Leita í fréttum mbl.is

Hirðfífl heimsins

Íslendingur

Það er greinilegt, og verður æ greinilegra, að íslensk yfirvöld og embættismenn, jafn fyrir sem eftir hrunið, voru og eru hópur óhæfra lassaróna, sem vissi lítið nema um ímyndað ágæti sitt. 

Þeir lofsungu spillinguna, sem saklaust fólk þarf nú að súpa seyðið af, og voru álíka sofandi á verðinum og íslensku bankaúlfarnir voru vakandi, þegar þeir rúðu einfalda féð og átu fyrir framan augun á þessum snillingum á Alþingi og ráðuneytunum. Aðalfjárhirðirinn á Bessastöðum var í sæluvímu allan tíman og leitaði leiða með Ingibjörgu Sólrúnu til að Ísland fengi hlutverk á meðal þjóðanna.

Það sem kemur fram í þessari frétt kemur fram í skjölum sem hollenskir sérfræðingar við háskólann í Amsterdam höfðu aðgang að, og sem þeir skrifuðu skýrslu um - skýrslu sem hollenskir vitleysingar sem trúðu á Icesave-reikninga ætla að nota til að fara í mál við Íslendinga - skýrslu sem íslensk yfirvöld voru ekki að hafa fyrir að birta á www.island.is og eða láta þýða fyrir sig sjálfa og  íslensku þjóðina.

Íslendingar eru nú taldir vera ein vitlausasta þjóð á jörðu, gjaldþrota, en samt enn í miðri ofurneyslu. Við erum vitleysingar á ölmusu "góðra manna" úti í heimi, og enn eru stjórnmálamenn og embættisblækur að leita sér að útópíu og hlutverki á meðal þjóðanna. Það hlutverk í heildarmyndinni er nú fundið. Íslendingar eru hirðfífl heimsins. 

Þetta eru eins og óþekk börn í sandkassaleik. Nú halda kratakrakkarnir að þeir geti komið þjóðinni inn í ESB-útópíuna, með því að selja almenning í ánauð með Icesave skuldinni sem kratar skelltu á þjóðina. ESB er enn ein ímyndunin, enn einn flóttinn frá veruleikanum.

Við fyrirgefum þeim ekki, þótt þau hafi ekki vitað hvað þau voru vitlaus.


mbl.is Starfsmenn AGS mótmæltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góðan og blessaðan daginn Vilhjálmur, þetta er aldeilis ádrepa!

En ég verð því miður að viðurkenna að maður getur ekki annað en verið sammála þér. Menn voru farnir að gagnrýna fyrir um 2-3 árum eða réttara sagt pískra, því  meðvirknin og samtryggingin var svo sterk að menn þorðu ekki að ganga fram fyrir skjöldu enda hefðu þeir verið afhausaðir. 5. valdið hafði keypt upp hin elementin. Menn vissu þetta áður en enginn gat sagt það ekki frekar en í sögunni um Nýju fötin keisarans. Sumpart var þetta framkvæmt í nafni hagfræðikenninga sem voru gerðar að trúarkennisetningum og voru hafnar yfir gagnrýni og sumpart í krafti persónudýrkunnar.  Við gætum lengi rakið þessa hörmungarsögu og hluti þjóðarinnar hefur ekki enn áttað sig á að margir þátttakendur í  hrunadansinum eru enn við stjórnvölinn.  Eftir stendur þetta: Íslendingar eru fámenn þjóð  sem lengst af hefur lifað við óblíða náttúru. Íslendingar eru augljóslega auðtrúa en tæplega verri en gengur og gerist þó misjafn sauður sé í mörgu fé og einmitt þessir fáu en "misjöfnu sauðir" skuli hafa orðið forystusauðir.  Á því berum við misjafnlega mikla sök. Hollendingar og Bretar eru ekki að reyna að koma á réttlæti. Þeir vilja ná í peninga fjárglæframanna sem reyndar komu aldrei með þá til Íslands. Þá er spurningin þessi. Er maklegt að refsa komandi kynslóðum Íslendinga og hrekja þær úr landi vegna afglapa fjárglæframanna og handlangara þeirra úr stjórnmálastétt?

Ég segi nei, ég vil réttlæti en það felst ekki í því að gera óborna Íslendinga að Ísþrælum. Við getum aftur á móti drukkið vatnsþynnta mjólk og bitið í harða skorpu. 

Ég fæ  ekki betur séð en "smiðirnir" séu í góðri samvinnu við Breta að leita að "bökurum" til að hengja. Það mun einungis fullkomna óréttlætið.

Sigurður Þórðarson, 12.7.2009 kl. 09:38

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Viðbót:

Fólk í miklum vanda er ólíklegra til að taka rökréttar ákvarðanir og getur flúið í skjól hillinganna. Er Samfylkingin svo ábyrgðarlaus að hún sé, vonandi óviljandi, að koma þjóðinni í enn meiri vanda með Icesave þannig að einhverjir fari að sjá sýnir?

Sigurður Þórðarson, 12.7.2009 kl. 09:53

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Samfylkingin, Samfylkingin, Samfylkingin! Ég er engin vinur Samfylkingarinar en ef aðrir væru við völd myndu þeir fá skammirnar. Mér finnst svona flokkaeinsýni ósköp þreytandi. Sjálfstæðisflokkurinn myndi áreiðanlega ekki hafa staðið sig betur ef hann væri nú vil völd. Hvaða stjórnvöld sem eru verða að súpa seyðið af fíflsku þjóðarinnar síðustu ár. Ekki má gera Íslendinga að þrælum. En hvað vilja menn? Að Íslendingar, sem létu stjórnvöld komast upp með allt sem þeir gerðu, þurfi ekki að horfast i augu við gerir sínar. Það sýnist mér reyndar enginn vilja gera. Engir virðast vilja bíta á jaxlinn og láta sig hafa það. Allir æpa bara um þrælahald og kúgun. Við viljum bara halda áfram að sukka ábyrgparlausn og skeytingarlaus um allt og alla nema okkur sjálf. Og hana nú! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.7.2009 kl. 11:13

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæri nafni, þetta er ekki fyllilega réttmæt gagnrýni hjá þér. Ég geng ekki erinda neins flokks og hef ekki undanskilið neinn flokk gagnrýni. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur báru höfuðábyrgð á einkavinavæðingu bankana og kvótakerfinu.  Enginn hefði frekar óskað þess en ég að Samfylkingin væri, þó ekki væri nema, skömminni skárri.

Allir flokkar, Alþýðubandalagið ekki undanskilið, nema VG hafa stundað einkavinavæðingu.Núverandi stjórnarflokkar verða ekki sakaðir um að hafa komið kvótakerfinu , þó einstaka ráðherrar, (Steingrímur) hafi greitt atkvæði með framsalinu, en þeir verða heldur ekki sakaðir um að reyna að afnema það.

Enginn flokkur er þó fjær mínum skoðunum en Samfylkingin í EB en þar fyrir utan er  frammistaða þeirra í Icesave er til skammar.

Verður ekki hver að éta úr sínum poka?

Það er svo aftur fræðileg spurning hvort einhver annar hefði hugsanlega staðið sig jafn illa. Verðum við ekki að halda í einhverja von til að lífið verði bærilegt?

Hafðu það annars sem best í sólinni.

Sigurður Þórðarson, 12.7.2009 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband