Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Allir að gera innrás í Danmörku

Samarbejdspolitik 

Samarbejdspolitik. Danskir lögreglumenn skála við Gestapo á Hótel D'Angleterre i Kaupmannahöfn. Ljósm. úr bókinni Medaljens Bagside.

Nú ráðast útlenskir læknar inn í Danmörku. Udenlandske læger invaderer Danmark” skrifar Jyllands-Posten. Hver fjórði læknir, sem fær lækningaleyfi í Danmörku, er útlendingur.  Það hafa verið margar “innrásir” í Danmörku. Dönum er meinilla við þær. Á síðasta ári var talað mikið um innrás Íslendinga, sem reyndar er kölluð útrás á Íslandi.

Það er þó ein innrás, sem Danir eru búnir að sætta sig við, að minnsta kosti sumir þeirra. Það er innrás nasista árið 1940 og vinsamleg samvinna Dana við þá. Margir Danir telja að samvinnan við þýska nasista hafi verið til heilla; að Danir hafi gert það eina rétta: Að hneygja sig og beygja. Sumir leyfa sér meira að segja að halda því fram, að aðrar þjóðir hefðu átt að taka Dani sér til eftirbreytni á stríðsárunum. Þeir sem enn líta á “samvinnustjórnmálastefnu”, (Samarbejdspolitik), Dana sem samstarf við óvininn eru fallnir í ónáð. Þeir eru einatt kallaðir siðapostular og öðrum verri skammaryrðum, sem danskir sagnfræðingar strá um sig.  Þeir danskir sagnfræðingar, sem aðhyllast þessa sáttahyggju varðandi samstarf við nasismann, eiga líka afar erfitt með að nefna atriði sem gleymdist að greina frá eftir stríð í Danmörku; eins og t.d. brottvísun danskra yfirvalda á gyðingum og öðrum flóttamönnum til Þýskalands nasismans. Sömu sagnfræðingarnir þakka hins vegar ólmir samvinnunni við Hitler-Þýskaland björgun gyðinga til Svíþjóðar haustið 1943.

Dr. Bo Lidegaard, einn fremsti sáttasagnfræðingurinn í Danaveldi, hefur nýlega skrifa tvær stórar bækur, sem eru mjög rómaðar og innihalda greinilega það sem Danir vilja helst heyra. Í þeim hefur hann valið að þegja um ýmsa þætti sögunnar, sem ekki passa inn í lærisetninguna um að Danir gerðu það eina rétta í Annarri heimsstyrjöld.

Danmörk mun tvímælalaust áfram verða fyrir alls kyns óþægilegum innrásum, enda landið lítið og lágt, fólkið fátt og margir hér sem hugsa frekar smátt.

 


Nasistar 0 - Kommúnistar 0

Vilnius Sport

Í lok septembers á síðasta ári var mér boðið á ráðstefnu í Litháen. Ég hafði áður verið í Litháen og kunni vel við mig þar. Áður en ráðstefnan hófst, var þáttakendum boðið í litla kynnisferð um höfuðborgina Vilníus. Frá fornum kastala, sem gnæfir yfir borgina, tók ég ljósmyndir af fallegri borg. Ég tók líka mynd af þessari ljótu byggingu, skammt frá miðbænum, sem Rússar “gáfu” Litháum, þegar þeir síðastnefndu voru enn undir sovéthælnum.  

Það rann síðar upp fyrir mér, að þarna sem ljóta byggingin lá hafði verið framinn menningarglæpur, líkt og þegar nasistar lögðu legsteina gyðinga í götur og stræti og þegar Assad Sýrlandsforseti lagði veg yfir helsta grafreit gyðinga í Damaskus, sem hafi verið í nokun i 2000 ár, á landi sem hafði verið keypt til notkunar til eilífðarnóns. Þeir sem hafa keyrt frá flugvellinum í Damaskus inn í miðborgina, keyra yfir dauða gyðinga. Rússar voru engin undantekning í menningarlegum þjóðarmorðum. Tröppurnar, sem lagðar voru upp að íþróttahöllinni í Vilníus, voru lagðar með grafsteinum úr aðalgrafreit gyðinga í Vilníus. 91% gyðinga Litháens var útrýmt í Annari heimsstyrjöld. Nasistar myrtu þá og kommúnistar trömpuðu svo á minningu þeirra. Þannig er margt líkt með þessum tveimur frændhugmyndafræðum. Eitt ljótasta eðli mannsins, að kenna einstaka persónum eða fámennum hóp um allar sínar ófarir, áttu kommar og nasistar sameiginleg, og eiga enn!   

Nú hefur verið reistur minnisvarði um grafreitinn og nokkrir steinar í tröppunum á íþróttahöllinni í Vilníus hafa verið fjarlægðir, að minnsta kosti þar sem því verður komið við.

 


27. janúar

 

Auschwitz-children_MEGA 

Þessi börn lifðu Helförina af.

Ég leyfi mér að minna á að á laugardag, þ. 27. janúar, er Helfararinnar á gyðingum minnst í mörgum löndum. Þessi minningardagur er ýmist kallaður Auschwitz-dagur eða Holocaust-dagur.

Við höfum ekkert slíkt á Íslandi og fáum líklega ekki í bráð. Allt í lagi virðist að afneita Helförinni á Íslandi og hef ég séð bloggara á blog.is, sem eru að velta samsæriskenningum fyrir sér. Þeir eiga líklegast erfitt með að trúa því, hve grimm mannskepnan getur verið.

 

 01338

Þessir hollensku gyðingar gerðu það ekki.


Felix kom í heimsókn

Ruben og Felix 3

Felix á leik við Rúben, son minn

Hann Felix kom í heimsókn til mín í nóvember. Það væri ekki í frásögur færandi, ef Felix hefði ekki fæðst í Reykjavík árið 1936 og verið fyrsti gyðingurinn sem fæddist á Íslandi. Honum var reyndar vísað úr landi með foreldrum sínum, Hans og Olgu, og systur árið 1938. Fjölskyldan Rottberger fékk að fara í land í Kaupmannahöfn. Það gátu þau þakkað C.A.C. Brun sendiráðsritara í Danska sendiráðinu, en um þann merka mann má einnig lesa hér og hér. Um sögu Rottberger fjölskyldunnar efter 1938 má lesa í bók minni Medaljens Bagside, sem út kom í Danmörku árið 2005. (Saga þeirra á Íslandi hefur m.a. verið sögð af Einari heitnum Heimissyni og Þór Whitehead).   

Næstu árin eftir brottvísunina frá Íslandi voru ekki dans á rósum. Flóttamenn, og sér í lagi gyðingar, máttu ekki vinna, og þeim voru settar alls kyns skorður. Fjögur barna Rottberger fjölskyldunnar urðu viðskila við foreldra sína, sem neyddust til að flýja án barnanna til Svíþjóðar í október 1943. Börnunum var komið fyrir á barnaheimili á Fjóni. Þar sem eitt ríkasta bæjarfélagið í Danmörku, Søllerød, sem sett hafði börnin í fóstur á Fjóni, þótti sárt að sjá af fé til uppihalds barnanna, stakk barnaverndarnefndin upp á því að þau yrðu send til Þýskalands árið 1944. Lögreglusaksóknari nokkur í Kaupmannahöfn, sem var velviljaður gyðingum, kom sem betur fer í veg fyrir það.  

Eftir stríð héldu erfiðleikar fjölskyldunnar í Danmörku áfram. Danir vildu lítið fyrir ríkisfangslausa gyðinga gera. Danska bæjarfélagið, sem ætlaði sér að losa sig við Rottberger börnin til Þýskalands árið 1944, rukkaði skuldir og framfærslufé sem það taldi Hans Rottberger skulda sér. Hans Rottberger neitaði að borga, enda var það eindæmi að slíkt væri tekið til innheimtu. Málið fór alla leið til hæstaréttar Danmörku, þar sem einn dómari sá loks fáránleika málsins. En þótt málinu væri vísað frá, hafði Rottberger fjölskyldan ákveðið að yfirgefa Danmörku og setjast að í Þýskalandi. Hún var búinn að fá nóg.

Hans og Olga gengu út úr Kaupmannahöfn með stóran hóp barna og með tveggja hæða barnavagn, sem Hans Rottberger hafði útbúið fyrir yngstu meðlimi fjölskyldunnar. Fjölskyldan settist að í Konstanz í Þýskalandi. Felix Rottberger býr nú í Freiburg í Þýskalandi, þar sem hann umsjónamaður grafreits gyðinga og samkundhúss borgarinnar. Nú eru flestir þeir gyðingar, sem búa í Freiburg, frá Sovétríkjunum fyrrverandi.

Felix kom í þetta skipti til Danmörku sumpart fyrir minn tilstuðlan. Hann hélt stutta ræðu í samkunduhúsi gyðinga í Kaupmannahöfn á minningardag um Krystalnóttina 1938. Hann talaði einnig við börn í grunnskóla gyðinga í Kaupmannahöfn. Hann hélt sömuleiðis fyrirlestra á eyjunum Møn og Fjóni. Felix talar dönsku eins og menn gerður á 5. áratug síðustu aldar og hefur engu gleymt. Það birtist viðtal við Felix í danska vikublaðinu Hjemmet (Nr. 1, 2007), sem margar íslendingar kaupa enn, en sem ég hef enn ekki séð.  

Al Quaida ofsækir gyðinga í Jemen

Yemeni Jews

Þegar al Quaida er ekki að sprengja í okkar heimshluta, eru þessi illmenni að eltast við örfáa gyðinga í Jemen. Allahu Akbar! Al Quaida telur, eins og kunnugt er, alla gyðinga réttdræpa, hvar sem þá er að finna.

Gyðingar í Jemen eru nú aftur í lífshættu. Saudi Arabíska blaðið Al Watan og ísraelska blaðið Jerusalem Post greina frá því, að gyðingar í þorpi norður af borginni Saana hafi neyðst til að flýja heimili sín. Það er al Quaida og öfgamúslimir sem valda þessum flótta. Danskur dándipiltur, giftur færeyskri konu, var nýlega að sinna erindum fyrir þennan félagsskap í Jemen og lenti í fangelsi, grunaður um smygl.

Gyðingar hafa búið í Jemen síðan á dögum Salómons konungs. Hebreska, sú sem töluð er í Jemen, er talin vera ein upphaflegasta gerð tungumálsins. 45.000 gyðingar voru fluttir til Ísraels 1940-50 í björgunaraðgerð sem kölluð var “Hið fljúgandi Teppi”.  Örfáir gyðingar eru hins vegar enn í Jemen, en flestir eru of fátækir til að geta yfirgefið landið. Heittrúaðir gyðingar í New York hafa á síðari árum misnotað neyð jemenítísku gyðingana og lokkað þá til New York, misnotað vinnukraft þeirra og jafnvel stolið börnum þeirra, sem þeir ættleiða og ala upp og neyða foreldrana til að yfirgefa BNA. Menning gyðinga í Jemen má muna sinn fífil fegri.

Nú er líklega kominn tími til að þeim síðustu verði hjálpa að yfirgefa landið, svo þeir geti haldið til Ísraels. 

 

 

 


Hermannaekla í Danmörku?

danskesoldater1

Ljósmynd Michael Lund

Danski Þjóðarflokkurinn, (Dansk Folkeparti), er búinn að finna sér nýtt málefni. Samvæmt nýjustu hugdettu flokksins verða Færeyingar og Grænlendingar nú að fara í danska herinn, eins og sum dönsk ungmenni. Hingað til hefur ekki verið skylda fyrir frændur okkar að bera vopn fyrir danska ríkið. Þeir mega gera það ef þeir endilaga vilja. Þessu vill Þjóðarflokkurinn breyta. Ef þessi stjórnmálaflokkur fær vilja sínum framgengt, (en hann hefur dönsku ríkistjórnina í heljartaki), verða Kaleraq og Tróndur að fara að venja sig við tilhugsunina um herskyldu og jafnvel að þeir verði sendir til Íraks til að efna til friðar.

Ég spyr: Er nú nauðsynlegt fyrir Dani að höggva skarð í æsku Færeyja og Grænlands með því að taka hana í danska herinn?

Danski Þjóðarflokkurinn virðist stundum vera flokkur brandarakarla, en oft verða “gamanmálin” hjá þeim að óþægilegum veruleika í danska þjóðfélaginu. Flokkurinn notar svona "mál", til að þrýsta á önnur mál sem þeir lifa og hrærast fyrir. En getum við ekki hugsanlega tekið frændur okkar í "íslenskan her", þegar fram líða stundir. Hvernig væri það, Björn Bjarnason? Hver veit nema að frelsisbarátta Færeyinga og Grænlendinga eigi eftir að verða blóðug, og hverjum höldum við með í þeirri baráttu?   

 

Ekki efast ég um að Inuitar og Færeyingar geti orðið góðir hermenn. BBC greindi frá því fyrir nokkrum árum að eskimóastúlka væri orðinn hermaður í Ísrael. Það er ekki heiglum hent.  

Beautiful Denmark

Dós

Oft er því haldið fram að Íslendingar séu barnalega ánægðir með sig og sitt. Hreinasta vatnið, besta fólkið, fallegustu konurnar sem tala fallegasta málið við sterkustu karlanna – í heimi. Íslenski þorskurinn hefur hærri greindarvísitölu en sá norski, etc. Er nokkuð að því, ef því sem er haldið fram er satt, eða að mestu leyti satt?

Margir halda, að Íslendingar séu verr haldnir af svona sjálfsánægju heldur en margar aðrar þjóðir. Ég efast um það. Í Miðevrópu og Þýskalandi er þjóðarmeðvitunin þó bældari en gengur og gerist. Heimsstyrjöldin síðari breytti ýmsu. En ekki er hægt að alhæfa um þessa hluti – nema að Íslendingar eru bestir. 

Danir eru alls ekki lausir við stolt. Það kemur fram á ýmsan hátt og oft er glaðst yfir litlu. Tökum sem dæmi kökudósina sem konan mín keypti um daginn. Beautiful Danmark stendur á lokinu. Svona fínar kökudósir hafa lengi verið ein besta landkynning Dana. Mér er sagt að oft hafi verið troðið kössum með dósum af þessum smjörbökuðum smákökum í gáma og flutningabíla, sem annars voru að flytja svínaskrokka og beikon á erlendan markað. Kökurnar voru eins konar fylling og stuðningur við svínin á leið til útlanda. Mikið þjóðarstolt er meðal smákökuframleiðenda í Danmörku. Útlendingar, sem aðeins hafa nartað í “Beautiful Danmark” eða álíka afurðir, og aldrei til þessa lands komið, halda líkast til að hér sé alt eins og í ævintýri og að forsætisráðherrann sé náungi sem heitir Hans Christian Andersen.

Skemmst er frá því að segja, að kökurnar í “Beautiful Denmark” dósinni voru óætar. Það var þráabragð af þeim og þó voru tveir mánuðir eftir af leyfilegum sölutíma. Svona er Beautiful Denmark.

 


Flóttafólk

Kempner 

Nú vilja dönsk stjórnvöld ólm vísa flóttamönnum frá Írak úr landi. Lengi er hægt að deila um, hvort það er harðbrjósta afstaða, að senda fólk til síns heima, þar sem öfgahópar slátra saklausu fólki á hverjum dagi. Sérstaklega ef einnig er tekið tillit til þess að Danir taka þátt í baráttunni við þessa öfgahópa; Í baráttu þar sem árangur erfiðisins hefur enn ekki sést. En sama hvaða skoðun maður hefur á ástandinu í Írak og lausn þess, virðist engin glóra í því að senda fjölskyldur með börn niður í darraðadansinn í Bagdað. Í versta lagi verður flóttaflólk frá Írak, sem dönsk yfirvöld senda aftur til síns heimalands, sprengt í tætlur.

Myndin hér af ofan er af gyðingnum Alfred Kempner, sem var flóttamaður á Íslandi og í Danmörku. Honum var vísað úr landi á Íslandi og til stóð að gera það sama í Danmörku árið 1941. Hann hafði þó heppnina með sér og komst síðar til Svíþjóðar haustið 1943. Það gerðu ekki þeir gyðingar og pólítískir flóttamenn, sem dönsk yfirvöld sendu úr landi til Þýskalands nasismans – ótilneydd!  Um örlög þessa fólks í fanga- og útrýmingabúðum Þjóðverja má lesa í bókinni Medaljens Bagside, sem kom út í Danmörku árið 2005 og sem hægt er að nálgast á ýmsum bókasöfnum á Íslandi.

Þótt ekki sé ávallt hægt að líkja saman stöðu flóttamanna á mismunandi tímum, verða siðferðisleg gildi að vega þyngra en allt annað, þegar menn íhuga heimsendingar á fólki sem hefur flúið land sitt vegna ógnarstjórnar og stríðs. Maður sendir ekki manneskjur í opinn dauðann.  

Eftir að bókin Medaljens Bagside kom út í Danmörku vorið 2005, baðst Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana opinberlega afsökunar á meðferða danskra yfirvalda á flóttafólki 1940-43.  Ef flóttafólk frá t.d. Írak eða Íran er sent út í óvissuna, og jafnvel beint í dauðann, er ég hræddur um að erfitt verði að taka við afsökunarbeiðnum í framtíðinni. Danmörk verður að standa sig í baráttunni við þau öfl sem hrakið hafa fólk frá Írak, en einnig í stuðningi við þá sem flúið hafa hryðjuverk. Það er líka auðvelt að vera á Íslandi og sakna Saddams, óska þess að hann verði “afhengdur” og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af fólkinu sem flýði ógnarstjórn hans. 

Ef flóttamaður var sendur til Íraks í fyrra, átti hann á hættu að verða eitt af 34.000 fórnarlömbum ofbeldisverka eða einn af 36.000, sem særðust vegna hryðjuverkanna, og það samkvæmt tölum SÞ.

« Fyrri síða

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband