Leita í fréttum mbl.is

Á kaþólska kirkjan sök á því að menn eru í Vinstri-Grænum og Vantrú?

 

2004_1001_140228AA

Einn fremsti trúleysingi landsins, sem er framarlega í flokki Vantrúarmanna, Vésteinn Valgarðsson, hefur einnig orðið fyrir barðinu á kaþólskum á Íslandi, eins og ég.  Þessi frekar ungi sósíalisti, sem er af "mjög góðum" íhaldsættum úr Vesturbænum í Reykjavík, greindi þó ekki frá hremmingum sínum í návist kaþólskra fyrr en loksins nú, og mér sýnist að hann kenni jafnvel kaþólskum níðingum um vantrú sína. Alveg öfugt við mig er hann viss um sök fólks áður en hún hefur verið sönnuð, og dæmir kaþólskan prest og illa innrætta þýska konu, sem af einhverjum furðulegum ástæðum fékk að kenna í Landakotsskóla í áraraðir, um barnaníðingshátt. Ég og Vésteinn erum  vissulega um margt sammála, en Vesteinn gengur lengra en ég, sem lýsti þessari þýsku konu árið 2009, því hann er bæði í Vantrú og Vinstri Grænum, og hefur því sjálfkrafa sérleyfi á allan sannleika. Án þess að hafa sönnun, dæmir hann þá dauðu eins og Kristur átti að gera, þegar hann kæmi aftur.  

Ég reyndi að gera athugasemd hjá Vésteini á blogg hans um frásögn hans af meintum perraskap sr. Georgs og Margrétar Müller, og hvað sem ég reyni, þá fjarlægir Vésteinn ávallt athugasemdina frá mér. Hann hefur greinilega höndlað sannleikann og vill ekki heyra það sem honum eldri og gáfaðri menn hafa til málanna að leggja. Hér getið þið lesið athugasemd mína til Vésteins, sem hann vill ekki birta á bloggi sínu:

Sæll Vésteinn Valgarðsson,

ég held ég geti sagt, að ég hafi verið fyrsti maðurinn sem benti opinberlega á þá illu manneskju sem Margrét Müller hafði að geyma. Ég skrifaði um það á blogginu mínu árið 2009: hér og svo aftur þann 17. júní, morguninn sem Fréttatíminn birti frásagnir tveggja nafnlausra manna, sem skv. Pressunni munu vera bræður. Hér getur þú lesið blogg mitt 17. júní: hér

Mér finnst afar merkilegt að lesa frásögn þína, og staðfestir hún að vissu leyti það sem ég upplifði árin 1969 og 1970, löngu áður en þú komst í tæri við skrímslið Müller. Þetta sem þú skrifar um aðdáun hennar á Hitler, man ég í annarri mynd, því hún stærði sig af því að bróðir hennar hefði tekið í höndina á Hitler.

En ég leyfi mér þó ekki að komast að sömu niðurstöðu og þú um Margréti Müller og sérstaklega Sr. Georg, þegar þú gerist dómsstjóri í dómstóli götunnar (sem mér finnst svo einkennandi fyrir ykkur á öfgafyllri vinstri vængnum í þjóðfélaginu). Nafnlausar ásakanir um barnaníð eru ekki sannanir fyrir barnaníði. Að ásakanirnar koma fram svo seint, finnast mér ekki vera nein góð rök fyrir því að líklegt sé að níðið hafi átt sér stað. Ég get aðeins trúað bræðrunum, sem nú áskaka presta um barnaníð, ef þeir koma fram undir nafni.

Mitt minni segir mér, að Margrét Müller hafi verið mikið snobb og sleikjuháttur hennar við heldri borgarabörnin var annálaður. Börn heldri manna og góðra kaþólikka fengu sérmeðferð í Riftúni, t.d. börn Gunnars Eyjólfssonar. Þau voru elítan. Þau börn voru látin í friði og stjórnuðu öðrum börnum á svæðinu með umboði frá Müller. Þeir sem ekki voru kaþólikkar voru í hættu fyrir Müller. En ég man persónulega ekki eftir neinum kynferðislegum tilburðum séra Gogga við okkur drengina. Að mínu mati var hann maður af gamla skólanum, nokkuð strangur en góður við börn, þ.e. ef maður kallaði hann ekki séra Gogga svo hann heyrði.

Ég veit ekki hvernig þið voruð böðuð á þínum tíma í Riftúni, en þegar ég var þarna var farið í bað í baðherbergi í aðalhúsinu, þar sem sr. Georg bjó með nokkrum nunnum. Þeir eldri böðuðu á baðherbergi, en þeir yngri í bölum í sama salnum, sem t.d. var líka notaður fyrir guðsþjónustur og innileiki, en stundum fórum við gangandi til Hveragerðis í sund. Margrét Müller tók þátt í þessari böðun, en þar voru líka nunnur, og man ég ekki eftir því að þær hefðu haft neina óeðlilega tilburði í frammi við okkur drengina, nema að hella of köldu vatni yfir höfuð okkar og láta of marga baða í sama óhreina vatninu. Á þeim tíma sem ég var þarna var ekki búið að koma hitaveitu til Riftúns og vatnið til böðunar kom úr stórum rafhitunarkatli sem alltaf var að bila. Við vorum því ekki alltaf hrein þarna, en vorum drifin í bað daginn áður en foreldrarnir komu í heimsókn.  

MYNDIN hér að ofan:

Myndin efst er af vef Vantrúar, og er af Vésteini Valgarðs og Helga Hóseassyni, sem voru bræður í barningnum á gyðingnum Kristi og í því að skemmta skrattanum. Ekki veit ég til þess að kaþólska kirkjan hafi níðst á Helga heitnum í æsku og átt sök á einkennilegu háttalagi hans, en eitthvað hefur valdið því að Vésteinn klæðir sig eins og pílagrímur og skreytir sig merkjum sem sýna eiga baráttu hans fyrir helga málstaði, eins og t.d. málstað Palestínumanna og hitt og þetta sem vinstri réttlátir telja sig hafa einkarétt og vit á. Vésteinn er einn af fáum Íslendingum sem þegið hefur boð Múslímska bræðralagsins og hefur tekið þátt í ráðstefnu í þess í Egyptalandi. Hann hefur því stutt  hryðjuverkasamtök, og mætti því ætla, samkvæmt ESB-stuðli samheilagra, að hann sé líka eins konar níðingur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held það sé alltaf góð regla að taka mátulega trúanlega ljótar sögur af fólki. Bið þig samt að hugleiða það að fyrir utanaðsjáandi þá anga skrif þín um þetta efni á dálítilli ósamkvæmni.

Þú segist hafa verið sá fyrsti sem dró nafn Margrétar Müller niður í svaðið þar sem það á heima. Það hafir þú gert árið 2009. Þú stærir þig á öðrum stað á því að vera gamall og eftir því vitur. Af því má draga þá ályktun að mjög langt sé síðan þessir atburðir urðu, sem þú segir frá árið 2009. En samt sem áður sérð þú sóma í því að rengja ásakanir um kynferðisbrot vegna þess hve langur tími leið frá brotum til frásagnar.Tími sem að öllum líkindum var ekkert lengri en tíminn sem þú sjálfur tókst þér í að segja frá.

Og þarna er kjarni málsins. Þú kýst að rengja allt nema það sem þú sjálfur varðs vitni að. Og það þrátt fyrir að segja sjálfur að þetta fólk hafi stundað það að mismuna og sýna sitt andlitið hverjum.

Hvers vegna skyldum við trúa þér? Og ef við eigum að trúa þér hvers vegna í ósköpunum eigum við ekki að trúa þeim sem lýsa kynferðisbrotum?

Ragnar Þór Pétursson (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 18:08

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ragnar Þór, vegna þess að þeir sem lýsa (meintum) kynferðisafbrotunum Séra Georgs og  Margréti Müller koma ekki fram undir nafni, eins og t.d. þær konur sem ákærðu Ólaf biskup um nauðganir. Hvað eru þeir hræddir við? Dauðan prest eða páfann í Róm?

Ég sagði frá Margréti Müller fyrstur, að því er ég held, þá hefði verð tilvalið fyrir bræðurna að koma fram þá. En árið 2009 voru svo sem ekki margir sem höfðu áhuga á skrifum mínum, en þegar nafnlausar áakanir um barnaníð koma fram verður allt vitlaust.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.6.2011 kl. 18:56

3 identicon

Ég veit ekki betur en að þessir vesalings menn hafi einmitt komið fram undir nafni og málið hafi farið í feril innan stjórnkerfisins og hjá kirkjunni. Það, að þeir hafi kosið að halda sig utan sviðsljós fjölmiðla er ekki með neinu skynsamlegu móti kalla „nafnleynd“. Enda fer dómur ekki fram á blogginu eða í dévaff – og því einkennilegt að ætlast til að sönnunarfærsla fari þar fram.

Nema hvað, þótt það sé engin sérstök ástæða til að trúa hinu allra versta upp á þetta vesalings fólk – þá er engin ástæða heldur til að rengja það – hvað sem kann að líða upplifunum einstaklinga. Fólk tjáir sig á netinu þessa dagana og kannast ekki við lýsingu þína á illsku kerlingarinnar. Vegna þess að það sá ekki þessa hlið hennar. En, eins og þú bendir sjálfur á, þá var blekkingarleikur og yfirhylming þessu fólki í blóð borið og engin sérstök ástæða til að telja sína sýn á málið útiloka aðrar hliðar. Hvað þá að það sé sérlega smekklegt eða viðeigandi að gefa í skyn að þeir sem bera alvarlegustu ásakanirnar á borð séu ekki að segja satt – þegar maður sjálfur ber sig svipað að og þeir.

Ragnar Þór Pétursson (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 19:12

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ef þetta er allt sem þú skrifaðir á blogg Vésteins verð ég að segja að hann sé full viðkvæmur, ekki síst þegar tekið er tillit til þess sem hann hefði getað fengið yfir sig.

Líklega þykir honum þægilegra þegar athugasemdirnar falla að hans skoðunum.

En þessi árátta fólks að játa sig beittan kynferðisofbeldi í fornöld er að verða eins þreytt og Plönkun og Gillzeneggerfóbían. En fórnarlambavæðing þjóðfélagsins lætur ekki að sér hæða.

Maður fer að verða dálítið utangáttar í umræðunni fyrir að hafa aldrei verið nauðgað

Ragnhildur Kolka, 20.6.2011 kl. 19:40

5 identicon

Sæl Ragnhildur Kolka,

Ég held að þetta sé mest óviðeigandi athugasemd sem ég hef á ævi minni lesið!

Kallaðu mig viðkvæma ef þú vilt en mikið í ósköpunum vona ég að þú eigir aldrei eftir að upplifa þær þjáningar sem fórnarlömb kynferðisofbeldis ganga í gegnum.

Elín Lóa Baldursdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 20:16

6 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ég hef ekki séð þessa athugasemd þína fyrr en hérna og núna.

Vésteinn Valgarðsson, 20.6.2011 kl. 21:01

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég setti athugasemdina tvisvar inn hjá þér, Vésteinn. Ég veit ekki hvað hefur gerst. Tæknin hefur brugðist á einhvern hátt.  Ég sá hana þar í minni tölvu á eftir athugasemd frá einhverri sem kallaði sig Eva, og stuttu síðar, þegar ég athugaði hvort einhver athugasemd væri komin við það sem ég skrifaði , var það sem ég skrifaði farið. Ég vildi að hefði tekið prt sc mynd af þessu. 

En hvað segirðu, við kjarnanum í athugasemd minni? Hvernig getur þú verið viss um sekt Georgs og þeirrar zýsku? Hvaða hæfileikum er maður gæddur til að dæma menn án þess að hafa nokkuð í höndunum.

Nú er greinileg, að margir sem blaða í minningum sínum, muna ekki eftir séra Georg sem illmenni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.6.2011 kl. 21:21

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ragnar Þór, ég biðst afsökunar ef ég hef stuðað þig á einhvern hátt, en ég veit ekki hver A og B eru og þess vegna get ég leyft mér að hafa skoðun mína, þegar ég veit að ákæra þeirra er nafnlaus og ósönnuð. Komi þeir fram, tek ég tillit til hverjir þessir menn eru og veg það við það sem ég vissi um þá sem þeir ásaka. En það er ekki hægt að dæma, í hópæsingu, dáið fólk sem tveir nafnlausir menn bera á mjög alvarlegar sakir.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.6.2011 kl. 21:26

9 identicon

Það væri mjög ólíkt Vésteini að fjarlægja athugasemdir án þess að skýra hversvegna. Blogger er drasl. Ég gafst sjálf upp á að nota blogger fyrir mörgum árum og ég hef oft lent í vandræðum með að setja inn athugasemdir hjá öðrum, m.a. hjá Vésteini í dag, sem gæti verið þessi sem kallar sig Evu, því hún hvarf hvað eftir annað (ég hélt reyndar að ég hefði sett inn netslóð). Hugsanlega skýra rýr gæði Bloggers það að færslan þín hvarf.

Mér finnst annars svolítið merkileg þessi spurning um hvort kaþólska kirkjan eigi 'sök' á vinsældum vg og Vantrúar. Þessi félög eru ekki bönnuð og stunda ekki skipulagða glæpastarfsemi svo vitað sé. Ennfremur á ég dálítið erfitt með að átta mig á því hvað ætterni Vésteins kemur málinu við.

Eva (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 21:33

10 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér, Elín. Ég lærði ung að forðast hættur heimsins eins og flestar aðrar konur. En nú höfum við þurft að hlusta endalaust á legjónir kvenna hysteríast út af því að einhverjir kallar hafi káfað á þeim eins og það séu einhver forréttindi þeirra. Eina manneskjan sem getur hafa verið beitt nauðgun í þessari lotu ásakana er ekki hrópandi á torgum. Henni get ég fundið til með.

Hinar höfðu tækifæri til að kæra óæskilega athygli til lögreglu meðan það skipti máli. Það gerðu þær ekki en kjósa nú að veita fréttaþyrstum fjölmiðlum ómældan aðgang að sér. Það mætti allt eins halda því fram að þær séu að reyna að upplifa aftur og aftur þrill þessa eina augnabliks lífs sín sem þær telja einhvers virði. Sálfræðin veit meira um það.

Og svo getur þetta líka allt snúist um peninga. 

Sama sagan er að endurtaka sig varðandi þetta mál sem Vilhjálmur skrifar hér um. Engar sannanir og þeir sem ásakaðir eru geta ekki varið sig því þeir eru komnir undir græna torfu.  

Ragnhildur Kolka, 20.6.2011 kl. 21:35

11 identicon

Sem best ég viti voru þetta tveir karlmenn sem létu vita en ekki "legjónir" kvenna. Ekki að það skipti máli hvort kynið það er, þetta er ofbeldi hvort sem er. Fyrir utan það að í öðru tilvikinu (sem fram er komið) var aðilinn barn á unga aldri. En þér finnst kannski að þau eigi einnig að læra að „forðast hættur heimsins“ sem í þessu tilviki voru traustvekjandi fólk og trúarleiðtogar sem vinna í skólanum þeirra.

Allt þetta breytir hins vegar ekki að athugasemd þín um að- „Maður fer að verða dálítið utangáttar í umræðunni fyrir að hafa aldrei verið nauðgað“ - er einstaklega ósmekkleg og lýsir mikilli óvirðingu við þá einstaklinga sem hafa þurft að ganga í gegnum slíka erfiðleika.

Elín Lóa Baldursdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 22:14

12 identicon

V, engin viðkvæmni hér – þekki þessa menn ekki neitt. Fannst bara málatilbúnaður þinn þungaður af ósamkvæmni og langaði í mestu vinsemd að benda þér á það.

Miklu meira fer fyrir brjóstið á mér það sem Ragnhildur Kolka hefur fram að færa (ég gef mér að þetta sé alvöru manneskja en ekki nettröll). Þvílíkur og annareins groddahúmor og taktleysi.

Vissulega getur snarrugluð kerling, sem sálgaði sjálfri sér með því að hoppa út um glugga niður á gagnstétt þar sem nemendur hennar voru væntanlegir, ekki varið sig fyrir ásökunum (ef hún er saklaus) – en börnin sem hún níddist á á alla lund gátu heldur ekki varið sig.

Það að hæða þörf fólks til að tjá sig um illa meðferð af hálfu annarra, hvort sem um er að ræða kynferðisbrot eða annað ofbeldi, bendir til ákaflega snautlegs sálarlífs. Það að gefa í skyn að þeir sem slíkt gera séu að sækja í „þrill“ í annars tilgangslitlu lífi er beinlínis mannhatandi viðhorf.

Heldur Ragnhildur að síðuhaldari hafi verið á höttunum eftir þrilli, peningum eða athygli þegar hann rauf þögnina um sadistann, frl Müller? Og lýsti því yfir að af og til blossaði upp í honum hatur til kaþólskra út af illri meðferð sem hann og hin börnin þurftu að þola?

Átti hann bara að þegja og meðtaka þá þöglu strauma sem fröken Ragnhildur sendir þeim fórnarlömbum sem sýna þá sjálfsögðu kurteisi að þjást í hljóði?

Það má vel vera að hinum og þessum þyki betur fara á því að gera eitt og annað öðruvísi en gert er – en á endanum eru það fórnarlömbin sjálf sem þurfa að bera harminn og sársaukann og ég held að kerlingaruglur, eins og frú Raghildur, sem sáralitla reynslu hafa af þessum enda rófs mannlegra tilfinninga, ættu að þegja og reyna að skilja eitthvað í stað þess að amast við þeim leiðum sem fórnarlömbin kjósa til tjáningar og uppgjörs.

Ragnar Þór Pétursson (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 22:50

13 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Pr scr er möguleiki sem maður gleymir allt of oft, Vilhjálmur. Ég efast ekkert um að þú hafir sett þetta inn, en ég kann ekki svör við því hvers vegna það hvarf. En mér finnst kyndugt hvað þú varst fljótur að dæma mig.

Ég er ekki "viss" um aðrar sakir þeirra en þær sem ég varð sjálfur fyrir, og sem betur fer slapp ég betur en margir og virðist m.a. hafa sloppið betur en þú. En ég er ekkert að setja mig í dómarasæti. Ég sagðist bara ekki efast um þessar ásakanir ég sagði það bara vegna þess að ég efast ekki um þær. Það er allt og sumt. Miðað við mína reynslu af innræti Margrétar Müller þá trúi ég því. Þú getur kallað þann "hæfileika" það sem þú vilt. Ég er ekki að fara að hefna mín á þeim, ég trúi bara þeim sem segjast vera fórnarlömb þeirra.

Vésteinn Valgarðsson, 20.6.2011 kl. 22:59

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Veit ekki hvort það er ósmekklegt að segja það, ég er svo sósíópatískur eitthvað...en þessi manneskja er hálf Hitchcockian. Hendir sér úr turni sem hún hafði hýrst í obbann af sinni tíð.

Minnir eiginlega á Frau Blucher í Young Frankenstein eða Frau Diesel í High anxiety Mel Brooks. Hélt að þetta væei bara svona gyðinglegar Ýkjur á Þýsku illmenni, en það er greinilegt að svona herfur hafa verið til. 

Hvað er þetta með zessi zýsku kvendi?

Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2011 kl. 02:49

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Krúttlegur þessi krosslafur með kloflafinn, sem Vésteinn heldur á þarna á myndinni.

Annars flögraði sú spurning að mér hvort Ragnhildur Kolka væri af bæheimsku kyni, en þorði ekki að nefna það upphátt af ótta við fornemmelsi.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2011 kl. 02:55

16 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Eva, fínar ættir Vésteins, þóttu mér frekar benda til þess að hann hefði fengið silkihanskameðferð í Landakoti. Kerlingin hún Müller var snobb og lagðist ekki á ættarlauka góðra ætta, sérstaklega ekki ef þeir bjuggu í næsta húsi við Landakot. Ef það er rétt ályktað hjá mér, var miklu verra fyrir aðra í Landakoti en Véstein, sem fyrst kemur fram með sögu sína í dag í blaði og síðan á bloggi sínu. 

En hvað sem því líður, þá get ég ekki, (og gæti það verið vegna brenglaðrar siðferðiskenndar sem ég hlýt að hafa miðað við ungt fólk á vinstri vængnum), ásakað fólk um alvarlega glæpi ef engar sannanir, ritaðar eða efnislegar, liggja fyrir. Nafnlaus skýring tveggja bræðra er ekki sönnun.

Til er í dæminu að menn hafi sett fram ásakanir sem þessar fyrir "þrill" og peninga, en ég vona þó að svo sé ekki. En það verður aðeins augljóst, þegar mennirnir tveir koma fram undir nafni, og aðrir sem hafa lent í sömu sporum, því þeir eru ekki einir ef það er satt sem þeir segja.

Ég hef ekki borið mig að á sama hátt og þessir bræður. Ég sagði frá illsku Margrétar Müller, þeir segja frá nauðgunum hennar og Sr. Georgs. Ég skrifaði undir nafni, en þeir eru enn óþekktir, og vona ég að Ragnar Þór Pétursson sé farinn að skilja það, svo ég þurfi ekki að mylja það frekar niður í hann.

Jón Steinar og Ragnar, Ragnhildur Kolka er alveg ekta, enda væntanlega úr Skagafirði, eins og nafnið bendir til, og því raunsæ eins og flestir Skagfirðingar. Ef "nettröll" hefur betri réttarvitund en þið, þá megið þið nettröll heita. Og, NEI, krosslafur Vésteins er ekki krúttlegur. Vésteinn getur krossað sig og prísað sig sælan yfir því að fyrirgefning syndanna er svo hátt skrifuð meðal kristinna. Í öðrum trúarbrögðum, t.d. þeim sem vinir hans í múslímska bræðralaginu dýrka, væri Vésteinn höfðinu styttri í dag ef hann hefði sýnt spámann þeirra sem hund með rófuna á röngum stað. Svo sýnist mér að viss afneitun sé í gangi hjá Vésteini, því hundskömmin á krossinum er ekki umskorin. Tvöföld móðgun, en samt fyrirgefa menn Vesteini.

Eva, hvað kemur þetta Vantrú við. Ef þú lest blogg Vésteins sem er félagi í Vantrú, þá finnur þú skýringuna: "Landakotsskóli mátti eiga það að hafa bólusett mig fyrir kristindómi, með einstaklega óaðlaðandi nálgun sem var haldið að okkur."

Nægir það?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.6.2011 kl. 06:01

17 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Nei, Jón Steinar ég er ekki bæheimsk -á ættir að rekja norður í Húnavatnssýslu (ekki Skagafjörð), V-Skaftafellssýslu, Kjósina og Breiðholt. Þetta ætti að segja þér að sé ég á einhvern hátt afbrigðileg þá er það ekki vegna innræktunar.

Ef skoðanir mínar falla ekki í frjóan jarðveg fórnarlambadýrkenda þá verður svo að vera, en telji fólk á sér brotið svo varði við lög ber því, ég ítreka BER ÞVÍ, að kæra til lögreglu. Jafnvel þótt ekkert sannist, þá situr kæran eftir komi til svipaðra ásakana á ný. Sá sem ekki kærir er að útsetja aðra fyrir samskonar broti.

Ég gekk ekki í Landakotsskóla og get í engu bætt við þá sögu. Heyrði þó af góðmennsku föður Georgs. En ég hef séð nóg til mannlífsins til að leggja ekki trúnað á allt sem sagt er og að sama skapi að hafna ekki neinu að órannsökuðu heldur. Svona mál á að rannsaka af þar til bærum aðilum en ekki láta dóma falla á götunni, því harðneskja og grimmd þarf ekki að fara saman við brenglaða kynhvöt - ekki frekar en að helgislepja og skírlífi fari saman.

Kirkjan brenndi fólk fyrir galdra hér áður fyrr. Erum við virkilega ekki komin lengra í dag en að svara í sömu mynt? 

Ragnhildur Kolka, 21.6.2011 kl. 09:18

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú ert nú að fabúlera langt útfyrir umslagið Ragnhildur mín ef þú lest það úr að ég væni þig um að vera innræktuð. Bæheimur er staður eins og þú veist og tilvísunin var í þessa persónutegund kaldlyndra kvenna, sem Mel Brooks m.a. lýsti svo ágætlega af þessu kyni.

Víst er að fórnarlambasyndromið er víðtækt og mikil lenska í nútíma samfélagi, aðallega þegar fólk telur sig eiga rétt á einhverri forsjá og nennir ekki að standa í lappirnar sjálft.  Vont hugarfar að hafa í mal í mörgum tilfellum, en það er alveg óhætt að draga línuna við fórnarlömb glæpa og níðingsverka og sýna samúð. Fórnarlömb nauðgana eru brennd á sál um alla ævi og það ber vott um fenómenalt kaldlyndi að hæðast að því og sýna slíku fólki vanþóknun. 

Ég vona bara þín vegna að þetta sé ekki einlæg meining þín, heldur einhverskonar gorgeir og töffaraháttur, sem þú heldur að komi vel yfir. Ég get fullvissað þig um að það gerir hann ekki og ég skil vel hneykslan þeirra sem hafa gert athugasemdir við orð þín. Þau eru langt yfir strikið. Langt, langt, langt...yfir strikið.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2011 kl. 10:40

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held Villi að fórnarlömb, sem koma ekki opinberlega fram undir nafni séu einmitt að komast hjá einhverju fórnarlambahlutverki. Þetta fólk vill líklegast bara segja frá til að forða öðrum frá því sama og því að leggja ofurtraut á ákveðnar stofnanir, sem hafa jafn breyska einstaklinga við völd eins og hvar annarstaðar. Huliðshjálmi trúhræsninnar fái að hverfa.

fólk kemur fram svona seint af því að nú fyrst hafa einstaklingar vogað sér að brjóta ísinn í þessum málum og koma fram. Að forðast athygli er eðlilegt. Bæði liggur ákveðin skömm og andleg kröm að grunni þar. Tillitsemi við vinnufélaga, fjölskyldu, börn og fleiri er líklega líka stór þáttur. Þetta er eki eitthvað sem fólki finnst rétt að leita kastljóssins fyrir. Nauðsyn og umhyggja fyrir samferðarmönnum er grunnurinn. 

Ég er afar hissa á þessum sleggjudómum í garð þessa fólks, sem lesa má í greininni.  

Þjáning sumra er þeim alveg næg, þótt þeir fari ekki að snúa lífi sínu á haus vegna þessara verka og verða svo að auki þekktir sem fórnarlömb nauðgana.  Ég hefði ekki áhuga á því.  Annars finnst mér þú engan mun gera á DV dómstólnum og opinberu réttarkerfi. Þetta fólk er bara að kjósa hið síðara eins og rétt er og ætti að fá prik fyrir en ekki háð og níð.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2011 kl. 10:55

20 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég get tekið undir flest sem þú segir í þessari síðustu færslu, Jón Steinar, en verð þó að svara ásökunum þínum þar á undan. Það er nefnilega þannig með strikið að það hefur tvær hliðar. Sé ég utan striksins þá er það örugglega ekki sömu megin og fórnarlambadýrkendurnir, því ég geri kröfu um raunveruleg fórnarlömb, en í umræðu síðustu ára hefur skort nokkuð upp á að svo sé.

Ég tók skýrt fram að ég þekki ekkert til mála í Landakotsskóla. Tek ekki þátt í þeirri umræðu en veit að málið er komið til saksóknara þótt ég viti ekki hvort umdæmi hans nái til handanheima.

Hitt veit ég að konurnar, sem svo greiðan aðgang hafa að fréttamiðlum, hafa ekki borið því við að þeim hafi verið nauðgað. Ástæða fyrir "brunasárum" á sálum þeirra á sér því aðrar orsakir, sem gæti verið verðugt verkefni að leysa. Þeim er þó hampað eins og þær séu fórnarlömb nauðgara. Undir þennan kór taka þeir sem koma vilja höggi á kirkjuna (eins og þið Vésteinn) og með dyggri aðstoð prestastéttarinnar sjálfrar er ykkur að takast það. Ég get varla talist trúuð manneskja en mér leiðist sú eineltishegðun sem er að verða höfuðeinkenni allrar umræðu á Íslandi.

Það sem þessi umræða opinberar er að heift og hatur á sér marga rekkjunauta.

Ragnhildur Kolka, 21.6.2011 kl. 11:58

21 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jón Steinar, þú skrifar:

Þjáning sumra er þeim alveg næg, þótt þeir fari ekki að snúa lífi sínu á haus vegna þessara verka og verða svo að auki þekktir sem fórnarlömb nauðgana.  Ég hefði ekki áhuga á því.  Annars finnst mér þú engan mun gera á DV dómstólnum og opinberu réttarkerfi. Þetta fólk er bara að kjósa hið síðara eins og rétt er og ætti að fá prik fyrir en ekki háð og níð.

Sannast sagna veit ég brátt ekki hvort þú hefur nokkuð lesið það sem komið hefur fram í umræðunni um þetta kaþólikkamál. Bræðurnir, sem segja okkur að þeim hafi verið nauðgað af Georg og Müller, fóru með mál sitt í Fréttatímann, áður en yfirvöld hafa hafið eðlilega rannsókn á málinu, eða vegna þess að þeim var tilkynnt af yfirvöldum að ekki væri hægt að rannsaka ásakanirnar, eða jafnvel vegna þess að yfirvöld mæltu með því að þeir færu í fjölmiðla, til þess að sjá hvort einhverjir aðrir leyndust úti í þjóðfélaginu, niðurbrotnir vegna brota sr. Georgs og Fräulein Müller í turninum.

Hvergi hefur nokkur maður hæðst af þessum bræðrum eða nítt þá, og skrifast það eingöngu á reikning þinn, ef þú heldur það. Ég er eingöngu á þeirri skoðun, að mál þeirra á ekki heima nafnlaust í auglýsingablaði ef þeir vilja að málið verið rannsakað. Það eina sem þeir hafa fengið út úr því, er staðfesting á því sem mig grunar, að þeir einir séu fórnarlömb kynferðisglæps.  Enginn annar en þessir bræður hafa staðið fram enn, sem mér þykir einkennilegt, en útiloka auðvitað ekki að muni gerast. Hinir sem nú tala, segja sömu söguna og ég gerði árið 2009, á blogginu mínu en ekki í einhverju ræsisblaði. En mér var ekki nauðgað og ég man eftir Georg sem góðum manni, og má ég kannski ekki segja það?

Það er ekki hægt að dæma fólk án sannanna og nafnlausra yfirlýsinga. Tilfinningar fólks úti í þjóðfélaginu kemur þessu máli ekkert við. Þær gætu í versta falli verið afrakstur múgæsingar sem skapast hefur síðan 17. júní. En þeim sem var nauðgað hvílir sönnunarbyrðin, því meintir glæpamenn eru farnir frá. Hin andlitslausu fórnarlömb gera málið enn veikbyggðara og ég get ekki tekið orð Guðrúnar Ögmunds eða Ögmundar Jónssonar fyrir því að tveimur drengjum hafi verið nauðgað. Ekki voru þau til staðar þegar og þar sem það gerðist.

Vond var Fräulein Müller, enginn vafi lekur á því. Allir eru sammála um það. Ef helvíti kaþólskra er til (og þú segist viss um  að svo sé ekki), er hún þar að kenna Saddam og Hitler mannazizi. En það sem fram hefur komið, fyrir utan nauðgunarásakanir tveggja einstaklinga, þá hef ég enga ástæðu til að þurfa, vilja eða eiga að trúa því að hún hafi átt sér stað, fyrr en sannanir eru komnar fram. Annars getum við bara farið aftur í forneskju, í hatur rannsóknaréttarins og dæmt án laga og almennilegrar skynsemi - og mér virðist því miður að fólk á vinstri vængnum sé mjög hallt undir aðferðir rannsóknarréttarins, og eimir eftir af honum í hinum blessaða Landsdómi, þar sem einum forystusauði er fórnað fyrir afvegaleidda hjörð sem hann tilheyrði, og forystusauðirnir voru víst heldur til margir í hjörðinni.

Ásakanir þínar, Jón Steinar, falla því af mér eins og regn af vel feitri gæs. Sumt í þeim er einnig rakin rökleysa.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 21.6.2011 kl. 15:14

22 identicon

Það mér fannst merkilegt var að þú skulir tala um að kaþólska kirkjan eigi 'sök´ á því, rétt eins og kirkjunni sé mikill missir af Vésteini og hans skoðanasystkinum. Ég er að velta því fyrir mér hvort þér finnist kirkjan hafa misst af góðum biskupskanditat eða hvort þú telur það ill örlög fyrir Véstein að hafa farið á mis við kristindóminn.

Vésteinn tók nú sjálfur fram að hann hefði verið í betri aðstöðu en mörg hinna barnanna. Ég gæti kannski skilið þessa áherslu á ætternið ef Vésteinn hefði verið að verja kerlinguna en það að þeim börnum sem voru í náðinni hafi líka staðið stuggur af henni, styrkir bara þá ímynd sem þú hefur af henni.

Þú gagnrýnir Véstein fyrir að setjast í dómarasæti þótt hann hafi ekki sagt neitt annað en að hann trúi þessum mönnum. Áttu við að ef ekki er hægt að sanna glæpinn, þá megi enginn trúa þeim sem ber mann sökum? Ef svo er þá hefur annað okkar eitthvað misskilið þá reglu réttarkerfisins að maður skuli teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð. Ég taldi hana merkja að dómstólar mættu ekki dæma mann sekan um glæp og gera honum refsingu, nema sekt hans teldist sönnuð. Ég hef hinsvegar ekki heyrt það fyrr að fólk megi ekki leggja trúnað á hið ósannanlega.

Ég nú líka að þú hljótir að hafa orðið var við umræðuna um biskupsmálið. Ég skil vel að eftir viðbjóðinn sem þær konur hafa fengið yfir sig, séu aðrir þolendur ofbeldis af þessum toga tregir til að koma fram undir nafni. Sennilega alveg nógu erfitt að rifja upp gömul áföll þótt ásakanir um lygar og móðursýki bætist ekki við.

Eva (IP-tala skráð) 21.6.2011 kl. 15:36

23 identicon

Nú stíga fleiri fram: http://www.youtube.com/watch?v=iICbL0MdNl8

Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 24.6.2011 kl. 18:55

24 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Einar Steinn Valgarðsson, já rétt er það. Konur jafnt sem karlar. Þetta er vissulega ljótt. Presturinn hefur þá verið bi-pedphile? Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Vissi ekki að svoleiðislagað væri til.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 25.6.2011 kl. 04:39

25 identicon

Rangur hlekkur, afsakið. Hér er sá rétti: http://www.frettatiminn.is/tolublod/24_juni_2011

Einar Steinn Valgarðsson (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 23:52

26 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Já Einar Steinn, ég var farinn að halda að AC/DC hefðu lent í séra Georg.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.6.2011 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband