Ég hef í fljótheitum tínt það saman sem ég hef fundið í dagblöðum og öðrum heimildum um geranda og þolanda í máli um misnotkun á börnum sem á að hafa átt sér stað undir þaki kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Öll þau gögn sem ég vitna í eru aðgengileg á netinu eða annars staðar. Ég set þessar upplýsingar ekki fram til að leika einhvern rannsóknarblaðamann. Ég hef skrifað töluvert um málið og varð sjálfur fyrir illmennsku Margrétar Müller í Riftúni er ég var barn. Því lýsti ég fyrst árið 2009, en ekki vegna þess að ég ásaka kaþólsku kirkjuna um neitt. Minn kvalari var ekki kaþólska kirkjan, heldur kona sem aldrei hefði átt að vinna með umönnun barna. Ég held að margt af því sem ég greini frá hér að neðan hafi ekki verið þekkt af þeim fjölmiðlamönnum sem matreitt hafa þetta mál frekar klunnalega ofan í gúrkusoltna Íslendinga.
Guus (August) George
Það blasir strax við að séra Georg (upphaflega Guus George, f. 5.4.1928) var oft nefndur í fjölmiðlum áður en hann dó, og aldrei nema af góðu einu. Erfitt hefur verið að fá upplýsingar um hann frá Hollandi. Hann var bara prestlingur úr sveitinni, fæddur í einhverju krummaskuði í Limburg-sýslu sem heitir Wijlre, en þar býr fólk sem er líklega meira belgískt en það er hollenskt. Hann var einn sjö systkina og fjölskyldan var erkikaþólsk. Hann var óskrifað blað áður en hann kom til Íslands. Sjálfur sagði hann sögu sína í Degi árið 1998. Árið 1991 gerði Sigmar B. Hauksson heimildarmynd um séra Georg sem ber heitið Perla í Vesturbænum (í þáttaröðinni Fólkið í landinu, "perlan" er væntanlega Landakotsskóli). Sumir eiga jafnvel fallegar minningar úr Landakoti, sjá hér.
Er þetta flírlegt bros eins og Illugi Jökulsson hélt fram nýlega?
Er séra Georg andaðist árið árið 2008 birtist þessi minningargrein um séra George eftir frekar þekktan bloggara á Moggablogginu. Í henni og annarri grein í Morgunblaðinu er ekki hægt að lesa neitt misjafnt um manninn. Þannig vill það verða í minningargreinum. Þær eru ekki birtar til að ófrægja fólk.
Séra Georg leit alls ekki út eins og skólabókadæmið um barnaníðing, sem venjulega er sagður ósköp venjulegur og snyrtilegur meðlimur eða vinur fjölskyldu fórnarlambsins. Georg var þvert á móti strangur og óaðlaðandi maður, ellegar eins og Illugi Jökulsson lýsti því, með flírubros [fleðurlegt] undir prestkraganum (hvernig sem það er hægt). Sömuleiðis var hann sköllóttur með yfirgreiðslu, reykingafingur og kartneglur og hjólbeinóttur og jafnvel kafloðna bringu?
Sótti hann í viljalítil og veiklynd börn, sótti hann í börn útlendinga, sem ekki töluðu góða íslensku, eða börn foreldra sem sjálf voru viljalitlir, veikir og kúgaðir? Þessu er ekki hægt að svara með því að lesa minningargreinar sem mæra manninn. En þessu geta fórnarlömbin hugsanlega svarað, þegar mál þeirra og þau sjálf verða rannsökuð.
Eftir detox árið 2010
Iðunn Angela Andrésdóttir
Iðunn er fædd árið 1951, og ef eitthvað lítur hún út fyrir að hafa yngst örlítið frekar en hitt, síðustu 13 árin. Sæmilega undómleg kona um sextugt gæti kannski þakkað detoxinu þessa "gullhamra" mína, en það hefur Iðunn fengið í tvígang hjá Jónínu Ben, og rómaði það mjög í Vikunni í september árið 2010.
Iðunn um það leyti sem séra Georg níddist á henni
Faðir Iðunnar var útlendingur og hét Andrés Alexandersson (1900-1986), eftir að hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1954. Hann var Ungverji og hét áður András Kecskés (ekki Kesckes eins og hann hefur verið tilgreindur á Íslandi; Kecskés þýðir geitahirðir). Hann var kallaður Bandi. Andrés fæddist í þáverandi Serbíu, sem varð hluti af Ungverjalandi árið 1918. Enn býr í Serbíu stór minnihluti Ungverja og bjó amma Iðunnar í smábænum Mohol (Mol) í Serbíu árið 1953. Þeir sem hafa langt minni muna eftir Andrési við afgreiðslu í sjoppu Eymundsson og síðar í tóbakssjoppunni London í Austurstræti. Hann var oft nefndur til sögunnar í sambandi við komu landsmanna sinna til Íslands árið 1957.
Hjónin Andrés Alexandersson (András Kecskés) og Nanna Snæland (á tíma kallaði hún sig Nancy)
Móðir Iðunnar, Nanna Snæland (1912-1991), var frá Hafnarfirði. Hún hét Nanna Snæland og var talin glæsilegust kvenna á sínum yngri árum. Hún giftist ung ungverskum manni dr. Denés (Dennis) Zakál (f. 1900 í bænum Csáktornya), þekktum tónlistarmanni, sem var með hljómsveit sinni, Dr. D. Zakál og Ungverjunum, á Hótel Borg frá 1934-35, og fluttist Nanna Snæland til Ungverjalands og giftist dr. Zakál í Búdapest árið 1935. Denés Zakál, sem var lærður klassískur tónlistamaður, sem skildi eftir sig sinfóníur og píanóverk, sneri sér að dægurlagatónlist um miðbik 4. áratugarins. Einn kennara hans í tónlistakademíunni var Jenő Zador, sem náði miklum frama í Hollywood. Denés Zakál samdi m.a. kvikmyndatónlist fyrir 6 ungverskar kvikmyndir á árunum 1939-44. Meðal annars fyrir kvikmyndina Ó, þú hefur lagst svo lágt. Titillagið má heyra á tónlistaspilara mínum ofarlega í dálkinum til hægri.
Zakál var greinilega frábær tónlistarmaður. Samkvæmt kvikmyndasafninu í Búdapest var Zakál einnig frægur fyrir að verk hans var fyrsta verk ungversks tónskálds sem var leikið í útvarpi. Það gerðist í den Haag í Hollandi 26. Júní 1924, þar sem Zakál vann um tíma.
Úr ungversku bíómyndinni Ó, Þú hefur lagst svo lágt
Íslensk kona, og kaþólikki, Sólveig Guðmundsdóttir sem fór á kirkjuþing í Ungverjalandi árið 1938 og lýsti síðar þeirri ferð og kynnum sínum af Nönnu, sem 1938 kallaði sig Nancy von Zakal. Menn á Íslandi stóðu í þeirri meiningu að Zakal hefði verið barón. Denés Zakal dó árið 1943 í miðju stríði. Nanna/Nancy þjáðist af berklum og gekkst undir uppskurð á lunga í miðju stríði. Meðan á bardögum á milli Þjóðverja og Rússa stóðu sem hæst, hafðist hún fyrir í kjallara og giftist þar í sprengjuregni András Kecskés, sem var 11 árum eldri en hún. Þau fluttust til Íslands árið 1949. Komust út, með því að segjast ætla í ferðalag til ættingja. Það var því ekki furðulegt að borðað hafi verið mikið gúllas heima hjá Iðunni.
Ivan Török
Ung að aldri fór Iðunn til Ungverjalands og giftist 1968 ungverskum manni, hinum litríka Ivan Török (Szabó) (1941-2001), sem margir muna eftir úr leiklistar- og myndlistaheiminum, sem og frá fríríkinu Kristjaníu í Kaupmannahöfn. Sagan segir að hann hafi átt þar hengirúm um skeið. En það var löngu eftir að Iðunn og Ivan skyldu (1973). Iðunn hefur sjálf sagt okkur frá því að eiginmenn hennar hafi verið þrír.
Iðunn og Ivan 1969. Iðunn og Árni 2004
Fyrirtækin sem hún hefur rekið hafa verið enn fleiri en eiginmennirnir. M.a. Boutique 1928, Fornsalan Fornleifur, 1928, Húseign á Fjölnisvegi 16 og jafnvel tómt hús á Freyjugötu 16.
Heimildir eru til um Iðunni, þar sem hún er sögð fyrir litla hunda og átti hún að minnsta kosti einn kjölturakka sem gekk undir nafninu Eros. Dóttir hennar varð fegurðardís og að draumahúsið hennar er ungverskt, fyrir utan bæinn, með rauða veggi og hátt til lofts.
Bros dagsins árið 24.3. 1999
Fyrir utan hinn hræðilega glæp sem Iðunn varð fyrir í Landakoti, af hendi séra Águsts Georgs, sem hægt var að lesa um í Fréttatímanum, þá er saga hennar og foreldra hennar litríkari en gengur og gerist. Út að til virðist Iðunn ekki hafa vera ósæl og bæld manneskja, eins og fórnarlömbum barnaníðinga er oft lýst, þegar þau komast á fullorðinsár. Hún var í sviðsljósinu.
Flestar ofangreindar upplýsingar er hægt að finna í íslenskum dagblöðum eða á netinu. Þetta eru ef til vill ekki upplýsingarnar sem þarf til að þekkja fórnarlambið, og sömuleiðis eru fyrirliggjandi upplýsingar um séra George ef til vill ekki upplýsingarnar til að komast að því sanna um meintan barnaníðing. Ég býst hins vegar við því að rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunnar fari enn betur í saumana á sögu fórnarlambsins en ég geri, því sú saga er mikilvægust í þessu máli. Fórnalambið er á lífi og getur gefið upplýsingarnar. Gerendur eru hins vegar komnir undir græna torfu, hafa ásökun yfir höfðinu, og geta ekki varið orðstír sinn.
Eftirmáli
Meðan að þessi færsla var skrifuð, braust maður nokkur fram á sjónarsviðið. Hann heitir Valgarður Bragason og segist hafa áttað sig á því að séra Gerorg hafi einnig brotið á sér. Þetta varð honum ljóst eftir að hann las frásögn Iðunnar Angelu í Fréttatímanum. Hann fann sig þess vegna til knúinn að fara og brjóta 21 rúðu í húsakynnum presta og biskups kaþólsku kirkjunnar. Það virkar óneitanlega sem frekar óvenjuleg aðferð til að sigrast á vanda sínum. Hann kynnir sig hér sjálfur, mjög svo frumlega, en er greininga ekki maður margra orða, enda gjörningalistamaður.
Einni mínútu og fjórtán sekúndum inn í myndina, fær Valgarður skitusting og spasma og segir "Fuck you". Ég hélt upphaflega að gluggaárás listamannsins Valgarðs Bragasonar væri líka nýlist, en hann er þormikill maður, sem segir sögu sína alla með grjótkasti og undir fullu nafni. Sá sem syndlaus er kastar grjóti...
Viðbót 1.7.2011
mig langar að vekja athygli á eftirfarandi punktum, sem valdið hafa mér heilabrotum:
- Faðir hennar fer á fund biskupsins árið 1963 ("sumarið áður en Iðunn byrjaði í gagnfræðaskóla") eftir að Iðunn segir frá hræðilegri reynslu sinni (heimild Fréttatíminn)
- Riftún opnar fyrst árið 1964, (heimilið var vígt í snemma í júní 1964), og Iðunn Angela er samt send þangað af foreldrum sínum til að vera með séra Georg.
Getur einhver skýrt þetta ósamræmi? Er ég að misskilja eitthvað?