Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Sænsk móðir hýðir geimveru

Alien

Sænsk móðir tapaði sönsum nýlega, þegar sonur hennar 4 ára kom grátandi i heim. Eitthvert hrekkjusvín í nágrenninu hafði verið að hrekkja snáðann. Hrekkjusvínið, sem er níu ára, hafði borið geimverugrímu og hrætt líftóruna úr yngri drengnum.

Þegar sænska mamman heyrði hvað gerðist, hljóp hún út og elti geimveruhrekkjusvínið uppi. Þegar hún fann geimveruna, voru sumar senurnar i "Men in Black" barnaleikur einn hjá því sem þessi Ulla Britt (rétt nafn konunnar er annað) gerði við hrekkjusvínið. Nágrannakonur sáu barsmíðar móðurinnar á hrekkjusvíninu. Í Svíþjóð má sem betur fer ekki berja börn (né geimverur, né stríðglæpamenn, né morðingja forsætisráðherra). Svíar eru ekki ofbeldisþjóð (þó að þeir selji vopn).

Nú hefur sænska mamman verið dæmd í 9.600 sænskra króna sekt.

Hér langar mig nú að koma því að, að sonur minn fann grímu eins þá sem þið sjáið á myndinni hér að ofan. Hann fann hana í kassa á markaði, sem haldinn er hér í nægrenninu á sumri hverju, þar sem börn geta selt gömul gull sín og keypt gull annarra barna. Sonur minn var tæplega 3ja ára og vildi ólmur fá geimverugrímuna. Hann fékk hana fyrir 2 krónur með í kaupunum á hríðskotariffli, sem hann keypti af dreng, sem var komin á æðra stig í hryllingsleikföngum. Ég verð oft hræddur, þegar sonur minn setur á sig grímuna og baunar á mig með hríðskotarifflinum.

Ég skil alveg hvað Ulla Britt fór í gegnum, þegar sonur hennar kom heim eftir árás geimverunnar. 9.600 sænskar krónur er ef til vill allt of há sekt fyrir að berja á litlum hrekkjusvínum. En þótt Svíar hafi frá blautu barnsbeini séð Emil frá Kattholti barinn á hverjum sunnudegi, er enginn ástæða til þess berja börn nágrannanna nú á 21. öld. En stundum springur ventillinn líka í velferðarparadísinni. Gott að Ulla Britt átti ekki Husquarna riffil.


Danska svínið og hin heilaga pølse

Pylsuvang 

Úr þessum forláta pulsuvangi seldi útlendingaráðherra Dana, Rikke Hvilshøj, heitar, pólitískar pylsur fyrir síðustu kosningar. Nú sendir hún múslimi úr landi.

Í gær birti Nyhedsavisen, sem að hluta til er í eigu Íslendinga sem þessa dagana verma stóla Reykvískra réttarsala, afar merka grein. Greinin fjallaði um pulsuvagna, þetta rammdanska menningarfyrirbæri, sem sumir Danir myndu deyja fyrir.

Greinin fjallar um gæði og vinsældir ákveðinna pulsuvagna í Kaupmannahöfn. Ég get ekki frætt ykkur um þetta, enda hef ég ekki étið á þeim stöðum sem nefndir eru til sögunnar í grein Nyhedsavisen. En Nyhedsavisen bregður á leik, ef svo má að orði komast, og biður leigubílstjórann Turkan Daminovski, sem er múslimur um að dæma pusluvagnana. Turkan þessi mun vera mikill pylsugleypir og áhugamaður um svínakjötsát.

Það er einmitt þetta atriði í greininni, frekar en gæði pulsuvagnanna, sem ég hef mannfræðilegan áhuga á . Turkan er nefnilega múslimur og alla jafnan borða múslimir ekki svínakjöt. Eins og í fréttinni stendur: “Turkan er nútíma múslimur, eins og hann segir sjálfur. Enginn annar í fjölskyldu hans borðar svínakjöt ..... << Synir mínir sem eru 16 og 18 ára kasta upp af svínakjöti og pabbi minn segir að ég verði að borða svínakjötið utan heimilisins og ekki taka það með mér heim>>, segir Turkan”.

Ekki veit ég hvaða leigubílastöð pulsusérfræðingurinn Turkan ekur fyrir, en tel víst, að það sé ekki hann sem hefur neitað að aka með gyðinga í Kaupmannahöfn (sjá fyrri færslu).

Kannski grísakótilettan og danskar pulsur muni brúa það bil sem er á milli þeirra menningaheima, sem harðast takast á um þessar mundir.

Ekki mæli ég þó með dönsku útflutningsátaki á pulsum í heimi múslima, nú í kjölfarið á hamaganginum með teikningarnar af Múhameð spámanni. Það gæti orðið svínslegt.


Leigubílastöðin 4x35 harmar mismunun

4x35

Í bréfi, sem Anne Kilde Bawja þjónustufulltrúi leigubílafyrirtækisins 4x35 í Kaupmannahöfn ritaði söfnuði gyðinga þar í borg þann 14. þ.m., er það harmað að einstakir bílstjórar fyrirtækisins hafi mismunað gyðingum og neitað að aka þeim til safnaðarheimils þeirra í hjarta Kaupmannahafnar.

Anna Kilde Bawja skrifar, að það verði gerðar ráðstafanir geng þeim bílstjórum sem verða uppvísir af slíkri mismunum og óviðeigandi hegðun, þar sem þannig framkoma brýtur í bága við reglur fyrirtækisins og dönsk lög.

Nú geta danskir gyðingar aftur ekið óhultir með 4x35.

 


Für Juden verboten

Muslim Cabbie

Er hér verið að biðja um réttu farþegana?

Nú er það svart maður. Öryggisfulltrúi gyðingasafnaðarins í Kaupmannahöfn hefur sent frá sér yfirlýsingu um að gyðingum sé ekki óhætt að panta leigubíl frá ákveðnu leigubílafyrirtæki í Kaupmannahöfn. Sumir bílstjórar hjá fyrirtækinu 4x35, sem eru fylgjendur Íslams, trúar friðar og virðingar, neita að aka fólki að heimilisfanginu Ny Kongensgade 6 í hjarta Kaupmannahafnar. Ástæðan er, að þar er safnaðarheimili gyðinga til húsa. Sumir bílstjórar 4x35 vilja greinilega ekki aka þangað samkvæmt öryggisverði safnaðarins Jerry Hessner. Kvenfélag safnaðarins, sem hefur orðið fyrir barðinu að ”trúuðum” bílstjórum, hefur því sent út tilkynningu og beðið fólk um að nota önnur fyrirtæki en 4x35.

Bar ég þetta af forvitni undir leigubílastöðina, sem neitaði alfarið að svona lagað gæti átt sér stað, en ætluðu menn þar á bæ þó að rannsaka málið hið fyrsta. Ef það er rétt, að leigubílstjórar mismuni fólki vegna trúar, varðar það við hegningarlög.

Þegar ég frétti þetta minntist ég fréttar af múslimi af sómalískum ættum, sem starfaði í BNA. Ók hann tvo námsmenn niður vegna þess að hann deildi við þessa tvo farþega sína um trúarbrögð.Stór hluti leigubílstjóra í Minneapolis, sem eru múslimir, tóku upp á því í fyrra að neita að aka með farþega, sem annað hvort höfðu neytt áfengra drykkja (sjá hér), eða með þá sem höfðu áfengi í fórum sínum. Bílstjórarnir komust upp með þetta um skeið, og flugvallar- og borgaryfirvöld leyfðu þeim að framfylgja Sharíalögum sínum. Nú er búið að afnema þetta leyfi og snúa kvæðinu í kross. Ef menn neita að aka með fyllibyttur og fólk með þunga plastpoka, varðar það sektum.

Svona bönn voru líka mikið notuð af nazistum. 

Für Juden verboten 

 


Endalok Íraks

Endalok Íraks innsigluð

Ef Nuri el Maliki meinar eitthvað með beiðni sinni um hjálp frá nágrannaríkjum Íraks, eru endalok Íraks loks orðin að veruleika. Landið er, eins og mörg ríki í Miðausturlöndum, hreinn tilbúningur sem orðið hefur til á teikniborðum evrópskra nýlendufursta. Í Írak, hefur t.d. aldrei verið hægt að tala um írakska þjóðerniskennd, eins og þá sem t.d. hefur orðið til meðal þess mjög fjölleita hóps sem í dag kalla sig Palestínumenn. Mismunandi trúarfylkingar og þjóðarbrot gerir það nærri ómögulegt að tala um ríkið Írak og írakska þjóð. Það sama er tilfellið á Sýrlandi, í Afganistan og víðar.

Slík ríki hafa hingað til verið útópíur fyrir einræðisherra og "flokka" þeirra, sem venjulega taka Guð í gíslingu. Svoleiðis menn hafa fyrst og fremst hyglt ættbálki sínum á kostnað annarra hópa sem búa á landsvæði, sem hefur fengið tæknileg nöfn og landamæri hjá kortagerðum herforingjaráða í Evrópu.

El Maliki biður um hjálp frá röngum aðilum.  Frá Sýrlandi og Íran hefur hingað til aðeins komið sundrung og eyðileggin inn í Írak.  Kannski langar El Maliki að ljúka þessu af og láta Íran og Sýrland skipta eyðimörkinni á milli sín?

Ég tel mig ekki sjá ofsjónir og heyra raddir þegar ég upplifi landa mína tala um "Stríð BNA" í Írak og sé þá krefja að vestrænar hersveitir hverfi á brott frá Írak.

Kæru vinir á vinstri væng vitleysunnar. Bandaríkin og aðrir sem stunda friðargæslu í Írak, eftir að einræðisherranum Saddam var steypt af stóli, eru ekki ástæðan fyrir því að 30-200 manns eru myrtar daglega í Bagdað. Þau hryðjuverk eiga upptök á Sýrlandi og í Íran. Í hvert sinn sem þið krefjið heri vestrænna ríkja frá Írak komið þið nær eyðingu írakskar "þjóðar" og einingar í ríkinu Írak.

 


mbl.is Írakar kalla eftir aðstoð við að kveða niður ofbeldið í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleg mynd á laugardagskvöldi

Bush and Lulita

Bush fór með nesti og nýja skó til Suður-Ameríku. Hann hefur greinilega deilt út af nestinu. 

Þetta er fallegt. Hjartnæmt! Vildi deila þessu með ykkur áður en ég fer í háttinn. Batnandi börnum er best að lifa! Ekki allir sem hata Bush og BNA eins og á Íslandi.  


Daniel Pipes í Kaupmannahöfn

Daniel Pipes in Copenhagen

Ég fór í dag til að hlusta á súpermann zíonistanna, Daniel Pipes, sem er staddur í Kaupmannahöfn. Hann hélt erindi í kjallaranum á safnaðarheimili gyðinga í Kaupmannahöfn. Ekki ætla ég að endurtaka það sem maðurinn sagði, því að miklu betra er að upplýsast á heimasíðu Daniels Pipes sjálfs

Eftir fyrirlesturinn fékk ég áhugaverðar fréttir. Upplýsingar þær sem ég lét Simon Wiesenthal stofnuninni í Jerúsalem í té um danska stríðsglæpamanninn Søren Kam, eftir að Þjóðverjar neituðu að taka mál hans fyrir rétt,  hafa valdið því að danskir gyðingar krefjast þess að danska dómsmálaráðuneytið flýti rannsókn á þeim glæpum Kams sem ég benti mönnum á. Áður en það gerðist var danski dómsmálaráðherrann búinn að biðja dönsku lögregluna um að ganga í málið. Þýsk yfirvöld þegja og þýskt sendiráðsráðunaut hér í Kaupmannahöfn tjáði dagblaðinu Politiken nýlega, að hann hefði skipun að ofan um að tjá sig ekki um málið.

Nú, aftur í veruleikann, þegar ég hélt heim á leið var eitthvað um að vera. Lögreglan hafði safnast saman í flokkum með brynvarða bíla á Gammel Torv og við norðuhlið Vorrar Frúar Kirkju. Sá ég ekki betur en að danska löggan væri komin með bíla frá hollensku löggunni. Kallaði ég af gamni blótsyrði á hollensku, sem sýndi mér að hollenskar löggur höfðu ekki fylgt lánsbílunum, því engin viðbrögð voru við skrækjum mínu. Tvær þyrlur voru á sveimi yfir miðborginni. Ekki þætti mér ólíklegt að einhver muni snapa sér fæting í kvöld og lögreglan geti kýlt kúlu á hausinn á nokkrum unglingum.


Til hamingju með daginn (2)

Burqa

Milljónir kvenna halda ekki upp á baráttudag kvenna. Þær eru pakkaðar inn í burqa, chador og hijab og er seldar eins og dýr hæstbjóðandi karlpeningi, margar þeirra aðeins á barnsaldri.  Hulinshettan er til þess að óviðkomandi karlpeningur lokkist ekki til að stela "eigninni" frá þeim sem hefur keypt vöruna. Það er ekkert "bleikt" í tilveru þessarra kvenna.

Þessi innpökkun á sér stað víða um lönd. Sumir vesturlandabúar virðars vera dálítið veikir fyrir þeirri menningu sem alið hefur þessa niðulægingu af sér.  En kannski eru þessar tuskur líka Bandaríkjamönnum, Zíonistunum og ómenningu þeirra að kenna?

Munið eftir kynsystrum ykkar undir hulunni, og hugsið um hvernig blóðþrýstingurinn er í 40 stiga hita undir þéttri hulu!


Konur, til hamingju með daginn

Anna i Gardshorni

 

Fjarlægið beizlin eins og Anna í Garðshorni gerði forðum.  En farið nú varlega með karlmennina. Aðgát skal höfð í nærveru sálar eins og málshátturinn segir. 


Stokkurinn og gríman

Maskubaru

Japanskir ferðamenn á kínverskum veitingastað í Reykjavík. "Japanarnir taka vart af sér grímurnar þegar þeir borða" segir Teitur Fong veitingamaður.

 

Í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi var greint frá mengun í höfuðborginni og kröfum um að fá Kringlumýrarbraut og Miklubraut niður í stokk. Hefur einhver hugsað um, hvernig mengunin í stokknum yrði? Hvar á að lofta út? Ef til vill úti í Viðey?

Ein af mörgum smámæltum, eða andstuttum, fréttakonum Sjónvarpsins rabbaði svo fram og aftur og klikkti út með myndskeiði, sem kvikmyndatökumaður hafði náð af ferðamanni með ÖNDUNARGRÍMU.

Nú er það svart maður, hugsaði ég, og bjóst við því að sjá ferðamann með súrefnihylki og öndunargrímu vegna mengunar í Reykjavík. Svo var skúb tökumannsins sýnt, og það sem ég sá á myndinni var japönsk kona með kvefgrímu, sem Japanir setja á sig, fyrst og fremst til að varnar því aðrir fái ekki kverkaskítinn sem er að krauma í þeim sjálfum. Tökumaðurinn ofsótti ungt japanskt par með myndavél sinni og japanski maðurinn uppgötvaði myndatökuna. Tiplaðu parið, að hætti Japana, undan í flæmingi inn á næsta kaffihús. Ég held að þau hafi verið á flótta undan Íslendingum, sem héldu að konan væri fárveikur útlendingur með pest – eða svona óánægð með mengunina í Reykjavík, höfuðborg hreinasta lands í heimi.

Í Japan setja menn á sig grímur til að varna því að öll þjóðin fái ekki kvefið, sem það gengur með. Gríman er hugsuð sem tillitssemi við náungann. Á Íslandi telja menn að grímur séu settar upp vegna þess að það er kominn tími til þess að setja Kringlumýrarbraut og Miklubraut í stokk.

Ég hef aldrei verið spámaður í mínu eigin landi. Ég á ekki lengur bíl og hjóla bara. Ef fólk á höfuðborgarsvæðinu æki meira í almenningsvögnum, væri öll umræða um stokka komin undir stein. Í strætó gæti fólk bara skellt á sig andlitsgrímu að hætti Japana, þegar því væri illt í hálsinum og grímulausir gætu óskað grímuklæddum góðs bata á þeim 20 mínútum sem ferðin tæki. Öndunargrímur eru aðeins fyrir fólk sem ferðast mikið í stokkum og þarf að komast í vinnuna á 2 mínútum.

En hvað veit ég? Veit bara að á Íslandi þarf hugafarsbreytingu í sjálfsánægukastinu og það þýðir ekkert að flýja niður í stokk á jeppanum sínum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband