Leita í fréttum mbl.is

Axarskaft á Þjóðminjasafni

444616A

Í gær var múgur og margmenni saman komin á Þjóðminjasafni Íslands. Þá bauðst fólki að koma með forngripi sína í greiningu. Það var góð og tímabær hugmynd að efna til greiningardags.

Á Mbl.is birtist í dag mynd af öxi sem kona fann í Þjórsárdal. Hún gekk heim frá sérfræðingum Þjóðminjasafns í þeirri trú að hún hefði fundið öxi frá 11. eða 12. öld.

Annað hvort hefur sérfræðingurinn sem aðstoðaði blessaða konuna ekkert vit á því sem hann er að gera, eða hann hefur verið úti á þekju í gær. Kannski var þetta tvennt vandamálið.

Öxin sem fannst í Þjórsárdal er ekki frá 11. eða 12. öld. Síðasta byggð dalnum innanverðum fór í eyði á fyrri hluta 13. aldar, en ekki í og rétt eftir stóra Heklugosinu árið 1104, þó að afleiðingar þess hafi haft mikið að segja síðar. Gripir sem finnast í Þjórsárdal þurfa ekki að vera frá því fyrir 1104.

Yngri gripir en frá því í byrjun 13. aldar hafa fundist í Þjórsárdal. T.d. eineggja sverð frá því um 1500.

Öxin, sem komið var með til greiningar í gær á Þjóðminjasafni Íslands, er eins konar skeggöxi, sem ber ekki einkenni axa frá 11. og 12. öld. Sérfræðingur safnsins ætti að vita betur. Axir af þessari gerð eru aldursgreindar til tímabilsins 1300-1500 og voru oftast verkfæri og ekki vopn. Miðað við bækur þær sem ég hef undir höndum, tel ég að aldursgreining til 15. aldar sé líklegust. Líklegt er að að þetta hafi verið öxi Skálholtsbiskupa, en Skálholtsstóll átti lengi skógarítök í Þjórsárdal eftir að byggð lagðist þar í eyði.

Í norskum miðaldamáldögum má lesa að um 1350 hafi ein slík öxi fengist fyrir eitt kýrverð. Það verður þó at teljast líklegt að verðið hér á landi hafi verið hærra. Það er, eins og kunna er, alltaf lagt á á Íslandi. Það hefur reyndar líka verið lagt ærlega á aldur axarinnar í Þjórsárdal. 

Þess má geta að dr. Kristján Eldjárn treysti sér ekki í doktorsritgerð sinni Kuml og Haugfé  að aldursgreina axir eins og þær sem komið var með á Þjóðminjasafni í gær. Mönnum hefur greinilega aukist þor og kunnátta síðan sú biblía kom út

En það hefur nú gerst áður að sérfræðingum á Þjóðminjasafninu hefur brugðist bogalistin. Eitt sinn komu ákaflega þrjóskir ævintýramenn niður það sem þeir héldu vera hollensk gullskip á Skeiðarársandi sem strandaði þar árið 1667. Þeir höfðu meira að segja í hita leiksins fengið staðfestingu á að svo væri frá einum af fremstu sérfræðingum Þjóðminjasafnsins í silfurkönnum. Hann taldi í hita leiksins keðju sem kom upp úr sandinum vera vera ævaforna. Skömmu síðar kom í ljós að keðjan var úr þýskum togara frá upphafi 20. aldar. Þjóðminjasafn fékk reyndar aukafárveitingu upp úr krafsinu, enda ekki úr of miklu að moða á þeim árum. Ekki var það heldur efnilegt þegar silfursjóður einn frægur austan af landi gerðist miklu yngri en hann er, eftir að hafa verið í höndum eins fremsta sérfræðings Breta í silfurfræði víkingaaldar. Álit Bretans var hrakið af miklu kappi og offorsi og þykir sjóðurinn nú einn merkilegasti silfursjóður Norðurlanda frá víkingaöld. Einn gripanna í sjóðnum er nefnilega talinn geta verið frá nútíma og þegar sjóðurinn fannst í jörðu hafði ekki einu sinni fallið á hann. Það hefur aldrei gerst í sögu silfursjóða á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Fyrir hugsjónamenn hlýtur mold frá Austurlandi að vera gott efni í meiri háttar útrásardæmi. Aldrei mun falla aftur á silfur ef á er borin austfirsk drulla.

"Eigendur taka gripina með sér aftur að lokinni skoðun" sagði í kynningu á gripagreiningunni á Þjóðminjasafni. Hvernig fær það staðist Þjóðminjalög í tilfelli axarinnar? Öxin hefur vonandi verið afhent Þjóðminjasafninu í gær eða samningur gerður um að það verði gert hið fyrsta.

Þótt sumum bloggurum finnist þetta ómerkilegt ryðgað járnadrasl, þá er svona drasl einu sinni þjóðminjar Íslendinga. Ég sá margt annað merkilegt frá þessari greiningu á Þjóðminjasafni Íslands í útsendingu sjónvarpsins í gær, sem örugglega hefur verið dæmt og greint af fróðari mönnum en þeim sem sendi konu heim með 800 ára gamla öxi í misgripum.

Spaugstofan gerði þetta nýdæmi á Þjóðminjasafni spaugilegt þann 24. nóvember 2007.


mbl.is Fjöldi fólks varð frá að hverfa í Þjóðminjasafninu í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Viðurinn var ekki aldursgreindur. Að minnsta kosti hef ég aldrei séð neinar aldursgreiningar. Hann ilmaði hins vegar af kryddi! Keðjur sem ekki eru steyptar, heldur hamraðar saman, voru notaðar langt fram á 20. öldina. Í sjónvarpsviðtali við Þjóðminjavörð var keðjan þó talin tala sínu máli.

Miðað við varðveislu keðjunnar úr togaranum er ekki mikið eftir af keðjum úr Het Wapen van Amsterdam.  Hvað þá viðum skipsins. Til er skýrsla stofnunar í Maryland, sem rannsakaði áhrif hreyfinga í sandinum á skipsflök. Eins og mönnum má nú vera kunnugt, var verðamætasti hluti farmsins fluttur yfir í önnur skip áður en skipið strandaði. Þetta var oft gert til að villa fyrir um fyrir sjóræningjum og herjum óvinveittra þjóða.

Það er gaman að leita, ef menn vita hverju þeir leita að. 

Að mínu mati hefur fundist gullskip. Það er hið góða skip Melkmeyt, sem sökk í Flateyjarhöfn. En það þykir greinilega ekkert merkilegt.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.11.2007 kl. 17:51

2 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Flottur pistill.

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði af þessu greiningarsjói er þáttur sem kallast antiques roadshow og hefur verið sýndur hér á PBS til margra ára. Fólk kemur með gripi til sérfræðinga sem sumir virðast kunna mikið fyrir sér. Sá hængur er á þáttunum að alltaf er spurt í lokin "How much would it sell for" og þá erum við komin á annað plan sem er eitt krabbameinið í kúltúrnum í dag. Fræði komin út í sölubrask. Ánægjan fer eftir upphæðinni.

Allavega, fróðlegur pistil hjá þér.

Ólafur Þórðarson, 12.11.2007 kl. 18:56

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Antiques Road Show (BBC) eru þættir sem líma mig við sjónvarp, sem ég horfi reyndar minna og minna á. Mér finnst venjulega leiðinlegasti hlutinn þegar menn fara að verðleggja og maður sér dollaramerkin í augum fólks, eða jafnvel angist yfir því að vera komið með þjófabeitu á heimilið.

Það hefur gerst að söfn hafi greitt fyrir fornmuni á Íslandi og jafnvel hafa menn viljað fá meira en hægt var að bjóða.

Íslendingar eru líklegar sökum fátæktar og síðan fyrirlitningar á "lummulegri" fortíð afar fátækir á gamla gripi og því verður erfitt að búa til svona sjónvarpsþætti á Íslandi, en það er örugglega hægt að búa til nokkra og efla þannig áhuga manna á fortíð sinni og ættararfinum.

Sölubraskinu mætti alveg sleppa, enda mega safnamenn samkvæmt siðareglum alþjóðlegra safnamannasamtaka ekki verðleggja gripi fyrir fólk, og fæstir þeirra hugsa sem betur fer um seðla þegar þeir handleika góðan grip. Aldrei hefur mig sem fornleifafræðingi langað að eiga eitt eða neitt af því sem ég hef fundið í jörðu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.11.2007 kl. 19:43

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

ERT ER

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.11.2007 kl. 21:28

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ert þú ekki nokkuð forn í skapi úr því þú ert fornleifafræðingur?

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.11.2007 kl. 21:29

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Svo má snúa þessu á hvolf og setja skrúfur í götin, festa á vegg. Þá er jú komið ágætis statíf fyrir fjarstýringu eða ipod dock.

Ólafur Þórðarson, 13.11.2007 kl. 00:36

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sigurður, ég er  að sjálfsögðu bæði forn í skapi, grályndur, geðstór og þungur á bárunni, þ.e.a.s. þegar ég er ekki að drepast í nútímahyggju, jákvæðni, gleði og hamingju, sem er nú sem betur fer oftast.

Versta vörumerki íslenskra fornleifafræðinga er hins vegar baktal og atvinnurógur. Ég er búinn að vera frá í greininni, án þess að ég vildi, í 11 ár. En er á leið inn aftur og sé að lítið hefur breyst. Sumir ágætir vinir mínir ganga um með ósýnilegan hníf í bakinu. Fornleifafræði er t.d. kennd í HÍ og þar eru ákveðnir fornleifafræðingar og þeirra niðurstöður ekki nefndar. Einfaldlega þagaðar í hel, að góðum íslenskum sið. En það er líklega vegna þess að "prófessorinn" þar á bæ er bara sagnfræðingur. Ég er farinn að halda að sagnfræðingar læri þennan ósið í aðferðafræði sinni. Stúdentarnir fatta þetta ekki fyrr en þeir eru farnir að vinna með fólki, sem þeir vissu ekki að væru til.

Þessi vísa var fyrir löngu ort, að því að ég held um fornleifafræðinga:

Eiturnornin ærið forn í skapi
slúðurs ornar arn sér við,
öllum spornar móti frið.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.11.2007 kl. 05:32

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þjóðbúningadúkka voru nokkuð góð fundarlaun.  Þá eru allir glaðir. Þrátt fyrir svartagallsraus um 200 ár eða svo, þá var þetta gott framtak.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.11.2007 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband