voru kannski ekki það sem eggjaði mest í gettóinu 1940-42.

Stefan Glücksman fylgdist úr fjarska með versnandi hag fjölskyldu sinnar í Warsjá. Þegar hann hafði verið hnepptur í varðhald danskra yfirvalda, sem reyndu að fá Þjóðverja til að taka við honum, fékk hann danska vini síni til að senda matarpakka til móður og systur. Stefán var vísað úr landi í Danmörku í hendur böðla sinna í lok janúar 1941. Hann var myrtur í fangabúðunum Gross Rosen í Póllandi í nóvember sama ár. Matarpakkar frá Danmörku framlengdu líklega lífið fyrir móður hans og systur. Síðasta lífsmark frá þeim barst á kvittun fyrir móttöku matarpakka, sem þær fengu í hendur vorið 1942. Sumarið 1942 voru þær að öllum líkindum myrtar í útrýmingabúðunum í Treblinka ásamt öðrum ættingjum og þúsundum annarra gyðinga, sem smalað var í lestarvagna og fluttar í dauðaverksmiðju nasismans (systur kommúnismans) í Treblinka.

Barátta Stefan Glücksmans og fjölskyldu hans er efni næstu bókar minnar. En bækur um gyðinga, sem dönsk yfirvöld vísuðu úr landi í Seinni Heimsstyrjöld, eru ekki vinsælar. Danir kaupa frekar matreiðslubækur og Kóraninn. Ef til vill er Danmörk orðið að einu allsherjar gettói, þar sem erfitt er að selja bækur.

Bók mín Medaljens Bagside, sem enn er hægt að kaupa, varð því miður ekki að neinni metsölubók, þótt hún sé lánuð grimmt á bókasöfnum. Þrátt fyrir allar spár og aðgerðir útgefanda míns og þrátt fyrir mjög góða ritdóma og mikla umræðu, seldist hún dræmt. Bókin kom út rétt fyrir 60 ára afmæli stríðslokanna í Danmörku. Fjöldi bóka um stríðið kom út á sama tíma. Kannski var þetta bara Bad timing? En þrátt fyrir að bók mín yrði ekki metsölubókin meðal allra þeirra bóka, fékk hún mesta umræðu stríðsárabókanna í fölmiðlum. Aðrir kollegar mínir hafa heldur ekki komist á metsölulistann. En ég bjóst nú heldur ekki við því að bókin myndi seljast. Þar réði bjartsýni útgefanda míns, sem væntanlega mun gefa út ævisögu Halldórs Guðmundssonar um Laxness á þessu ári.

Ég held að bókin mín fjalli um efni, sem Danir vilja helst ekkert heyra mikið um. Bók sagnfræðingsins og embættismannsins Bo Lidegaards, sem er hástemmt lofrit er mest fjallar um nauðsyn og snilli þess að Danir höfðu nána samvinnu við nasista, sér og sínum til bjargar, varð eina metsölubókin í þessum stríðsárageira árið 2005. Danir vilja greinilega heyra hvað snjallir þeir voru í samvinnu sinni við nasista. Verði þeim að góðu.


Frönsk áhrif á Skólavörðuholtinu?

Hallgrímskirkja 

Eftir að ég birti myndir af Hallgrímskirkju og kapellunni í Douaumont i Frakklandi í gær, hefur Guðmundur Magnússon, fyrrv. þjóðminjavörður með meiru, bent mér á að Morgunblaðið hafi birt mynd af beinakapellunni í Douaumont í Frakklandi árið 1936. Er ekki líklegt að Guðjón Samúelsson hafi séð þessa mynd eða lesið um kappelluna í tímaritum.

Ef til eru betri fyrirmyndir, eða aðrar skýringar, þætti mér vænt um að fá upplýsingar.


Seiðahirðirinn í Auschwitz

Seiðamaður í Auschwitz

Sumir af bestu vinum mínum eru Pólverjar. Ég á að 1/32 hluta eða svo ættir að rekja til Póllands. Bestu vinir mínir frá Póllandi eru reyndar gyðingar, sem flýðu vegna gyðingahaturs í Póllandi kómmúnismans. Á Hvítasunnudag mun ég halda erindi í félagi þeirra í Kaupmannahöfn um rannsóknir mínar á sögu pólskra gyðinga, sem Danir komu fyrir kattarnef í Seinni Heimsstyrjöld. Sumt af því fólki sem þar mætir til að hlusta á mig, hefur sjálft lifað hörmungarnar af en misst bróðurpart ættgarð síns í morðæðinu fyrir rúmum 60 árum.

Í þau skipti sem ég hef verið í Póllandi hefur erindið fyrst og fremst verið að heimsækja útrýmingarbúðir. Ég hef því ekki gert mikið í því að kynnast landi og þjóð. Bæti úr því síðar.

Haustið 2001 var ég í Auschwitz, í heilan dag.

Þá gekk ég ásamt Jacques Blum talmanni gyðingasafnaðarins í Kaupmannahöfn fram á manninn hér að ofan. Hann var að ná í fiskiseiði, sem hann var að ala í rústum kjallara í Auschwitz Birkenau. Rústin, sem hann notaði til þess arna, hafi eitt sinn verið kjallari undir húsi í þeirri deild búðanna, þar sem sígaunar voru hýstir áður en þeir voru myrtir. Síðar var þessi hluti svæðisins einnig notaður fyrir gyðinga.

Þegar maðurinn sá áhuga minn á athæfi hans, sem eg festi á filmu, flýtti hann sér að taka saman föggur sínar, setti fötu með seiðum sínum á rautt bifhjól og brunaði út úr búðunum.

Nokkrum árum síðar bar ég þessa einkennilegu iðju mannsins undir ráðamenn safnsins í Auschwitz. Þeir fengu algjört " szczschockk " þegar þeir sáu kauða og iðju hans í miðjum útrýmingabúðunum. Vonandi er búið að stöðva manninn og framtak hans í dauðabúðunum. En hugsanlega er enn verið að bjóða upp á reyktan silung a la Auschwitz í nágrenninu.

Virðingarleysi? Það finnst mér. Hvað finnst ykkur?

 


Óskir um skjótan bata fyrir Dorrit

 Skiltið2

Í gær sá ég Forsetann í sjónvarpinu segja frá slysi konu sinnar í harðfenni í Colorado og frá gróðurhúsaáhrifum. Gott að Dorrit var með hjálm! Verra með jöklana sem brotna og bráðna.

Gróðurhúsaáhrifin eru svo gríðarlega þessa dagana, að allur snjór er nú bráðnaður í Aspen, og skiltið sem lenti í árkstri við forsetafrúna er komið á minjaskrá Colorado-fylkis.

Skiptar skoðanir eru þó um, hvort þetta er í raun skiltið sem Dorrit brunaði á. Aðrir sérfræðingar halda því fram, að skiltið sé enn á kafi í snjó og líti svona út:

Skiltið


Myndir frá vígavöllum

Enginn virðist vilja kommentera franska móður Hallgrímskirkju, hér á undan. Þið um það. Ég held að þetta sé arkitektónískt skúp. Guðjón Samúelsson varð fyrir áhrifum.

Ekki býst ég við að athugasemdirnar verði fleiri við þessar myndir frá hinum stóra vonda heimi, sem Íslendingar upplifa sjaldan á eigin líkama. Myndirnar eru að mínu mati bestu fréttamyndir ársins 2006.  Þetta eru eins og endurreisnarmálverk. Sterka gyðingakonan í Gaza, sem heldur fjölda lögreglumanna í skefjum og ríkir krakkar í Beirút á rúntinum á rústum slömmsins. Klikkið á myndirnar til að sjá þær stærri.

Sterka konan

 

Á rúntinum í Beirut


Jesús Jósefsson

Nýlega kom út ”páskabók” í Danmörku eftir lækninn Niels Svensson. Bókin, sem ber heitið Det sande ansigt, fjallar um líkklæðið í Jóhannesarkirkju í Torino. Svensson er meðlimur í alþjóðlegum félagi kristinna manna, sem helst vilja trúa því, að það sem hefur myndast á líkklæðinu í Torino sé sjálfur Meistarinn frá Nazaret.

Ýmsar myndir af Jesú hafa fests á nethimnu manna. Við þekkjum vestfirska sjómanninn á íslensku altaristöflunum. Guðmundur Jaki sat fyrir hjá Einari Jónssyni. Einari þótti skriffinnskufingur Jakans tilvaldir þegar hann var að skapa hendur meistarans. Einar ku annars hafa haft Torinoklæðið að fyrirmynd þegar hann mótaði andlit Krists. Þetta sýnir okkur að klæðið er miklu eldra en Guðmundur Jaki.

Bók Svenssons er afar yfirborðskennd. Hann sniðgengur marga hluti og fer ekkert inn á það sem ég tel afsanna á afgerandi hátt, að það sé negatívan af Jesú, sem sé að finna á línstranganum í Torino.

1)       Ef maður málar andlit sitt með einhverjum smitandi lit, leggur sig, og leggur klæði yfir og lætur það falla eins og líkklæði, pressar dálítið á allar hliðar andlitsins og skoðar svo þrykkimyndina. Hver er útkoman? Spegilmynd þín? Nei aldeilis ekki. Það sem fram kemur er útflatt hringlaga andlitsmynd. Ekkert í líkingu við það sem sjá má á klæðinu í Torino.

2)       Látnir gyðingar voru, og eru, settir í líkklæði (sérstök föt, tachrich bitz) áður en þeir voru vafðir laki (sovev), sem mjög líklega leit ekki út eins og líkklæðið í Torino.

En kannski var Jesús bara ekki gyðingur. Palestínumaður segja sumir!

Allt virðist benda til þess að trúaðir kristnir geti alls ekki sætt sig við annað en Appolónískt útlit Guðs eða einhvern Jesús, sem gæti hafa verið fjölskyldumeðlimur þeirra eða fyrirliði í knattspyrnuliði á Skaganum.

Segðu mér hvaða Kristur hefur búið um sig í huga þínum, og ég get kannski sagt þér eitthvað um sjálfan þig? 

1) dylan_davening  

2) Gaylord  

3) b_black_jesus  

4) rembrandt_jesus  

5)Heidi Jesus 

6) Hippa Jesus 

7) Jesus-blonde  

8) Superstar

 

9)gayjesus

10)Goodby Judaism

11) Gottlieb

12)Torinosese

13)jesusbbc

14)Malibu Jesus


Álsagan er ljót

 Aluminium hælar

Þessir forljótu tjaldhælar þýska nasistahersins úr áli minna mig á söguna um Hitler og Göbbels sem fóru í útilegu. Þegar þeir fóru að tjalda sagði Göbbels:"hæl Hitler, hæl Hitler, hæl Hitler, hæl Hitler....". Ætli álið í hælunum hafi verið framleitta af fyrirtækjum sem síðar hvörfuðust inn í þann risa sem Hafnfirðingar höfnuðu í gær?

Í gær sigraði naumur meirihluti Hafnfirðinga yfir ALCAN. Ég verð að hæla Hafnfirðingum fyrir þetta afrek.

Í gær greindi ég frá viðskiptum álrisans ALCOA við nasista í Seinni Heimstyrjöld. Það virtist fara fyrir brjóstið á ýmsum.

En fleiri álrisar undu vel hag sínum í viðskiptum við Þriðja Ríkið. Mörg svissnesk fyrirtæki stofnuðu leppfyrirtæki í Þýskalandi, til að geta haldið áfram rekstri sínum þar í "hlutleysi" lands síns. Meðal þessarra fyrirtækja voru Nestlé, ABB Ltd. (Brown Boweri & Cie), og Swiss Aluminium Industrie AG (AIAG), sem síðar gekk undir nafninu Algroup/Alusuisse Group AG (ALIG), sem keypt var af kanadíska fyrirtækinu ALCAN. Verksmiðjur Alusuisse voru m.a. í Martinswerk i Bergheim, í Singen og Lonza. Álrisarnir eru búnir að "friða samviskuna" með því að lofa að borga skaðabætur, en maður heyrir sjaldan um fórnarlömb sem hafa notið góðs af því.

Árið 2001 kom út merk svissnesk skýrsla sagnfræðinganefndar undir stjórn Jean Francois Bergiers. Í henni er hægt að finna upplýsingar um að leppfyrirtæki fyrrgreindra og annarra svissneskra fyrirtækja í Þýskalandi hafi notast við þræla; Fólk sem nasistar fluttu nauðugt til að vinna í þýskum iðnaði. Sum svissnesk leppfyrirtæki notuðu meira að segja þræla frá Auschwitz.

Næst þegar þið "búið til súpu" úr MAGGI pakka, getið þið minnst þess að Maggi var leppfyrirtæki Nestlés í þýska ríkinu. Súpur þessar hituðu morðingjum nasista. Rétt áður en Bandaríkjaher nálgaðist þetta þrælasúpufyrirtæki árið 1944, var hakakrossfáninn dreginn niður og að húni var dregið svissneska flaggið, blóðrauðugt með hvítan kross.

Álsagan er því miður blóðug! munið það Hafnfirðingar! Og þótt breski herinn hafi leitað uppi og skráð nasista í bæ ykkar árið 1940, var þar afar lítið að finna af ljótum körlum á við það sem svissneskur iðnaður lumaði á.

Ég hvet nú yfirvöld í Hafnafirði til að hefja alvöru rannsókn á tíðni krabbameinstilfella og annarra alvarlegra sjúkdóma meðal starfsmanna ALCAN (ALÍS/Alusuisse). Einnig væri spennandi að fá að vita hvað sumir af þýsku frumkvöðlunum í Straumsvík voru að gera í verksmiðjunum í Bergheim og Singen í Seinni Heimsstyrjöldinni.

 


mbl.is Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álsaga Íslands - Fyrstu árin

Stóriðjudraumar íslenskra stórmenna á 20. öld

Aluminium

Nú hafa tæplega 6000 Hafnfirðingar kosið í álkosningu.

Álver, og það helst mörg, hljómar eins og tónlist í eyrum marga Íslendinga. Menn með mikil tóneyru höfðu einnig stórar hugmyndir um stóriðju á Íslandi. Einn þeirra var Jón Leifs.

Á síðasta áratug 20 aldar blómgaðist áhuginn á Jóni Leifs. Þá voru liðin tæp 30 ár frá dauða tónskáldsins. Þá fá menn oft endurreisn, sem þeir nutu ekki í lifanda lífi.  Gerð var kvikmynd, sem þó getur ekki flokkast undir heimildamyndir. Ýmsir fræðimenn skrifuðu um Leifs og vildu hreinsa nasistastimpilinn af honum. Ekki langar mig að stimpla Leifs sem nasista, heldur aðeins greina frá örfáum atriðum, sem gleymdust hjá sagnfræðingum í meðferð þeirra á Jóni Leifs rúmum 30 árum eftir dauða hans árið 1968.

Í bók sinni Berlínarblús (1996), leggur Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur sig mjög fram við að hreinsa nasistastimpilinn af Jóni Leifs, um leið og hann setur þá á aðra menn. Ásgeir kennir dr. Þór Whitehead ranglega um að hafa sett stimpilinn á Leifs, vegna túlkunar hans á bréfum um járnvinnslu (stóriðju á Íslandi), sem Jón sendi til þýska utanríkisráðuneytisins árið 1939.  Aðrir menn en Jón vildu ólmir gefa nasistum upplýsingar og hráefni. Íslendingur, búsettur í Kaupmannahöfn, sem taldi sig lögmætan eiganda óðala á Vestfjörðum, reyndi ákaft að upplýsa um íslenska boxítnámur og aðrar ímyndaðar auðlindir, sem gætu gagnast ef að þýskri yfirtöku landsins yrði.

Annar maður í Kaupmannahöfn, Þjóðverji, var handtekinn fyrir njósnir fyrir Þjóðverja árið 1939. Í gögnum um hann hef ég fundið fjölmörg bréf Íslendingsins með gylliboðum til Þriðja Ríkisins um auðlindir, virkjanir og álframleiðslu á Íslandi. Skrif hans þóttu svo ruglingsleg, að ekki þótti ástæða til að tengja óðul mannsins á Íslandi við ákærur á hendur þýska njósnaranum, sem síðar var dæmdur fyrir aðrar syndir.

Hvort einhver ættartengsl eru á milli vitlausa, íslenska landsölumannsins í Kaupmannahöfn og Álkana nútímans (eða Alcoa) hef ég ekki rannsakað. En hafa ber í huga að þegar Jón Leifs og landi hans i Kaupmannhöfn voru að falbjóða auðlindir lands síns í Þýskalandi nasismans, höfðu flest lönd Evrópu skapað ákveðna stefnu í auðlindamálum gagnvart Þýskalandi vegna styrjaldarhættu. Athæfi Jóns Leifs, og vestfirska álbóndans, var því á skjön við utanríkisstefnu Dana og Íslands.

Þrátt fyrir vinaleg tilboð frá Íslendingum voru Þjóðverjar árið 1939 orðnir stærri álframleiðendur en Bandaríkjamenn.


mbl.is Tæplega 6.000 Hafnfirðingar hafa greitt atkvæði í álverskosningunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álsambönd Hitlers

álhitler 

Ál Hitler

Kannski hefur það farið framhjá löndum mínum, að auður og velgengni ALCOA samsteypunnar á fyrri árum er hægt að þakka góðu sambandi fyrirtækisins og fyrri stjórnenda þess við Þýskaland Hitlers.

ALCOA var á sínum tíma ásakað um að eyðileggja fyrir uppbyggingu flugflota Bandaríkjahers i byrjun 5. árutugs 20. aldar. ALCOA hafði samvinnu við I. G. FARBEN verksmiðjurnar, sem voru m.a. með útibú í AUSCHWITZ.

Mellon fjölskyldan, sem átti stóran hlut í ALCOA félaginu, átti líka hlut í Bank of Boston, sem hafði mikil og góð viðskipti við Þýskaland nasismans. ACH SO! 

Því má þó ekki gleyma, að fjöldi annarra bandarískra fyrirtækja veðjaði líka á Hitler.

En ætli Fjarðaál minnist þessa á einhvern hátt?  Kannski verður hægt að festa álhausinn hér að ofan á eitthvað efniskennt í Austfjarðaálþokunni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband