Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Umslög utan af íslenskum kjörseðlum seld í erlendum frímerkjaverslunum

Umslag Ólafs Ragnarssonar b

Hafið þið kjósendur góðir velt fyrir ykkur, hvað verður um utankjörstaða-kosningaseðlana ykkar, eða umslögin utan um þá, að kosningum loknum?

Þetta eru persónuupplýsingar sem vernda ber og eyðast að löglegri kosningu lokinni.

Fornleifur greindi frá því um daginn, hvernig umslög með kjörseðlum Íslendinga, sem send hafa verið erlendis frá, hafi lent í sölu hjá frímerkjaverslunum erlendis. Fornleifur keypti sér til gamans gömul atkvæði Íslendinga sem gerðu skyldu sína í sendiráðum lands síns - en bjuggust vitanlega ekki við því að sjá kosningaumslögin sín til sölu í frímerkjaverslunum á netinu.

Kannski væri athugandi fyrir prótókollskrifstofu Utanríkisráðuneytisins og sýslumannsembættin að reyna að skýra hvað þarna gerðist og hvort enn sé hætta á því að umslög manna, sem senda kjörseðil sinn erlendis frá, séu sett í söluferli erlendis að kosningum loknum? Þetta er stórfurðulegt mál og óvenjuleg nýtni í ljósi þess að Íslendingar eiga í hlut.

Þessi færsla verður send Utanríkisráðuneytinu, prótókollskrifstofu, og skýringa óskað á þessari furðulegu kosningaumslagasölumennsku með vísun í þessa færslu og grein um málið á Fornleifi. Sjá erindið hér fyrir neðan:

Virðulegi prótókollmeistari Utanríkisráðuneytisins,

Í dag hef ég gert opinbert þetta erindi til ráðuneytisins (sjá .http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/2203200) Ég leita svara við því, hvernig umslög utan af kjörseðlum, sem Íslendingar höfðu sent erlendis fyrr á árum, hafi komist í söluferli hjá erlendum frímerkjaverslunum.

Ég hef keypt nokkur umslög utan af kosningarseðlum, sem Íslendingar hafa sent í Alþingiskosningum í þeirri trú að kosningin væri trúnaðarmál.

Ef ráðuneytið hefur einhverjar skýringar á því, hvað þarna hefur átt sér stað, þætti mér vænt um að fá upplýsingar um það.

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, Ph.D.

Danmörku

Sjá http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/2203200 og http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/2201406/

Set ég svo innsigli "mitt" á þessa færslu:

Umslag utan af kjörseðli  c

 


Það sem allt ætlar að æra

the first stone

Mál málanna á Íslandi er þessi bölvaða æra og tilburðir manna að rétta hana við, og annarra að koma í veg fyrir það.

Að menn fái að rétta æru sína við, nema að þeir séu þjóðar eða fjöldamorðingjar, er nauðsynleg ráðstöfun, eins konar ventill, sem verður að vera til í lýðræðisríkjum.

Þegar menn hafa setið út dóm sinn, verða þeir að vera velkomnir til baka í þjóðfélagið sem „nýir menn“ og vonandi betri.

Á Íslandi virðist búa margt fólk sem yrðu prýðisíbúar í Suðurríkjum Bandaríkjanna, þar sem menn fá 100-200 ára fangelsi og jafnvel mun lengri dóma. Stór hópur Íslendinga vill greinilega ekki láta sér nægja að menn séu dæmdir eftir gildandi íslenskum lögum. Þetta fólk vill halda áfram að sparka í þann dæmda, fram yfir það brennimark sem sérhver glæpamaður mun ávallt bera þrátt fyrir fangelsisvistina.

Slík dómharka er vægast sagt mjög sjúk.

Margt af þessu fólki sem er svo dómhart er kristið en aðrir hörðustu vinstri menn, sem margir hverjir hafa eins og við vitum hyllt ríki með afar ógeðfellt réttarfar. Nú vill svo til að kristnin boðar fyrirgefningu syndanna og íslensk lög innihalda eftir danskri hefð einnig svipaða siðferðiskennd og fyrirgefningin í trúnni. Þegar menn hafa setið út dóm sinn, eiga þeir að eiga möguleika á því að hreinsa feril sinn örlítið, því hvítþvegið hann geta þeir aldrei.

NAHTO8sX6xK6_992x620_xBdktBFt

Hvað veldur æsingi fólks og grimmd?

Hvað er það sem ærir það fólk sem ekki nægir dómar yfir kynferðisafbrotamönnum? Svarið er örugglega ekki einfalt.

Mig grunar þó að svarið finni maður einmitt hjá hinum mikla og hatramma kór, sem æsir sig sérstaklega yfir mönnum sem í veikleika eða sjúkleika leggjast á börn og unglinga til að svala kynferðislegum þorsta sínum. Barnaníðingar, flest menn en einnig konur, fara lengra en það fólk sem situr og lepur í sig klám á tölvunni sinni. Sömu fantasíurnar og löngun sumra karla í ”ungt kjöt” er ekki nýtt fyrirbæri. Þeir sem missa niður um sig og gera fantasíuna að veruleika brjóta siðferðisleg lög og jafnfram lög landsins. Margir gætu lent í því sama, en örfáir, sem ekki hafa góðan hemil á sér, ”detta í vitleysuna”.

Þar með sagt er engin ástæða fyrir þá sem hafa betri hemil á sér sem kynverur, að sparka í þá sem hrasa og geta ekki fylgt reglunum og hinu gildandi siðferði. Þegar þeir hafa setið út sinn dóm, eiga þeir að fá tækifæri til að sýna sínu samferðarfólki, að þeir hafi haft gott af refsingunni. Líkt og morðingjar fá uppreist æru sinnar, eiga kynferðisglapræðismenn vitanleg einnig að fá slíka uppreist og það er ekkert að því nema tilfinningar foreldra misnotaðra barna og unglinga. En til að koma í veg fyrir að slíkt fólk verði fyrir áframhaldandi ónæði af tilveru dæmdra barnaníðinga eru einnig til reglur og lög. Ef menn brjót þau er gamla fangelsið ekki langt undan.

En hópæsing gegn þeim hópi manna sem ekki gátu haft hömlur á kynhegðun sinni er álíka sjúk og afbrigðileg kynhegðun.

Ef fólk getur ekki sætt sig við dóma á Íslandi, væri kannski við hæfi að flytjast til landa þar sem 200 ára fangelsi er talið heppilegt, eða þangað sem hendur eru höggnar af mönnum fyrir þjófnað.  

Íslensk dómsyfirvöld og laganna verðir verða að fara að taka alvarlegar á því fólki sem heitir því á opinberum vettvangi að myrða fólk sem tekið hefur út dóm sinn. Morðhótanir gagnvart dæmdum kynferðisglæpamönnum, sér í lagi barnamisgjörðarmönnum, eru glæpsamlegt athæfi og ber yfirvöldum að lögsækja og dæma fólk sem hefur slíkan dólgshátt í frammi á spjallsíðum og ummælakerfum fjölmiðlanna. Annars er réttarkerfið með til þess að nornabrennur haldi endalaust áfram. Furðulegt er t.d. að sjá að það fólk sem telur dæmda morðingja saklausa er hatrammast í æsingi sínum gagnvart dæmdum barnaníðingum.

Þið sem viljið myrða alla í annarri hverri setningu, eruð ekkert betri en níðingar sem leggjast á börn. Kannski er reiðin meiri hjá slíku fólki, því það veit upp á sig einhverja skömm eða hugsun, sem það sem betur fer hafði hemil á. Hugsanir eru ekki bannaðar, en dómur rennusteinsins á engan rétt á sér. Slíkur dómur, sem og pukur með uppreistarmál, varð nú síðast ríkisstjórn að falli.

Lítilfjörleg var sú ríkisstjórn sem ætti að hafa verið í fullu starfi við að rétta hag almennings. En ráðherrarnir voru greinilega fyrst og fremst uppteknir af því að velta sér upp úr dæmdum kynferðisglæpamönnum eða pukra með upplýsingar um uppreist æru þeirra.

Þeir sem fyrstir kasta steininum eru sjaldnast syndlausir. Gleymum því ekki.


Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband