Leita í fréttum mbl.is

17 gyðingar í brunni

Jewish scull in Norwich
 

Fundist hafa leifar 17 manns í brunni einum í bænum Norwich í Austur-Anglíu á Englandi. Talið er nær fullvisst að um beinagrindur gyðinga sé að ræða og að þeir hafi verið myrtir í ofsóknum og kastað í brunninn. Fullorðnum neðst og 11 börnum á aldrinum tveggja til fimmtán ára ofan á. Ég þekki dálítið til í Norwich. Árið 1986 kom ég þar fyrst á skólaferðalagi með deild minni við háskólann í Árósum, þegar ég hafði nýlokið kandídatsprófi. Við gáfum síðar út í lítilli gulri bók fræðilega fyrirlestra okkar sem við héldum við ýmsar miðaldaminjar. Ég meðhöndlaði m.a. sögu gyðinga og leifar eftir fyrsta skeið búsetu þeirra á Bretlandseyjum.

Gyðingar komu snemma til Bretlandseyja, með Vilhjálmi bastarði og Normönnum, og settust að í stærri bæjum landsins, allt norður til Jórvíkur. Um miðja 12. öld var Norwich næststærsta borg Englands og margir gyðingar áttu þar heima. Gyðingar á Bretlandseyjum, eins og víða annars staðar, máttu ekki stunda hvaða vinnu sem var, og voru þess vegna margir í peningaviðskiptum og lánastarfsemi, sem var bæði syndugt og illa séð iðja af kirkjunni, sem sló þó gjarna lán hjá gyðingum. Gyðingar á Bretlandseyjum lánuðu fé til ýmissa mikilvægra framkvæmda á fyrri hluta miðalda, eða þangað þeir allir, um það bil 16.000 að tölu, voru gerðir brottrækir frá Bretlandseyjum þann 18. júlí árið 1290. Eins og annars staðar voru ofsóknir gegn gyðingum algengar á Bretlandseyjum og var tiltölulega auðvelt fyrir skuldunauta gyðinga að snúa lýðnum gegn þeim og hrinda að stað ofsóknum gegn þeim, sem enduðu t.d. með því að 150 þeirra voru brenndir inni í Clifford-Turni í Jórvík árið 1190, eða þeim var kastað í brunna eða þeir brenndir á báli.

Burning_Jews

Margar heimildir eru til um veru gyðinga í Norwich, bæði  ritaðar og fornleifar. Gyðingar bjuggu við og umhverfis Haymarket-torg, sem er enn í dag aðalmarkaðstorg Norwichborgar. Fornleifarannsóknir hafa staðfest búsetu þeirra þar. Eina gatan á Bretlandseyjum sem ber heitið Synagogue Street er að finna í Norwich. Frægur ketill úr bronsi frá Frakklandi með áletrun á hebresku hefur fundist í Norwich.

Pottur

Einn fremsti fjármálamaður Bretlands á 12 öld var Eliab, einnig þekktur sem Jurnett, sem lánaði fé til bygginga fjölda kirkna og klaustra. Líklega til að komast hjá því að borga honum, var hann flæmdur úr landi með því að krefjast af honum 6000 mörk og fékk ekki að snúa aftur fyrr en hann hafði greitt 2000 þeirra. Svo ekki hefur öll lánastarfsemi gyðinga verið arðbær, og í sumum tilfellum hefur hún kostað þá lífið og kannski valdið því að þeir fengu vota gröf í brunni í Norwich. 

TaxRoll
klikkið tvisvar sinnum á myndina til að sjá hana stærri

Til er skopmynd af Isaak fill Jurnett, syni Eliabs í skattalista Norwich frá 1233, þar sem gyðingar bæjarins eru hæddir og Isaak sýndur sem þríhöfða konungur. Í Norwich er enn til hús sem kallað er Music Hall,sem er talið vera afbökun á Moishe Hall og telja sumir, að húsið sé að grunni til það hús sem Isaak Jurnett bjó í á 13. öld.

Gyðingum í Norwich var kennt um barnaníð og morð árið 1144, þegar 12 ár drengur, Vilhjálmur, hvarf. Þótt aldrei hafi sannast að hann hefði verið myrtur, og líklegra sé, að hann hafi verið grafinn lifandi af ættingjum sínum sem héldu að hann væri látinn, þá komu upp svipaðar ásakanir á hendur gyðingum á næstu árum víðs vegar um Bretland. Vilhjálmur var tekinn í dýrðlinga tölu. Gæti verið, að líkin í brunninum séu afleiðing múgæsingar og hýsteríu sem greip um sig á Bretlandseyjum á 12. öld? Ekki ólíkt og í dag á Íslandi, þar sem rökin eru að barnaníð hljóti að hafi verið framin undir væng kaþólsku kirkjunnar vegna þess að það hefur verið framið í öðrum löndum, var gyðingum kennt um barnahvarf á miðöldum og alveg fram á síðustu öld. Á miðöldum þurfti ekki sannanna við frekar en hjá Guðrúnu Ögmundsdóttur í dag í tengslum við barnaníðingsásakanir á hendur kaþólsku kirkjunni á Íslandi. Nóg var bara að hafa heyrt eitthvað, sannanir skiptu ekki máli.

Þar til nýlega var gyðingum kastað í brunna víðs vegar um Evrópu. Eftir að álfan gerðist siðmenntaðri er orðinn heimsfrægur smellur Borats um að kasta gyðingum í brunna í „heimalandi" hans Kasakstan, sem fékk misjafna dóma í Bandaríkjunum. Ef ekki hefði komið svo góð vatnsveita á Íslandi, hefðu menn líklega verið að kasta fólki í brunna og ásaka það um að hafa stráð glerbrotum í smjörið, sem var t.d. afar vinsæl ásökun í Sovétríkjunum fram undir 1950. Horfið á Borat. Myndin efst er af vísindakonum með hauskúpu gyðings (konu) frá Norwich:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

vilhjalmur@mailme.dk

Bækur

Kynning á nokkrum færslum, greinum og bókum PostDocs


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband