Leita í fréttum mbl.is

Um Bastarða, Guldbrandsen og Giversen

Teppi2

Margt er hægt að sópa undir gólfteppið.  En það getur reynst erfitt að leyna því, að það hefur lengi geisað stríð í Afganistan. 

 

Danska ríkissjónvarpið, stöðin DR1, sýndi nýverið heimildamynd, Den Hemmelige Krig, þar sem haldið var fram að danskir hermenn í Afganistan hefðu á árunum 2001-2, á skjön við reglur og sáttmála, afhent fanga til Bandaríkjahers, sem svo hefði pyntað þá. Við frumsýningu myndarinnar var Enhedslisten (flokkur aflóga erkisósíalista) tilbúinn með herferð gegn dönsku ríkisstjórninni, þar sem þessar ásakanir gegn danska hernum átti greinilega að nota til að steypa núverandi ríkisstjórn af stóli.

En nú virðist kvikmynd Christofers Guldbrandsens og Nils Giversens því miður vera meingölluð og í ljós er komið, að Enhedslisten og DR, danska Ríkissjónvarpið, virðast hafa haft samvinnu. “Leikstjórar” myndarinnar, Guldbrandsen og Giversen notuðu Enhedslisten til að setja fram spurningar til forsætisráðherrans, Anders Fogh Rasmussens, um meðhöndlun Bandaríkjamanna á stríðsföngum, er myndin var frumsýnd. Það hefur einnig sýnt sig, að vitnisburður aðalvitnisins í myndinni, bandaríska yfirheyrsluforingjans Chris Hogans, hefur verið klipptur og skorinn. Til dæmis hefur Guldbrandsen & Giversen/DR klippt út orð Hogans um, að aldrei hefðu farið fram hrottalegar yfirheyrslur í fangabúðunum, þar sem fangar Dana voru afhentir Bandaríkjaher. Margt bendir einnig til þess að Hogan sé ekki alveg nógu trúverðugt vitni til að að byggja á við gerð heimildakvikmyndar.

Gagnrýninni rignir nú yfir DR, sem hefur látið Guldbrandsen og Giversen sjálfa rannsaka og skýra framleiðslu sína. Það er ekki minnst góðri blaðamennsku Nyhedsavisen (sem er í eigu Íslendinga) að þakka, að flett hefur verið ofan af þessum einkennilegu vinnubrögðum, þar sem gripið var til loddaraaðferða til að búa til “fréttaskúp”. Guldbrandsen og Giversen vilja ekkert tjá sig um málið við fjölmiðla, en hér er hægt að lesa um málið út frá sjónarhorni framleiðenda myndarinnar.

II Af Naser

Danski þingmaðurinn Naser Khader, sem er Palestínumaður, kvartar sáran yfir kvikmyndafélagi, sem hefur búið til heimildamynd um hann á fölskum forsendum. Þegar Khader varð ljóst, að fyrirtækið Bastard-film væri að gera mynd um hann og litla múslimaprestinn Muhammed Akkari, sem sigldi undir fölsku flaggi í Múhameð teikningamálinu í fyrra, vildi Khader ekki vera með í myndinn lengur.  Naser Khader, sem er talsmaður hófsamra múslima í Danmörku, hótar nú lögbanni á myndina, ef ekki verður við hætt við hana. Hann vill ekki vera með í mynd, sem gefur prestinum Akkari ókeypis auglýsingu. Þar að auki sagði Bastard Film Khader rangt frá í upphafi um, hverjir myndu vera með í myndinnu. Þá var Akkari ekki nefndur á nafn. Khader myndi ég gjarna kjósa, hefði ég kosningarrétt í Danmörku og væri hann ekki í þeim skrítna pólitíska samtíningi fólks, sem kallar sig Radikale Venstre (og sem mest líkist Samfylkingunni á Íslandi, að henni ólastaðri). Heimildakvikmyndagerðamennirnir hjá Bastarði hafa að sjálfsögðu dregið dár að Naser Khader. Þeir reka fyrirtæki sem greinilega ber nafn með rentu.

III  Af Vilhjálmi Erni

Og þegar ég er nú að, get ég nefnd dæmi af sjálfum mér og viðskiptum mínum við þessa undirstétt heimildakvikmyndagerðamanna. Við útkomu bókar minnar, Medaljens Bagside (2005), hafði fyrrnefnd stofnun, DR, samband við mig. Þeir vildu ólmir búa til útvarpsþátt og sjónvarpsviðtal, og hugsanlega heimildakvikmynd. Ég tók auðvitað vel í það og notaði u.þ.b. viku af tíma mínum til að fóðra blaðamennina með upplýsingum og myndum og setja þá í samband við fólk út um allan heim. Ég fór í útvarpsviðtal og mér var tilkynnt að ég yrði kallaður í sjónvarpsviðtal fljótlega. Áður en ég vissi hvaðan á mig stóð verðrið, fór í loftið útvarpsþáttur, þar sem smábitar af því sem ég hafði sagt var kíttað inn á milli viðtals við mann, sem aldrei hafði verið nefndur við mig, son eins af þeim embættismönnum, sem stóð í því að reka flóttamenn úr landi á árunum 1940-43. Þessi maður kemur bók minni ekkert við. Ég dauðkenndi í brjósti um manninn, sem auðvitað hafði aldrei heyrt um gjörninga föður síns, sem ekki koma honum neitt við, nema að maður trúi á erfðasyndina. Mér þótti þetta einkennileg blaðamennska og mér var svo síðar núið um nasir, að ég væri á eftir afkomendum embættismannanna í bók minni.

Eitt sunnudagskvöldið kom svo sjónvarpsfrétt í langa fréttatíma DR, sem þá bar nafnið Søndagsavisen. Þar var notað mikið af því sem ég hafði ausið í blaðamannin, sem var hinn eini og sanni Nils Giversen (sami maður, sem nú hefur verið staðinn að slælegu verki í Afganistan myndinni) og kollega hans. Einnig var talað við merka fræðikonu, sem hefur att kappi við mig, og sem áður hafði lýst því yfir að niðurstöður mínar væru hæpnar. Viti menn, nú var hún orðin alveg sammála mér, svo halda mætti að hún hefði verið að segja frá einhverju sem hún hafði sjál skrifað. Svo var bókin mín sýnd, en það gleymdist að nefna að hún væri eftir mig. Bókin fékk ekki meiri umfjöllun í bili hjá DR. Síðan þá hef ég ekkert frekar heyrt af áformum um heimildamynd um bók mína. Giversen hefur líkleagast verið upptekinn við að grafa upp skít og “skúp” í Afganistan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband