Leita í fréttum mbl.is

Af siðferði og siðleysi í íslenskri fornleifafræði

ETHICS

Í dag las ég heilmikla gagnrýni á Fornleifastofnun Íslands, (FSÍ), í Morgunblaðinu (sjá hér). Það sem þar kemur fram er hrikalegt. Ég hef enga ástæðu til að draga það sem ég las í efa, vegna þekkingar minnar á líkum málum. Sérstaklega þykir mér framkoma Thomas H. McGovern við Albínu Huldu Pálsdóttur, sem hann bókstaflega flæmdi úr doktorsnámi, vera glæp.  Ég er ekki í vafa um að aðferð sú sem hann beitir gegn henni stangast á við reglur CUNY og venjulegt siðferði og siðfræði við háskóla í Bandaríkjunum. McGovern er samstarfsmaður FÍS, sem úthýsa vildi Albínu af markaði sem þeir hafa geta stjórnað að vild vegna góðra sambanda og ríkisfyrirgreiðslu sem aðrir hafa ekki notið.

Ég þekki og þekkti til nokkurra þeirra sem nefndir eru til sögunnar í Morgunblaðinu í dag, þar á meðal er Thomas H. McGovern. Siðleysi hans kynntist ég á eigin líkama fyrir langa löngu. Ég vann eitt sinn með honum að verkefni í Strandasýslu. Það stóð lengi á því að fjölþjóðlegur hópur sem rannsaka vildi í Strandasýslu fengi tilskilin leyfi frá Fornleifanefnd, sem þá gaf út slík leyfi. Ýmsar upplýsingar vantaði frá umsækjanda. En þrátt fyrir að leyfi væri ekki enn komið eftir langa bið, hófu bandarískir og kanadískur fornleifafræðingar rannsóknir í leyfisleysi, og það án minnar vitundar. Ég vara að skrá fornleifar á öðrum stað og kom einn daginn að kanadískum starfsmanni rannsóknarinnar og fyrrverandi samstarfsmanni McGoverns, Thomas Amorosi, að óvörum, þar sem þeir voru að grafa í leyfisleysi í Trékyllisvík. Þegar ég komst að þessu, ákvað ég að láta af störfum í verkefninu.  Ég bar við siðleysi samstarfsmanna minna. Skömmu síðar barst mér bréf frá Thomas H. McGovern, þar sem hann hafði í hótunum við mig. Hann gaf til að mynda í skyn að hann myndi sjá til þess að ég myndi aldrei aftur geta fengið vinnu í fornleifafræði á Íslandi. Hann hótaði því einnig að beina fjármagni því sem hann gæti komið með í rannsóknir á Íslandi til Rússa. Ég óskaði honum góðs gengis og samvinnu við Rússa og spurði hann, hvort hann ætlaði að rannsaka ríkjum þar sem Rússar stunduðu þjóðarmorð. Mér þótti siðferði þessa bandaríska samstarfsmanns míns fyrir neðan allt velsæmi og prísaði mig sælan fyrir að þurfa ekki að hafa meira af honum að segja.

Ekki lét McGovern sér þó þetta nægja. Þegar ég sótti um stöðu á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993, þá ritaði McGovern settum þjóðminjaverði bréf til að sverta mig. Hann mun einnig hafa sent Háskóla Íslands svipað níðbréf um mig. Mér var afhent þetta bréf fljótlega eftir að ég hóf störf og geymi það enn, því það er eitt siðlausasta plagg sem ég hef fengið í hendur á ævi minni.

Grein sú sem hér fer á eftir fjallar um lélegt siðferði Orra Vésteinssonar, sem einnig eru nefndur til sögunnar í Morgunblaðinu í dag, í fræðigrein árið 2008. Meðhöfundar með honum að þeirri grein eru einmitt Thomas H. McGovern og Sophia Perdikaris. Þau eru einnig nefnd í grein Morgunblaðsins, þar sem sagt er frá því hvernig Albínu Huldu Pálsdóttur var fórnað á svívirðilegan hátt í lágkúrulegri business-fornleifafræði á Íslandi, sem FÍS ber einna mesta ábyrgð á.

 

 

Skítleg vinnubrögð í fornleifadeild HÍ

eftir Vilhjálm Örn Vilhjálmsson

Nýverið rak ég augun í fræðigrein í virtu riti, Arctic Anthropology, þar sem því var haldið fram að Þjórsárdalur hafi farið í eyði miklu síðar en jarðfræðingar og aðrir hafa haldir fram í áraraðir. Þetta stangast reyndar á við það sem lesa má um Þjórsárdal og Stöng í Þjórsárdal á veraldarvefnum og í ritum flestra jarðfræðinga eftir 1949, þegar Sigurður Þórarinsson tilkynnti í fyrsta sinn breytingu á aldursgreiningu eyðingarinnar í Þjóðviljanum og sagði hana hafa átt sér stað árið 1104. Áður hafði hann haldið því fram að hún hefði átt sér stað árið 1300.

Bæjarrústirnar á Stöng og byggðin í dalnum eru því iðulega sögð hafa farið í eyði í Heklugosinu árið 1104. Það er orðin hefð fyrir því og flestir þekkja ekki, eða vilja ekki þekkjast við tilgátur mína um að byggðin hafi farið í eyði meira en hundrað árum síðar. Það er að segja á 13. öld. Hana setti ég upphaflega fram við Kristján Eldjárni á Sóleyjargötunni árið 1982 og síðan vann ég lengi að því að sýna fram á réttmæti tilgátu minnar.

Dr. Sigurður Þórarinsson lauk margra ára rannsóknum sínum á gjóskufræði Heklu með því að halda því fram að Eldgos í Heklu árið 1104 hefði grandað byggð í Þjórsárdal. Áður hafði hann oft skipt um skoðun á eyðingunni, eins og góðum fræðimanni sæmir.  Vafinn á nefnilega ávallt að ráða. Arftakar Sigurðar Þórarinsson og lærisveinar hafa hins vegar verið gjarnir á að líta á niðurstöður hans sem heilagan sannleika, sem er líklega það leiðinlegasta sem gerst getur fyrir minningu og fræði merkra manna. Fræði eru, og verða ávallt, tímanna tákn. Vitnisburður þess tíma sem menn lifðu á, en ekki endanlegur sannleikur.

unnið á öllum hæðum 2
Myndin er frá rannsóknum á kirkjurúst á Stöng í Þjórsárdal sumarið 1993

 

Rannsóknir mínar á fornleifum á Stöng og forgripum, sem fóru fram á tímabilinu 1983-1996, og sem er hægt að lesa um í þessum ritum, sýndu hins vegar greinilega, að Þjórsárdalur fór ekki eyði árið 1104, heldur á 13. öld, eða þó nokkkru eftir 1200. Ég get því miður ekki sett búsetulokin upp á neitt eitt ár, því það var ekki eitt stakt eldgos sem olli eyðingu byggðarinnar. Forngripir, kolefnisaldursgreiningar og afstaða jarðlaga sýndu það glögglega. Dalurinn og margir bæir í honum fóru í eyði í kjölfar versnandi jarðagæða, vegna áhrifa eldgosa, vegna kólnandi veðurfars, vegna ofbeitar og einnig vegna uppblásturs. Ástæðurnar voru þannig margþættar.  Þetta hef ég skrifað um í að minnsta kosti 7 ritum og m.a. í  Lesbók Morgunblaðsins.

Fyrrnefnd grein frá 2008 í Arctic Anthropology, sem lýsir niðurstöðum rannsókna á jarðvegssniðum í Þjórsárdal, er eftir vísindamenn frá mismunandi löndum. Sumir þeirra voru ekki einu sinni viðstaddir rannsóknina sem þeir eru meðhöfundar að grein um.  Það er lenska í löndum þar sem menn þurfa að sýna ákveðinn fjölda fræðigreina á ári til að halda stöðu sinni. Til að gera langt mál stutt, komast þeir að sömu meginniðurstöðu og ég, og get ég ekki annað en fagnað því. Því fyrir nokkrum árum var það sem ég skrifaði og sagði talið til villutrúar, og skrifuðu menn um mín fræði með ærumeiðingum, því þeir álitu að ég væri að sverta menningu Sigurðar Þórarinssonar er ég dró niðurstöður hans í efa.  Gagnrýni á guðfeður ógagnrýninna lagsmanna, er ávallt talið vera guðlast.

En við nánari lesningu sá  ég, að ég á greinilega ekki að njóta sannmælis í greininni eftir Orra og félaga hans í útlöndum, eða heiðursins af því að hafa leyst eitt stærsta vandamál íslenskrar fornleifafræði, aldursgreiningu byggðar í Þjórsárdal, sem velktist fyrir mönnum á síðari hluta 20. aldar vegna aðferðafræðilegra nærsýni íslenskra gjóskufræðinga og ýmissa fornleifafræðinga og sagnfræðinga. Þannig er t.d. enn á sýningu Þjóðminjasafni Íslands greint frá Stöng í Þjórsárdal sem bæ sem fór í eyði árið 1104. Það vekur þó undran, því að í sömu sýningu nokkrum metrum frá upplýsingunni um eyðingu byggðar árið 1104, er upplýst að byggð hafi haldist fram undir 1200.

Sýni vilhj
 

Höfundur tekur gjóskulagasýni á Stöng í Þjórsárdal 1993

 

Í greininni í Arctic Anthropology er ýjað að því að ég hafi ekki látið rannsaka gjóskulög á Stöng. Þetta er mjög ljót rangfærsla. Jarðfræðingar og aðrir fornleifafræðingar komu og sáu sniðin á Stöng, sem eru aðeins umfangsmeiri en snið jarðfræðinganna og síðast þegar ég gróf á Stöng bað ég yfirgjóskufræðing HÍ að koma á staðinn. Taldi hún að það væri óðarfi, því hún sagði að ég þekkti öll gjóskulögin.  Það geri ég, reyndar eftir margra ára reynslu, og get líka með góðri samvisku sagt og sýnt fram á að mannvistarlög mynduðust ofan á vikrinum sem féll í Heklugosinu mikla árið 1104.

Ég geri ráð fyrir því að Íslendingurinn í hópi greinarhöfunda, Orri Vésteinsson, sem er með doktorspróf í sagnfræði, hafi aðstoðað meðhöfunda sína við að finna þá grein eftir mig sem vitnað er í, þar sem samstarfsmenn hans eru ekki talandi á Íslensku né norrænar tungur, (þótt greinar á ensku um aldursgreiningar séu nú vissulega líka til eftir mig og hefur einn meðhöfunda greinarinnar skrifað í og ritstýrt ritum þar sem þær komu út). Orri dregur einvörðungu upp fyrstu grein mína um efnið frá 1989. Þá var ég  mjög tregur til að setja fram neinar heildarniðurstöður. Ég greindi reyndar frá frá því árið 1989 og hef greint frá því á fjölmörgum stöðum síðan, að ég telji að eyðing Þjórsárdals hafi átt sér stað vegna margra þátta. Það má t.d. lesa hér í hinu víðlesna fornleifafræðiriti danska, Skalk (1996), hér og hér.

sýnataka 1992
Gjóskulögum var gefinn mjög mikill gaumur við rannsóknir á Stöng, en ekki var eingöngu
stuðst við þau við endurskoðun aldursgreiningar byggðar í Þjóðarsárdal. Til eru aðrar og
áreiðanlegri aðferðir til aldursgreininga.

 

En Orri Vésteinsson dósent í fornleifafræði við Háskóla Íslands er ekki betur að sér í því sem ritað hefur verið um Þjórsárdalinn á síðustu áratugum, að hann velur elstu ritgerð mína birta um efnið til að vitna í. Hentugt, því hann og meðhöfundar hans halda því fram að ég hafi ekki komist að sömu niðurstöðu og þeir. Mikið rétt. Þegar greinin sem vitnað er í var rituð árið 1989, var ég ekki búinn að rannsaka nóg til að koma með neinar afgerandi niðurstöður.  En ég greindi vissulega frá þeim síðar, m.a. í grein í norsku riti sem dr. Orri Vésteinsson hefur meira að segja vitnað í í doktorsritgerð sinni í sagnfræði frá Lundúnaháskóla.   

Í stað þess að fara rétt með um rannsóknir mínar, gerir Orri mikið úr því að ég hafi bent á að brot úr leirkeri af enskri gerð, sem sérfræðingar á Englandi vildu aðeins aldursgreina til 13. aldar, hafi ekki passað við eyðingu byggðar í Þjórsárdal árið 1104. Þessi eini gripur var aðeins lítið brot af öllum þeim rökum og niðurstöðum sem bentu í þá átt að Stöng og mikill hluti Þjórsárdals gæti ekki hafa farið í eyði árið 1104. Orra Vésteinssyni ætti að hafa verið í fersku minni, að ýmsir samstarfsmenn hans gegnum árin gerðu því skóna að þeir bresku sérfræðingar, með sérþekkingu á leirkerategund þeirri sem brotið á Stöng var af, vissu ekkert hvað þeir voru að tala um.

En nú vitum við það. Orri og Dugmore og eitthvað fólk frá Ameríku, sem ekki var á staðnum þegar þessar rannsóknir í Þjórsárdal fóru fram, eru nú búin að sýna okkur að Grimston leirker frá 13. öld á Stöng séu ekki óeðlilegur hlutur.

Það var ég þegar búinn að gera í rannsóknarskýrslu árið 1983 og í Kandídatsritgerð árið 1985. Brotið hefur verið kynnt og ferðast með víkingasýningum um Evrópu sem forngripur frá 13. öld.  Orri og samstarfsmenn hans hafa greinilega ekki fylgst með. Margt hefur greinilega farið fram hjá þeim sem kenna komandi kynslóðum fornleifafræðinga á Íslandi í HÍ.

Þetta er að mínu mati ljót og lítilsigld heimildameðferð, og vísvitandi þöggun á niðurstöðum annarra og er Orra Vesteinssyni og Háskóla Íslands til háborinnar skammar.  Hugsar maður til afleiðinganna fyrir Hannes Hólmstein Gissurarson, sem menn töldu vitna of mikið í aðra, hvernig verður starfsmaður Hí sem sniðgengur niðurstöður annarra meðhöndlaður? Ég býst náttúrulega við því að HÍ aðhafist eitthvað, nema að sniðganga og tilvitnunarleysi sé viðurkenndar aðferðir í HÍ.

Bjarni teiknar
Dr. Bjarni F. Einarsson við mælingar á Stöng í Þjórsárdal

 

En að betur athuguðu máli held ég að HÍ geri mannamun. Menn ærðust í HÍ út af Hannesi, en Orri er stikkfrí. Enda á réttum reit í pólitíkinni á sérhverjum tíma. Reyndar hefur Orri Vésteinsson áður stundað þann ljóta leik, að gera niðurstöður annarra að sínum með því að vitna ekki í, eða einfaldlega rangt í upphafsmenn tilgátna eða að sniðganga niðurstöður annarra, t.d. doktors Bjarna Einarssonar. Þess eru dæmi að niðurstöður ýmissa íslenskra fornleifafræðinga séu ekki með í kennsluefni HÍ í fornleifafræði. Þessu hlýtur Orri að stjórna. Eins og kennsluefnið er úr garði gert, virðist það ekki vera nein tilviljun. Íslensk fornleifafræði er ekki kennd í heild sinni. Aðeins það sem hentar ákveðinni klíku. Annað er þaggað niður.

Ég hafði samband við aðalhöfund greinarinnar  í Arctic Anthropology, sömuleiðis ritstjóra þess Susan Kaplan og Orra Vésteinsson vegna óánægju minnar með vinnubrögðin í greininni og lélegar tilvitnanir í vísinda- og fræðistörf mín. Orri er þögull sem gröfin. Hann svarar greinilega ekki gagnrýni. Hvað getur hann líka sagt? Vill hann halda því fram að hann hafi uppgötvað að Þjórsárdalur fór ekki í eyði í byrjun 12. aldar?

Hvað sem öðru líður, og þó svo að Orri og félagar vilji næla í heiðurinn fyrir það sem ég skrifaði m.a. grein um í Árbók Fornleifafélagsins árið 1991 og fékk ekkert annað en ærumeiðandi svargrein fyrir frá jarðfræðingi við HÍ, er augljóst að Þjóðminjasafn Íslands verður að endurskoða fastasýningu sína (meira um það síðar). Þar er einfaldlega farið með rangt og mótsagnakennt mál um endalok miðaldabyggðarinnar í Þjórsárdal. Væntanlega tekur Orri undir það með mér - og fær jafnvel heiðurinn fyrir - og vonandi eins og eina ærumeiðandi grein frá einhverjum gallsúrum jarðfræðingi.

Kannski eru siðferðilega hæpnar aðferðir í tengslum við Fornleifadeild HÍ algengari en grein Morgunblaðsins þann 20.5.2009 gefur til kynna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nei, mættur aftur í bloggleikinn háheilagur eftir dvöl í landinu helga!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.5.2009 kl. 11:38

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sigurður, segðu mér ekki að ekki að þú hafir saknað mín? Ég er reyndar enn í landinu helga

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.5.2009 kl. 15:47

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Fornleifastofnun svarar fyrir sig: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/21/fornleifastofnun_visar_asokunum_a_bugd/ 

FSÍ virðist leika þann gamla leik að heimta upplýsingar frá öllum öðrum en jafnframt neita að gera hreint fyrir eigin dyrum. Það er ekki trúverðugt.

Katrín Jakobsdóttir skýrir málið hér og afstöðuna til FSÍ: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/21/til_alvarlegrar_skodunar/

og Háskólinn er að reyna að þvo hendur sínar, fullar af skít: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/05/21/athugasemd_fra_haskola_islands/

FSÍ myndi aldrei hafa orðið til í velferðarríki að norrænni fyrirmynd. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.5.2009 kl. 16:48

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæl Bjarnheiður. Ætli sé búið að fjarlægja athugsemd McGovern? Ég get ekki fundið hana.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.5.2009 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband