Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
30.12.2007 | 21:49
Fyrsta flugeldasýningin á Íslandi
800 tonn (800.000 kg og jafnvel meira) af flugeldum og öðru púðri fúttar út í bláinn á Íslandi um áramótin að sögn alþjóðlegra fréttastofa. Það er að segja, ef veður leyfir. Ég verð fjarri góðu gamni og læt mér nægja smá stjörnuljós eins og Danir.
Á Íslandi fara þúsundir brennuvarga frekar óðslega um borg og bý og glampi frummannsins sést í augum karlpenings á öllum aldri. Fallostákn þeirra feykjast upp á himininn í öllum regnbogans litum og út sprautast gríðarlegar gusur, eldtungur, eimyrjudropar og jafnvel fossar. Hver er með stærstu kúlurnar og hver á flottasta batteríið? Sumum konum þykir skiljanlega líka mjög gaman af þessum látum í strákunum.
Ég leyfi mér að óska landsmönnum til hamingju með að brenna nokkra milljarða króna á andartaki og sumir eru ekki einu sinni í annarlegu ástandi þegar þeir fremja þann verknað. Þvílík gleði. Líkt og hálftími í Bagdað með alKætu.
Myndin er af fyrstu þekktu lofteldasýningunni á Íslandi árið 1874. Hún birtist í The Illustrated London News, 12. september það ár. Sýningin árið 1874 var auðvitað bara fyrir fína fólkið og í boði danska kóngsins. Alþýðan lét sér nægja að gleðjast yfir stjörnum, norðurljósum og ef vel áraði, þremur sólum á lofti. Svo þuldu menn rímur í stað þess að blogga.
Einhvers staðar hef ég lesið um óðan munk, sem kringum Siðbót tók svo miklum stakkaskiptum, að hann bjó til hólka úr kaþólskum bænabókum, tróð í hólkana púðri sem hann hafði búið til úr hlandi og brennisteini. Kom hann svo knallhettum sínum fyrir í pápískum líkneskjum sem hann sprengdi í tætlur fyrir utan kirkjur. Hann varð af einhverjum furðulegum ástæðum afar vinsæll meðal kvenþjóðarinnar fyrir þetta athæfi sitt og eignaðist helmingi fleiri börn en hann hafði gert í skírlífi sínu. Undan honum eru komnir sumir af frægustu Vantrúarmönnum Íslands, svo og eldflauga- og brennusérfræðingar áramótanna.
Hvað gáfu svo Íslendingar sveltandi og þjáðum bræðrum sínum úti í hinum stóra heimi árið 2007? 800.000 kg. af púðri?
Eins og segir í stökunni gamalkunnu: Do they know it's New Year's Eve AT ALL?
GLEÐILEGT ÁR
30.12.2007 | 15:47
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga
Fyrir 13 árum skrifaði ég um fyrstu guðþjónustu gyðinga á Íslandi. Greinin birtist í DV, en ekki þótti það merkilegt framlag í því blaði og var greinin því sett einhvers staðar á milli bílauglýsinga og auglýsinga fyrir hjálpartæki ástarlífsins, sem Íslendingar þurftu svo mikið á að halda á þeim árum.
Guðsþjónustan var fyrsta löglega guðsþjónusta annarra trúarbragða en kristni, sem haldin hafði verið á Íslandi í 940 ár. Hún var haldin í Gúttó, Góðtemplarahúsinu, sem lá á bak við Alþingishúsið (Templarasundi 2) frá 1895 þangað til 1968 er húsið var rifið. Ég kom nokkru sinnum í þetta merka hús sem barn og þótti það bölvaður braggi. Ef ég man rétt, voru bókamarkaðir haldnir þarna.
Nú birti ég grein mína úr DV á ný. Ljósmyndirnar tók Sigurður heitinn Guðmundsson ljósmyndari og eru þær nú í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Texti innan hornklofa eru skýringar höfundar nú.
Hluti af hópmynd, sem tekin var í Gúttó 1940
Meðal fyrstu bresku hermannanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni voru gyðingar. Gyðinga á meðal eru sterk bönd og oft er sagt að það fyrsta sem gyðingar geri í landi, sem þeir heimsækja, sé að leita uppi trúbræður og systur. Þetta gerðist haustið 1940 á Íslandi. Hingað voru komnir nokkrir flóttamenn frá Þýskalandi og Austurríki og breskir hermenn sem sameinuðust í trúnni haustið 1940.
Sh'mah Yisroel Adonai Eloheinu Adonai Echod (Heyr ó Ísrael, Guð er drottinn, Guð er einn), stendur á hebresku á heimatilbúni altarisklæði úr gull- og kreppappír, sem sett var upp í Gúttó í Reykjavík haustið 1940. Það var Hendrik Ottósson, sem hafði ásamt breskum hermönnum, konu sinni og tengdamóður, sem voru flóttamenn af gyðingaættum, ákveðið að halda Yom Kippur (friðþægingardaginn) heilagan. Hendrik lýsir þessum atburði á skemmtilegan hátt í bók sinni Vegamót og vopnagnýr(1951). Upphaflega hafði ungur sargént, Harry C. Schwab, farið þess á leit við yfirmann herprestanna bresku, Hood að nafni, að gyðingum yrði veitt tækifæri til þess að koma saman til bænahælds. Hood hafði stungið upp á líkkapellunni í gamla kirkjugarðinum, en Hendrik tók þær aumu vistarverur ekki í mál. Þannig þróaðist það að Yom Kippur varð fyrsta samkunda gyðinga á Íslandi í 940 ár, sem ekki var kristin. Aðstæður voru frumstæðar, Gúttó var sýnagógan, enginn rabbíni var í landinu og helgihaldið uppfyllti heldur ekki ströngustu kröfur.
Einstæðar ljósmyndir
Í vetur komu ljósmyndir úr dánarbúi Sigurðar Guðmundssonar ljósmyndara á Þjóðminjasafn Íslands. Þar á meðal voru ljósmyndir hans af þessum einstaka atburði sem við vitum nú miklu meira um. Myndirnar voru nýlega birtar í blaðinu Jewish Chronicle á Bretlandseyjum og hafa þrír hermannanna, sem nú eru aldraðir menn, og ættingjar annarra sem látnir eru, gefið upplýsingar um atburðinn. Sumir hermannanna, sem voru breskir, skoskir og kanadískir, voru meðal þeirra fyrstu sem á land stigu á Íslandi. Þegar er búið að bera kennsl á Harry Yaros, sem var Kanadamaður, þá Philip Mendel og J. D. Wimborne frá London og Alfred Cohen (Alf Conway) frá Leeds, en hann las upp inngöngubænir og tónaði sálminn Kol Nidre þetta haustkvöld árið 1940. Meðal þeirra sem enn eru á lífi eru Bernhard Wallis frá Sheffield, Harry C. Schwab frá London og Maurice Kaye. Ræddi höfundur þessarar greinar við Harry nýlega og er hann hafsjór af fróðleik um þennan atburð sem og aðra frá fyrstu dögum hersetu á Íslandi. Schwab var seinna í herjum Montgomerys og fór með liði hans norður um alla Evrópu. Eftir stríð vann hann hjá Marks og Spencer og verslaði við Sambandið [SÍS]. Kom hann nokkrum sinnum til Íslands vegna vinnu sinnar. Schwab hélt tengslum við Hendrik Ottósson og skrifaði meðal annars minningargrein um hann í Jewish Chronicle 1966.
Í athöfninni haustið 1940 tóku einnig þátt mágur Hendriks, Harry Rosenthal og kona hans Hildigerður og Minna Lippmann, móðir Harrys og Hennýjar, konu Hendriks. Einn var þar Arnold Zeisel og kona hans Else, sem voru flóttafólk frá Vínarborg og hugsanlega bróðursonur Arnolds Zeisels, Kurt að nafni [það hefur síðar verið staðfest]. Daginn eftir safnaðist fólkið á myndinni saman á hótel Skjaldbreið og var kosin safnaðarstjórn, sem í sátu Harry C. Schwab, David Balkin, Alfred Cohen, Arnold Zeisel og Hendrik Ottósson. Þessi gyðingasöfnuður hélst meðan að Bretar voru hér og sá m.a. um fermingu (bar mitzva) Péturs Goldsteins sonar Hennýjar Ottósson. Síðar voru hér tveir söfnuðir bandaríska hermanna, sem einnig höfðu samband við þá flóttamenn sem héldu í trú sína hér á landi.
Fáir fengu landvist
Um leið og myndirnar sýna einstakan trúarlegan viðburð, eru þær til vitnis um giftusamlega björgun fólks, sem vegna trúar sinnar og uppruna þurfti að flýja brjálæði sem hafði gripið um sig meðal sumra þjóða í Evrópu. Þeir fáu sem landvist fengu á Íslandi nutu ekki alltaf gestrisni okkar. Snorri G. Bergsson sagnfræðingur hefur nýlega sýnt fram á að íslensk stjórnvöld virðast hafa viðhaft strangari reglur fyrir dvöl gyðinga á Íslandi heldur en annarra útlendinga. Ísland var það land í Evrópu sem tók hlutfallslegast fæsta flóttamenn [þessi niðurstaða Snorra ef aðeins yfirdrifin]. Jafnvel áður en ströng lög voru sett til að hindra komu flóttafólks árið 1938 var gyðingum hafnað á furðulegan hátt. Í skjölum sem höfundur þessarar greinar hefur rannsakað á Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn sést að gyðingum var þegar árið 1934 sagt að rita þýska sendiráðinu í Reykjavík til að fá upplýsingar um landvistarleyfi á Íslandi, meðan öðrum útlendingum, sem óskuðu að setjast að á Íslandi var í hæsta lagi bent á lög um atvinnuskilyrði frá 1927.
Það var einnig til fólk sem bjargaði mannslífum eins og Hendrik Óttósson. Helgi P. Briem og læknarnir Katrín Thoroddsen og Jónas Sveinsson, en hann skaut skjólshúsi yfir lækninn Felix Fuchs og konu hans Renate frá Vínarborg. Þeim hjónum var þó að lokum vísað úr landi eftir einkennilegt samspil íslenskra yfirvalda við þýska sendiráðsstarfsmenn og einn danskan, sem vingott átti við nasista. Talið er að þau hafi komist til Bandaríkjanna. [Sjá grein höfundar um hjónin í Lesbók Morgunblaðsins].
Margir Íslendingar tóku vel á móti flóttamönnum og greiddu götu þeirra og tóku þeim sem nýjum Íslendingum. Margir tóku einnig vel á móti erlendum her og blönduðu aldrei trú sinni á hreinleika fjallkonunnar við lánaða fordóma. Í dag, þegar kynþáttafordómarnir láta á sér kræla, og til er fólk sem er fullvisst um að Íslendingar séu betri en allir aðrir, er gott að minnast Hendriks Ottóssonar og þessa atburðar árið 1940.
______
Eftir að þessi grein birtist í DV laugardaginn 12. nóvember 1994, bls. 39, hefur höfundur skrifað um þennan atburð í dönsku tímaritin Udsyn og Rambam og í Jewish Political Studies Review, og sömuleiðis um flóttafólk í Lesbók Morgunblaðsins 1997 og 1998.
Menning og listir | Breytt 17.10.2010 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.12.2007 | 13:49
Benazir Bhutto - minning
Frá Rawalpindi, nærri því í beinni útsendingu, fylgdist ég í gær með hræðilegum endalokum Benazir Bhuttos. Maður er harmi lostinn yfir slíkum hryðjuverkum. Eru þetta örlög allra stjórnamálamanna, sem vilja aðeins meira lýðræði í heimi Íslams? Íslamistar, nánar tiltekið Al Quaída, eru þegar búnir að taka heiðurinn fyrir ódæðið, sem mun vera hryðjuverkaárás íslamista númer 10.262 síðan að þeir flugu inn World Trade Center árið 2001.
Ég fylgdist líka með viðbrögðum fáeinna góðhjartaðra sála á Íslandi , sem létu sig málið varða á bloggum sínum. T.d. birti vinstri grænn menntskælingur og femínisti eldgamla ljósmynd af Bhutto eins og hún leit út fyrir 30 árum. Einn af gestum hennar, stjórnmálamaður, slær föstu að stjórnarliðar í Pakistan séu sáttir við verknaðinn! Önnur sómakona kennir Bush um það sem gerist í Pakistan. Hvaða sjúkdómur herjar eiginlega á fólk?
Ef einhver er sáttur við verknaðinn í Rawalpindi eru það þeir sjóndöpru vesturlandabúar, sem styðja baráttu íslamista og eiga sömu óvini og þeir: Bush, Vesturlönd, Ísrael, gyðinga og Danmörku, svo eitthvað af því "vonda" sé nefnt.
Benazir Bhutto var því miður ekki neinn engill, femínisti eða friðardúfa, jafnvel þótt hún hafi verið kvenmaður.
Þegar Benazir var forsætisráðherra studdi hún útrýmingarherferð gegn Pandítum, friðsömum trúarflokki í Kasmír. 12.000 þeirra voru myrtir af múslimum á síðasta áratug 20. aldar. Ekki var skrifað og skrafað mikið um það á Íslandi. Pandítar eru hindúar sem hafa þurft að flýja fósturjörð sína, Kasmír, vegna ofríkis múslima í Kasmír.
Ef "friðarúfur" og femínistar á Íslandi syrgja Benazir, væri þeim hollt að minnast þeirra Pandíta sem var útrýmt í stjórnartíð hennar, svona til að fá smá jöfnuð á móti heilagleikanum og hatrinu gagnvart Vesturlöndum (okkur) og ræflinum honum Bush.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.12.2007 | 18:49
Meira jólaefni
Í morgun horfði ég í sjónvarpinu á múslimi nærri Mekka, þar sem þeir tóku þátt í Hajjinu. BBC og CNN hafa gert það að árlegum viðburði að hafa útsendingu frá hringsólinu kringum Köbuna í Mekka og tengdum serimoníum. Ég sá múslimi kasta smásteinum í steinsúlu sem táknar djöfulinn. Með þessu hreinsa múslimir sig og verjast djöflinum. Fyrir nokkrum árum síðan urðu menn sér að voða, því þeir hittu svo illa á hinn táknræna djöful. Nú er búið að gera sérstaka gryfju til að koma í veg fyrir slík slys.
Ég hef líka séð myndir og fengið fréttir af múslimum sem grýta konur til dauða. Ekki heitir það Hajj? Í Íran er það "lögmæt" refsing, sem sótt er í Kóraninn, og sú helga bók gefur líka ábendingar um stærð steina sem nota ber. Ekki of litla og ekki of stóra, því ekki má sú grýtta rotast í fyrsta kasti. Konan er í augum sumra hinn versti djöfull, sem verður að hylja og berja svo hún verði sér og öðrum ekki að voða. Sjá t.d. hér. Kvensniftin, sem sýknuð var eftir að henni var hópnauðgað í Sádí, var heppin.
Ekki trúi ég á djöfulinn eða aðra skratta í neinni mynd, ekki einu sinni Belesbub, og konur eru að mínu mati englar (ja, flestar). Djöfullinn er eitthvað sem mannskepnan hefur búið til að réttlæta hatur sitt. Djöfullinn er mannvera og það eru til andskoti margir djöflar á meðal okkar.
Grýtingin er einn sá djöfullegast arfur sem maðurinn hefur tekið með sér úr fortíðinni. Grýtingin var notuð í landi því sem Jesús fæddist í, og á Íslandi báru menn út börn til forna, ef ekki síðar. Það er margur djöfullinn sem maðurinn þarf að dragast með.
Hættið að lesa þetta, það er óhollt, og farið út og kaupið síðustu jólagjafirnar.
20.12.2007 | 14:02
Í Betlehem er barn oss fætt - En í hvaða Betlehem?
Hingað til hafa kristnir menn trúað því sem heilagasta sannleika, að Betlehem (Beit Lehem, sem þýðir Brauðbær á hebresku og á arabísku Kjötbær) í Júdeu, suður af Jerúsalem sé fæðingarbær Jesú Krists.
Finnst ykkur líklegt, að María mey hafi riðið kasólétt á asna 200 km leið frá Nasaret í Galileu til að fæða Jesúbarnið suður í Betlehem í Júdeu?
Í Betlehem í Júdeu hafa aldrei fundist neinar leifar frá dögum Jesú! Allt sem finnst er miklu yngra. Betlehem í Júdeu varð hugsanlega ekki að borg fyrr en nokkrum öldum eftir Krists burð.
Ísraelski fornleifafræðingurinn Aviram Oshri hefur hins vegar með margra ára rannsóknum sýnt, svo líklegt sé, að Betlehem sem Jesús fæddist í sé í raun í Galileu, ekki alllangt frá Nasaret.
Oshri hefur grafið í báðum Bethlehemum og er nú þeirrar skoðunar að rústin borgarinnar Betlehem í Galileu sé bærinn þar sem Jesús mun hafa fæðst. Oshri hefur meira að segja rannsakað rúst mjög stórrar Kirkju við í Betlehem í Galileu, sem kom í ljós við vegagerð fyrir nokkrum árum.
Hér getið þið lesið um hið eina sanna Betlehem á vefsíðu Aviram Oshri og fræðst.
Jesús umskorinn í Galileu á áttunda degi lífs sýns. Atburðurinn túlkaður með dönskum Lego-kubbum.
Mörgum finnst fornleifafræðingar til vandræða. Íslenskir sagnfræðingar telja sig vita nóg af bókum og vilja aðeins að fornleifafræðingar staðfesti það sem skruddurnar segja. Aðrir bókstafstrúarmenn úti í heimi eru hatrammir út í stétt fornleifafræðinga fyrir að rústa viðteknum hugmyndum og jafnvel trúarbókstaf. Ætli kirkjan viðurkenni nokkurt tíma kenningu Avirams Oshri? Það er allt of mikið í húfi. Þar á meðal má nefna Minjagripasöluna við Fæðingakirkjuna og misnotkun Palestínumanna á helgi borgarinnar.
Bærinn Betlehem i Galileu hefur líklegast fallið í gleymskunnar dá vegna óeirða og óaldar sem ríkt hefur í landi Gyðinga, síðan að þeir voru flæmdir í burtu af ýmsum ofstækismönnum. Og það hefur örugglega legið pólitísk ákvörðun bak við skrif guðspjallamannanna, sem "fluttu" fæðingabæ Jesú nær Jerúsalem.
"Hefð og trú ætti að vera nóg til þess að menn trúi því að fæðingabær Krists sé þar sem hann er nú", segir Michel Sabbah, erkibiskupinn sem ég fjallaði um í síðustu færslu. Ætli hann sé nú dómbær á það?
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
19.12.2007 | 18:32
In nomine Jesu vel Fatah?
Nú stingur kaþólska kirkjan aftur. Heldur illilega og rýtingurinn er langur. Ég leyfi mér að kvarta, hvað sem Jón Valur Jensson, patríarkinn okkar í íslenskum bloggheimum, kveinar. Rómversk-kaþólski patríarkinn í Jerúsalem, Michel Sabbah, hefur lýst því yfir að hann sé mótfallinn Ísraelsríki. Hann segir að Ísrael yrði að "gefa upp á bátinn gyðingleg einkenni sín" og í stað þess beita sér fyrir "stjórnmálalega, eðlilegu ríki fyrir kristna, múslimi og gyðinga".
Patríarkinn er Palestínumaður, svo orð hans eru kannski skiljanleg. En geta Kirkjan og Íslam ekki lifað ágætu lífi í Ísrael, alveg eins og það er pláss fyrir allar trúarstefnur á Íslandi, þrátt fyrir að þjóðkirkjan sé lútersk? Af hverju alltaf þessir afarkostir.
Hvers konar "Herrenvolk" hugsunarháttur er þetta hjá patríarkanum. Gyðingar mega ekki búa í smábyggðum í Palestínu og nú mega þeir heldur ekki eiga sér ríki nema að þeir gefi upp gyðingleg einkenni sín. Yfirgangur þessi er óhemjulegur og ég vona svo sannarlega að kaþólska kirkjan taki ekki þátt í honum og ávíti patríarkann.
Sabbah ætti heldur að gæta að hjörð sinni í íslamistaríkinu Gaza, þar sem kristnir hafa verið ofsóttir af Hamas og myrtir. En frá því er vitaskuld EKKI SAGT í íslenskum fjölmiðlum frekar en því að kristnir menn eru ofsóttir af Múslimum á Vesturbakkanum. Íslenskir fjölmiðlar eru eins og strútar með hausinn á bólakafi í kviksyndi.
Ég fann því miður ekki mynd af Sabbah með Ísraelsmanni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
19.12.2007 | 10:37
Finnar eru orðnir hringavitlausir
Hörkusala hefur verið í hakakrosshringjum í Finnlandi fyrir jólin. Mætti halda að þetta fyrirbæri væri aðaljólagjöfin þar í landi í ár. Að minnsta kosti halda menn ekki vatni í þúsund landa vatninu fyrir þessu baugsilfri.
Upphaflega var þessi hringur seldur árið 1940 til að safna peningum vegna stríðsins við Rússa. Nú er verið að reyna að safna peningum með hringaframleiðslu til að gefa gömlum finnskum hermönnum náðugt ævikvöld. Sumir þeirra börðust "frækilega" með nasistum.
60.000 hringar hafa nú verið búnir til, og seljast þeir grimmt fyrir rétt rúmar 5000 krónur íslenskar.
Forstöðukona sölunnar, Pia Mikkonen, greinir erlendum fjölmiðlum frá því, að ýmsir frægir Finnar auglýsi hringana í sjónvarpi og í öðrum fjölmiðlum, og að þeir séu vinsæl gjöf fyrir unga karla. Talskonan segir: "There hasn't been confusion here in Finland," she said. "For us Finns, it's not a negative symbol."
Vita Finnar ekki að þegar Eimskip droppaði hakakrossinum fór allt að ganga betur hjá Eimskip?
Miður frægðarleg samvinna Finna við Þýskalands nasismans gerir óneitanlega marga undrandi á þessu hakakrossastandi í þeim. En greinilegt er að mörgum þykir þetta svaka flott merki.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2007 | 09:55
Upp koma svik um síðir
Lisl Urban heitir 93 ára kona í Þýskalandi, sem gefið hefur út endurminningar sínar. Þar er lýst ástarævintýri hennar með þýskum SS yfirmanni sem er nefndur til sögunnar sem Eike. Úr þessu ævintýri kom lítið stúlkubarn, sem SS maðurinn vildi ekki kannast við.
Bók Lisl Urban "Ein ganz gewöhnliches Leben" (Afar venjulegt líf) veldur því nú að síðustu ár konunnar verða heldur óvenjuleg. Líka líf SS-mannsins, sem hún elskaði. Hann fór í mál við útgáfufyrirtæki Lislar eftir að bókin kom út í Leipzig fyrr í ár. SS maðurinn kallar bókina hefnd og reiðikast gamallar konu og kallar samband þeirra "One night stand".
SS maðurinn, sem ekki er nefndur fullu nafni í bók Urbans, heitir Erich Steidtmann. Offar hans og móðgunargirni út af æviminningum Lisl Urban hefur varpað ljósi á mjög blóðuga fortíð hans. Steidtmann hélt hélt því fram að hann hafi aldrei verið meðlimur í SS (Allgemeine SS), en síðar hefur hann þó dregið í land og bætt við að hann hafi verið í Waffen-SS [sem einnig tóku virkan þátt í útrýmingu gyðinga]. Hann segist vera alinn upp á góðu krataheimili og hafi verið sendur á vígstöðvarnar gegn eigin vilja. Hann segist hafa verið sómaborgari eftir stríð. Annað er nú komið a daginn. Hann var framarlega útrýmingarsveitum lögreglusveitar Waffen-SS nr. 101 í Austur-Evrópu. Hann starfaði í útrýmingarherferðum sveitarinnar í Majdanek búðunum og í gettóinu í Lublin, og síðar í apríl og maí 1943, í Varsjá, þar sem hann sá um að halda vörnum umhverfis gettóið. Þá voru nasistar að berjast við síðustu sálirnar í gettóinu, eftir að 300.000 gyðingum hafði verið smalað saman í útrýmingarbúðir árið áður.
Nú er dómstóll í Leipzig búinn að hafna kæru hégómlega SS-mannsins Steidtmanns og þýsk yfirvöld hefja aftur rannsókn á málum hans fyrir tilstilli Dr. Efraim Zuroffs hjá Simon Wiesenthal stofnuninni í Jerúsalem. Tími var kominn til, og sannast sagna mikil skömm af því fyrir Þýskaland að gera ekki meira í málum gamalla morðingja.
Þegar þetta hefur verið skrifað og birt, má ég búast við því að ég fari að móttaka rugl frá Íslendingum eins og oft sást meðan að mál Eðvalds Hinrikssonar var rekið á Íslandi. Einhver segir líklega að Erich Steidtmann sé of gamall fyrir réttarhöld og vinir Palestínu fara að bera sjálfskaparvítið Gaza saman við Varsjá-gettóið. Það er nefnilega líka til siðlaust fólk á Íslandi, sem sér söguna á sama hátt og SS-maðurinn Steidtmann.
Hér má lesa frekar um málið:
http://www.lvz-online.de/aktuell/content/49552.html
http://www.welt.de/kultur/article1341609/SS-Offizier_klagt_gegen_eine_Bibliothekarin.html#reqRSS
http://www.jpost.com/servlet/Satellite?cid=1196847365049&pagename=JPost%2FJPArticle%2FShowFull
18.12.2007 | 13:36
Danski diplómatinn sem vildi láta Holocaust hverfa
Eftir sprengjuárásir Al Quaída í Alsír um daginn var danski sendiherrann þar í landi svo vingjarnlegur að senda einkabílstjóra sinn til að leita að íslenskri konu sem í landinu býr. Ole Wøhlers Olsen heitir þessi vingjarnlegi sendiherra. Hann er múslimur og tók þá trú fyrir löngu þegar hann kvæntist sýrlenskri konu, sem tilheyrir valdastétt illvirkja á Sýrlandi.
Nú er Ole Wøhlers Olsen í vanda. Vitni í "olíu fyrir mat" skandalanum, sem er vandræðamál hér í Danaveldi, hafa varpað nýju ljós á þátt Olsens í málinu. "Olía fyrir mat skandallinn" fjallar einfaldlega um það, að danskir embættismenn í utanríkiráðuneytinu munu hafa átt aðild að því að dönsk fyrirtæki greiddu stjórar fjárhæðir undir borðið til Saddamstjórnarinnar í Írak, til þess að fá greiðari aðgang að viðskiptum í Írak.
Nú er komið í ljós, ef dæma má út frá því sem vitni segja dönsku rannsóknarlögreglunni, að múslimurinn Olsen ráðlagði sem sendiherra Dana í Sýrlandi og Írak, dönskum fyrirtækjum að greiða það sem hann kallaði "skatt" til Saddams til þess að fá bita af kökunni í "olíu fyrir mat" aðstoðinni til Íraks.
Þangað til í sumar neitaði danska utanríkisráðuneytið að tjá sig um málið og hélt danska ríkisstjórnin hlífðarhendi yfir embættismönnum þess. En svo kom allt í einu stefnubreyting, sem líklega varð að taka, þar sem stjórnin fékk nýjar upplýsingar sem hún gat ekki afneitað (og sem bjarga ráðherranum). Nú er málið í lögreglurannsókn.
Ég er afar mótfallinn diplómötum sem ganga erinda þeirra landa sem þeir eru í, í stað sinna eigin landa. Olsen er svoleiðis maður.
Ég hef einnig átt viðskipti við þennan mann. 17. maí 2006 skrifaði ég honum og bað hann að staðfesta eða deyða þann orðróm, að hann á fundi stjórnar Dansk Institut For Internationale Studier (DIIS) hafi stungið upp á því að nafn deildar innan DIIS, sem heitir Afdeling for Holocaust og Folkedrabstudier, bæri að breyta í "Afdeling for Folkedrabstudier". Hann jánkaði: og sagðist hafa gert það til að komast hjá notkun "framandi ekki-danskra lánsorða" eins og Holocaust.
Og af hverju ætli dönskum Múslima, sem greininga ekki veit hvernig þjóðarmorð er skilgreint (ef dæma má út frá svari hans), sé svo annt um að láta framandi orð eins og Holocaust hverfa úr nafni stofnunar í Danmörku sem var ætlað að rannsaka Helförina?
Ráðuneytið, sem Olsen vinnur fyrir, var ein af þeim stofnunum sem unnu ötullegast að því að senda gyðinga frá Danmörku í hendur Þýskalands nasismans. Danska utanríkisráðuneytið hvatti einnig til viðskipta við Hitler-Þýskaland. Stafsmenn þessa ráðuneytis vilja greinilega helst að útlensk orð eins og Holocaust hverfi úr dönsku, en þeir hafa alltaf verið ólmir í viðskipti við menn eins og Hitler og Saddam. Danir eru líka stoltir af samskiptum sínum við Íran.
Business as usual for little Denmark. Ef einhver heldur að Danska utanríkisráðuneytið hafi gefið Palestínumönnum jólagjöf í París í gær, vegna þess að þeir vilja frið í Miðausturlöndum, hafa þeir hinir sömu misskilið utanríkisstefnu Dana síðustu 100 árin. Danir fá alltaf eitthvað fyrir sinn snúð og það líður ekki á löngu áður en bílasalar með notaða bíla eru farnir að selja danskar druslur í Ramallah og greiða 10% þóknun í vasa Abbas.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.12.2007 | 13:58
Black Magic Woman
Kári Stefánsson gerir nú nóbelsverðlaunamóttakandann James Watson að konu!
Kári Stefánsson segir nú http://www.slate.com/id/2180067/, samkvæmt vefblaðinu SLATE, að meira en vel geti verið að Nóbelsverðlaunahafinn James D. Watson sé líka kona. Þetta er með ólíkindum. Fyrst var Kári að gera því skóna að hann væri negri og nú bætir hann svörtu ofan á grátt með því að segja að hann geti verið kona.
Hvert er Kári að fara? Mér er hugsað til orða John Lennons, "Woman is the Nigger the World", og er farið að gruna að Tina Turner, Eartha Kitt, Grace Jones og Ophra Winfrey séu farnar að starfa sem meinatæknar í genabransanum og hafi mengað sýnin með hárlosinu?
Watson virðist vera tilvalinn sem forseti í Bandaríkjunum, fyrst hann er svona fín blanda af frú Clinton og herra Obama?
Það verður bara að vera lag við svona heimsfrétt!
Kári er að draga í land. En mikið lifandi er ég nú búinn að hafa gaman af þessu upphlaupi vísindamannsins.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Trumpur Eyjajarl
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 21
- Sl. sólarhring: 34
- Sl. viku: 248
- Frá upphafi: 1353068
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 189
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007