7.12.2007 | 20:27
Bagaleg frétt
Um leið og ég óska biskupi Íslands til hamingju með nýja rússneska bagalinn, þarf víst smá leiðréttingar við frá fornleifafræðingi varðandi bagalega frétt Morgunblaðsins.
Baglar þessir eru á fagmálinu kallaði Tau-baglar [borið fram "tá"] og er þetta fræðiheiti dregið af gríska bókstafnum "tau/tá" T. Tau-baglar eru ekkert sérfyrirbæri Austurkirkjunnar. Þeir baglar, sem eru líkastir baglinum sem fannst á Þingvöllum, eru reyndar úr tré og hafa fundist í Dyflinni á Írlandi. Fagurlega útskornir tau-baglar úr fílsbeini eða rostungstönn hafa fundist nokkrum löndum vestur-Evrópu. Tau-bagallinn á Þingvöllum er því ekki sönnun þess að prelátar frá Rússlandi eða Austur-kirkjunni hafi verið á Íslandi.
Tau-baglar hafa þekkst með mismunandi lagi í gjörvallri Austurkirkjunni og einnig í koptísku/eþíópísku kirkjunni. Stíll og gerð gripa geta eins og kunnugt er breiðst á milli landa og heimsálfa eins og fatatíska, en þurfa ekki endilega alltaf að gefa til kynna uppruna gripanna eða hvað þá heldur uppruna fólks sem átti þá eða notaði.
Eþíópískur munkur með tau-bagal
Ólíklegt er, að þeir "(h)ermsku" prestar, sem greint er frá í Íslendingabók, þeir Petrus, Abraham og Stephanus, hafi tapað bagli sínum á Þingvöllum. Stíll (Úrnesstíll) sá sem bagallinn frá Þingvöllum er skreyttur með, var ekki þekktur í armenskri kirkjulist og tau-baglar voru ekki notaðir í Armensku kirkjunni.
Ef maður fylgir skoðun Magnúsar Más Lárusonar um að ermskir (hermskir) prestar í íslenskum handritum hafi verið prestar frá Ermlandi (rétt austan við Gdansk) er enn fráleitara að hugsa sér að Þingavallbagallinn hafi komið hingað með þeim, því tau-baglar eru ekki þekktir á því svæði sem kallaðist Ermland. Tilgáta F. B. USPENSKIJ frá 2000 finnst mér betri. Hún gengur út á það, að þegar nefndir eru girskir og hermskir prestar í íslenskum heimildum, þá sé ekki endilega átt við uppruna manna, heldur frekar kirkju þeirra. Mér þykir vænlegast að taka mið af þeirri tilgátu og sýnir ákvæði í Grágás það líka að mínu mati. En þrátt fyrir það gæti það alveg eins verið alíslenskur pater sem tapaði baglinum sínum á Þingvöllum.
Ég skrifaði um bagalinn frá Þingvöllum í sýningarritið From Viking to the Crusader: Scandinavia and Europe 800-1200, gripur 335, bls. 314, mynd 155 ef einhver vill kynna sér þetta nánar.
Annars er þessi bagall líklegast ekkert annað en táknræn, kristin gerð stafs Móses. Sumir álíta að prestar gyðinga, rabbíar, hafi gengið með svona staf. Stafur Móses var til í musterinu í Jerúsalem, eða svo segja fróðir menn.
![]() |
Biskup fær rússneskan biskupsstaf að gjöf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 11.11.2009 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2007 | 01:27
Hin nýju alheimstrúarbrögð
Nú er víst alveg óhætt að halda því fram, að nýr sértrúarsöfnuður sé orðinn til. Hann nær til heimbyggðarinnar allrar og slær brátt við kaþólsku. Strax í upphafi þessarar löngu ræðu, og til að fjarlægja allan misskilning, ætla ég að leyfa mér að undirstrika að hér er ekki um að ræða trúarbrögð í hefðbundnum skilningi þess orðs. Félagar í þessum sértrúarhóp eru ekki mikið fyrir helgihald og seremoníur og víst oft yfirlýstir og hatrammir guðleysingar, sem gera gys að venjulegu trúuðu fólki. Mantra þeirra er hins vegar auðskilin: Allt vont sem gerist í heiminum hefur aðrar skýringar en þær sem virðast liggja í augum uppi.
Trúarbrögð þessi greinast í tvær megingreinar. Annars vegar hreinræktaða vantrúarmenn og afneitara. Hér í flokki eru t.d. það fólk sem ekki trúir að helför gyðinga hafi átt sér stað og afneitar henni.
Hins vegar eru þeir, sem hafa séð ósköp eiga sér stað í beinni útsendingu í sjónvarpinu og geta því ekki afneitað tilvist atburðarins. En þeir vilja ekki fyrir neina muni setja það sem þeir sáu í neitt samhengi, án þess að sjá samsæri og þveröfuga greiningu á við það sem flestir telja. Stór hópur fylgir nú þeirri kirkju sem heldur því fram og trúir, að Bush og Bandaríkjastjórn hafi komið ósköpunum þann 11. september 2001 af stað; að þeir hafi dáleitt hóp múslima, sett þá í flugvélar og komið fyrir sprengjum í háhýsum á Manhattan.
Vantrúarmenn, sem geta t.d. ekki trúað að þjóðarmorð hafi átt sér stað, án þess að kenna fórnarlömbunum um, eru upp til hópa sjúkt fólk, haldið þunglund og hatri. Hinir, sem ekki geta sætt sig við orðinn hlut, t.d. að ofstækismen geti grandað sumum af hæstu byggingum heims og þúsundum manna í nafni Allah, eru oftast tilbúnir að fullvissa aðra um að þeir séu hinir mestu mannvinir og friðarsinnar. Margir nýir liðsmenn þessa safnaðar eru gamlir og garfaðir vinstri menn. Þeir nota það jafnvel sem eins konar áreiðanleikavottorð þegar þeir kenna Bush, Bandaríkjunum og zíonistunum um stóra samsærið á bak við 9/11.
Ekki býst ég við því að margir landa minna séu svo forheimskaðir, að þeir aðhyllist þessi trúarbrögð samsæriskenninganna. Á einstaka bloggi hef ég þó séð nokkra furðukalla, (því þetta leggst mest á karlpening eins og Aspargers heilkenni), sem aðhyllast þessi trúarbrögð. Maður gæti haldið að sumir þeirra hafi nýverið brugðuð sér í flugferð með fljúgandi furðuhlut og ekki borið barr sitt eftir það.
Hér í Danmörku er ástandið orðið slæmt. Hér er t.d. rekin vefsíðan http://www.911truth.dk/, stæling á www.911truth.org, sem með þekktum lýðskrumsaðferðum reynir að telja fólki trú um að vondi kallinn sé fluttur úr neðra upp í Hvíta Húsið í Washington til að angra saklaust fólk. Þetta trúfólk hefur ekki ímyndunarafl til að trúa öðru en að Bush og kumpánar hans séu á bak við hryðjuverkin árið 2001 og allt annað sem miður fer í heiminum, þó svo að yfirlýsing Bin Ladens í kjölfar 9/11 hryðjuverkanna sé bókfest.
Þetta er afar líkt og þegar menn á miðöldum, sem og Hitler og nokkrir arftakar hans síðan, kenndu gyðingum um allt sem miður fer í heiminum. Það er einnig bókfest að þeir sem flugu inn í World Trade Center trúðu því. En samt eru þúsundir manna um heim allan sem telja sér trú um að gyðingar hafi staðið á bak við árásirnar á Bandaríkin árið 2001. Þeir álíta að farþegar, sem voru í flugvélunum sem flogið var á turnana í New York og Pentagon, séu á lífi eða hafi aldrei verið til. Sams konar rök nota afneitunarmenn Helfararinnar. Samkvæmt þeim búa fórnarlömb Holocaust í Florida.
Varnarmálaráðherra Súdans kenndi sumarið 2007 gyðingum um þjóðarmorðin í Darfur. Nasistar kenndu gyðingum um kommúnisma og rússnesku byltinguna og helfararafneitendur kenna gyðingum um Helförina. Sjáið http://www.youtube.com/watch?v=w8tfhqmGkSw Samsærismenn hata gyðinga.
Hvergi eru þessi afbrigðilegu nýtrúarbrögð eins sterk og í Bandaríkjunum, föðurlandi samsæriskenninganna. Það er margt víst margt sjúkara þar en húsbóndinn í Hvíta Húsinu, sem mér er bara farið að þykja vænt um þegar maður sér alla vitleysingana sem ganga lausir í BNA og trúa því að Al Quaeda hafi verið búið til af CIA.
Eitt gott dæmi til sönnunar kenningar minnar um að fylgjendur samsæriskenninga séu þunglyndissjúklingar, sem þyrftu á meðferð að halda, er þessi síða : Biblía samsæriskenninganna. Þar sem sérstök áhersla er lögð á að hata yfirvöldin í Washington
Mannskepnan á oft erfitt með að trúa. En það skrýtna er að VANTRÚ getur hæglegu orðið að sterkustu trúarbrögðunum. Af hverju vilja þúsundir manna um heim allan ekki trúa því að vitlausir Íslamistar hafi sprengt upp World Trade Towers hjálparlaust? Alveg hjálparlaust erum við víst öll á góðri leið með að bræða báða pólana og drukka í eigin skít. Er það kannski líka Bush að kenna?
Því miður er einn elsti veikleiki mannsins ástæða þess að við sjáum nú svo marga fylgismenn samsæristrúarbragðanna. Að kenna öðrum um og útnefna blóraböggul fyrir sameiginlegar syndir er frumstæð og leiðigjörn árátta. Því miður er sú kennd mjög sterk meðal íslamista og margra vinstri manna, og t.d. nasista. Þess vegna sjáum við svo margt sameiginlegt með fylgisfólki Hitlers, Stalíns og þeim fylgismönnum Múhameðs, sem gert hafa Íslam að heimsyfirráðastefnu. Hitler, Stalín og Múhameð áttu sér líka eitt sameiginlegt. Þeir sáu alls staðar samsæri geng sér og drápu mismunarlaust alla þá sem þeir ímynduðu sér að stæðu í vegi sínum.
Ég læt Penn & Teller að skýra þetta betur út. Horfið á þetta. Myndin efst er frá mótmælum afneitunartrúarmanna fyrir framan sendiráð BNA í London. Hún skýrir sig sjálf
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.12.2007 kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
3.12.2007 | 20:08
Forsetinn opnar rakarastofu
Abbas Palestínuforseti hefur nú gripið til örþrifaráða. Hann ætlar að fara að klippa skegg andstæðinga sinna. Nei, ekki Ísraelsmanna, lesendur góðir, heldur skegg Hamasmanna.
Hamas klagaði beint í Ísraelsmenn ! Í viðtali við Jerusalem Post segja þeir að Abbas sé farinn í stórrúningu á geithöfrum Hamas, sem hann hefur í réttum sínum. Frelsishetjan Arafat mun einnig hafa haft slíkar hárgreiðslustofur fyrir óþolandi Hamasmenn, sem hann snöggklippti kringum talandann.
Ef friðarferlið í Miðausturlöndum er orðið skegglaust, líst mér ekki á blikuna. Skegg eru varla verri en byssa og sprengjur, en málbyssur þeirra skeggjuðu geta oft verið hættulegar. Skeggjaðir menn eru auðvitað líka gífurlega kynæsandi.
Ég er ekki viss um að þessi nýja "Gillette-doctrine" meðal vel snyrtra Palestínumanna sé mikilvægur hlekkur í friðarferlinu eftir Annapolis. Hvað segir Heiðar snyrtir?
Hvaða rakspíra mæla menn með fyrir Hamas? Komu þessar rakarahugmyndir nokkuð frá Ólafi rakarasyni Gríms á Íslandi?
2.12.2007 | 21:35
Sænskur banki reisir hús á beinum gyðinga
Svenska Enskilda Banken, SEK, sem er víst enn stærri en flestir íslenskir bankar, þótt hann haldi ekki eins góðar veislur, er í vondum málum í Vilníus í Litháen. Þar hefur bankinn fjármagnað byggingar lúxusíbúða á uppsprengdu verði á þeim stað sem áður var helsti grafreitur gyðinga í Vilníus, sem gyðingar kölluðu Vilnu. Gyðingum var, eins og víðast annars staðar, ekki leyft að hafa grafreit sinn innan borgarmarkanna. Þess vegna var honum fundinn staður norður árinnar Neris, sem rennur norðan Vilnu. Fyrir löngu hefur borgin innlimað sveitaþorpið Snipishok, Grísatrýnisþorp, þar sem grafreiturinn var.
Grafreitur þessi hýsir, líkt og aðrir grafreitir gyðinga, jarðneskar leifar til eilífðarnóns. Vilna var á sínum tíma háborg gyðingsdóms í Austur-Evrópu.
Fyrst myrtu nasistar og handlangarar þeirra gyðinga í tugþúsundatali í Litháen. Svo komu Sovétrússar með sinn isma og hafa líkast til ekki vitað neitt um gyðinga, þegar þeir rifu þúsundir grafsteina úr grafreitnum í Snipishok og notuðu þá í undurstöður og tröppu Íþróttarhallar sem þeir byggðu á því svæði sem grafreiturinn var og nýrri götu var gefið nafn Ólympíu (Olimpiečių skyrius). Bein frægra lærifeðra, helgra manna og menningarfrömuða hinnar jiddísku menningar austurevrópska gyðingdómsins voru rifin upp og kastað hauga mannfyrirlitningarinnar Sovétsins.
Nú ræður annar ismi i Vilníus. Sá sem kenndur hefur verið við kapítal, og virðast boðorð hans heldur ekki hlífa gyðingum. Nú er búið að bæta fleiri glerhöllum ofan á það svæði sem selt var gyðingum til ævarandi eignar.
Sænski Bankinn, SEB, er með útibú á jarðhæð þessarar byggingar og reynir að selja og leigja út íbúðir á efri hæðunum. Í kjallaranum er hins vegar reimt og mun gangur mála þar ekki verða SEB til framdráttar.
Svenska Enskilda Banken og litháískir samstarfsmenn þeirra bjóða nú íbúðir til sölu eða til leigu á landi sem er ekki þeirra eign. Litháísk yfirvöld hafa ekkert gert til að hindra enn eitt ránið á arfleifð gyðinga í Vilnu. Bankinn SEB og fólskuflón í stjórnmálastétt Litháens leyfa sér að tala um fyrrverandi grafreit gyðinga í Vilníus. Það er ekkert til sem heitir fyrrverandi grafreitur gyðinga.
SEB varð til úr tveimur bönkum árið 1972 og einn þeirra banka var alfarið í eigu Wallenberg ættarinnar. Sú ætt átti mikil og góð viðskipti við Þriðja ríki nasista og keyptu illa fengið gull af þeim. Eru menn að halda áfram þar sem frá var horfið?
Hurra Sverige!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.11.2007 | 09:34
Dúkkan í gettóinu
Þetta er hönd gyðings frá Hebron. Hann var myrtur af æstum múg árið 1929. Æstur múgur er enn tilbúinn til að myrða gyðinga í Hebron. Nú eru aðrir tímar og múgurinn hefur með sér lækni frá Íslandi, klyfjaðan myndavélum. Sveinn Rúnar Hauksson heitir doktorinn. Sveinn Rúnar er enginn Spielberg, en boðskapurinn kemst þó til skila enda er hann eingöngu einhliða hjá Sveini, eins og stuðningsmanni öfgasamtaka sæmir.
Á bloggi Júlíusar Valsonar, góðvinar og kollega Sveins, er erfitt að segja skoðun sína ef maður heitir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. Innri KGB maðurinn í Júlíusi fjarlægir alla gangrýni. Ég held að hann hafi alltaf fjarlægt skoðanir frá mér. Í þetta sinn getur hann það ekki. Ég birti þær á mínu eigin bloggi.
Í nótt setti Júlíus á bloggið sitt myndasyrpu Sveins Rúnars Haukssonar Palestínufara, þar sem hann fjallar um "ruslahaug gyðinga" í Hebron og undarlega dúkku, eftir að hafa fengið skammt af táragasi Ísraelsmanna. Í myndinni gerir Sveinn mikið umtal út af "ruslahaug gyðinga":
"Þetta er ruslahaugur gyðinganna sem búa hér fyrir ofan, landtökuliðsins. ......
Þarna hafa þeir fleygt dúkku..... þetta er undarlegt ... þetta er undarlegt ... hvað hún stendur fyrir......
Það er rétt er að halda áfram að taka myndir af þessu rusli hérna.......
Þetta er gata sem er bara fyrir gyðinga. This is only Jew's street at least not for Palestinians.
Þessi maður má ganga á götunni enda er hann með gyðingakollu þarna."
Sveinn Rúnar Palestínufari segir okkur ekki að Hebron er önnur heilagasta borg gyðinga. Þar bjuggu gyðingar þangað til 1929, þegar arabar réðust á þá og myrtu 67 manns. Gyðingar flýðu þá Hebron. Gyðingar höfðu fyrir þennan hræðilega atburð búið í sátt og samlyndi við araba. Já og nokkuð þúsund ár áður en arabar urðu til. En skyndilega árið 1929 ákváðu öfl sem eru forfeður þeirra sem Sveinn Rúnar talar við í mynd sinni, að ráðast á saklausa gyðinga. Síðan þá hafa arabar ekki viljað hafa gyðinga í Hebron. Hver er að tala um Apartheid? Jórdanar, sem stýrðu borginni frá 1948, gerðu gyðingahverfið í Hebron að ruslahaug og helsta samkunduhús gyðinga, Abraham Avinu, sem byggt var á 16. öld var eyðilagt og gert að asnastíu og geitahúsi.
Bækur gyðinga sem myrtir voru eða flæmdir burt frá Hebron árið 1929. Minnir á bókahrúgur í Auschwitz. Fleiri myndir hér
Fyrir menn eins og Svein Rúnar Hauksson, sem hafa svo mikinn áhuga á ruslahaugum, hlýtur að vera áhugavert að heyra um gyðingahverfið og helg hús gyðinga sem voru gerð að ruslahaug af Palestínumönnum.
Í Hebron búa nú 140.000 Palestínumenn og 500 gyðingar. Gyðingarnir hafa ekki getað um frjálst höfuð strokið síðan átti að útrýma þeim þar árið 1929. Það var ekki í fyrsta sinn. Krossfarar ráku gyðinga úr borginni á 12. öld og þegar múhameðstrúarmenn náðu borginni aftur voru réttindi gyðinga ekki mikil. Þeim var meinað að heimsækja helga staði sína - allt fram á 20. öld.
Eitt af fórnarlömbum ofsóknanna í Hebron 1929
Eftir 1967 hafa afkomendur þeirra gyðinga sem búið höfðu í aldaraðir í Hebron ekki fengið aftur hús sín. Aðrir gyðingar hafa sest þar að og hafa margir þeirra mátt láta lífið fyrir það uppátæki. Gyðingar geta ekki búið óhultir í þessari gömlu borg gyðinga. Palestínumenn halda uppi andanum frá 1929.
Þann 26. mars 2001 var 10 mánaða stúlkubarn, Shalhevet Pass, skotin í höfuðið af palestínskri hetju.
Shalhevet Pass sem myrt var í Hebron árið 2001 og gröf hennar i Hebron
Það er ekki grafreitur gyðinga, þar sem Shalhevet litla hvílir, sem Sveinn sýnir okkur í mynd sinni. Árið 1993 var ráðist á afa hennar með öxi þegar hann var á leið til bænar. Maðurinn með "gyðingakolluna", sem gekk inn í mynd Sveins Rúnars, gæti jafnvel verið afi Shalhevetu? Móðursystir Shalhevetu var stungin í bakið af frelsishetju árið 1998 og móðurbróðir hennar skotinn í fótinn árið 2001.
Svei mér þá, ég held bara að hann Sveinn Rúnar Hauksson frá Íslandi hafið jafnvel fundið dúkkuna hennar Shalhevetu við gettó gyðinga í Hebron.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.12.2007 kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
15.11.2007 | 21:25
Einstakur viðburður
Í kvöld sýndi sænska sjónvarpið fyrsta þáttinn í nýrri þáttaröð sem ber heitið Vrakletarna.
Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni hér: http://svt.se/svt/play/video.jsp?a=971670
Og þessa frábæru stuttmynd og frétt á hollensku:
Fyrir fornleifafræðing er fundur þessa 17. aldar skips eins og að drekka eðalkoníak eftir fimmstjörnumáltíð. Ég naut þáttarins til fulls og gerðist drukkinn af upplifuninni.
Með nýjustu tækni og vísindum, sem lýst er þokkalega í þættinum, og þegar ekki var verið að mynda freigátuna sem stjórnar þættinum, Jonnu Ulin fornleifafræðing, fengu áhorfendur mynd af flaki, sem hugsanlega er heillegra en Wasa, konungsskipið, sem sökk árið 1628 og var lyft á land árið 1961.
Skipið, sem fannst á 125 metra dýpi úti fyrir suðausturhluta Svíþjóðar, sést hér á mynd sem er unnin úr gögnum dýparmælinga. Þetta virðist vera kaupfar. Ekki sáust neinar fallbyssur við þær frumathuganir sem fóru fram í sumar. Sérfræðingarnir telja að þarna sé á ferðinni hollensk flauta (fluit) frá 17. öld. Skipið er aðeins 20-25 metrar að lengd og mjög vel varðveitt. Útskurður og annað skreyti er enn varðveitt. Skipið Melkmeyt, sem sökk við Flatey árið 1659 var einmitt af þessari gerð skipa. Flautur sigldu fyrst um 1590 og er skipið sem var sýnt í kvöld í sænska sjónvarpinu af eldri gerð slíkra skipa. Það er óneitanlega eitthvað 16. aldarlegt yfir því. Hið dæmigerða flautuskip var miklu ávalara en það skip sem skuggamyndin af botni Eystrasalts sýnir.
Þetta er einstakur viðburður. Eins og veisla fyrir fornleifafræðing. Aðrir hljóta að hrífast með. Horfið á þáttinn.
![]() |
Sjónvarpsmenn fundu skipsflak frá sautjándu öld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.11.2007 | 10:53
Danski stríðsglæpamaðurinn sem enginn mátti heyra um
Í byrjun árs 2005 birtist eftir mig grein í helgarblaðinu Weekendavisen í Danmörku. Greinin, sem hægt er að lesa hér, fjallaði um danskan stríðsglæpamann, Gustav Alfred Jepsen, sem enginn hafði heyrt um áður. Ástæðan fyrir þeirri þögn var að dönsk yfirvöld höfðu klórað mjög vandlega yfir málaferli gegn honum og aftöku hans árið 1947. Þessi danski borgari framdi stærsta glæp Dana í síðari Heimsstyrjöld. Dönsk yfirvöld vildu ekki að mál hans skyggði á "hetjulega" framgöngu þeirra í stríðinu.
Þegar ég sá heimasíðu íslenskra rasista (skapari.is, sem virðist hafa verið lokað), sem mikið hefur verið skrifað um, kom danski fjöldamorðinginn upp í huga mér. Ég held að einstaklingarnir bak við þá síðu eigi bágt eins og danski stríðsglæpamaðurinn. Ég held að þessir menn gætu hæglega leikið sama hlutverk og danski SS maðurinn ef aðstæður væru fyrir hendi.
Ekki voru allir Danir sáttir við grein mína. Fylgismenn þeirrar söguskoðunar, að samvinna við Þriðja ríkið hafið verið vænsti kostur fyrir Dana eru margir. Fyrir utan hótunarbréf og tvö dólgsleg símtöl, skrifuðu nokkrir Danir lesendabréf í Weekendavisen og mótmæltu grein minni. Þeir töldu Gustav Alfred Jepsen hafa verið Þjóðverja, vegna þess að hann tilheyrði þýska minnihlutanum í Danmörku. Gustav Alfred Jepsen leit hins vegar sjálfur á sig sem Dana og var danskur þegn, skráður í SS sem Dani og krafðist þess að tala dönsku við réttarhöld sín. Dönsk yfirvöld litu á hann sem eins konar Dana, lagalega séð, og héldu vörð um þögnina til hins síðasta, eins og fram kemur í grein minni. Dönsk yfirvöld mæltu með því við konu hans og son, að þau færu ekki til að kveðja hann áður en hann var hengdur.
Sumir Danir töldu árið 2005 að Þjóðverjar væru einir færir um að fremja þá glæpi sem Gustav Alfred Jepsen framdi. Ég er á annarri skoðun og tel að einstaklingarnir bak við rasistasíðuna íslensku séu á góðri leið að lenda í sömu sporum og morðhundar Heimsstyrjaldarinnar.
Lögregluyfirvöld og dómskerfið á Íslandi verða að hafa upp á þessum pörupiltum og koma þeim bak við lás og slá eða í meðferð á geðsjúkrahúsi. Þessi síða þeirra er ekkert spaug, heldur endurtekning á morðhótunum sem hafa heyrst einum of oft.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.2.2022 kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.11.2007 | 17:01
Axarskaft á Þjóðminjasafni
Í gær var múgur og margmenni saman komin á Þjóðminjasafni Íslands. Þá bauðst fólki að koma með forngripi sína í greiningu. Það var góð og tímabær hugmynd að efna til greiningardags.
Á Mbl.is birtist í dag mynd af öxi sem kona fann í Þjórsárdal. Hún gekk heim frá sérfræðingum Þjóðminjasafns í þeirri trú að hún hefði fundið öxi frá 11. eða 12. öld.
Annað hvort hefur sérfræðingurinn sem aðstoðaði blessaða konuna ekkert vit á því sem hann er að gera, eða hann hefur verið úti á þekju í gær. Kannski var þetta tvennt vandamálið.
Öxin sem fannst í Þjórsárdal er ekki frá 11. eða 12. öld. Síðasta byggð dalnum innanverðum fór í eyði á fyrri hluta 13. aldar, en ekki í og rétt eftir stóra Heklugosinu árið 1104, þó að afleiðingar þess hafi haft mikið að segja síðar. Gripir sem finnast í Þjórsárdal þurfa ekki að vera frá því fyrir 1104.
Yngri gripir en frá því í byrjun 13. aldar hafa fundist í Þjórsárdal. T.d. eineggja sverð frá því um 1500.
Öxin, sem komið var með til greiningar í gær á Þjóðminjasafni Íslands, er eins konar skeggöxi, sem ber ekki einkenni axa frá 11. og 12. öld. Sérfræðingur safnsins ætti að vita betur. Axir af þessari gerð eru aldursgreindar til tímabilsins 1300-1500 og voru oftast verkfæri og ekki vopn. Miðað við bækur þær sem ég hef undir höndum, tel ég að aldursgreining til 15. aldar sé líklegust. Líklegt er að að þetta hafi verið öxi Skálholtsbiskupa, en Skálholtsstóll átti lengi skógarítök í Þjórsárdal eftir að byggð lagðist þar í eyði.
Í norskum miðaldamáldögum má lesa að um 1350 hafi ein slík öxi fengist fyrir eitt kýrverð. Það verður þó at teljast líklegt að verðið hér á landi hafi verið hærra. Það er, eins og kunna er, alltaf lagt á á Íslandi. Það hefur reyndar líka verið lagt ærlega á aldur axarinnar í Þjórsárdal.
Þess má geta að dr. Kristján Eldjárn treysti sér ekki í doktorsritgerð sinni Kuml og Haugfé að aldursgreina axir eins og þær sem komið var með á Þjóðminjasafni í gær. Mönnum hefur greinilega aukist þor og kunnátta síðan sú biblía kom út
En það hefur nú gerst áður að sérfræðingum á Þjóðminjasafninu hefur brugðist bogalistin. Eitt sinn komu ákaflega þrjóskir ævintýramenn niður það sem þeir héldu vera hollensk gullskip á Skeiðarársandi sem strandaði þar árið 1667. Þeir höfðu meira að segja í hita leiksins fengið staðfestingu á að svo væri frá einum af fremstu sérfræðingum Þjóðminjasafnsins í silfurkönnum. Hann taldi í hita leiksins keðju sem kom upp úr sandinum vera vera ævaforna. Skömmu síðar kom í ljós að keðjan var úr þýskum togara frá upphafi 20. aldar. Þjóðminjasafn fékk reyndar aukafárveitingu upp úr krafsinu, enda ekki úr of miklu að moða á þeim árum. Ekki var það heldur efnilegt þegar silfursjóður einn frægur austan af landi gerðist miklu yngri en hann er, eftir að hafa verið í höndum eins fremsta sérfræðings Breta í silfurfræði víkingaaldar. Álit Bretans var hrakið af miklu kappi og offorsi og þykir sjóðurinn nú einn merkilegasti silfursjóður Norðurlanda frá víkingaöld. Einn gripanna í sjóðnum er nefnilega talinn geta verið frá nútíma og þegar sjóðurinn fannst í jörðu hafði ekki einu sinni fallið á hann. Það hefur aldrei gerst í sögu silfursjóða á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Fyrir hugsjónamenn hlýtur mold frá Austurlandi að vera gott efni í meiri háttar útrásardæmi. Aldrei mun falla aftur á silfur ef á er borin austfirsk drulla.
"Eigendur taka gripina með sér aftur að lokinni skoðun" sagði í kynningu á gripagreiningunni á Þjóðminjasafni. Hvernig fær það staðist Þjóðminjalög í tilfelli axarinnar? Öxin hefur vonandi verið afhent Þjóðminjasafninu í gær eða samningur gerður um að það verði gert hið fyrsta.
Þótt sumum bloggurum finnist þetta ómerkilegt ryðgað járnadrasl, þá er svona drasl einu sinni þjóðminjar Íslendinga. Ég sá margt annað merkilegt frá þessari greiningu á Þjóðminjasafni Íslands í útsendingu sjónvarpsins í gær, sem örugglega hefur verið dæmt og greint af fróðari mönnum en þeim sem sendi konu heim með 800 ára gamla öxi í misgripum.
Spaugstofan gerði þetta nýdæmi á Þjóðminjasafni spaugilegt þann 24. nóvember 2007.
![]() |
Fjöldi fólks varð frá að hverfa í Þjóðminjasafninu í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 26.11.2007 kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.11.2007 | 19:12
Tuusula
Atburðir dagsins í Tuusula í Finnlandi slá harmi á alla viti borna menn. Maður getur aðeins spurt sjálfan sig hvað veldur svona tilgangslausu brjálæði? Af hverju þurfa sumir menn að draga aðra með sér í dauðann? Erfitt uppeldi, ástarsorg, stundarbrjálæði eða eitthvað annað? Ekkert virðist rökrétt í svona glæp.
Fjölmiðlar eru farnir að geta sér til um hvað gerðist í höfðinu á piltinum sem framdi ódæðið, og skrifa nú að hann hafi sagst taka SSRI geðlyf. Skólamorðingjar í Bandaríkjunum hafa einnig verið á þessari tegund "gleðilyfja". Íslendingar eiga reyndar Norðurlandametið í notkun þessara lyfja.
Skotvopn ættu ekki að vera á heimilum manna á þessum lyfjum.
Ef SSRI lyf, eða röng notkun þeirra, geta valdi sturlun, ætti að banna þau þegar og íslensk yfirvöld ættu að fá heimild til að samkeyra lyfjaupplýsingar við upplýsingar sínar um vopnaeign landsmanna. Íslendingar eru að mörgu leiti líkir Finnum. Höfum vaðið fyrir neðan okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.11.2007 | 19:11
Icelandic supermice
Dr. Ebenezer Henderson, Skotinn sem gerðist prestur í Danmörku og dreifði biblíum út um allt, velti líka fyrir sér veraldlegum fyrirbærum. Hann velti fyrir sér íslenskum músum í ferðabók sinni frá Íslandi árið (1818). Þar skrifar hann á blaðsíðum 417-19 um athuganir Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem fyrst komu út í Íslandslýsingu þeirra árið 1772. Rannsóknir þeirra bentu til þess að hagamýs söfnuðu berjum og öðru ætilegu á þurrar kúadellur, sem þær svo roguðust með niður að næsta læk, hoppuðu um borð og stýrðu dellunni með halanum, þangað til þær voru komnar heilu og höldnu á áfangastað.
Hr. Hooker, sem einnig ferðaðist á Íslandi, henti gaman af þessari vitleysu hjá Eggerti og Bjarna og segir okkur að sérhver viti borinn Íslendingur hlægi af þessari upplýsingu Eggerts og Bjarna.
En Henderson var trúmaður og hann tilkynnti lesendum sínum með mikilli andargift í bók sinni Iceland: Or the Journal of A Residence in the Island during the Years 1814 and 1815:
Having been apprised of the doubts that were entertained on this subject, before setting out on my second excursion, I made a point of the account, and I am happy in being able to say, that it is now established as an important fact in natural history, by the testimony of two eye-witnesses of unquestionable veracity, the clergyman of Brjamslæk, and Madame Benedictson of Stickesholm, both of whom assured me that they had seen the expedition performed repeatedly".
Ebenezer Henderson hafði mikil áhrif á skeggtísku Össurar Skarphéðinssonar
Madame Bendediktsson, sem hét Jarþrúður Jónsdóttir (og var kona Boga Benediktssonar faktors og fræðimanns) hafði á sínum yngri árum haft möguleikann á því eina kvöldstund, að virða fyrir sér mýs við strönd lítils stöðuvatns, og sjá hvernig litlu dýrin léku listir sínar sem ferjumenn. Maddaman greindi einnig frá því að mýsnar hefðu notað þurra sveppi sem töskur.
Annað hvort hefur frú Jarþrúður sjálf verið á sveppum þetta sumar, eða að hún hafi verið berdreymin í meira lagi og hefur máski séð fyrir sér Íslendinga árið 2007 fyrir utan Bónusverslun, en ekki getað sett þá sýn í samhengi - ekki trúað sínum eigin draumum.
Þetta athæfi íslenskra músa þótti enn svo merkilegt árið 1832, að alþýðufræðararnir hjá Penny Magazine sögðu frá þessu og bættu við myndinni af íslenskum músum á siglingu.
Nú er vandamálið bara, að ég veit ekki hvort þetta er rétt eða rangt. Ég hef aldrei fylgst með músum. Geta íslenskar mýs siglt á kúadellum og hafa þær yfirleitt leyfi til þess? Sumir íslenskir fjármálasnillingar geta greinilega siglt á hvaða dellu sem er og er þeim trúað fram í rauðan dauðann.
Menning og listir | Breytt 30.3.2008 kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Viðreisnarklappstýran
- Tapað-fundið á DV
- Ekki fleiri sokka frá Íslandi, TAKK.
- Trumpur Eyjajarl
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.7.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 63
- Frá upphafi: 1355747
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Janúar 2025
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007