Leita í fréttum mbl.is

Spurning varðandi Ruth Rubin

 
Ruth Rubin

Nýlega, þegar fréttir bárust af hryllilegu morði á 10 ára barni í Svíþjóð, urðu menn forviða og harmi slegnir. Allir, og sérstaklega allir foreldrar, fyllast harmi og hryllingi við slíkar fréttir frá nágrannalandi okkar, þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur alið manninn og hlotið menntun sína og gildismat. Ekki vantaði heldur dóm íslenskra bloggverja yfir manninum sem framdi ódæðið. Hann verður örugglega dæmdur eftir þeim lögum sem gilda í Svíþjóð.

Annað var upp á teningnum fyrir fyrir u.þ.b. 16 árum, þegar farið var fram á rannsókn á máli meints stríðsglæpamanns á Íslandi sem hafði gerst íslenskur ríkisborgari eftir að hann strandaði hér á leið til Venezuela. Gömlum vitnisburði og skýrslum var til að byrja með hafnað sem KGB áróðri, t.d. af Morgunblaðinu, sem dældi út rógi um Simon Wiesenthal stofnunina. Lögfróðir menn, sem leitað var til, töluðu gegn betri vitund og rannsókn málsins var dregin á langinn. Maðurinn, Eðvald Hinriksson, var t.d. ásakaður um aðild að morði á ungri stúlku, Ruth Rubin, sem var í haldi lögreglusveitar þess sem hann var meðlimur í.  Evald Mikson hét hann, þegar sveit sú sem hann var í hóf gyðingamorð. Sveitin byrjaði á morðunum áður en Þjóðverjar voru almennilega búnir að ná yfirráðum í Eistlandi.

Mikson dó drottni sínum rétt eftir að Íslensk yfirvöld tóku við sér og ákváðu að líta á ásakanirnar á hendur honum.  Þrátt fyrir að honum hafi verið hlíft við rannsóknum og réttarhöldum, skilgreina eistnesk stjórnvöld hann nú sem stríðsglæpamann.

Forseti vor og utanríkisráðherra höfðu, þegar mál hins meinta stríðsglæpamanns var í gangi, ýmislegt til málanna að leggja.  Hér  og hér getið þið lesið hvernig málið leit út frá þeirra sjónarhorni. Leiðtogar Hisbollah áttu alla samúð Ólafs, eins og það kæmi eitthvað máli eistnesks stríðsglæpamanns við, og Ingibjörg víðförla var á því að gyðingar ættu engan einkarétt á helförinni eða þjáningu. Mun hún endurtaka það í Öryggisráði SÞ?

Algjör þögn virðist nú vera um mál stríðsglæpamannsins á Íslandi. Blaðamaður í fremstu röð, "sem þorði meðan aðrir þögðu" var næstum því búinn að missa vinnunna vegna þess að hann skrifaði um málið. Hann ætlaði að skrifa bók um efnið, en stendur nú í staðinn í því að skýra gjörðir yfirvalda í Kópavogi. Ég bíð eftir bókinni.

Af hverju fyllist íslenska þjóðin af hryllingi yfir barnamorði í Svíþjóð, þegar stór hluti hennar vill verja mann sem ásakaður var fyrir að hafa nauðgað stúlku og myrt?

Ég geri mér grein fyrir því að fjarlægðin í tíma og rúmi getur gert menn miskunnsamari gagnvart voðaverkum og sekt? Það, að hinn meinti stríðsglæpamaður var orðinn Íslendingur og átti syni sem voru duglegir íþróttamenn á heimsmælikvarða, hafði líka mikið að segja í sambandi við álit Íslendinga. Hann var "einn af okkur". Svo þekkist viðkvæðið: "Aðrir skulu ekki koma hér og segja okkur fyrir verkum". Það heyrðist nýlega þegar Íslendingur fékk sjö ár í steininum í Færeyjum fyrir aðild að kókaínsmygli. Hann hefði, samkvæmt lögfróðum Íslendingum eins og Brynjari Níelssyni og Sigurði Líndal, aðeins fengið innan við ár á Íslandi. 

Það læðist að mér sá grunur að áhugi Íslendinga, og margra annarra, á fórnarlömbum og órétti stýrist t.d. af því hvaða þjóðflokkur hefur orðið fyrir órétti. Margir Íslendingar gráta frekar sænska stúlku en gyðingastúlku í Tallinn. Getur þetta verið rétt athugað hjá mér?

 

1929_Rubin_family
Ruth Rubin og fjölskylda hennar. Maðurinn lengst til hægri er Haim Arlosoroff, síonistaleiðtoginn sem myrtur var á hrottalegan hátt í Tel Aviv árið 1933. Kona hans, Sima, var föðursystir Ruth Rubin. Arlosoroff hafði á 2. áratug aldarinnar stundað nám í Berlín, þar sem hann var unnusti Mögdu Behrend, sem síðar fékk eftirnafnið Göbbels - já maðurinn hennar var einmitt Göbbels.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri dr. Vilhjálmur Örn.  Ég tek undir þennan pistil þinn í heild sinni. Það var ömurlegt að mál Evalds Mikson skyldi ekki ná að fara í rannsókn á sínum tíma. Hafi hann haft rétt fyrir sér um sakleysi sitt þá hefði það verið leitt í ljós við rannsókn. hitt er annað að gögn sem lögð voru fram bentu nú eindregið til sektar Evalds í ýmsum voðaverkum studd eftirlifandi sjónarvottum að auki.

Já við tókum sama pólinn í hæðina í máli Arons Pálma. Vorum stórhneyksluð á grimmu réttarkerfi Texas að fangelsa hann fyrir barnaníð og ekki hvað síst í þetta langan tíma. Við bara urðum að flytja hann heim í Paradísina okkar. Hér heima er síðan meint nauðgun á stúlku á salerni hótels. Þegar í ljós kemur að meintur nauðgari er ekki íslenskur þá er blóðþorstinn kominn upp í okkur og dómstóll götunnar heimtar nánast réttarmorð á meintum geranda, löngu áður en málið var rannsakað og dæmt. Þessi var ekki svo lánsamur að sækja um íslenskan ríkisborgararétt og þjálfa körfuboltamenn og geta af sér góða íþróttamenn.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.4.2008 kl. 12:24

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Einar og Predikari, við skulum muna að synir Eðvalds koma þessu máli ekkert við. Ég trúi ekki á erfðasyndina.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.4.2008 kl. 14:12

3 Smámynd: Snorri Bergz

Merkilegt þetta með Arlosoroff og tilvonandi frú Göbbels. En Villi,  hvað eiga Chaim Arlosoroff og Ísland sameiginlegt?

Snorri Bergz, 26.4.2008 kl. 15:16

4 identicon

Takk fyrir þennan pistil, Vilhjálmur Örn. Þú ert í fararbroddi þeirra fáu Íslendinga, sem hafa samúð með gyðingum og Ísrael og láta ekki leiðast af "inherent" Antisemitismus".

 Kveðja, Haukur

Haukur Kristinson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 15:59

5 identicon

mér finnst þetta algjörlega rétt athugað hjá þér.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 16:52

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Snorri Bergsson, hvað á Ísland sameiginlegt med Chaim Arlosorof? Fræddu okkur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.4.2008 kl. 17:42

7 Smámynd: Snorri Bergz

Í Jerúsalem eru götur nefndar eftir bæði Íslandi (Rechov Iceland) og Chaim "Arlazorov" (mismunandi spelling".

Í húsi nr. 21 við Arlazorov götu bjó Golda Meir. Í næstu götu er embættisbústaður forsætisráðherra, hinu megin rétt hjá er embættisbústaður forsetans.

Richard Nixon kom víst í kaffi til frú Meir í litla eldhúsið á 2. hæð við 21 Arlazorov götu. Fallegasta íbúð annars.

Ég þarf varla að kasta fram þeirri spurningu, hvaða Íslendingur hefur búið á 2. hæð í Arlazorov í gömlu íbúðinni hennar Goldu?

Snorri Bergz, 26.4.2008 kl. 19:26

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Mig grunar að það hafi verið maður nokkur sem þekktur er sem Sneott, (formerly known as Snorri). Golda hefur svo setið fyrir handan og verið hin ánægasta með að hafa yngissvein frá Íslandi í jarðnesku híbýli sínu. Þú hefðir örugglega líka fengið kryddköku með smjéri hefðir þú mætt í eldhúsið með Nixon.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.4.2008 kl. 20:27

9 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég þakka allar kveðjurnar og góð orð. Lifið heilir (heilar).

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 26.4.2008 kl. 20:29

10 identicon

Komdu sæll, Vilhjálmur Örn, og gleðilegt sumar. Raunar sagði ég upp vinnu minni á Stöð 2 á sínum tíma vegna þess að þáverandi fréttastjóri vildi að ég steinhætti öllum fréttaflutningi um Mikson-málið. Hann hafði áður látið klippa úr fréttum sem ég sendi að utan og „kælt“ aðrar ofan í skúffu þar til aðrir fjölmiðlar hér á landi urðu á undan að flytja þær. - Það var forvitnilegt að sjá ljósmynd af Ruth litlu. Ég gleymi ekki þegar ég skoðaði frumgögnin um handtöku hennar og yfirheyrslu í þjóðskjalasafninu í Tallinn og barnslega undirskrift hennar á skjölunum sem áttu að gefa glæpsamlegu athæfi einhvers konar lögformlegan blæ. Hún var auðvitað drepin. Mig minnir að hún hafi verið 14 ára.

Þór Jónsson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 21:26

11 Smámynd: Birgirsm

Sæll Vilhjálmur

Ósköp er að lesa þetta, ertu að reyna að segja, eða ýja að því að Gyðingahatur sé landlægt á Íslandi,  þú segir eftirfarandi:

Það læðist að mér sá grunur að áhugi Íslendinga, og margra annarra, á fórnarlömbum og órétti stýrist t.d. af því hvaða þjóðflokkur hefur orðið fyrir órétti. Margir Íslendingar gráta frekar sænska stúlku en gyðingastúlku í Tallinn. Getur þetta verið rétt athugað hjá mér?

Hvað er að hrjá þig að vera að bera saman þessi tvö mál ,  sem eiga ekkert sameiginlegt nema það eitt að vera "hræðilegur verknaður" hvort fyrir sig. 

Mér finnst mjög nauðsynlegt að vitneskjan um helförina lifi um ókommna tíð, komandi kynslóðum til varnaðar en vafasamt finnst mér þegar menn grafa sífellt ofaní svörðinn þannig að sár sem hafa eða eru við það að gróa,  opnast að nýju.

Það er kannski tilgangurinn að ekkert, og þá meina ég ekkert glatist, kulni út eða gleymist.   

Birgirsm, 26.4.2008 kl. 21:59

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Birgirsm, ég var bara að spyrja spurningar. Tvær stúlkur voru myrtar á mismunandi tíma af mismunandi mönnum. Ég geri mér ljóst að þessir tveir menn  (eða fleiri menn við morðið á Ruth Rubin) eru mismunandi persónur og stúlkurnar líka  - og viðbrögð sömu þjóðarinnar, þ.e. Íslendinga, voru líka mismunandi við fréttum af þessum morðum. Reyndar var mjög erfitt að segja frá sögu Ruth Rubin fyrir 16 árum.

Birgirsm, sjáðu hvað Þór Jónsson skrifar hér að ofan. Mér sýnist að fram hafi farið riskoðun í máli Miksons.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.4.2008 kl. 05:28

13 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Þór og velkominn í heimsókn, það er gott að heyra í þér og líka gott að þetta sem þú skrifar hér komi hálfopinberlega fram.

Þetta er rétt með aldurinn á Ruth, Ruth fæddist 1927 og myndin hér að ofan er tekin um 1930. Ég man að þú greindir mér frá erfiðleikum þínum á Stöð 2. Málið var líka fryst á öðrum fjölmiðlum. Eistneskur sagnfræðingur, sem ég talaði við fyrir fáeinum árum, tjáði mér að frysting íslenskra yfirvalda hefði átt sér stað í nánu sambandi við þau eistnesku, þó fyrst og fremst að frumkvæði íslenska dómsmálráðuneytisins.

Ég vona að þú getir skrifað bókina um Mikson málið, og að Íslendingar leggi hana ekki á ís, vilji gleyma og líta fram á veginn í stað þess að staldra við og skoða mistök sín og annarra.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.4.2008 kl. 05:49

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Flott færsla. Auðvitað var lykilatriðið að hann var orðinn "einn af okkur". Það er alltaf aðalatriðið hjá Íslendingum ekki samúð með fórnarlömbum. Og Mogginn djöflaðist alveg gegn fulltrúa Wiesenthalstofnunarinnar. Honum var skítsama um einhverja stúlku sem dó fyrir löngu síðan. Af því að hún var útlensk og íslensku ríkisborgari var sagður hafa myrt hana. Það mátti ekki einu sinni rannsaka málið á Íslandi. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.4.2008 kl. 21:11

15 identicon

Ég man vel eftir þessu máli og fannst það óhugnanlegt að fólk skildi hafa skilirðislausa samúð með Mikson. Ótrúlegasta fólk fannst það ómannúðlegt af Wisenthal stofnuninni að verið væri að garfa í svona gömlu máli gegn öldruðum manne sem hafði verið fyrirmyndar borgari og eiginlega ómissandi fyrir íþróttahreifinguna. Ég fékk æluna uppí háls þegar gamalmennið grét í sjónvarpinu og fékk restina af þjóðinni á sitt band. Ég held reyndar að ef svona mál kæmi upp í dag yrðu viðbrögðin töluvert ólík, þó gyðingahatur virðist vera landlægt einhverra hluta vegna. 

Björn (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband