Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
29.7.2007 | 09:54
Diskó Kristjáns níunda og konungssteinninn
Þegar Íslendingar héldu upp á 1000 ára afmæli búsetu í landinu árið 1874 var mikið um dýrðir. Kristján konungur vor, níundi, kom í heimsókn. Myndir í vikublaðinu Illustrated London News eru líklega með bestu heimildum sem til eru um þessa heimsókn.
Í september árið 1874 birti blaðið röð lítilla fréttapistla um það sem gerðist á Íslandi við konungskomuna. Ekki er ég þó viss um að stálstungan frá dansiballinu hér fyrir ofan gefi rétta mynd af því sem gerðist. Þetta var hættan við stálstungur. Þær áttu til að ýkja. Stóri salurinn á líklega að vera salur Lærða Skólans.
Stúlkurnar í skautbúningunum voru sem dáleiddar af dönsku riddurunum.
Önnur mynd, sem birtist fyrr í Illustrated London News, sýnir Stjána númer 9 skoða stærðar stein þar sem í var höggvið fangamark hans hátignar. Þessi steinn er enn til, en þó nokkuð veðraður, við Geysi í Haukadal, eins tveir aðrir steinar frá konungskomunum 1907 og 1921.
Ég var við Geysi um daginn, en náði ekki mynd af steinunum. Ég fékk því þessa að láni hjá meistaraljósmyndaranum Ingva Stígssyni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2007 | 21:59
Eyðilegging Jerúsalems - mun aldrei takast
Ég á gamla stálstungu sem ég held mjög mikið upp á. Hún sýnir gyðinga í Istanbuli samkunduhúsinu í Jerúsalem árið 1825. Istanbuli var reist árið 1764 á gyðingum frá Tyrklandi. En fljótlega var húsið einnig notuð af gyðingum frá Kúrdistan, Norður og Vestur-Afríku og meira að segja frá Hollandi.
Eitt af því sem einkennt hefur hersetulið í Jerúsalem, hefur verið skipulögð eyðilegging þeirra á samkunduhúsum og musterum gyðinga. Allir borginni óviðkomandi reyndu að útrýma menningu þeirra og tilvist. Musterið í Jerúsalem var fyrst eyðilagt af Babýloníumönnum árið 586 f. Kr. Annað musterið var eyðilagt af Rómverjum árið 70 e. Kr. Á musterishæð hafa síðan á 7. öld e. Kr. staðið helgar byggingar múslima, sem gyðingar mega ekki nálgast.
Árið 1948 brenndu og eyðilögðu arabar fjögur forn samkunduhús sefardískra gyðinga í Jerúsalem.
Hurva samkunduhús Askenasa var sprengt í loft upp árið 1948.
Svona leit Hurva út áður en það gerðist. Nú er verið að endurreisa samkunduhúsið í sinni upphaflegu mynd eftir gömlum teikningum og ljósmyndum. Hurva var hér áður aðalguðshús fræga rabbína frá Litháen. Það voru nefnilega líka gyðingar í Palestínu. Þeir voru þar alla tíð og líka á undan þeim fjölleita og -lynda hópi sem kalla sig Palestínumenn.
Árið 1967 níddust Jórdanar á Yochanan ben Zakai sýnagógunni, sem er frá 17. öld. Þar voru máski að verki sömu jórdönsku hermennirnir sem myrtu þúsundir Palestínumanna hinn skæða svarta septembermánuð árið 1970 og mánuðina á eftir. Heilög bygging er ekki eins mikils virði og mannslíf, en hvorki líf gyðinga né guðshús hafa verið hátt skrifuð meðal araba. Það sýnir sagan okkur. Síðast í fyrra, er Ísraelsmenn yfirgáfu Gaza, réðust Palestínumenn á samkunduhús þeirra, báru að þeim eld og eyðilögðu. Slíkt virðingarleysi skapar ekki frið.
Nú þegar Fatah segist vera horfin frá stuðningi við vopnaða baráttu, eru þeir komnir miklu lengra en leikhópurinn í stuðningsfélagi Palestínumanna á Íslandi. Ef treysta má Fatah, er orðið meira sennilegt að eyðilegging Jerúsalems muni ekki takast á næstunni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2007 | 16:05
Mein Crampf
Þýðingar á krampaköstum Hitlers hafa verið seldar grimmt í heimi múslima til fjölda ára. Bókin hefur til að mynda selst vel í Tyrklandi og eins er hún metsölubók í Gaza.
Það er svo skrítið, að ef mönnum er gert erfitt fyrir að fá eitthvað, sækjast þeir enn meira í það. Það sama gildir um gallið í Mein Kampf. En þegar fræðimenn vilja fara að gefa verkið út með neðanmálsskýringum á óþverra, sem heilvita fólk getur séð í gegnum, þá er einnig verið að mikla það sem lítið og ómerkilegt er. Ég tek undir það sem Wofgang Benz, prófessor í Berlín, hefur sagt: Best er að láta nýnasista og aðra um útgáfur á ruglinu. Fólk, sem hefur áhuga á þessum óskapnaði, mun frekar kaupa bókina á 4 evrur hjá nýnasistum í stað þess að kaupa hana með skýringum eftir fræðimenn á 100 evrur.
Fólk sem kaupir Mein Kampf eru oftast fasistar og fræðimenn og gagnrýnin hugsun eru einatt fyrstu fórnarlömb þess konar lýðs.
Verður Mein Kampf endurútgefin? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.8.2007 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.7.2007 | 14:41
Íslensk afbökun
Ég er nýkominn úr stuttu sumarleyfi til ættjarðarinnar, þar sem ég fór aðeins einu sinni í tölvu til að pota inn bloggi um diska úr Flatey, sem ég átti í handraðanum.
Það var heldur ekki að spyrja af því í þetta sinn, allt á Íslandi er dýrara en hér í Danaveldi, nema að vera skyldi helsta kjarnfóður Íslendinga, sælgætið og ropvatn.
Ekki kemst maður fram hjá hinu daglega brauði á Íslandi, sem hefur farið mjög mikið aftur á síðustu 11 árum. Á þeim tíma hef ég haft tök á því að rannsaka reglulega afturför íslenskrar brauðgerðar. Hér ræði ég ekki um brauð í plasti í stórmörkuðum, enda hafa þau lítið breyst og eru búin til eftir fastri formúlu.
Hvernig er þessari hnignun brauðsins svo háttað, gætu menn spurt. Jú, sjáið til, brauðin og t.d. rúnstykkin á Íslandi hafa stækkað, en ekki þyngst. Það virðist bakað eftir mottóinu: Því stærra, því betra. En í raun er hefur magn hveitis og kjarna ekkert aukist í takt við stærðina. Brauðið er bara loftmeira og er oft eins og hann Svampur Sveinsson í öðru veldi.
Ég fór í ýmis bakarí í von um að finna dönsk rúnstykki eða ítölsk panini, sem bökuð voru á réttan hátt. En allir bakarar virtust vera að baka einhver svampkennd bakkelsi, stór og hlussuleg, full af loftholum. Stundum eru þau kölluð gróf vegna þess að hellt hefur verið handfylli af fuglafræjum ofan á hvelfinguna yfir holrúminu undir. Svo bítur maður í og tannsettið hrinur niður á neðstu hæð eins og tvíburaturnar í New York. Já, það hefur vissulega verið unnið hryðjuverk á brauðly(i)stinní á Íslandi.
Snúðarnir og sætabrauð eru, eins og Íslendingar sjálfir, orðnir stærri en áður var. Þeir kosta auðvitað meira en maður borgar fyrst og fremst fyrir loft og kannski sykurglassúr. Einu sinni bjó Björnsbakarí til afburðargóð Mohn-stykki, alveg eins og þau eru best í Þýskalandi. Nú eru þetta loftkenndar lengjur, sem skornar eru í stykki, og innihalda allt of fá birkisfræ, sem er það sem einkenna á Mohn-stykki. Birkisfræ eru fræ valmúans, sem á þýsku heitir Mohn en ekki Moon eins ég sá í einu bakaríinu í Reykjavík.
Litlu stinnu og góðu rúnstykkin sem ég keypti í Björnsbakaríi, síðast þegar ég bjó á Íslandi, og sem við nutum á sunnudagsmorgnum á svölum þakíbúðarinnar okkar á Neshaganum, eru orðin af stórum hlussum með lofthvelfingum á stærð við Péturskirkjuna í Róm.
Ég fór einnig í bakarí og konditorí, sem kenna sig við danskan bakstur. Ekkert var þar að finna sem minnt gat á góða danska brauðgerð. Hér verð ég að gæta sanngirni. Dönsk brauðgerð getur einnig verið misjöfn, en menn geta þó fundið bakarí, sem ekki selja loft og volume, eins og íslenskir bakarar.
Öll íslensk bakarí (í Reykjavík) virðast baka eins, utan einn bakari, sem óþarfi er að nefna, sem víst kallar sig brauðhönnuð eða eitthvað svoleiðis, og sem selur sín brauð sem hönnun og heilsubrauð á uppsprengdu verði. Þau eru nógu helvíti góð, en manni er illt í buddunni eftir að hafa keypt þau. Drengurinn sá rekur ekki alþýðubrauðgerð, en er að gera góða hluti.
Eitt sinn kom ég til Ísafjarðar fyrir svona 11 árum og fór þar í afburðabakarí, sem hafði varðveitt allar bestu dönsku hefðirnar. Eða voru þær kannski þýskar? Það skiptir ekki máli, en þar voru í gangi uppskriftir sem Íslenskir bakarar mættu stæla í stað þess að vera baka loftsnúða á stærð við stærstu kúadellur eða náhvít "ítölsk" stykki, sem líkjast hvíta nábrauðinu sem Bretar nörtuðu í aldir, áður en þeir uppgötvuðu að hægt var að baka annars konar brauð.
Ég held að ég sé búinn að greina meinið fyrir afbökuninni í brauðgeiranum á Íslandi. Ég held að vandinn sé, að allt sé að blása upp og út á Íslandi. Þar er andleg verðbólga. Rúnstykkin verða að vera stór í stíl við bílana sem stækka ört. Vegirnir verða að stækka í takt við bílana, sem ekki lengur passa á vegina. Bigger is better er greinilega orðið Faðirvor á Íslandi. Íslendingar eru að stækka og allt stækkar með og hækkar, sérstaklega verðið.
Munið líka að maðurinn lifir þó ekki af einu saman brauði .... heldur ekki sá sem rausar hér.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.7.2007 | 18:00
Brot úr sögu Flateyjar
Þegar ég sá viðtalið við Ragnar Edvardsson fornleifafræðing nýverið, var mér hugsað til annarrar fornleifarannsóknar, sem vegna fjárskorts var aldrei kláruð. Það var rannsókn á flaki hollenska skipsins Melkmeyt, Mjaltastúlkunnar, sem sökk við Flatey á Breiðafirði árið 1659.
Skipið var hlaðið varningi, líklegast vöru sem skipverjar seldu vel álnuðum Íslendingum til að drýgja hlut sinn. Skip, eins og það sem lagðist að við Viðey, var líklega á ferð til ýmissa hafna Hollendinga á norðurslóðum til að sækja lýsi og fisk. Mesta magn leirkera, sem fundist hafa í einni og sömu fornleifarannsókninni á Íslandi, fannst við köfun dr. Bjarna F. Einarssonar og félaga niður á flakið árið 1993 (sjá skýrslu Bjarna í Árbók hins íslenska Fornaleifafélags árið 1993), en ég var að nafninu til stjórnandi rannsóknarinnar, enda landkrabbi.
Einhvern veginn svona leit Melkmeyt út áður en hún sökk
Leirkerabrotin í Melkmeyt eru miklar gersemar. Flest leirkerabrotin úr Melkmeyt eru hollensk að uppruna. Melkmeyt er í raun "Gullskipið". Öll leit af Het Wapen van Amsterdam var út í hött.
Ég fór árið 1995 gagngert til Hollands með brot af nokkrum leirmunum, sem mig grunaði að gætu verið lengra að komin en úr Harlem og Delft eða nærliggjandi plássum í Hollandi, þaðan sem meginþorri leirtausins er ættaður. Í Amsturdammi gekk þar á fund sérfræðings, sem heitir Jan M. Baarts. Jan samþykkti að skoða leirkerabrotin og myndir af öðrum brotum sem honum yrðu send. Hann var á sömu skoðun og ég. Skipverjarnir á Melkmeyt ætluðu greinilega að selja Íslendingum gæðadiska frá Ítalíu. En septembernótt árið 1659 gerði mikinn storm á Breiðafirði og eldur braust út um borð á Melkmeyt, sem kom í veg fyrir frekari sölumennsku skipverja.
Brotið hér að neðan er frá Norður-Ítalíu. Áður en ítölsku diskabrotin fundust í Flatey, höfðu sérfræðingar í Hollandi aldursgreint þessa tegund leirtaus til 1650-1660. Aldur brotanna í flaki Melkmeyts passar eins og flís í rass á þeirri aldursgreiningu og gerðafræði annarra forngripa í flakinu.
Brot af ítalskri skál sem fannst í flaki Melkmeyt við Flatey
Samkvæmt Kjósarannáll tókst meðal annars að bjarga hrísgrjónum úr flakinu og hafði áhöfnin þau til matar um veturinn, en Íslendingar gaukuðu að þeim öðru matarkyns og hafa vonandi fengið hrísgrjónagraut hjá Hollendingum og smá jenever sem þakkir fyrir hjálpina við skipbrotsmennina.
Gaman væri að heyra álit manna á því hvort ekki sé kominn tími til að klára rannsóknina í Viðey.
Þetta væri verkefni sem íslensk stórfyrirtæki gætu með góðu móti styrkt. Heyri ég gjarnan frá einu þeirra.
Býflugan vinnusama. Hana er að finna á nokkrum brotanna úr Melkmeyt
Diskur með skreyti þar sem líkt er eftir kínversku postulíni
© dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur
17.7.2007 | 05:07
Dies caniculares
Sannkallaðir hundadagar.
Hér færi ég sönnur fyrir því, að hundaspark er gömul og góð norsk íþrótt, sem snemma þróaðist í fótbolta og múgæsingu. Sparkaðir hundar leituðu einatt til fjalla og gerðust vitanlega styggir.
Talið er víst að íþróttin hafi borist frá Afríku með hvíta manninum þegar hann fór til Evrópu. En sumir vísindamenn harðneita þessu og telja víst að fólk í Afríku hafi aðeins stundað hundakast.
Hundakast í Afríku
Franskur ferðamaður sendi mér þessa mynd af hundi í kirkju á Akureyri. Hann uppgötvaði fyrst hundinn þegar hann setti myndirnar inn á tölvu sína heima í Avignon.
Hundurinn Lúkas á lífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.7.2007 | 19:02
Merk rannsókn Ragnars Edvardssonar
Fornleifarannsóknir Ragnars Edvardssonar á Ströndum eru með þeim merkari á Íslandi á síðari árum. Ég hef lesið rannsóknarskýrslu Ragnar frá síðastliðnu ári og er viss um að ef rannsóknin fær nægilegt fé á næstu árum, komi út úr henni mikilvæg viðbót við Íslandssöguna og iðnaðarsögu Íslendinga. Ég hlakka til að sjá hvað Ragnar segir í Mogganum á morgun.
Hér að ofan er lágmynd af hvalskurði á 17. aldar skáp sem er varðveittur á safninu í Horn á Fríslandi (Hollandi). Þannig hefur hvalaskurður og bræðsla líklega farið fram á Strákatanga og víðar á Íslandi. Hér fyrir neðan er mynd frá "stóriðjubræðslu" á Jan Mayen, en bræðslan á Strákatanga var nú líklegast smærri í sniðum.
Njótið myndarinnar til fullnustu með því að klikka tvisvar á hana
Stóriðja sautjándu aldar á Ströndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2007 | 17:05
Verðlaunin í myndagetraun PostDocs
Verðlaunin við fyrstu og kannski síðustu myndagetraun PostDocs er fornt verkalýðsblað. Eins konar DV 19. aldar. Það er eintak af The The Penny Magazine, frá 7. desember 1833. Blað þetta, sem út kom á hverjum laugardegi frá 1832 til 1835 og var ætlað að uppfræða verkalýðinn á Bretlandseyjum. Félagaskapur sem kallaði sig The Society for the Diffusion of Useful Knowlege sá um útgáfuna. Guðmundur Magnússon var ekki ritstjóri þá. Blaðið kom upphaflega út í 200.000 eintökum og kostaði aðeins eitt penny, sem var viðráðanlegt fyrir meðalverkamenn. En verkalýðnum þótti það og þurrt og spekingslegt, og keyptu frekar öl, svo það dó drottni sínum eftir þrjú ár. Verkalýðurinn á Bretlandseyjum hefur enn ekki borið barr sitt eftir það.
Þann 7. desember 1833 gátu menn lesið um Geysi á forsíðunni og Vatíkanið á baksíðu. Leiðinlegt að Jón Valur Jensson skyldi ekki hafa tekið þátt í spurningaleiknum.
Vinningshafinn getur nú sent mér heimilisfang sitt á emlinn minn og mun hann fá blaðið með póstinum einhvern næstu daga.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2007 | 16:31
Hér kemur rétt svar
sigið músinni á myndina til að njóta hennar til fullnustu
Það var enginn með nógu mörg rétt svör til að kalla sig Mastermind í myndagetraun PostDocs. Ég verð greinilega að hafa þetta auðveldara næst, ef það verður þá eitthvað næst. En verðlaun verða samt sem áður veitt, fyrir hugmyndaríkasta svarið. Sjá neðar.
Myndin var auðvitað af Íslendingum og er að finna í bók eftir síra John Trusler, í 1. bindi af The Habitable World Descirbed; Or the Present State of the People in all Parts of the Globe, from North to South: Showing The Situation, Extent, Climate, Productions, Animals, &c. of the different Kingdoms and States; Including all the new Discoveries: etc. & etc. Part I., London 1788.
Séra og dr. John Trusler var mikill fræðari. Þessi mynd af honum er úr bók hans The Progress of Man and Society, London (1791).
Rétt svör í getrauninni voru því :
Íslendingar; (Árnesingar) (hjón)
Árið 1788 (18. öld).
Fólkið er að tala um Heklu (það bendir á Heklu)
Hekla hafði nýverið gosið, það er að segja árið 1766. Telja fróðir menn að í því gosi hafi verið mesta hraunrennsli úr Heklu á sögulegum tíma. Koparstungan sýnir því hugsanlega fyrsta gosmökkinn, sem steig upp frá fjallinu í því gosi.
Myndin er eftir listamann, sem starfaði í London fyrir og eftir aldamótin 1800, og sem hét J. Thornthwaite (f. 1740). Sá hefur væntanlega aldrei til Íslands komið, frekar en Trusler, og ristir hann einnig í koparinn þessi afsakandi orð: "Published as the Act directs, by the Author, March 1, 1788".Hann teiknaði aðra mynd af Íslendingum í bókina, sem sýnir fólk við útieldun við Geysi í Haukadal. Og ég held bara að Hekla sé þar líka í bakgrunninum. Útieldun við hverina í Haukadal var víst afar vinsæl iðja, áður en Íslendingar uppgötvuðu Weber grillið og gerðust aftur fullgildir hirðingjar.
Vegna þess að það er svo gaman að hafa sigurvegara, og vegna þess að þið svöruðu skemmtilega, verða hér veitt verðlaun fyrir hugmyndaríkasta svarið. Þau hljóta: Loftur Altice Þorsteinsson.
Meira um verðlaunin í næstu færslu.
Menning og listir | Breytt 3.2.2012 kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.7.2007 | 11:10
Getraun: Nú fer hver að verða síðastur
Snati er einnig með á myndinni. Gæti hann gefið svarið?
Aðeins klukkustund eftir. Sjáið spurninguna hér fyrir neðan. Verðlaun í boði!
Bækur
Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs
-
Nýtt blogg um fornleifafræði
FORNLEIFUR -
Þrælasalar í Norðurhöfum
Grein í Lesbók Mbl. 1999 -
: Ritaskrá 1972-2013 -
Fyrri færsla
Jakki Kiljans Laxness -
Bein Páls Biskups
Kveðskapur -
: Flóttamaðurinn Alfred Kempner -
Pepsi var á Ströndum
Gosdrykkjasaga -
Mótmælum Durban II
Meira -
Ved Helvedes Port
Grein mín í SKALK. Nr.4,1994. -
: Gyðingar á Grænlandi
Fyrri færsla og tenging við grein eftir mig á dönsku um gyðinga á Grænlandi -
Flogið hátt
Grein mín um fyrsta flug flugbels á Íslandi -
Fyrri færsla
Líkþráir Íslendingar -
: Lesið hér (ISBN: 978-965-218-066-7)
Behind the Humanitarian Mask; The Nordic Countries, Israel and the Jews. Edited by Manfred Gerstenfeld. -
Fyrri færsla
Vinir útlendinganna -
Fyrri færsla
Nakinn sannleikur -
Ungr var ek forðum
Færsla um óeirðir og læti í æsku minni -
Fyrri færsla
Þegar Gúttó varð samkunduhús gyðinga -
Fyrri færsla
Vive l'(Gr)islande -
Fyrri Færsla
Nifalt húrra -
Íslenskar frúr í Andvörpum
Um ferðir útrásar-Íslendinga á 16. öld. Lesbók Morgunblaðsins 28.águst 1999. -
Fyrri færsla
Berlínarboogie Laxness -
Fyrri færsla
Pabbi Þórs var myrtur í Auschwitz -
Falskir Íslendingar
Grein um þjóðarstolt -
En dansk krigsforbryder
Grein í Weekendavisen um versta stríðsglæpa- mann Dana, sem dönsk yfirvöld vildu helst gleyma. -
Anti-Semitism in Iceland. Is that possible? -
Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004
Grein á ensku um gyðinga á Íslandi -
Ich weiss, was ich zu tun habe
Grein mín um Georg F. Duckwitz, nasistann sem á að hafa verið potturinn og pannan við björgun gyðinga í Danmörku. Í greininni sem birtist í tímaritinu Rambam 15:2006 er gerð grein fyrir fjölmörgu sem danskir sagnfræðingar hafa gleymt að rannsaka. Hlutverk Duckwitz verður nú að endurskoða. -
Grein
The King and the Star í: Denmark and the Holocaust (2003) (ISBN: ISBN 87-989305-1-6) -
: Rescue, Expulsion, and Collaboration: Denmark's Difficulties with its World War II Past
Jewish Political Studies Review 18:3-4 (Fall 2006; Tímarit sem ég hef skrifað töluvert í -
: 20 Begivenheder der skabte Danmark (ISBN: 87-02-0516-7)
Ég er meðhöfundur að einum af köflum bókarinnar. -
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson: Medaljens Bagside - Jødiske flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945 (ISBN: 87-91393-60-4 ) Forlaget Vandkunsten 2005. Bók mín um meðferð danskra yfirvalda á flóttafólki á 4. og 5. áratugi 20. aldar.
Meira
Nýjustu færslur
- Trumpur Eyjajarl
- Á mér stendur ..... Bjarni Ben
- Minnislaus síðan í síðustu ESB-kosningu
- Gamlir dónar sem fokka sér - Meet the Fockers II
- Icelandic Police Bared
- Niðurstaðan: KiSS or Bæjarins beztu
- Zelenskij fór í ranga flugvél - verður í Færeyjum næstu dagana
- Sjúklega svæsinn gyðingahatari er vinsæll á Moggablogginu
- Valdemar á svölunum er látinn
- Svæsnir fordómar eru ekki hluti af málfrelsi og tjáningu
- Ástráður eins og lús á feldi
- Utanríkisráðherra eyðir um efni fram í útlöndum
- Ódýrasta Laxness-bókin er enn til
- Geimöldin hafin á Íslandi
- Mannvinurinn Johnny Gun
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 231
- Frá upphafi: 1353051
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 175
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Júlí 2024
- Apríl 2024
- Febrúar 2024
- Desember 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Ágúst 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Júlí 2021
- Maí 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- Ágúst 2020
- Maí 2020
- Nóvember 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Janúar 2017
- Nóvember 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Nóvember 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007