Leita í fréttum mbl.is

Leikritið Träumeland

Dreamland
 

verður leikið á morgun. Þá fær litli prinsinn í draumlandinu á bláu plánetunni afhent þýskt tannfé á stórri senu í Hamborg.  

Á morgun kl. 11, pünktlich, verður Andri Snær Magnason heiðraður með KAIROS-verðlaununum, sem Toepfer stofnunin í Hamborg veitir vel gefnu fólki. Afhendingin á sér stað í Deutsches Schauspielhaus í Hamborg og eru ýmsir undirleikarar með frá Draumalandinu.

Toepfer sá, sem gjafmilda stofnunin er kennd við, var hins vegar hið versta fól og argur nasisti, og saga hans er ljót. Minningu sína sótthreinsaði karlinn með peningagjöfum. Ég hef sagt sögu Toepfers hér á blogginu mínu, þegar það var fyrst tilkynnt í desember sl., að Andri Snær fengi verðlaunin. Sjá hér og hér.

Blóðpeningar Toepfers eru greinilega happafengur fyrir rithöfund sem vill halda ímynd Íslands hreinni og fallegri. En peningarnir sem Andri þiggur eiga sér bæði ljóta og blóði drifna sögu. Kannski ekki hvert einasta Evra, en það er blettur á þessum verðlaunum, sem ekki verður þveginn af með þýskri undrasápu sem inniheldur handfylli af einhverju eitruðu ultra úr töfralandi sápuauglýsinganna.

Hér getið þið lesið greinargerð eftir franskan sagnfræðing, Gérard Loiseaux, sem lengi hefur deilt á Toepfer Stiftung í Hamborg. Hann sendi þessa greinargerð til íslenskra fjölmiðla. Eru þeir að birta hana, eða er Andri, Le petit Prince, kominn á sama stig og Laxness?

Andri Snær reyndi að fá blog.is til að banna umfjöllun mína um verðlaunin og mér var send aðvörun vegna þess að hann hélt því fram að ég ég mætti ekki nota ljósmynd af sér (Múhameð-heilkenni?). Í ljós kom, að Andri átti bara alls ekki upphafsréttinn að ljósmyndinni, en  hafði samt sent hana til Toepfer stofnunarinnar í Hamborg sem birti hana án leyfis ljósmyndarans. Þeir fjarlægðu myndina eins og ég, þegar þeir fréttu þetta.  Ég þori ekki að birta myndir af spámönnum og gervigúrúum, en er drengurinn á myndinni hér að ofan ekki líkur Andra?

Ég vona að Andri Snær Magnason afþakki verðlaunin í Hamborg á morgun og minnist í staðinn fórnarlamba nasismans á tilheyrandi hátt. Það yrði miklu meira í samræmi við drauma hans og hugsjónir, leyfi ég mér að halda, eða er sama hvaðan "gottið" kemur?

Það er greinilegt að Andri Snær stefnir langt í draumum sínum:

,,Já, það munar um minna, það má segja það. Þessi verðlaun koma á góðum tíma fyrir mig sem listamann, ekki of snemma og heldur ekki of seint! Það er gott fyrir listamenn að fá slík verðlaun þegar þeir þurfa á þeim að halda. Nóbelsverðlaunin í bókmenntum eru til að mynda sjaldnast veitt fyrr en rithöfundar eru komnir á efri ár.''

Nóbelsverðlaunin? Tjah..., hvað með að hugsa um líf þeirra sem urðu drápsvélinni, sem Toepfer var hluti af og græddi á, að bráð, nú þegar maður er búinn að fá næstbesta styrkinn á eftir Nóbelnum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Draumalandið birtist Andra Snæ á óskastundinni (Kairos) og spurningin er hvort Þriðja ríki Þjóðverja er fyrirmyndin ? Þessu get ég ekki svarað því að ég hef ekki lesið þessa verðlaunasögu, en saga Alfred Toepfer virðist ekki vera nein barnasaga, að minnsta kosti ekki nein skemmtisaga fyrir gyðingabörn.

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.2.2010 kl. 08:56

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Praktískt séð þá eru 75.000 evrur í hendi á við hvaða draumaland sem er. Eða hvað?

Ragnhildur Kolka, 28.2.2010 kl. 16:43

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Marga á Íslandi dreymir um evrur. Harðar og safaríkar evrur, sem orðið hafa til í sorablásandi verksmiðjum og eitruðum landbúnaði á jörðum þar sem ösku fórnarlambanna var forðum stráð. Bláa Plánetan þeirra er umvafin stjörnukrans síðan nasistarnir gáfu þeim einn á hann hér um árið.

Ég vona að Andra dreymi taktfasta evrudrauma, virkjananiðurrif og Entlösung.... áður en skatturinn rífur þetta smáræði af honum?

Þakka ykkur fyrir innlitið Loftur og Ragnhildur!

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.2.2010 kl. 19:26

4 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Ég er kannski að misskilja þig ég hef alltaf haldi að Draumalandið væri framhald af gerð myndar eftir kvikmyndarleikstjórans, Leni Riefenstahl

 Kv. Sigurjón


Rauða Ljónið, 28.2.2010 kl. 20:15

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

 Sigurjón. Útópían er oft lík, hjá þeim sem þrá hana. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.2.2010 kl. 21:26

6 identicon

Blessaður og sæll Vilhjálmur, og þakka þér fyrir síðast - já og fyrir tvídið á kápuna á Laxness, það var öldungis brilljant! En í tilefni af þessum umræðum vildi ég bara benda á þrennt: stofnun Alfred Toepfer hefur lagt mikla áherslu á að fjalla hreinskilnislega um fortíð stofnandans, enda verða Þjóðverjar seint sakaðir um að vilja ekki gera upp þennan tíma. Í því skyni setti hún laggirnar óháða sagnfræðinganefnd, sjá hér: http://toepfer-fvs.de/1259.html. Stofnunin hefur kostað rannsóknir og útgáfur til að leggja þessa hluti á borðið. Ennfremur er þess að geta að dómnefnd verðlaunanna er skipuð virtum þýskum menningarfrömuðum og tekur sínar ákvarðanir óháð stofnuninni. Og loks má nefna að meðal fyrri verðlaunahafa stofnunarinnar er ungverska nóbelsskáldið Keresz, sem sat í fangabúðum nasista og hefur skrifað um það sitt þekktasta verk. Má nærri geta hvort slíkur maður hefði viljað láta bendla sig við stofnun sem ekki væri búin að gera heiðarlega upp fortíð sína. Ennfremur hefur fjöldi nútímalistamanna, þar á meðal Ólafur Elíasson, hlotið viðurkenningu þessarar stofnunar. Andri er því ekki í slæmum félagsskap.

Með góðri kveðju

 Halldór

Halldor Gudmundsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 10:12

7 identicon

Og ekki má gleyma, svona úr því blóðpeningar koma til umræðu, hvernig Nóbel sálugi nurlaði saman stofnfé Nóbelssjóðsins.  Var það ekki annars örugglega ágóði af framleiðslu og sölu dínamíts sem myndaði grunninn?  Og ætli allt það dínamít hafi verið notað til að gera framræsluskurði eða grafa grunna að sjúkrahúsum og barnaheimilum?  Það er nefnilega víða pottur brotinn.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.3.2010 kl. 11:04

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Já, Þorvaldur, það skyldi þó aldrei vera, að Oscar í Hollywood ætti líka eitthvað vont á samviskunni eða jafnvel Gullbangsinn í Berlín? En það réttlætir ekki peninga Toepfer Stiftung.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.3.2010 kl. 12:08

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Halldór, og tak i lige måde, eins og mér er orðið tamara að segja, þar sem ég set á rassinum við tölvuna mína í útlegð frá eyjunni, þar sem næstum allir eru yfir gagnrýni hafnir. Gott er heyra að Laxness líði vel í tweedinu. Verst að ég gat ekki rætt við þig meira í íslenska sendiráðinu í Höfn, þegar bókin kom út, en prinsinn minn litli, Rúben, var orðinn þreyttur og var lítið gefinn fyrir reseptsjónir, og sækir hann það líklega í föður sinn. Prinsinn er heldur enn ekki búinn að uppgötva Laxness.

Ég er lítið impóneraður af þeirri sagnfræðinganefnd og skýrslu þeirri sem þeir skrifuðu. Nafn manns sem m.a. styrkti nazista sem dreifði riti um að Auschwitz væri eintóm lygi, batnar ekki við að pranga verðlaunum inn á Imre Kertész. Ætli Toepfer hafi vitað að hann studdi nasista, sem hélt því fram að Auschwitz væri lygi. Toepfer sjálfur vann fyrir Alfred Speer, sem síðar kom að byggingu Auschwitz-búðana, þar sem Imre Kertesz var fangi.

Ég hef reyndar sjálfur talað við Imre Kertész í Kaupmannahöfn áður en hann fékk Nóbelsverðlaunin og síðar skrifað grein í rit sem hann var lengi viðloðandi í Ungverjalandi. Hann er mjög óveraldlegur maður og sá kona hans greinilega um öll hans veraldlegu mál. En hann hefur ákveðnar meiningar um gyðingahatara. Hann sagði eitt sinn af sér embætti forseta rithöfundasambands Ungverjalands, vegna gyðingahaturs, sem hann og aðrir urðu fyrir þar á bæ. Ég efa það að hann hafi vitað nokkuð um Toepfer, heldur ekki Harold Pinter eða aðrir af gyðinglegum uppruna sem fengið hafa peningagjafir frá Toepfer Stiftung.

Einn þeirra sagnfræðinga sem hafa þegið laun við að hvítþvo Alfred Toepfer er Hans Mommsen. Bara ef ég heyri það nafn, fær það blóðið í æðum mér til að frjósa. Á ráðstefnu í Oxford hér um árið stökk hann upp á nef sér á mjög ógeðfelldan hátt, því að einhverjir í salnum höfðu notað hugtakið Slave workers. Þar á meðal voru gyðingar sem höfðu verið þrælar í þýskum og dönskum verksmiðjum.  Gekk Mommsem nær í skrokk á kvikmyndagerðamönnum vegna þess að hann varð svo vondur yfir því að þeir notuðu líka orðið slave worker. Því eins og sagnfræðingurinn sagði, froðufellandi, þá var þetta hugtak ekki til í orðabókum nasista. Þess vegna gátu menn þeir, sem sátu fyrir framan hann, sem höfðu verið þrælar Þjóðverja, ekki hafa verið slave workers. Annað eins hef ég aldrei séð.

Álit sagnfræðinga á ekki að kaupa! Rannsóknir verða að vera óháðar. Ég hef fyrir löngu fengið mig fullsaddan af sagfræðilegum vændiskonum, sem ég hef reyndar haft nokkuð mikil kynni af í Danmörku í tengslum við þá sagnfræðileg uppgötvun sem ég kom með hér um árið. Í upphafi var maður rægður, svo þegar þeir sáu að ég hafði á réttu að standa, var manni bolað úr rannsóknarstöðu, meðan aðrir héldu áfram á stofnuninni fyrir peninga sem voru kríaðir út úr ráðuneytum með með tilvitnun í mig og mínar niðurstöður. Síðar, þegar bók mín kom út, var reynt að taka heiðurinn af uppgötvuninni. Þeirra bækur fjölluðu um embættismenn, þar sem reynt var að réttlæta hvernig dönsk yfirvöld sendu gyðinga í dauðann. Mín bók fjallaði aðeins um fórnarlömbin. Ég hafði ekki áhuga á embættismönnum sem frömdu stríðsglæpi. Það hefði átt að hengja þá eftir stríð, en Danir eltust í staðin við litlu karlana og þá sem seldu þýskurum vínarbrauð. Þegar sagnfræðingar verða hórur, er gott að aðrir skrifa söguna.

Skoðanir Dr. Loiseaux frá Avignon, sem er mjög virtur fræðimaður í Þýskalandi, eru réttmætar. Hann hefur sýnt fram á þætti í sögu Toepfers sem „virtir sagnfræðingar“ slepptu.

Ég mæli með því að þú kynnir þér þá sögu, Halldór, því það er aldrei að vita hvort heiðurslandið á Frankfurter Messe verði ekki spurt út í Toepfer verðlaunin á næsta ári. Hvar er meira tilvalinn staður að gera það en einmitt í Þýskalandi, í landinu þar sem útópían og draumalandið var afsannað.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.3.2010 kl. 17:02

11 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég verð að segja að ég varð hissa að lesa eftirfarandi hjá Halldóri Guðmundssyni:

 

...stofnun Alfred Toepfer hefur lagt mikla áherslu á að fjalla hreinskilnislega um fortíð stofnandans, enda verða Þjóðverjar seint sakaðir um að vilja ekki gera upp þennan tíma.

 

Þótt ég sé Þjóðverji að langfeðgatali, tel ég hæpið að hrósa Þjóðverjum fyrir að gera heiðarlega upp við Nazismann. Fróðlegt væri að vita hvernig Halldór kemst að þessari niðurstöðu.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 1.3.2010 kl. 17:20

12 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég tek undir með Lofti Altice að uppgjör Þjóðverja við Nazismann nær ekki ýkjalangt. Fyrir 5-6 árum ákvað ég að heimsækja Sachsenhausen fangabúðirnar til að heiðra minningu þeirra sem þar dvöldu. Tók lest til Oranienburg og ætlaði að ganga þennan spöl í búðirnar. Þá vildi svo til að enginn heimamanna gat vísað mér veginn. Þó var spottinn ekki nema 10 mínútna ganga og Sachsenhausen stærsta "túrista attraktion" í margra mílna radíus.

Þetta minnisleysi nær ekki bara til almúgans ég hef líka orðið vör við að þýskir menntamenn eiga í nokkrum erfiðleikum með að grafa eftir þessu í djúpi minninga sinna. 

Ragnhildur Kolka, 1.3.2010 kl. 17:57

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég spyr. Eiga börn að gjalda synda foreldra sinna að forfeðra lengra aftur? Þeir sem ábyrgir voru fyrir nasismanum voru afar eða langafar núverandi Þjóðverja. Þeir sem nú lifa bera enga ábyrgð á fortiðinni ekki fremur en ég eða aðrir bera ábyrgð á gjörðum afa og ömmu. Afhverju eiga þeir sem nú lifa að vera að velta sér upp úr fortíðinni? Hvað með ódæði nýlenduþjóðanna, Breta, Hollendinga, Belga, Frakka, Portugala, Spánverja. Mig hryllir við nasismanum og hef mikla samúð með gyðingum en þurfa núlifandi Þjóðverjar endilega að gjalda þessa.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.3.2010 kl. 19:58

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið ósköp og skelfing eigið þið bágt í ykkar miðstöðvarkompu þessir hægri garmar.

Eruð þið virkilega svo blindir í eymd ykkar að þið trúið því að eitthvert óbrjálað fólk hafi samúð með ykkur þótt þið séuð öllu trausti rúnir bæði heima og erlendis?

Þið verðið að sætta ykkur við pólitíska útlegð enda er bara ekkert eftir til að ræna frá þessari þjóð lengur.

Árni Gunnarsson, 7.3.2010 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband