Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga

Magen Gúttó 

Fyrir 13 árum skrifaði ég um fyrstu guðþjónustu gyðinga á Íslandi. Greinin birtist í DV, en ekki þótti það merkilegt framlag í því blaði og var greinin því sett einhvers staðar á milli bílauglýsinga og auglýsinga fyrir hjálpartæki ástarlífsins, sem Íslendingar þurftu svo mikið á að halda á þeim árum.

Guðsþjónustan var fyrsta löglega guðsþjónusta annarra trúarbragða en kristni, sem haldin hafði verið á Íslandi í 940 ár. Hún var haldin í Gúttó, Góðtemplarahúsinu, sem lá á bak við Alþingishúsið (Templarasundi 2) frá 1895 þangað til 1968 er húsið var rifið. Ég kom nokkru sinnum í þetta merka hús sem barn og þótti það bölvaður braggi.  Ef ég man rétt, voru bókamarkaðir haldnir þarna.  

Nú birti ég grein mína úr DV á ný. Ljósmyndirnar tók Sigurður heitinn Guðmundsson ljósmyndari og eru þær nú í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Texti innan hornklofa eru skýringar höfundar nú.

 

Gúttó be Jewish 2

Hluti af hópmynd, sem tekin var í Gúttó 1940

 

Meðal fyrstu bresku hermannanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni voru gyðingar. Gyðinga á meðal eru sterk bönd og oft er sagt að það fyrsta sem gyðingar geri í landi, sem þeir heimsækja, sé að leita uppi trúbræður og systur. Þetta gerðist haustið 1940 á Íslandi. Hingað voru komnir nokkrir flóttamenn frá Þýskalandi og Austurríki og breskir hermenn sem sameinuðust í trúnni haustið 1940.

Sh'mah Yisroel Adonai Eloheinu Adonai Echod (Heyr ó Ísrael, Guð er drottinn, Guð er einn), stendur á hebresku á heimatilbúni altarisklæði úr gull- og kreppappír, sem sett var upp í Gúttó í Reykjavík haustið 1940. Það var Hendrik Ottósson, sem hafði ásamt breskum hermönnum, konu sinni og tengdamóður, sem voru flóttamenn af gyðingaættum, ákveðið að halda Yom Kippur (friðþægingardaginn) heilagan. Hendrik lýsir þessum atburði á skemmtilegan hátt í bók sinni Vegamót og vopnagnýr(1951). Upphaflega hafði ungur sargént, Harry C. Schwab, farið þess á leit við yfirmann herprestanna bresku, Hood að nafni, að gyðingum yrði veitt tækifæri til þess að koma saman til bænahælds. Hood hafði stungið upp á líkkapellunni í gamla kirkjugarðinum, en Hendrik tók þær aumu vistarverur ekki í mál. Þannig þróaðist það að Yom Kippur varð fyrsta samkunda gyðinga á Íslandi í 940 ár, sem ekki var kristin. Aðstæður voru frumstæðar, Gúttó var sýnagógan, enginn rabbíni var í landinu og helgihaldið uppfyllti heldur ekki ströngustu kröfur.

Einstæðar ljósmyndir

Í vetur komu ljósmyndir úr dánarbúi Sigurðar Guðmundssonar ljósmyndara á Þjóðminjasafn Íslands. Þar á meðal voru ljósmyndir hans af þessum einstaka atburði sem við vitum nú miklu meira um. Myndirnar voru nýlega birtar í blaðinu Jewish Chronicle á Bretlandseyjum og hafa þrír hermannanna, sem nú eru aldraðir menn, og ættingjar annarra sem látnir eru, gefið upplýsingar um atburðinn. Sumir hermannanna, sem voru breskir, skoskir og kanadískir, voru meðal þeirra fyrstu sem á land stigu á Íslandi. Þegar er búið að bera kennsl á Harry Yaros, sem var Kanadamaður, þá Philip Mendel og J. D. Wimborne frá London og Alfred Cohen (Alf Conway) frá Leeds, en hann las upp inngöngubænir og tónaði sálminn Kol Nidre þetta haustkvöld árið 1940. Meðal þeirra sem enn eru á lífi eru Bernhard Wallis frá Sheffield, Harry C. Schwab frá London og Maurice Kaye. Ræddi höfundur þessarar greinar við Harry nýlega og er hann hafsjór af fróðleik um þennan atburð sem og aðra frá fyrstu dögum hersetu á Íslandi. Schwab var seinna í herjum Montgomerys og fór með liði hans norður um alla Evrópu. Eftir stríð vann hann hjá Marks og Spencer og verslaði við Sambandið [SÍS]. Kom hann nokkrum sinnum til Íslands vegna vinnu sinnar. Schwab hélt tengslum við Hendrik Ottósson og skrifaði meðal annars minningargrein um hann í Jewish Chronicle 1966.

Í athöfninni haustið 1940 tóku einnig þátt mágur Hendriks, Harry Rosenthal og kona hans Hildigerður og Minna Lippmann, móðir Harrys og Hennýjar, konu Hendriks. Einn var þar Arnold Zeisel og kona hans Else, sem voru flóttafólk frá Vínarborg og hugsanlega bróðursonur Arnolds Zeisels, Kurt að nafni [það hefur síðar verið staðfest]. Daginn eftir safnaðist fólkið á myndinni saman á hótel Skjaldbreið og var kosin safnaðarstjórn, sem í sátu Harry C. Schwab, David Balkin, Alfred Cohen, Arnold Zeisel og Hendrik Ottósson. Þessi gyðingasöfnuður hélst meðan að Bretar voru hér og sá m.a. um fermingu (bar mitzva) Péturs Goldsteins sonar Hennýjar Ottósson. Síðar voru hér tveir söfnuðir bandaríska hermanna, sem einnig höfðu samband við þá flóttamenn sem héldu í trú sína hér á landi.

 

Gúttó be Jewish
Skoskur hermaður til vinstri og Maurice Kaye leikfimis-
kennari og þjálfari til hægri

 

Fáir fengu landvist

Um leið og myndirnar sýna einstakan trúarlegan viðburð, eru þær til vitnis um giftusamlega björgun fólks, sem vegna trúar sinnar og uppruna þurfti að flýja brjálæði sem hafði gripið um sig meðal sumra þjóða í Evrópu. Þeir fáu sem landvist fengu á Íslandi nutu ekki alltaf gestrisni okkar. Snorri G. Bergsson sagnfræðingur hefur nýlega sýnt fram á að íslensk stjórnvöld virðast hafa viðhaft strangari reglur fyrir dvöl gyðinga á Íslandi heldur en annarra útlendinga. Ísland var það land í Evrópu sem tók hlutfallslegast fæsta flóttamenn [þessi niðurstaða Snorra ef aðeins yfirdrifin]. Jafnvel áður en ströng lög voru sett til að hindra komu flóttafólks árið 1938 var gyðingum hafnað á furðulegan hátt. Í skjölum sem höfundur þessarar greinar hefur rannsakað á Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn sést að gyðingum var þegar árið 1934 sagt að rita þýska sendiráðinu í Reykjavík til að fá upplýsingar um landvistarleyfi á Íslandi, meðan öðrum útlendingum, sem óskuðu að setjast að á Íslandi var í hæsta lagi bent á lög um atvinnuskilyrði frá 1927.

Það var einnig til fólk sem bjargaði mannslífum eins og Hendrik Óttósson. Helgi P. Briem og læknarnir Katrín Thoroddsen og Jónas Sveinsson, en hann skaut skjólshúsi yfir lækninn Felix Fuchs og konu hans Renate frá Vínarborg. Þeim hjónum var þó að lokum vísað úr landi eftir einkennilegt samspil íslenskra yfirvalda við þýska sendiráðsstarfsmenn og einn danskan, sem vingott átti við nasista. Talið er að þau hafi komist til Bandaríkjanna. [Sjá grein höfundar um hjónin í Lesbók Morgunblaðsins].

Margir Íslendingar tóku vel á móti flóttamönnum og greiddu götu þeirra og tóku þeim sem nýjum Íslendingum. Margir tóku einnig vel á móti erlendum her og blönduðu aldrei trú sinni á hreinleika fjallkonunnar við lánaða fordóma. Í dag, þegar kynþáttafordómarnir láta á sér kræla, og til er fólk sem er fullvisst um að Íslendingar séu betri en allir aðrir, er gott að minnast Hendriks Ottóssonar og þessa atburðar árið 1940.

______

Eftir að þessi grein birtist í DV laugardaginn 12. nóvember 1994, bls. 39, hefur höfundur skrifað um þennan atburð í dönsku tímaritin Udsyn og Rambam og í Jewish Political Studies Review,  og sömuleiðis um flóttafólk í Lesbók Morgunblaðsins 1997 og 1998.


Meira jólaefni

  Stoned

Í morgun horfði ég í sjónvarpinu á múslimi nærri Mekka, þar sem þeir tóku þátt í Hajjinu. BBC og CNN hafa gert það að árlegum viðburði að hafa útsendingu frá hringsólinu kringum Köbuna í Mekka og tengdum serimoníum.  Ég sá múslimi kasta smásteinum í steinsúlu sem táknar djöfulinn. Með þessu hreinsa múslimir sig og verjast djöflinum. Fyrir nokkrum árum síðan urðu menn sér að voða, því þeir hittu svo illa á hinn táknræna djöful. Nú er búið að gera sérstaka gryfju til að koma í veg fyrir slík slys.

Ég hef líka séð myndir og fengið fréttir af múslimum sem grýta konur til dauða. Ekki heitir það Hajj? Í Íran er það "lögmæt" refsing, sem sótt er í Kóraninn, og sú helga bók gefur líka ábendingar um stærð steina sem nota ber. Ekki of litla og ekki of stóra, því ekki má sú grýtta rotast í fyrsta kasti. Konan er í augum sumra hinn versti djöfull, sem verður að hylja og berja svo hún verði sér og öðrum ekki að voða. Sjá t.d. hér. Kvensniftin, sem sýknuð var eftir að henni var hópnauðgað í Sádí, var heppin.

Ekki trúi ég á djöfulinn eða aðra skratta í neinni mynd, ekki einu sinni Belesbub, og konur eru að mínu mati englar (ja, flestar). Djöfullinn er eitthvað sem mannskepnan hefur búið til að réttlæta hatur sitt. Djöfullinn er mannvera og það eru til andskoti margir djöflar á meðal okkar.

Grýtingin er einn sá djöfullegast arfur sem maðurinn hefur tekið með sér úr fortíðinni. Grýtingin var notuð í landi því sem Jesús fæddist í, og á Íslandi báru menn út börn til forna, ef ekki síðar. Það er margur djöfullinn sem maðurinn þarf að dragast með.

Hættið að lesa þetta, það er óhollt, og farið út og kaupið síðustu jólagjafirnar.


Í Betlehem er barn oss fætt - En í hvaða Betlehem?

 Vitringarnir frá Billund

Hingað til hafa kristnir menn trúað því sem heilagasta sannleika, að Betlehem (Beit Lehem, sem þýðir Brauðbær á hebresku og á arabísku Kjötbær) í Júdeu, suður af Jerúsalem sé fæðingarbær Jesú Krists.

Finnst ykkur líklegt, að María mey hafi riðið kasólétt á asna 200 km leið frá Nasaret í Galileu til að fæða Jesúbarnið suður í Betlehem í Júdeu?

Í Betlehem í Júdeu hafa aldrei fundist neinar leifar frá dögum Jesú! Allt sem finnst er miklu yngra. Betlehem í Júdeu varð hugsanlega ekki að borg fyrr en nokkrum öldum eftir Krists burð.

Ísraelski fornleifafræðingurinn Aviram Oshri hefur hins vegar með margra ára rannsóknum sýnt, svo líklegt sé, að Betlehem sem Jesús fæddist í sé í raun í Galileu, ekki alllangt frá Nasaret.

Oshri hefur grafið í báðum Bethlehemum og er nú þeirrar skoðunar að rústin borgarinnar Betlehem í Galileu sé bærinn þar sem Jesús mun hafa fæðst. Oshri hefur meira að segja rannsakað rúst mjög stórrar Kirkju við í Betlehem í Galileu, sem kom í ljós við vegagerð fyrir nokkrum árum.

Hér getið þið lesið um hið eina sanna Betlehem á vefsíðu Aviram Oshri og fræðst.

Jesús umskorinn

Jesús umskorinn í Galileu á áttunda degi lífs sýns. Atburðurinn túlkaður með dönskum Lego-kubbum.

Mörgum finnst fornleifafræðingar til vandræða. Íslenskir sagnfræðingar telja sig vita nóg af bókum og vilja aðeins að fornleifafræðingar staðfesti það sem skruddurnar segja. Aðrir bókstafstrúarmenn úti í heimi eru hatrammir út í stétt fornleifafræðinga fyrir að rústa viðteknum hugmyndum og jafnvel trúarbókstaf. Ætli kirkjan viðurkenni nokkurt tíma kenningu Avirams Oshri? Það er allt of mikið í húfi. Þar á meðal má nefna Minjagripasöluna við Fæðingakirkjuna og misnotkun Palestínumanna á helgi borgarinnar.

Bærinn Betlehem i Galileu hefur líklegast fallið í gleymskunnar dá vegna óeirða og óaldar sem ríkt hefur í landi Gyðinga, síðan að þeir voru flæmdir í burtu af ýmsum ofstækismönnum. Og það hefur örugglega legið pólitísk ákvörðun bak við skrif guðspjallamannanna, sem "fluttu" fæðingabæ Jesú nær Jerúsalem.

"Hefð og trú ætti að vera nóg til þess að menn trúi því að fæðingabær Krists sé þar sem hann er nú", segir Michel Sabbah, erkibiskupinn sem ég fjallaði um í síðustu færslu. Ætli hann sé nú dómbær á það?


In nomine Jesu vel Fatah?

 
Sabbah kyssir Pabba

Nú stingur kaþólska kirkjan aftur. Heldur illilega og rýtingurinn er langur. Ég leyfi mér að kvarta, hvað sem Jón Valur Jensson, patríarkinn okkar í íslenskum bloggheimum, kveinar. Rómversk-kaþólski patríarkinn í Jerúsalem, Michel Sabbah, hefur lýst því yfir að hann sé mótfallinn Ísraelsríki. Hann segir að Ísrael yrði að "gefa upp á bátinn gyðingleg einkenni sín" og í stað þess beita sér fyrir "stjórnmálalega, eðlilegu ríki fyrir kristna, múslimi og gyðinga".

Sabba og Abu Mazen

Patríarkinn er Palestínumaður, svo orð hans eru kannski skiljanleg. En geta Kirkjan og Íslam ekki lifað ágætu lífi í Ísrael, alveg eins og það er pláss fyrir allar trúarstefnur á Íslandi, þrátt fyrir að þjóðkirkjan sé lútersk? Af hverju alltaf þessir afarkostir.

Hvers konar "Herrenvolk" hugsunarháttur er þetta hjá patríarkanum. Gyðingar mega ekki búa í smábyggðum í Palestínu og nú mega þeir heldur ekki eiga sér ríki nema að þeir gefi upp gyðingleg einkenni sín. Yfirgangur þessi er óhemjulegur og ég vona svo sannarlega að kaþólska kirkjan taki ekki þátt í honum og ávíti patríarkann.

 

Sabbah og Hamas

Sabbah ætti heldur að gæta að hjörð sinni í íslamistaríkinu Gaza, þar sem kristnir hafa verið ofsóttir af Hamas og myrtir. En frá því er vitaskuld EKKI SAGT í íslenskum fjölmiðlum frekar en því að kristnir menn eru ofsóttir af Múslimum á Vesturbakkanum. Íslenskir fjölmiðlar eru eins og strútar með hausinn á bólakafi í kviksyndi.

Ég fann því miður ekki mynd af Sabbah með Ísraelsmanni.


Nýr biskup á Íslandi

 
Pétur biskup
 

Kaþólskir á Íslandi hafa fengið nýjan biskup. Ég óska kaþólskum landsmönnum mínum til hamingju með hann, en spyr jafnframt að aldagömlum íslenskum sið: Hverra manna er hann?  Hinn nýi hirðir safnaðarins á Íslandi er frá Sviss og heitir Pierre Bürcher og er fæddur 1945. Hér er hægt að lesa hvar hann stendur í tign og nálægð við Drottinn sinn.

Til að fara fljótt yfir sögu, þá get ég upplýst að hann hefur sérhæft sig í málefnum Íslams og samskiptum kaþólskra við múslima. Í því hlutverki hefur hann t.d. ferðast víða og meðal annars til Íran til að líta eftir kaþólskum þar.

Pétur biskup og Ajatollar

Í vor var þetta haft Pétri biskupi á Radio Vadicana:

"Die Schweizer Behörden sollten aufmerksamer verfolgen, was in den Moscheen geschieht. Dies regte Weihbischof Pierre Bürcher, Präsident der Arbeitsgruppe "Islam" der Schweizer Bischofskonferenz, in einem Interview mit dem Internet-Nachrichtenportal "swissinfo" an. Was im Inneren von Moscheen ablaufe, könne den Frieden weit mehr bedrohen als der Bau von Minaretten. - Anfang Mai starteten zwei Parteien in der Schweiz eine Volksinitiative für ein Minarett-Verbot."

Þeim orðum Pierre Bürchers, að það sem gerðist í moskunum sé stærri hætta fyrir friðinn en byggingar turna, var beint að landsmönnum hans í Sviss sem mótmæla byggingu kallturna (mínaretta) múslima í Sviss.

Maður gæti fengið á tilfinninguna að aðstoðarbiskupinn í Sviss, sem er einn helsti sérfræðingur kaþólsku Kirkjunnar á málefnum Íslams, hafi farið of langt í skoðunum sínum fyrir vissa stjórnendur í Vatíkaninu. Benedikt Páfi hefur hlotið mikla gangrýni fyrir að styggja múslima með skoðunum sínum, og það getur verið bísna hættulegt.  Hér getið þið lesið útleggingu á því hvaða hættu maður tekur með því að gera það. 

Páfi í Palestínsku blaði
Páfinn í palestínsku blaði

 

Það er greinilega kominn merkur maður í biskupsstól á Íslandi. Til marks um það læt ég fylgja svar hans við spurningu blaðamanns um hvað fái hann til að halda að maður finni lausn á lélegu sambandi hinna þriggja stóru eingyðistrúarbragða:

P.B. svaraði: The most fervent believer, whether they be Christian, Jew or Muslim, will never attain perfection and we are on a similar path when it comes to inter-cultural and inter-religious relations. The human being has its limits; unfortunately we are not perfect and neither are our societies.

Vel mælt, einstaklega vel mælt.


Bagaleg frétt

 
bagalega léleg mynd

Um leið og ég óska biskupi Íslands til hamingju með nýja rússneska bagalinn, þarf víst smá leiðréttingar við frá fornleifafræðingi varðandi bagalega frétt Morgunblaðsins.

Baglar þessir eru á fagmálinu kallaði Tau-baglar [borið fram "tá"] og er þetta fræðiheiti dregið af gríska bókstafnum "tau/tá" T. Tau-baglar eru ekkert sérfyrirbæri Austurkirkjunnar. Þeir baglar, sem eru líkastir baglinum sem fannst á Þingvöllum, eru reyndar úr tré og hafa fundist í Dyflinni á Írlandi. Fagurlega útskornir tau-baglar úr fílsbeini eða rostungstönn hafa fundist nokkrum löndum vestur-Evrópu. Tau-bagallinn á Þingvöllum er því ekki sönnun þess að prelátar frá Rússlandi eða Austur-kirkjunni hafi verið á Íslandi.

Tau-baglar hafa þekkst með mismunandi lagi í gjörvallri Austurkirkjunni og einnig í koptísku/eþíópísku kirkjunni. Stíll og gerð gripa geta eins og kunnugt er breiðst á milli landa og heimsálfa eins og fatatíska, en þurfa ekki endilega alltaf að gefa til kynna uppruna gripanna eða hvað þá heldur uppruna fólks sem átti þá eða notaði.

Eþíópískur bagall Eþíópískur bagall

Tau Eþíópískur munkur með tau-bagal

Ólíklegt er, að þeir "(h)ermsku" prestar, sem greint er frá í Íslendingabók, þeir Petrus, Abraham og Stephanus, hafi tapað bagli sínum á Þingvöllum. Stíll (Úrnesstíll) sá sem bagallinn frá Þingvöllum er skreyttur með, var ekki þekktur í armenskri kirkjulist og tau-baglar voru ekki notaðir í Armensku kirkjunni.

Ef maður fylgir skoðun Magnúsar Más Lárusonar um að ermskir (hermskir) prestar í íslenskum handritum hafi verið prestar frá Ermlandi (rétt austan við Gdansk) er enn fráleitara að hugsa sér að Þingavallbagallinn hafi komið hingað með þeim, því tau-baglar eru ekki þekktir á því svæði sem kallaðist Ermland. Tilgáta F. B. USPENSKIJ frá 2000 finnst mér betri. Hún gengur út á það, að þegar nefndir eru girskir og hermskir prestar í íslenskum heimildum, þá sé ekki endilega átt við uppruna manna, heldur frekar kirkju þeirra. Mér þykir vænlegast að taka mið af þeirri tilgátu og sýnir ákvæði í Grágás það líka að mínu mati. En þrátt fyrir það gæti það alveg eins verið alíslenskur pater sem tapaði  baglinum sínum á Þingvöllum.

Ég skrifaði um bagalinn frá Þingvöllum í sýningarritið From Viking to the Crusader: Scandinavia and Europe 800-1200, gripur 335, bls. 314, mynd  155 ef einhver vill kynna sér þetta nánar.

Annars er þessi bagall líklegast ekkert annað en táknræn, kristin gerð stafs Móses. Sumir álíta að prestar gyðinga, rabbíar, hafi gengið með svona staf. Stafur Móses var til í musterinu í Jerúsalem, eða svo segja fróðir menn.


mbl.is Biskup fær rússneskan biskupsstaf að gjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin nýju alheimstrúarbrögð

The essence of the new Religion

Nú er víst alveg óhætt að halda því fram, að nýr sértrúarsöfnuður sé orðinn til. Hann nær til heimbyggðarinnar allrar og slær brátt við kaþólsku. Strax í upphafi þessarar löngu ræðu, og til að fjarlægja allan misskilning, ætla ég að leyfa mér að undirstrika að hér er ekki um að ræða trúarbrögð í hefðbundnum skilningi þess orðs. Félagar í þessum sértrúarhóp eru ekki mikið fyrir helgihald og seremoníur og víst oft yfirlýstir og hatrammir guðleysingar, sem gera gys að venjulegu trúuðu fólki. Mantra þeirra er hins vegar auðskilin: Allt vont sem gerist í heiminum hefur aðrar skýringar en þær sem virðast liggja í augum uppi.

Trúarbrögð þessi greinast í tvær megingreinar. Annars vegar hreinræktaða vantrúarmenn og afneitara. Hér í flokki eru t.d. það fólk sem ekki trúir að helför gyðinga hafi átt sér stað og afneitar henni.

Hins vegar eru  þeir, sem hafa séð ósköp eiga sér stað í beinni útsendingu í sjónvarpinu og geta því ekki afneitað tilvist atburðarins. En þeir vilja ekki fyrir neina muni setja það sem þeir sáu í neitt samhengi, án þess að sjá samsæri og þveröfuga greiningu á við það sem flestir telja. Stór hópur fylgir nú þeirri kirkju sem heldur því fram og trúir, að Bush og Bandaríkjastjórn hafi komið ósköpunum þann 11. september 2001 af stað; að þeir hafi dáleitt hóp múslima, sett þá í flugvélar og komið fyrir sprengjum í háhýsum á Manhattan.

Vantrúarmenn, sem geta t.d. ekki trúað að þjóðarmorð hafi átt sér stað, án þess að kenna fórnarlömbunum um, eru upp til hópa sjúkt fólk, haldið þunglund og hatri. Hinir, sem ekki geta sætt sig við orðinn hlut, t.d. að ofstækismen geti grandað sumum af hæstu byggingum heims og þúsundum manna í nafni Allah, eru oftast tilbúnir að fullvissa aðra um að þeir séu hinir mestu mannvinir og friðarsinnar. Margir nýir liðsmenn þessa safnaðar eru gamlir og garfaðir vinstri menn. Þeir nota það jafnvel sem eins konar áreiðanleikavottorð þegar þeir kenna Bush, Bandaríkjunum og zíonistunum um stóra samsærið á bak við 9/11.

Ekki býst ég við því að margir landa minna séu svo forheimskaðir, að þeir aðhyllist þessi trúarbrögð samsæriskenninganna. Á einstaka bloggi hef ég þó séð nokkra furðukalla, (því þetta leggst mest á karlpening eins og Aspargers heilkenni), sem aðhyllast þessi trúarbrögð. Maður gæti haldið að sumir þeirra hafi nýverið brugðuð sér í flugferð með fljúgandi furðuhlut og ekki borið barr sitt eftir það.  

Hér í Danmörku er ástandið orðið slæmt. Hér er t.d. rekin vefsíðan http://www.911truth.dk/, stæling á www.911truth.org, sem með þekktum lýðskrumsaðferðum reynir að telja fólki trú um að vondi kallinn sé fluttur úr neðra upp í Hvíta Húsið í Washington til að angra saklaust fólk. Þetta trúfólk hefur ekki ímyndunarafl til að trúa öðru en að Bush og kumpánar hans séu á bak við hryðjuverkin árið 2001 og allt annað sem miður fer í heiminum, þó svo að yfirlýsing Bin Ladens í kjölfar 9/11 hryðjuverkanna sé bókfest.

Þetta er afar líkt og þegar menn á miðöldum, sem og Hitler og nokkrir arftakar hans síðan, kenndu gyðingum um allt sem miður fer í heiminum. Það er einnig bókfest að þeir sem flugu inn í World Trade Center trúðu því. En samt eru þúsundir manna um heim allan sem telja sér trú um að gyðingar hafi staðið á bak við árásirnar á Bandaríkin árið 2001. Þeir álíta að farþegar, sem voru í flugvélunum sem flogið var á turnana í New York og Pentagon, séu á lífi eða hafi aldrei verið til. Sams konar rök nota afneitunarmenn Helfararinnar. Samkvæmt þeim búa fórnarlömb Holocaust í Florida.

Varnarmálaráðherra Súdans kenndi sumarið 2007 gyðingum um þjóðarmorðin í Darfur. Nasistar kenndu gyðingum um kommúnisma og rússnesku byltinguna og helfararafneitendur kenna gyðingum um Helförina. Sjáið http://www.youtube.com/watch?v=w8tfhqmGkSw  Samsærismenn hata gyðinga.

Hvergi eru þessi afbrigðilegu nýtrúarbrögð eins sterk og í Bandaríkjunum, föðurlandi samsæriskenninganna. Það er margt víst margt sjúkara þar en húsbóndinn í Hvíta Húsinu, sem mér er bara farið að þykja vænt um þegar maður sér alla vitleysingana sem ganga lausir í BNA og trúa því að Al Quaeda hafi verið búið til af CIA.

Eitt gott dæmi til sönnunar kenningar minnar um að fylgjendur samsæriskenninga séu þunglyndissjúklingar, sem þyrftu á meðferð að halda, er þessi síða : Biblía samsæriskenninganna. Þar sem sérstök áhersla er lögð á að hata yfirvöldin í Washington

Mannskepnan á oft erfitt með að trúa. En það skrýtna er að VANTRÚ getur hæglegu orðið að sterkustu trúarbrögðunum. Af hverju vilja þúsundir manna um heim allan ekki trúa því að vitlausir Íslamistar hafi sprengt upp World Trade Towers hjálparlaust? Alveg hjálparlaust erum við víst öll á góðri leið með að bræða báða pólana og drukka í eigin skít. Er það kannski líka Bush að kenna?

Því miður er einn elsti veikleiki mannsins ástæða þess að við sjáum nú svo marga fylgismenn samsæristrúarbragðanna. Að kenna öðrum um og útnefna blóraböggul fyrir sameiginlegar syndir er frumstæð og leiðigjörn árátta. Því miður er sú kennd mjög sterk meðal íslamista og margra vinstri manna, og t.d. nasista. Þess vegna sjáum við svo margt sameiginlegt með fylgisfólki  Hitlers, Stalíns og þeim fylgismönnum Múhameðs, sem gert hafa Íslam að heimsyfirráðastefnu. Hitler, Stalín og Múhameð áttu sér líka eitt sameiginlegt. Þeir sáu alls staðar samsæri geng sér og drápu mismunarlaust alla þá sem þeir ímynduðu sér að stæðu í vegi sínum.

Ég læt Penn & Teller að skýra þetta betur út. Horfið á þetta.  Myndin efst er frá mótmælum afneitunartrúarmanna fyrir framan sendiráð BNA í London. Hún skýrir sig sjálf


Sænskur banki reisir hús á beinum gyðinga

 

Snipishok

Svenska Enskilda Banken, SEK, sem er víst enn stærri en flestir íslenskir bankar, þótt hann haldi ekki eins góðar veislur, er í vondum málum í Vilníus í Litháen. Þar hefur bankinn fjármagnað byggingar lúxusíbúða á uppsprengdu verði á þeim stað sem áður var helsti grafreitur gyðinga í Vilníus, sem gyðingar kölluðu Vilnu. Gyðingum var, eins og víðast annars staðar, ekki leyft að hafa grafreit sinn innan borgarmarkanna. Þess vegna var honum fundinn staður norður árinnar Neris, sem rennur norðan Vilnu. Fyrir löngu hefur borgin innlimað sveitaþorpið Snipishok, Grísatrýnisþorp, þar sem grafreiturinn var.

Grafreitur þessi hýsir, líkt og aðrir grafreitir gyðinga, jarðneskar leifar til eilífðarnóns.  Vilna var á sínum tíma háborg gyðingsdóms í Austur-Evrópu.

Fyrst myrtu nasistar og handlangarar þeirra gyðinga í tugþúsundatali í Litháen. Svo komu Sovétrússar með sinn isma og hafa líkast til ekki vitað neitt um gyðinga, þegar þeir rifu þúsundir grafsteina úr grafreitnum í Snipishok og notuðu þá í undurstöður og tröppu Íþróttarhallar sem þeir byggðu á því svæði sem grafreiturinn var og nýrri götu var gefið nafn Ólympíu (Olimpiečių skyrius). Bein frægra lærifeðra, helgra manna og menningarfrömuða hinnar jiddísku menningar austurevrópska gyðingdómsins voru rifin upp og kastað hauga mannfyrirlitningarinnar Sovétsins.

Nú ræður annar ismi i Vilníus. Sá sem kenndur hefur verið við kapítal, og virðast boðorð hans heldur ekki hlífa gyðingum. Nú er búið að bæta fleiri glerhöllum ofan á það svæði sem selt var gyðingum til ævarandi eignar.

 

SEB on the Jews

Sænski Bankinn, SEB, er með útibú á jarðhæð þessarar byggingar og reynir að selja og leigja út íbúðir á efri hæðunum. Í kjallaranum er hins vegar reimt og mun gangur mála þar ekki verða SEB til framdráttar.

Svenska Enskilda Banken og litháískir samstarfsmenn þeirra bjóða nú íbúðir til sölu eða til leigu á landi sem er ekki þeirra eign. Litháísk yfirvöld hafa ekkert gert til að hindra enn eitt ránið á arfleifð gyðinga í Vilnu. Bankinn SEB og fólskuflón í stjórnmálastétt Litháens leyfa sér að tala um fyrrverandi grafreit gyðinga í Vilníus. Það er ekkert til sem heitir fyrrverandi grafreitur gyðinga.

SEB varð til úr tveimur bönkum árið 1972 og einn þeirra banka var alfarið í eigu Wallenberg ættarinnar. Sú ætt átti mikil og góð viðskipti við Þriðja ríki nasista og keyptu illa fengið gull af þeim. Eru menn að halda áfram þar sem frá var horfið?

Hurra Sverige!

 

Ghetto Bak
Mér þótti viðeigandi að sýna hér mynd listamannsins Samuel Bak (f. 1933) sem lifði af ofsóknir í  gettóinu í Vilnu. Ég var viðstaddur opnun myndlistasýningu hans í Vilnu árið 2001.

Dúkkan í gettóinu

  Hönd gyðingsins í Hebron

Þetta er hönd gyðings frá Hebron. Hann var myrtur af æstum múg árið 1929. Æstur múgur er enn tilbúinn til að myrða gyðinga í Hebron. Nú eru aðrir tímar og múgurinn hefur með sér lækni frá Íslandi, klyfjaðan myndavélum. Sveinn Rúnar Hauksson heitir doktorinn.  Sveinn Rúnar er enginn Spielberg, en boðskapurinn kemst þó til skila enda er hann eingöngu einhliða hjá Sveini, eins og stuðningsmanni öfgasamtaka sæmir.

Á bloggi Júlíusar Valsonar, góðvinar og kollega Sveins, er erfitt að segja skoðun sína ef maður heitir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. Innri KGB maðurinn í Júlíusi fjarlægir alla gangrýni. Ég held að hann hafi alltaf fjarlægt skoðanir frá mér. Í þetta sinn getur hann það ekki. Ég birti þær á mínu eigin bloggi.

Í nótt setti Júlíus á bloggið sitt myndasyrpu Sveins Rúnars Haukssonar Palestínufara, þar sem hann fjallar um "ruslahaug gyðinga" í Hebron og undarlega dúkku, eftir að hafa fengið skammt af táragasi Ísraelsmanna. Í myndinni gerir Sveinn mikið umtal út af "ruslahaug gyðinga":

"Þetta er ruslahaugur gyðinganna sem  búa hér fyrir ofan, landtökuliðsins. ......

Þarna hafa þeir fleygt dúkku..... þetta er undarlegt ... þetta er undarlegt ... hvað hún stendur fyrir......

Það er rétt er að halda áfram að taka myndir af þessu rusli hérna.......

Þetta er gata sem er bara fyrir gyðinga. This is only Jew's street at least not for Palestinians.

Þessi maður má ganga á götunni  enda er hann með gyðingakollu þarna."

Sveinn Rúnar Palestínufari segir okkur ekki að Hebron er önnur heilagasta borg gyðinga. Þar bjuggu gyðingar þangað til 1929, þegar arabar réðust á þá og myrtu 67 manns. Gyðingar flýðu þá Hebron. Gyðingar höfðu fyrir þennan hræðilega atburð búið í sátt og samlyndi við araba. Já og nokkuð þúsund ár áður en arabar urðu til. En skyndilega árið 1929 ákváðu öfl sem eru forfeður þeirra sem Sveinn Rúnar talar við í mynd sinni, að ráðast á saklausa gyðinga. Síðan þá hafa arabar ekki viljað hafa gyðinga í Hebron. Hver er að tala um Apartheid?  Jórdanar, sem stýrðu borginni frá 1948, gerðu gyðingahverfið í Hebron að ruslahaug og helsta samkunduhús gyðinga, Abraham Avinu, sem byggt var á 16. öld var eyðilagt og gert að asnastíu og geitahúsi.

Bækur gydinga 

Bækur gyðinga sem myrtir voru eða flæmdir burt frá Hebron árið 1929. Minnir á bókahrúgur í Auschwitz. Fleiri myndir hér

Fyrir menn eins og Svein Rúnar Hauksson, sem hafa svo mikinn áhuga á ruslahaugum, hlýtur að vera áhugavert að heyra um gyðingahverfið og helg hús gyðinga sem voru gerð að ruslahaug af Palestínumönnum.

Í Hebron búa nú 140.000 Palestínumenn og 500 gyðingar. Gyðingarnir hafa ekki getað um frjálst höfuð strokið síðan átti að útrýma þeim þar árið 1929. Það var ekki í fyrsta sinn. Krossfarar ráku gyðinga úr borginni á 12. öld og þegar múhameðstrúarmenn náðu borginni aftur voru réttindi gyðinga ekki mikil. Þeim var meinað að heimsækja helga staði sína - allt fram á 20. öld.

Drengur 1929

Eitt af fórnarlömbum ofsóknanna í Hebron 1929

Eftir 1967 hafa afkomendur þeirra gyðinga sem búið höfðu í aldaraðir í Hebron ekki fengið aftur hús sín. Aðrir gyðingar hafa sest þar að og hafa margir þeirra mátt láta lífið fyrir það uppátæki.  Gyðingar geta ekki búið óhultir í þessari gömlu borg gyðinga. Palestínumenn halda uppi andanum frá 1929.

Þann 26. mars 2001 var 10 mánaða stúlkubarn, Shalhevet Pass, skotin í höfuðið af palestínskri hetju.

Gröf Shalhevet

Shalhevet Pass sem myrt var í Hebron árið 2001 og gröf hennar i Hebron

Það er ekki grafreitur gyðinga, þar sem Shalhevet litla hvílir, sem Sveinn sýnir okkur í mynd sinni. Árið 1993 var ráðist á afa hennar með öxi þegar hann var á leið til bænar. Maðurinn með "gyðingakolluna", sem gekk inn í mynd Sveins Rúnars, gæti jafnvel verið afi Shalhevetu? Móðursystir Shalhevetu var stungin í bakið af frelsishetju árið 1998 og móðurbróðir hennar skotinn í fótinn árið 2001.

Svei mér þá, ég held bara að hann Sveinn Rúnar Hauksson frá Íslandi hafið jafnvel fundið dúkkuna hennar Shalhevetu við gettó gyðinga í Hebron.


Hötum Lomborg

 lomborg

Ég er einn fárra í Danmörku sem frá byrjun hef haft mikla trú á dr. Birni Lomborg, dönskum stjórnmálafræðingi, sem leyft hefur sér að vera efins gagnvart nýju heimstrúarbrögðunum. Þau trúarbrögð boða allsherjarbráðnun og hraðferð til helvítis. Fylgjendur eru margir og mjög heittrúa. En eins og oft hjá heittrúarfólki, virðist vera sía í heila þess þar sem almenn skynsemi og rökhugsun er skilin frá heilbrigðri skynsemi. 

Í dag er Lomborg með áhugaverða grein í Politiken, Før vi panikker, sem ég mæli með því að fólk lesi. Ég set tenginu við hana þegar hún kemur á netið síðar í dag eða á morgun.

Ég krefst þess ekki að neinn trúi, falli fram á hnén og tilbiðji Lomborg og hans skoðanir. En fæstir þeirra sem ég hef rætt við í Danmörku um Lomborg hafa lesið stafkrók eftir hann, aðeins gagnrýni annarra, og ég hef meira að segja hitt fyrir menn sem höfðu "ógeð á manninum, vegna þess að hann er hommi".

Politiken hefur undanfarna daga birt röð af greinum um heim á heljarþröm og loftlagsbreytingar og hefur leyft Lomborg að svara.

Á sömu síðu og grein Lomborgs í Politiken í dag er bréf til blaðsins frá aldraðri konu, sem ég hef einu sinni hitt. Hún heitir  Ulla Jessing og er gyðingur sem fæddist í Þýskalandi. Hún skrifar reið: "Ég skil ekki maður vilji leyfa loddara eins og Lomborg að ganga lausum í fjölmiðlaheiminum með yfirlýsingar um að "gróðurhúsaáhrifin séu mjög vafasöm". Og það hefur gerst eftir að loftlagssérfræðingar frá öllum heiminum hafa fengið Nóbelsverðlaunin fyrir vísindalegar rannsóknir sínar á sönnu ásigkomulagi jarðarkringlunnar. Yfirlýsingar Lomborgs eru á sama stigi og yfirlýsingar bandarískra öfgatrúarmanna,  sem halda að kenningar Darwins orki tvímælis".

Þessi stutta greining Ullu Jessings lýsir hatri hópæsingarinnar í hnotskurn. Ulla Jessing, sem flýði Þýskalands nasismans og kom ung til Englands, flutti síðar til DDR sem heillaði hana eins og Stalín. Þar giftist hún og settist loks að í Danmörku. Ef hún hefur ekki verið á mála hjá Stazi er ég illa svikinn, og ég sel það ekki dýrara en þegar hún skrifar að Björn Lomborg sé loddari. Konan hefur alla ævi verið handbendi öfgafullrar skoðana og ógagnrýninn borgari í ráðstjórnarríki. Hún vill láta banna Birni Lomborg að tjá skoðanir sínar. Greinilega eru sömu gildin í gangi og þegar hún var Kammerad Ulla i DDR.

Umræðan um loftslagbreytingar er orðið nýja byltingarslagorðið. Í byltingum og öfgastefnubrjálæði virðist heilinn í sumu fólki fara algjörlega úr sambandi og bráðnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband